föstudagur, október 05, 2007

Kashmir - 28. september

Við vöknuðum snemma þennan morguninn og eftir morgunverð slöppuðum við af við sólarupprás á enda húsbátsins og áttum þar rómantíska stund. Morguninn var sérstaklega fallegur, mistur var yfir vatninu sem gaf því einhvern töfraljóma og fjölskrúðugt fuglalífið gladdi augað og eyrað þar sem fuglar léku sér allt í kring og aðrir tóku dífur í vatnið á eftir fiskum. Tveir eldri menn voru skammt frá okkur á litlum bátum að veiða læti borgarinnar var víðsfjarri - fuglasöngurinn var ráðandi þarna.

Ég held að þetta hafi verið réttur morgunn til að hnýta saman skóreimar okkar Sonju.



Í hádeginu fengum við að kíkja aðeins inn í eldhúsið sem er stórt og mikið og hreinna en íbúðin okkar heima sem kannski segir ekki mikið. Þar kenndi kokkurinn okkur að búa til ekta Kashmírískt grænt te þannig að við getum leyft fólki að smakka þegar við komum heim því við keyptum hálft kíló af því.


Kokkurinn var ákaflega góðlegur maður og þægilegur.

Eftir hádegismatinn var komið að því að ég myndi reyna aftur við netkaffi bæjarins og lagði af stað um eitt leitið. Mér hafði verið sagt daginn áður að það yrði opið frá 8 um morguninn fram til 9 um kvöldið. Þegar ég mætti á aðalgötuna var messusöngur í fullum gangi í moskunum í kring og allar búðir lokaðar þannig að von mín um að netið væri í gangi fór minnkandi enda kom á daginn að netkaffið var harðlæst og ég gat ekki einu sinni spennt upp hengilásinn þrátt fyrir tilraunir. Ég ákvað að hinkra aðeins eftir messulokum og stóð þarna uppi á járnsvölunum sem gengið er inn á netkaffið ásamt hárgreiðslustofunni og öðrum búllum í um hálftíma áður en fyrsti maðurinn kom upp járnsigann og reyndist hann vinna á hárgreiðslustofunni og sagði "10 minutes" þegar ég reyndi að spyrja hann um netkaffið með bendingum og handabandi. Ég beið því lengur og um hálftíma síðar, þegar ég var um það bil að gefast upp kom ungur maður í gallabuxum og hvítri skyrtu sem angaði af rakspíralykt, líklegast minn maður. Hann var ekkert að stressa sig þó að ég biði þarna með þreytusvip í andlitinu og byrjaði að spjalla við hárgreiðslustrákana og benti mér síðan að koma og opnaði hengilásinn sterka.
Hann bauð mér sæti í sófa í fremra herberginu þar sem var móttaka ofl en seinna herbergið innihélt tölvurnar fyrir viðskiptavini sem voru fimm. Ég settist niður og horfði á hann drösla stórum bensínmótor út, greinilegt að það var rafmagnslaust í borginni eins og nánast alltaf. Hann kallaði á hárgreiðslustrákinn og rétti honum óhreinan brúsa og benti á vélina - var greinilega að senda hann eftir bensíni og hvarf mér síðan sjónum með vélina. Um fimm mínútum síðar kom hann aftur inn og fór að leiða rafmagnssnúru meðfram veggnum og út um gluggann sem snéri út á bakvið húsið - hafði greinilega dröslað vélinni þangað - og fór síðan aftur út til að tengja snúruna við vélina. Það voru farnar að renna á mig tvær grímur en ég kunni ekki við að láta mig hverfa.
Þegar rakarinn hafði komið með bensínið aftur var hafist handa við að setja bensínið á vélina og koma henni í gang bakvið húsið, þar sem glugginn var lítill og hátt uppi hef ég bara heyrnina mér til vitnis. Eftir töluvert basl hrökk mótorinn loks í gang, þeir komu aftur inn og kveiktu á einhverju í töflu og kveiktu síðan á tölvu inni í hinu herberginu. Eftir góða stund þegar tölvan hafði loksins ræst sig og þeir hringt í símafyrirtækið til að kveikja á netinu hjá þeim bauð hann mér loks til sætis fyrir framan tölvuna sem var pínulítill plastkollur. Skjárinn á tölvunni var greinilega að syngja sitt síðasta því hann var skærrauður og allir litir mismunandi tónar af gulum en það var eitthvað sem ég gat alveg sæst á því ég þurfti aðeins að senda einn tölvupóst. Músin var arfaslöpp og það tók óendanlega þolinmæði við að reyna að fá bendilinn á ákveðin stað. Ég náði loks að opna Internet Explorer vafrann en netið virkaði ekki - kom alltaf villuboð eftir að vafrinn hafði reynt í dágóða stund að opna netsíðuna sem ég hafði hug á að heimsækja. Ég kallaði á starfsmanninn og hann reyndi það nákvæmlega sama og ég sem skilaði ótrúlegt en satt sömu villuboðum á skjáinn. Hann keyrði því upp aðra tölvu og ég beið þolinmóður eftir því að þessi tölva, sem var örugglega Trabant, keyrði sig upp á lúsarhraða og hann gerði sömu vísindalegu tilraunina að komast á netið með sömu niðurstöðu. Hann hringdi þá aftur í símfyrirtækið og prófaði eitthvað annað og kom þá til mín og spurði mig hvort netið virkaði núna. Ég prófaði aftur en það virkaði ekki og ég sagði við hann: "Ha, er klukkan svona margt - ég þarf að drífa mig heim að sofa!", stóð upp og gekk út enda frekar þreyttur á þessu öllu enda hafði ég eytt alltof miklum tíma í þessa vitleysu. Það er mikið sem maður leggur á sig að senda einn tölvupóst sem var eftir allt saman ekkert svo mikilvægur.

Þolinmæði er dyggð.

Ég var búinn að fá mig fullsaddann á því að reyna misslæm net svo að ég gekk aftur í bátinn okkar og dró Sonju með mér niður í miðbæ á netið sem við höfðum prófað daginn áður og svínvirkaði. Við fengum far með einum fjölskyldumeðlimnum og netið í bænum virkaði eins og draumur og hef ég engar langdregnar sögur af þvi. Netkaffið er við Dal vatnið sem margir húsbátar eru á og einnig er þar mjög fátæklegt hverfi með hrörlegum húsbátum og kofum sem hafa verið byggðir við þá ýmist á stöplum eða á litlum eyjum. Við fengum okkur stuttan göngutúr um það hverfi og þar bauð útúrreiktur indverji okkur heim með sér að reykja hass, skemmtileg lífsreynsla. Við héldum fyrst að hann væri blindfullur en svo var hann bara drulluskakkur. Nei, við fórum reyndar ekki með honum en hann gróf upp úr vasa sínum hasspoka en við þökkuðum pent fyrir og sögðum nei takk. Hann sikksakkaði þá í burtu og gekk inn í einn bátinn skammt frá okkur.


Gamlir bátar við Dal vatn, eins og sjá má eru þeir ekki við bakkann og því arfaslakur kostur.


Dæmigerð sjón í bátahverfinu við Dal vatn - gamlir húsbátar og búið að klambra upp fótfestu við hlið þeirra.


Kvöldsólin lýsir upp húsin sem eru byggð á stólpum á vatninu.


Íbúi í bátahverfinu.

Srinigar er með svipaðan vanda og mávavandinn heima í Reykjavík en þó öllu glæsilegri ef hægt er að kalla vandamál glæsilegt. Í staðinn fyrir máva eru þeir með erni eða hauka, kann ekki alveg að nefna þessa fugla því einn maður sagði við okkur að þetta væru "hawks" (haukar) og annar "eagles" (ernir). Þeir líta út eins og haförninn nema töluvert minni þó stórir séu og er á köflum í borginni allt krökkt af þessum fuglum. Ég gapti nánast af undrun við að sjá þá fyrst því það kom mér alveg að óvörum. Það er tignarleg sjón að sjá þessa glæsilegu fugla steypa sér á ógnarhraða og grípa eitthvað af jörðinni fáum metrum frá manni.


Ernir eða haukar á krossgötum í flugi sínu.


Á veiðum.

Við tókum tuk-tuk aftur heim á hótel og var það löng leið því bílstjórinn ætlaði aldrei að finna húsbátahverfið okkar og keyrði miklar krókaleiðir. Hann spurði nokkrum sinnum til vegar og einn feitlaginn herramaður var mjög hjálpsamur og tók upp símann sinn, hringdi í húsbátafyrirtækið, spurði þá hvar þetta nákvæmlega væri og stökk síðan upp í mótorvagninn og deildi sæti með bílstjóranum og hélt um hann á meðan bílstjórinn keyrði eftir leiðbeiningum hans. Þegar bílstjórinn virtist vita hvert ætti að fara stökk hjálpsami herramðaurinn úr vagninum, veifaði okkur og óskaði okkur velfarnaðar. Okkur tókst ekki alveg að finna réttu leiðina og stuttu síðar stökk strákur upp í vagninn til okkar og spurði á ágætri ensku hvort við værum að fara í húsbátinn því hann hafði séð okkur á vappi þar dagin áður,við stingum greinilega í stúf, svo hann leiðbeindi okkur á leiðarenda, fékk reyndar far með okkur heim til sín en það er ótrúlega skemmtilegt þegar fólk er þetta hjálpsamt. Annars eru tuk-tuk bílstjórar oft ansi snöggir að segja bara já já þegar maður gefur upp áfangastað en öllu verra þykir þeim að gefa okkur upp verð. Enda kemur oft í ljós að þeir vita ekki nema rétt í hvaða átt umræddi áfangastaður er og svo hefst mikil leit.

Þjónarnir voru fyrir utan eldhúsið þegar við komum að drekka kasmískta smjörteið sitt með salti og vildu endilega að við myndum smakka. Við fengum sitthvorn bollann en þetta var svo brimsalt að ég gat með engu móti drukkið meira en einn sopa og Sonja drakk þrjá. Við þurftum að afsaka okkur og segja þeim að við gætum bara alls ekki meira. Þetta var fyrsta máltíð dagsins hjá þeim en þeir fasta frá fjögur að morgni (eða nóttu fyrir venjulegt fólk) og mega hvorgi borða né drekka fyrr en upp úr sjö að kvöldi - þá fá sér þetta te og sesamfræa áður en þeir fara að biðja fyrir kvöldmatinn.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

TIL HAMINGJU :D
Jóhann, mér finnst þú ógeðslega töff í þessum indverjafötum ;)

ELSKA YKKUR :*

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega til hamingju! (Búin að hringja í John Isaac? :))

Magnaðar myndir.

kveðjur frá Tine, Emmu og Guðjóni.

Nafnlaus sagði...

Hæ elskurnar
Aftur TIL HAMINGJU!!!!!!!! :-)
Rosalega eru þið á fallegum stað þetta er eins og draumaland.
Kossar og knús til ykkar frá pabba og mömmu á Esjugrundinn (rok og rigning, hefur ekki mælst eins mikil rigning í sept. síðan um 1920 minnir mig) Spurning hvort maður fái sér ekki bara svona húsbát.
Þessi húsbátur sem þið eruð í er algjört æði :-)
Hafið það sem allra best verður gaman að fá ykkur heim og knúsa ykkur.
1000000000 kossar
sú bleika

Nafnlaus sagði...

Sæl elsku Sonja&Jóhann!!!
Óska ykkur innilega til hamingju með skóreimarnar, þetta er guðdómlegur staður og sannarlega sá rómantískasti sem ég hef séð á æfinni. Þvílíkt æfintýri, þótt stundum sé það svolítið erfitt en annað væri ekki eftirminnilegt.
Gangi ykkur vel áfram veginn, knús frá Nínu

Nafnlaus sagði...

Innilega til lukku með trúlofunina :)Knús Elsa