Þjónn: "How was the dinner?".
Stúlka: "I just had an orgasm - can you bring out the kokk?".
Hótelið okkar hérna í Amritsar heitir Temple View Hotel og þvílíkt útsýni sem við fengum á þessu hóteli. Ætli mynd sýni þetta ekki betur en lýsingaorð:

Amritsar var stofnuð árið 1577 og er höfuðborg Sikh trúarinnar sem 1.9% Indversku þjóðarinnar aðhyllast. Sikh trúin segir að það sé einn guð og eru hinir 10 dýrlingar þeirra allir síðskeggjaðir svo langflestir eldri karlmenn hérna eru með sítt og myndarlegt skegg sem gerir borgina skemmtilega til myndatöku af fólki, sérstaklega eldri mönnum.
Við erum miðsvæðis í borginni rétt við Gullna hofið - nánar tiltekið í eldri hluta borgarinnar sem einkennist af götum með miklu öngþveiti og þar á milli mjóar hliðargötur með endalausum verslunum. Að ganga þessar hliðargötur er skemmtilegt því fólk hérna er vinalegt og mikið að sjá og skoða.
Við röltum aðeins um hverfið um morguninn og upp úr hádegi hófum við leit að einkarekinni rútu til Dharamsala því okkur leist frekar illa á "ríkis-rútuferð" í 7,5 klst um fjallvegi. Við tókum farartæki sem er reiðhjól með sæti aftaná sem er varla fyrir tvo farðega því sætið er það mjótt en þeir virðast oft taka tvo farþega og jafnvel 2 börn þar ofan á. Það eru engir gírar á þessum hjólum og greinilega mjög erfitt að hjóla með þungan farm því hjólastrákarnir (og -kallarnir) eru lengi að ná hjólinu á smá ferð úr kyrrstöðu þó það sé á jafnsléttu á malbikaðri jörð og þegar farið er aðeins upp á móti - sérstaklega yfir brúnna á milli gamla og nýja borgarhlutans - fara allir farþegar úr þessum hjólum og ganga með upp brekkuna. Mér var reyndar á orði þegar við sátum í vagninum og hjólastrákurinn barðist með okkur oföldu túristana að þetta væri rétti tíminn til að vera með svipu - ég sá eftir þessum orðu rétt eftir að tungan náði að mynda þessi orð.

Sveitur reiðhjólabílstjóri með farðegana fyrir aftan.

Við fundum gott kaffihús og ég var gríðarlega ánægður með fyrsta almenilega espressobollan í vikur.

Skrítin maður og skrítin klæðnaður.

Skraddarinn.

Kvöldsólin lýsti fallega upp þennan mann.
Við fórum úr hjólinu á rútustöðinni og höfðum ekki gengið lengi fyrir utan þegar Sonja flækti einhvernvegin fæturna sína saman, rak sig auk þess aftaná lappirnar á mér svo hún féll kylliflot niður í moldarflagið og skrapaði frekar illa annan olnbogann og höndina. Sárið á hendinni var ansi stórt og fullt af mold og jarðvegurinn er síður en svo hreinn. Við settumst niður á stöðinni, hreinsuðum sárið og hópur af Indverjum safnaðist í kringum okkur og störðu á aðfarirnar eins og þeir gera gjarnan þegar eitthvað óvenjulegt gerist. Sonja er vel birg af allskyns plástrum af öllum stærðum og gerðum sem og spritti og annars til sótthreinsunar en að sjálfsögðu vorum við bara með annan dagpokann og ekki einn plástur í honum.
Eftir að hafa spurst víða fyrir, aldrei að treysta einu svari hér á Indlandi, komumst við svo að því að það eru bara ríkisrútur sem ganga til Darahmsala og því spurning með lestina eða bara leigja bíl og bílstjóra.

Sonja að gera að áverkunum og menn fylgjast forvitnir með.
Við tókum tuk-tuk til baka því við vildum plástra áverkana sem fyrst en þegar við vorum rétt ókomin að Gullna hofinu komst bílstjórinn ekki lengra og var hann nánast handtekinn af lögreglunni, það var verið að taka af honum skýrslu þegar við gengum í burtu - hann hefur líklega ekki mátt koma inn á þennan hluta borgarinnar eða eitthvað slíkt. Við fórum upp á hótel og gerðum betur að sárunum, settum plástur og sótthreinsuðum því jarðvegurinn í borgum á Indlandi getur innihaldið allskonar viðbjóð enda mikið af hundum, hestum, beljum, uxum og öðrum kvikindum á ferli ásamt því sem menn hrækja, míga, skíta og æla þegar þeim dettur í hug án tillits til staðsetningar eða umgangs annars fólks.

Bílstjórinn og félagar hans að sannfæra okkur um að taka allskonar vafasöm pakkatilboð.

Lögreglan um það bil að handtaka bílstjórann.
Gullna hofið er miðpunktur Sikh trúarinnar og er þetta feikistórt og fallegt hof. Í miðjunni er sjálf gullna hvelfingin sem sagt er að sé skreytt með um tonni af gulli. Þessi miðjuhvelfing er umkringd af stórri tjörn sem síðan er sjálf umkringd hærri byggingu. Gestir verða að setja á sig höfuðfat og geyma skó sína fyrir utan bygginguna og þvo fætur sínar með köldu vatni áður en farið er inn.
Ég hef farið í nokkuð margar trúarlegar byggingar um ævina og verð ég að segja að þetta slær þeim öllum út. Það er ekki aðeins byggingin sjálf sem gerir þetta skemmtilegt heldur er ákaflega þægilegt andrúmsloft þarna inni. Það er mikið af fólki, ákaflega myndvænum karlmönnum, börnum og konum sem baða sig í tjörninni eða sitja og biðja. Allir eru mjög vingjarnlegir og leyfa undantekningalaust að teknar séu myndir af þeim og ef maður sest niður er fljótlega fólk komið til manns til að spjalla. Auk þess er einhvers konar bænasöngur allan daginn og mikið undirspil en aldrei þessu vant er hátalakerfið ekki þanið í botn heldur fær bæði fólk og tónlist að njóta sín.
Ég gekk einn hring í kringum tjörnina og Sonja fékk sér sæti nálagt innganginum - ætlaði að taka myndir þaðan en þegar ég hafði klárað hringinn, mörgum myndum ríkari, þá hafði Sonja nánast ekkert tekið af myndum. Hún var rétt sest og búin að smella af nokkrum myndum þegar fyrsti hópurinn kom til hennar, Indverjar sem vildu endilega spjalla og æfa sig í enskunni og hún var þarna eins og trúarleiðtogi eða kvikmyndastjarna umkringd fólki allt í kring sem horfði á hana forvitið og yngri stúlkur spjölluðu mikið á bjagaðri ensku. Til dæmis kom stór fjölskylda með kvikmyndavél og spurði: "Do you want to make a movie?" Sonja stóð síðan við tjörnina og hofði á hofið með öllum í fjölskyldunni og allt var tekið upp. Sumir komu bara til að segja "hello" og taka í höndina á henni eða láta litlu börnin sín heilsa.

Musterisvörður hjálpar Sonju að setja á sig höfuðklút.

Sonja með stúlkunum sem hún spjallaði lengi við.

Móðir stúlknanna sem töluðu hvað mest við Sonju.

Sonja umvafin aðdáendum.

Teygir sig í átt að hofinu.

Þessi aldraða kona var ein af þeim sem sat með Sonju.

Nýkominn úr tjörninni blautur og frískur.

Vinnumaður í hofinu.

Ég að busla.

Margir og stórir fiskar eru í tjörninni - þarna er þeim gefið.

Þessi maður var að biðja.

Múrsteinsverkamaður.

Musterisvörður í návígi heldur vel um spjótið því ég er ekki árennilegur svona skeggjaður.

Biður baðaður í eftirmiðdagssólinni.

Hofið glitrar í kvöldsólinni.
Þegar sólin var komin lágt á loft og farið að skyggja yfirgáfum við hofið en vorum staðráðin í að koma þangað líka daginn eftir því það var ákaflega gaman að dvelja þar og mæli ég eindregið með að fólk kíki inn ef það er í nágreninu.
Við gefum Gullna hofinu hiklaust 10 drullukökur.
2 ummæli:
Getur verið að bróðir minn sé að fitna!
Mér finnst allar þessar myndir með vatni flottastar!!! Geðveikar myndirnar fyrir utan gullna hofið!!!
Jóhann, mér finnst nú ekki fallgea gert af þér að setja svona þreytulegar myndir af Sonju á netið, veik, í súrefnisgjöf og núna þessi!!! Hefurðu engan áhuga á að taka myndir af henni þegar hún er bara sæt?
já, fattaði ekki að það eru tvær litlu systur, næst kvitta ég bara litli skrattinn....
Skrifa ummæli