Það að vera í húsbátnum sem við völdum okkur er eins og að vera í höll. Wangenoo fjölskyldan hefur rekið húsbátaleigu í tugi ára - alls 170 ár hef ég heyrt. Núna eru hérna 7 bátar sem liggja allir að landi, eiginlega að skrúðgarði sem gestir bátana hafa aðgang að. Þar sem við erum fyrir utan hin eðlilega túristatíma (enda ekki túristar heldur ferðamenn segir Sonja) þá eru engir aðrir gestir á húsbátunum þessa dagana. Þessvegna erum við í besta bát þeirra, New Warrior, og erum með hann allan fyrir okkur. Báturinn er með fjögur svefnherbergi, eitt þeirra lúxusherbergi sem við dveljum í - hin herbergin taka þrjá gesti hver. Báturinn hefur auk þess eldhús, stóra setustofu þar sem við snæðum þrjár máltíðar á dag, stofu og á endanum er stór verönd með bekkjum sem við höfum notað til að sóla okkur. Eins og áður sagði þá er þetta höll, gríðarlega mikið lagt í allt og allir veggir fagurlega útskornir og maður verður nánast gáttaður að koma inn í bátinn. Ætli myndirnar nái ekki að sannfæra fólk:
Setustofan þar sem við snæddum þrjár máltíðir á dag.
Betri stofa að kvöldlagi.
Betri stofan að degi til - á endanum er gengið út á dekkið/öndina eða hvað það er kallað þar sem við dvöldum mikið í sólinni.
Stofan.
Setustofan séð frá öðru sjónarhorni - til hægri er gengið inn í betri stofuna. Takið eftir að veggirnir eru allir útskornir og á milli þeirra er grænt gler með fallegu munstri.
Svefnherbergi okkar.
Veröndin.
Sonja svalalesari.
Mér fannst ákaflega gott að sitja neðst í tröppunum, horfa yfir vatnið fylgjast með fiskunum synda við tærnar.
Önnur mynd af mér í tröppunum.
Þriðja myndin af mér í tröppunum ætti að undirstrika hvað mér þótti gott að dvelja þar.
Þjónninn að skenkja okku grænt kasmírte.
Ég að hugsa um það hvað ég sé eiginlega að fara með þessu bloggrölti mínu, einnig hvernig ég geti bjargað Kasmír frá þessu hernaðarbrölti og jafnvel frelsað Tíbet í leiðinni.
Sonja að hugsa um það hvað sé í matinn.
Báturinn góði að utan.
Á veiðum í morgunsólinni.
Maður að slappa af í bát sínum.
Tveir bátir með grænmeti.
Með bátnum er þjónn og í landi er eldhús með kokki og aðstoðarmanni sem eldar fyrir okkur þrjár máltíðar á dag og er hefðbundinn Kashmískur matur á borðum. Þar sem við erum einu gestirnir má segja að við séum með einkaþjón og einkakokk. Auk þess er þjónninn sem sér um næsta bát, sem er tómur núna, einnig verið viðloðinn okkur þannig að í raun má segja að við séum með einn og hálfan þjón. Starfsfólkið er allt hið vinalegasta og manni líður eins og hefðarmenni.
Þetta var þjónninn á næsta bát en þar sem hann var tómur var hann mikið í sambandi við okkur. Hann er í dæmigerðum Kasmírskum fötum sem eru ákaflega þægileg og er hann svo glæsilegur í þeim ...
... að Eldklerkur fékk sér eins föt og það tvo umganga þannig að hann þurfi ekki að vera nakinn á þvottadögum.
Fyrsti dagurinn fór í afslöppun úti á dekki að mestu leyti. Ég rölti aðeins upp á verslunargötuna en í hana er um 20 mínútna gangur. Þegar ég hafði loks fundið réttu götuna og gengið fram og til baka eftir henni fann ég loks netkaffið sem reyndist lokað. Það slæma við að biðja indverja um leiðbeiningar þegar maður er viltur og ringlaður er að ef þeir skilja mann ekki eða vita ekki hvar viðkomandi staður er þá benda þeir frekar í einhverja átt til að bjargja andlitinu og koma ekki upp um "fávisku" sína. Það veldur því oft eins og gerðist í þessu dæmi að maður gengur fram og til baka eftir mörgum misvísandi leiðbeiningum. Maður þarf eiginlega að spyrja svona 3-4 og ef það er sæmileg fylgni á milli bendinga þeirra þá fylgja þeim, annars ekki.
Ég hafði gengið lengi í steikjandi sólskini og var því orðinn þyrstur og slappur svo ég hóf leit að að vatni og sykri til að hafa orku í að þramma sömu leið til baka. Ég gekk að litlum sölubás og spurði þar þreytulegan afgreiðslumann hvort hann ætti kalt pepsi. Hann reif upp hurðina á litlum ísskáp og rétti mér síðan gullitað pepsi og sagði: "Take it, take it, take it!". Var drykkurinn við nánari eftirgrennslan Pepsi Gold frá síðustu heimsmeistarakeppni sem haldin var í júní 2006 og þetta því líklega tveggja ára drykkur. Þar sem ég er vel upp alinn kunni ég ekki við að skvetta þessu aftur í andlit sölumannsins og auk þess þurfti ég nauðsynlega á drykk að halda þá fékk ég mér sopa og rétti honum snjáðan 50 rúbína pening til baka. Hann henti honum í peningakassann og rétti til baka tvo 10 rúbína seðla, enn snjáðari enn þann sem ég hafði rétt honum og sagði aftur: "Take it, take it, take it!". Ég hlýddi honum.
Strákur sem vann í rakarabúllu við hlið internetbúllunnar sagði að staðurinn myndi opna eftir tvo tíma og því fékk ég Sonju með mér síðar um daginn til að gera aðra tilraun við netið því ég þurfti helst að senda tölvupóst. Eftir alla gönguna sömu leið og fyrr um daginn reyndist netið ennþá lokað og ef það var ekki nægilega vont var rakarastofan líka lokuð þannig að ég gat ekki krafið klipparann unga um afsökunarbeiðni. Við keyptum því bara kók og snakk og gengum sömu leið til baka. Við gengum framhjá mosku á leiðinni og heyrðum við óm frá bænahaldi að innan. Við vorum að spá í að fara inn og horfa á og taka um 1-2 (hundruð) myndir. Við áttuðum okkur sem betur fer á því að það væri sennilegast illa liðið af "messugestum" sem voru búnir að fasta frá því 4 um morguninn að það kæmu tveir vel haldnir vesturlandabúar og myndu glápa á bænahaldið með snakk og kók eins og við værum í bíói.
Á bátasvæðinu er ein tölva sem notuð er til að tengjst netinu og hafði ég reynt hana kvöldið áður með slökum árangri. Tölvan er hægari en snigill á róandi lyfjum og er auk þess tengd netinu með 28.8K mótaldi fyrir gamla fólkið sem man þá tíma. Þar sem ég vildi helst senda tölvupóstinn ákvað ég að prófa aftur tölvuna - hér að aftan verður atburðarrásin rakin:
Þjónninn byrjaði á því að taka teppið af tölvunni sem hann hafði haganlega vafið um hana. Næst fann hann til aflsnúruna sem var í skúffu og setti hana í samband við tæki sem ég held að sé varaaflstöð og síðan reyndum við að kveikja á henni sem tókst ekki. Við skoðuðum allar snúrur að aftan og koumst loks að því að þó ljós væri á varaaflgjafanum þurfti líka að kveikja á honum og þá tókst okkur loks að kveikja á tölvunni. Eftir 5 gríðarlega langar mínútur var loks kveikt á tölvunni og innskráningarmyndin birtist þar sem hægt var að velja á milli Administrator og Guest og eftir smá umhugsun skilgreindi ég mig sem það síðarnefnda. Eftir að tölvan hafði keyrt Windows notendaviðmótið þá tvísmellti ég á Connect til að tengjast netinu og ekkert gerðist og prófaði ég margoft og þjóninn prófaði líka 10 sinnum án árangurs. Ég prófaði því að aftengjast og velja administrator og reyna lykilorðið 12345 sem var lykilorðið til að tengjast netinu. Þegar ég prófaði að stimpla það inn gerðist ekkert og lyklaborðið greinilega ekki í sambandi. Við skoðuðum aftaná vélina og þræddum okkur eftir lyklaborðsnúrunni og var hún í sambandi við vélina og því skildum við ekki alveg hvað var í gangi. Eftir smá eftirgrennslan þurftum við að tengja það við USB tengi með millistykki og skil ég því ekki alveg hvað það var að pæla með að vera í vitlausu tengi en það er margt í þessum heimi sem ég skil ekki. Ég gat því prófað lykilorðið 12345 sem mér til mikillar furðu virkaði og ég því kominn inn sem Administrator og því allir vegir færir jafnvel að komast á netið, eða það vonaði ég a.m.k. Ég prófaði núna að velja connect og þá kom upp tengimyndin sem hljómaði vel og ég gaf upp lykilorðið og reyndi að tengjast. Eftir smá stund kom upp villuskilaboð um að það væri enginn sónn á símalínunni. Við skoðuðum símalínuna og sáum eftir smá snúruafflækingu að þetta var vitlaus símasnúra sem var í sambandi og prófuðum þá hina sem átti að vera sú rétta en fengum sömu skilaboðin. Þjónninn fór þá að hræra í allskonar vírasulli í veggnum þar sem símasnúran fór og leit þetta ekki mjög traustvekjandi út. Ég sagðist þá bara ekki þurfa lengur ekkert þurfa að fara á netið því þetta vera komið nóg af þessari vitleysu og ég orðinn afhuga neti, tölvum, tækni og vísindum. Ég fór því aftur inn í bát að skrifa ferðasögu á tölvuna mína góða sem því miður er ekki Macintosh.
Eftir kvöldmat settust þjónarnir með okkur um kvöldið inni í betru stofu bátsins og spjölluðu mjög lengi við okkur - mjög þægilegir karlar sem hafa unnið hérna í tugi ára. Þeir sögðu okkur mikið um siði og matargerð hérna í Kashmir og leið því kvöldið mjög fljótt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli