Við hentum nokkrum myndum í framköllun - skemmtileg leið til að gera persónuleg póstkort en við höfum ákveðið að nota þessa leið frekar en að kaupa misgóð póstkort sem eru allsstaðar til sölu. Þið sem fáið póstkort munið að geyma þau því þau gætu orðið mikils virði síðar ... :-)
Við kíktum í klaustrið til að athuga hvenær Dalai Lama myndi yfirgefa svæðið en það var víst eina leiðin fyrir okkur að sjá hann í þetta skiptið. Við vorum þar rétt fyrir 10 og var tjáð að brottför væri á klukkan ellefu. Við röltum því aðeins um svæðið og um klukkutíma síðar spurði ég vörð hvenær Dali færi og var þá áætlaður brottfarartími 12 á hádegi. Voðalega þarf maðurinn að sofa lengi.

Konur vinna við að bera í múrarann (múrarann minn ... og því tvö "n").

Sonja vildi endilega að ég myndi setja þessa mynd því þessi hvolpur er ósköp sætur.

Við fengum okkur kaffibolla á þessu ágæta kaffihúsi eftir fyrstu seinkun á brottför Dalai Lama.

Má bjóða einhverjum steiktar pjélsur með öllu?
Klukkan 12 stilltum við okkur upp á götunni út úr klaustrinu ásamt nokkrum öðrum vestrænum ferðamönnum en flestir voru Tíbetar og fólk frá Ladakh sem vildu kveðja meistarann. Ladakh-búarnir voru flestir eldra fólk og var þarna komið sérlega til að kveðja hann - frekar löng leið fyrir þau, við þurftum allavega 4 daga til að komast frá Leh til McLeod. Nokkrar feitar evrópskar kellingar voru þarna og fylgdist ég með því þegar þær gengu hver á eftir annari og tóku myndir af þeim gömlu þar sem þær sátu makindalega og biðu, tóku þær flestar fyrir andlitið - vildu greinilega ekki láta taka myndir af sér. Ég fylgdist með hverjum túristonum á fætur öðrum fara til þeirra og smella af og þær gömlu greinilega ansi þreyttar á þessum helv... túristum - gott að við Sonja erum ferðamenn en ekki túristar. Þetta fékk mig aðeins til að hugsa um það hvað það er erfitt að taka myndir af fólki á ferðalögum því flestir eru orðnir þreyttir á myndatökum. Maður þarf því að fara varlega þegar maður er að taka myndir af fólki og passa sig að spyrja ef maður tekur myndir af stuttu færi og virða svar þeirra.
Það eru nánast allir ferðamenn með stafrænar myndavélar og mjög margir með dýrar gerðir af linsuvélum. Þegar einhver gengur framhjá sem er merkilegur eða lítur vel út eru allir með myndavélar á lofti svo maður tali ekki um fyrir framan mikilvægar byggingar eða fallega náttúru. Það verður því væntanlega erfiðara og erfiðara að taka myndir sem eru sérstakar eða skera sig út frá fjöldanum - magnið er það mikið að fólk hættir að gefa ljósmyndum gaum. Á hverjum degi eru sjálfsagt teknar hundruðir milljóna ljósmynda - manni verður oft hugsað um það hvað maður græði á því að taka allar þessar myndir.
Enn var brottför hans frestað - núna til 13:30. Við fengum okkur kaffibolla á pínulitlu og þægilegu kaffihúsi klaustursins - grænt kasmírte fyrir mig og ávastasafi, kók og sacherterta fyrir prinsessuna.
Okkur var meinað að fara aftur á sama stað til að bíða eftir Dalai Lama - líklegast útaf öryggisástæðum og tókum okkur því stöðu við götuna fyrir neðan klaustrið ásamt öllu hinu fólkinu. Um 14 sáum við bíla koma á sæmilegri ferð niður frá klaustrinu og flest allir tóku sér trúarlega stöðu í kringum okkur - ég gerði það líka, myndavél að auga. Það kom okkur á óvart hvað bílaröðin fór hratt í gegn en greinilega þarf mikið öryggi enda eru margir sem vilja honum illt. Má t.d. nefna að drengur sem Dalai Lama útnefndi sem 10. endurholdgerfingur Panchen Lama - næstæðsta mann Tíbetskrar búddatrúar var rænt árið 1995 ásamt foreldrum sínum af Kínverskum stjórnvöldum aðeins 6 ára gömlum. Kínversk stjórnvöld hafa viðurkennt að hann sé í haldi þeirra en enginn hefur séð hann né heyrt frá honum síðan 1995. Hann hefur verið álitinn yngsti pólitíski fangi í heimi og það má óttast um framtíð hans ef hún er einhver. Þessvegna skilur maður að það er mikið öryggi í kringum Dalai Lama en leiðinlegt að sjá hann og föruneiti bruna framhjá í nánst reikskýi framhjá fólkinu sem var komið langa leið til að kveðja hann.

Eldri kona bíður eftir D.L. eins og ég kýs að kalla hann.

Kveikt var á reykelsum.

Eldri maður biður bænir með hjálp þartilgerðs bænabands.

Fólk að bíða eftir Dalai Lama.

Ef glögglega er skoðað þá sést Dalai Lama veifa úr framsætinu.
Við höfðum skilað herberginu okkar og sett farangurinn í geymslu því um kvöldið var för heitið til Shimla, með ríkisrútu en Semi-Delux þó sem lofaði ágætu. Seinnipartinn eftir snarl vorum við orðin frekar þreytt og ákváðum að kíkja í bíó en á nokkrum stöðum í bænum er boðið upp á slíkt, ef bíó skal kalla. Við gengum niður mjög þröngan hringstiga í lítinn kjallara fyrir neðan matvörubúð. Nokkrar raðir af stólum, fyrir um 20 manns þarna niðri. Stólarnir voru í misgóðu ástandi - sá fyrsti sem ég valdi mér var með þreytt bak og tók ég bakfall þegar ég settist í stólinn. Þar sem bíógestir voru 3 (með okkur) skipti ég bara um stól og tók stólinn fyrir aftan.
Þriðji gesturinn var strákur á svipuðum aldri og ég sem settist stutt frá okkur og komumst við að því að hann var í bænum að stunda jóga en aðeins stutt spjall var mögulegt áður en Shrek hinn þriðji byrjaði og ákváðum við því að spjalla saman eftir myndina.

Þetta er ljósmynda-Pólverjinn.

Sölumenn frá Kashmir að segja Sonju hvað hlutirnir hafa breyst á staðnum á sl. tíu árum og einnig frá öllum sínum kærustum frá Þýskalandi, Spáni, Ísrael ... seinna kannski frá Íslandi.

Kvikmyndahúsið.
Ég held að þetta hafi verið sjóræningjaútgáfa af myndinni því gæðin voru slæm en tjaldið var hvítur pappír sem glansaði of mikið og jók því ekki gæðin, Myndin skilaði samt því litla sem hún getur skilað og vorum við nokkuð ánægð með þetta síðdegi í óþekktum búðarkjallara.
Við kíktum í kaffi- og kakóbolla með þjóðverjanum unga (já ég kalla hann ungan) og fræddumst mikið um yoga af honum. Þetta er merkilegur maður fyrir þær sakir ef sakir skal kalla að hann á ekki neitt. Hann er sérfræðingur í háhýsaverkavinnu og vinnur í um þrjá mánuði á ári við ýmsa háhýsavinnu. Hans hlutverk að hanga uppi á efstu hæðum í klifurgalla og vinna þar verk sem þarf að finna - síðast var hann við vinnu að á Wembley leikfanginum í London við súlurnar háu sem gnæfa þar fyrir ofan. Hann á hvergi heima, dvelur í ódýru húsnæði og safnar til að geta ferðast á Indlandi og er þá ekki að skoða sig um heldur stunda jóga. Þetta líf er hann fullkomlega ánægður með og hefur engan hug á því að fá sér íbúð eða fasta vinnu. Allt sem hann á, um 24 kg. af dóti er hann með sér hérna. Skrítið að ræða við svona mann sem hefur akkúrat enga neysluþörf - er þetta þá ekki í eðli okkar?
Hann var gríðarlega yfirvegaður og greinilega ánægður með sína hillu í lífinu. Maður hefur ákveðna staðalímynd af "sovona" fólki en hann var mjög eðlilegur, mjög klár og skynsamur að manni fannst - bara öðruvísi lífsviðhorf.

Þjóðverjinn með brjálæðisglampa í augum.
Hann sagði okkur frá yoga námsekiði sem hann hefur nokkrum sinnum sótt og við höfðum einnig heyrt af sem er mjög áhugavert. Það heitir Vipassana og felst í því að maður er lokaður inni í yoga stofnun í 10 daga. Maður má ekki hafa neitt samband við nokkurn mann, hvort sem það er fyrir utan bygginguna eða innan - þegar manni er færður maður má maður ekki líta í augu þess sem færir manni hann og má maður ekki mæla orð við nokkurn mann. Dagarnir fara í hugleiðslu og situr maður 15 tíma á dag með stuttun hléum við hugleiðslu og sefur það sem eftir er af sólarhringnum. Við vorum aðeins að gæla við að prófa þetta en gerum það sennilegast ekki í þessari ferð því það er núna hægt að taka svona námskeið fyrir utan Indland og það víðsvegar um Evrópu.
Við fengum að skipta um föt á klósettinu á hótelinu og snæddum kvöldverð á hótelinu. Þjónnin okkar var ung stúlka sem flúði fótgangandi frá Tíbet 13 ára. Hún sagði okkur aðeins frá þessu ferðalagi þar sem gengið var á næturnar og sofið á daginn og var ferðalagið í mánuð að vetri til. Stúlkan hafði eitt það einlægasta bros á fallegu andliti sínu sem ég hef séð og stóðumst við ekki um að gefa henni hæsta þjórfé ferðalagsins - vonandi nýtur hún það vel. Það er gott að eyða peningum í fallega og góða hluti.
Leigubíllinn beið okkar eftir matinn, keyrði okkkur niður krækklóttar götur McLeod Ganj til Dharamsala í myrkrinu og kom okkur á rútustöðina. Þar biðum við ásamt nokkrum öðrum eftir að rútan okkar yrði opnuð, þetta voru flestir Indverjar með afar lítinn farangur. Ljótur horaður hundur flæktist þarna um að leita að æti og skemmd ljósapera blikkaði fyrir ofan okkur. Rétt fyrir auglýsta brottför hentum við farangrinum í rútuna og stigum inn. Þetta var svokölluð "Semi-Deluxe" rúta og höfðum við pantað fremstu sætin til að hafa gott fótarými og útsýni svo að prinsessan yrði ekki bílvek í öllum beygjunum hér í fjöllunum. Okkur til mikils ama var plata á milli útihurðarinnar og sætanna okkar og var það þröngt að maður sat beint með hnén fastskorðuð við þessa plötu og gat ekki hreyft lappirnar neitt að ráði. Þetta voru klárlega verstu sætin í rútunni, fyrir utan útsýnið sem reyndist ágætt.

Beðið á rútustöðinni - Sonja er með hvíta derhúfu sem sést í fjarska.
Auk okkar var einn vestrænn ferðamaður í rútunni og spurði hann vantrúaður áður en hann gekk inn hvort þetta vöru örugglega "Semi-Deluxe". Ég spurði rútuaðstoðarmanninn hvort við fengjum teppi inni því þetta var svefnrúta en fékk bara augnarráð svipað því sem Víðir frændi minn, bóndi á Vestfjörðum, gaf mér þegar ég spurði hann hvort hann ætti Caffe Latte í síðustu heimsókn minni til hans.
Aðstoðarmaðurinn fór síðastur inn í rútuna eftir að hafa staðið í neðstu tröppunni í um hálfa mínútu og farið með bænirnar - ég velti fyrir mér hvort ég ætti að gera hið sama.
Rútan sem var komin til ára sinna var nánast full og þegar hún lagði af stað leist okkur ekki á blikuna því það skrölti nánast í öllu og við efuðumst um að það væru demparar undir henni. Vegirnir eru mjög slæmir á þessum slóðum og hérna í fjalllendinu eru þeir ekki aðeins slæmir heldur hlykkjast fram og til baka upp og niður hlíðarnar eins og kyrkislanga. Ég var farinn að finna til tilfinningar eftir 15 mínútur sem ég hef varla fundið frá því ég var lítill patti - bílveiki. Það góða við sætin okkar var að við sáum í gegnum glugga á bílstjóraklefanum og út framrúðuna þannig að við sluppum við alvarlega bílveiki þó að okkur hafi báðum verið flökurt í byrjun ferðar. Fólk hoppaði inn og út um opna hurðina fyrir framan okkur því þetta er greinilega líka notað sem strætó í þorpinu. Þetta voru því bæði þrengstu sætin og þau köldustu. Ég stóð upp til að setja töskuna okkar í farangursrímið fyrir ofan okkur og var næstum því dottinn út um opnar dyrnar í óvæntri beygju - ég rétt slapp með nýfengna vitneskju um það af hverju dyr eru á rútum heima.
Vegirnir eru vægast sagt hræðilegir.
Í hvert skipti sem rútan fór af stað með mismunandi farþegaflóru flautaði aðstoðarmaður bílstjórans í dómaraflautu nánast í eyrað á okkur, tvö flaut fyrir að fara af stað og eitt til að stoppa - en það var samt mun betra en helvísk tónlistin sem glymur í flestum rútum og við sluppum við í þessari ferð.
Ég fékk mér svefntöflu þegar við vorum nýlögð af stað. Eftir að hafa setið í skröltandi blikkdósinni með lokuð augun í nokkurn tíma og vonast eftir að pillan myndi hafa mig á brott á betri stað án þess að hafa nokkra trú á því vegna alls áreitisins. Sonja var sofnuð enda á hún betur með að sofa við slæmar aðstæður en ég. Ekki hjálpaði heldur að aðstoðarmaðurinn settist öðru hvoru á skilrúmið lága fyrir framan okkur á milli þess sem hann hleypti farþegum út og inn og læsti þá alltaf feitlögnum rasskinnunum utanum hnéð á mér. Þó að hitinn væri velkominn þá var þetta í besta lagi óþægilegt en þar sem það var svo þröngt í sætinu gat ég ekki fært hnéð og var því eina leiðin fyrir mig að ímynda mér að þetta væri heitur og góður púði sem væri að ylja mér.
Svefninn kom loksins.
Um nóttina vaknaði ég við þvílík læti - öskur og djöfulskap, við nánari eftirgrennslan vorum við stopp á endanum á mjórri brú og var flutningabíll þétt upp við glugann okkar Sonju þar sem við sátum fremst í rútunni og var opið út. Ég staulaðist á fætur í svefnmóki af unaðslegri svefntöflunni og fór út. Þar blasti við mér flutningabíll sem hafði keyrt utaní handriðið á brúnni svo annað framdekkið stóð þar út fyrir brúnna. Rútan okkar var samsíða flutningabílnum, á brúnni, svo farartækin snertust og voru líklegast föst saman. Hinum megin á brúnni var annað dekkið á rútunni okkar alveg á brún brúarinnar og enginn hliðarkantur heldur þverhnípt niður í ánna, samvkæmt höfuðljósinu. Bílstjórinn var að basla við að koma rútunni áfram af brúnni því hún var greinilega föst við flutningaílinn ef svefnósa heilinn minn var að reikna stöðuna rétt út. Ég fylgdist aðeins með mönnum öskra þarna og æpa fyrir utan, þ.e. gefa bílstjóra okkar leiðbeiningar, því það var sæmilegur hópur af mönnum þarna uppi á fjalli þar sem ágætis biðröð hafði safnast fyrir framan brúna fyrir aftan flutningabílinn. Eftir að menn höfðu notað steina og dót við að hjálpa sér að losa rútuna og passa að okkar færi ekki ofaní ána þegar hún yrði hreyfð náðum við að komast af brúnni. Ég ráfaði inn í rútuna, svefnlyfið ennþá að gera góða hluti í æðum mínum og settist niður. Ég náði ótrúlegt en satt að sofna og nánast sofa allt fram á leiðarenda.

Hérna sést hvernig farartækin eru föst saman. Þessar myndir eru lýstar með höfuðljósinu mínu því myndavélin okkar góða er ekki með flass.

Rútan okkar á brúninni og vegriðið farið - ég veit ekki hvort það gerðist þarna eða hvort það hafi vantað áður en við mættum galvösk á svæðið.

Flutningabíllinn hangir útaf brúninni.
Þegar til Shimla var komið, u.þ.b. kl 6, tóku nokkrir menn á móti okkur og vildu endilega í góðmennsku sinni vita á hvaða hótel við dveldum og buðu okkur far þangað með farangurinn fyrir 30 Rs sem hljómaði alls ekki illa. Við gengum af stað, tveir menn með bakpokana okkar þungu og áttuðum okkur fljótlega á því að þetta voru burðarmenn því það er ekki hægt að keyra að hótelinu okkar því miðbærinn er nánast bara göngugötur. Við gengum upp brattan og langan göngustíg og fylgdust aparnir með okkur allt í kring, náðum að hótelinu, skráðum okkur inn og lögðum okkur í ísköldu herberginu.
Við sáum í dagblaði að á fjölförnum vegi á milli Deli og Agra þar sem oft er keyrt hratt og slys eru algeng þá keyrði rúta inn í hóp af fólki svo 6 dóu, allt konur og börn og 9 slösuðust - það skipti engum togum að það varð mikið öngþveiti og það endaði á því að fólk á götunni gekk í skrokk á bílstjóranum sem liggur þungt haldin á spítala.
Það er mikið af öpum hérna.
1 ummæli:
Var þjónninn fæn?
Skrifa ummæli