miðvikudagur, október 31, 2007

56. Everest og hamborgari

Við dröttuðumst út úr hótelinu dauðþreytt kl. 5.30 með morgunmat í hendinni og inn í leigubílinn hjá Ramesh, feitlögnum eldri leigubílastjóra. Það var ennþá myrkur en fullt af fólkið komið á kreik á leið til vinnu eða þegar byrjað að vinna á götunum.

Ramesh benti okkur á konungshöllina og gretti sig í andlitinu þegar hann sagði frá nýja kónginum sem hann sagði vera vondan mann.

Um korteri síðar stóðum við í biðröð inn í innanlandsflugstöðina en það er leitað á fólki áður en það fær að fara inn og því sæmileg röð fyrir utan. Við settumst niður og hvíldum okkar eftir að við höfðum borgað flugvallarskatt og fengið miða með sætisnúmerunum, 4A og 4C. Það var þoka á flugvellinum og skyggni lélegt og við því ekki bjartsýn með að Everest myndi standa vígreifur fyrir framan okkur í háloftunum.
Það var tilkynnt um seinkun á öllum útsýnisflugum um klukkustund og útlitið ekki gott. Ef ekkert skyggni er fyrir útsýnisflug hjá fyrirtækjunum þá endurgreiða þau öllum flugferðina, þannig að fjárhagsleg áhætta var ekki mikil.

Loksins var kallað út í flugvél og við fórum í loftið um 45 mínútum síðar eftir að hafa beðið dágóða stund í rútu við hlið flugvélarinnar - greinilegt að veðrið var eitthvað að stríða mönnum.


Hermenn skokka fyrir framan flugvél samvinnuþjóðanna. "I don't know what I've been told that eskomo...."

Flugferðin var í um klukkustund, skyggnið eins og best verður á kosið og var flogið um 5 km frá þessum tignarlegu tindum. Við hefðum kosið að fara nær en maður skilur að það sé ekki spennandi að hafa margar flugvélar fljúgandi nálagt tindunum á hverjum morgni.


Þetta er stærsta hindúahofið hér í Katmandu og er mikil líkbrennsla í tengslum við það.


Hæsti tindurinn þarna er Everest sjálfur.


Myndvænasti tidnurinn, Cho-oyu sem fólk þekkir sennilegast af myndum.


Glæsilegt útsýni.


Gauri Shankar hinn heilagi tindur sem bannað er að klífa.

Þegar við gengum út af flugvellinum var þar hafsjór af leigubílstjórum sem vildu ólmir keyra okkur og við mundum ekkert hvernig leigubíllinn leit út og hvað þá bílstjórinn, bæði vorum við þreytt kl 05:30 og frekar mikið myrkur. Við þurftum því nánast að taka bílstjórann í 3ju gráðu yfirheyrslu afsíðis þegar hann kom til okkar og spurði hvort við ættum að drífa okkur - honum fannst við skrítin að muna ekki eftir honum.

Við ákváðum að leggja okkur aðeins þegar við komum á hótelið um 10 leitið en 3ja daga ferðin var fyrirhuguð strax á eftir flugferðinni. Ég stökk á skrifstofuna og sagði að við kæmum kl. 11.30 en leiðsögumaðurinn var þá þegar mættur og varð hann bara að gjöra svo vel að bíða, en það svosem allt í lagi því hann var á fullum launum sem eru 600 kall á dag.

Þegar við vorum búin að tékka okkur út, koma töskum í geymslu og rétt ókomin á ferðaskrifstofuna fór Sonju að líða mjög illa. Var með svima og mikil ógleði farin að gera vart við sig. Við ræddum þetta aðeins og ákváðum að það væri ekkert annað að gera en að fresta ferðinni um einn dag. Belgískur strákur kom og spjallaði við okkur þarna fyrir utan því hann sá stóru myndavélina okkar og linsuna sem vakti áhuga hans enda var hann atvinnuljósmyndari sjálfur. Við vorum sennilega frekar freðin við hann því Sonja var orðin mjög slöpp og ég hafði áhyggjur af ástandinu. Hann endaði á að segja að almennilegir ljósmyndarar þyrftu bara eina linsu því þeir gætu gert allt með henni - þetta var skemmtilegur strákur og það hefði verið gaman að spjalla við hann undir öðrum kringumstæðum.
Þegar við vorum að segja ferðaskrifstofubræðrum frá þessu rauk Sonja skyndilega út og rétt náði að hlaupa upp á kaffihúsið góða fyrir ofan og klósettið sem betur fer laust því það mátti ekki muna nema sekúndum að allt hefði farið á gólfið. Ég fékk mér kaffibolla og þráttaði við Sonju sem vildi keyra á ferðina enda leið henni betur eftir æluna en ég tók það ekki í mál - ekkert vit í að fara í fjallgöngu í þessu ástandi. Við fengum okkur aðeins að drekka og svona á kaffihúsinu en Sonju tókst lítið að borða og var frekar kalt svo þjónninn okkar - hann er farinn að kannast við okkur - spurði hvort allt væri í lagi. Sonja svöruðum til að henni væri eitthvað illt í maganum en ekkert alvarlegt. Óskaði hann henni bata á leiðinni út og sagði okkur að taka því rólega.

Sem betur fer gátum við fengið aftur sama herbergið og Sonja lagðist þar niður og hvíldi sig. Ég fór á klósettið til að tefla við páfann og átti fótum fjör að launa þegar Sonja kom hlaupandi inn og ældi í annað skiptið í klósettið en ég slapp. Það var greinilega óðs kvenna æði að ætla að reyna til þrautar að fara í ferðina.

Seinnipartinn þegar ástand Sonju var ekkert að batna varð okkur ljóst að hún myndi ekkert fara í fjallgöngu næstu dagana, sérstaklega þar sem að ælupest hjá Sonju er sjaldnast sólarhringspest. Þar sem að flugið til Bútan er eftir 4 daga yrðum við að afpanta alla ferðina. Ég fór því á fund ferðaskrifstofustráksins sem tók ekkert svo illa í þetta en sagði að það gæti verið að við þyrftum að borga a.m.k. hluta af hótelinu sem hann hafði pantað fyrir fyrsta kvöldið - ég held að það sé nú bara sanngjarnt. Við greiddum fyrr um daginn fyrir hálfan dag leiðsögumannsins sem hafði beðið allan morguninn og þeir geta því ekkert kvartað. Við ákváðum að taka stöðuna daginn eftir og þá myndi hann endurgreiða hluta af því sem við höfðum greitt fyrirfram.


Gömul og hokin kona.

Eftir þetta fór ég á K-to veitingastaðinn sem við höfðum farið á fyrsta kvöldið, settist þar við barinn og pantaði mér borgara og bjór - fyrir framan mig var sjónvarp með enska boltanum. Mér leið eins og sönnum karlmanni.
Þetta var fyrsti hamborgarinn sem ég hef borðað í tvo mánuði og var hann virkilega ljúfengur. Ég var reyndar fyrst að spá í að panta mér Fried Egg Burger en undirskriftin á honum hljómaði ekkert alltof vel:

"Tastes better after few beers."

Þetta eru ekkert sérstök meðmæli en ég var ánægður með Quarter Pounder borgarann minn sem smakkaðist ekki ósvipað og borgararnir á Hamborgarabúllunni heima.

Á veggnum fyrir ofan mig var mynd af feitlögnum breta, Nick Royle með bjór í hönd og brosandi út af eyrum. Fyrir neðan stóð að hann hefði borðað steik á staðnum hvern einasta dag í 5 vikna fríi sínu í borginni. Vöxtur hans var þannig að myndin hefur sennilega verið tekin í lok frísins hans.

Ég sat út á enda á barborðinu, eiginlega í horninu og var það með ráðum gert. Það voru nokkrar föngulegir kvennmenn inni á barnum og þar sem ég hef séð myndir af mér á þessari síðu skeggjuðum og litið í spegil í ófá skipti veit ég að útlit mitt er nánast ómótstæðilegt þessa dagana og ég auk þess kvensulaus þá vildi ég vera laus við áreiti frá þeim. Svitalyktin af mér er líka megn og efnin í henni eru kynæsandi fyrir hitt kynið. Óþolandi oft að vera svona myndarlegur - geta þær ekki litið á mann sem hugsandi manneskju með tilfinningar en ekki girnilegt kjötstykki endalaust?

Eftir hamborgarann fékk ég samviskubit, andartak í munninum ævilangt á lendunum. Hvernig á ég eiginlega að komast í pilsið mitt ef ég fitna?

Ég kíkti í allar bókabúðir á leiðinni heim og spurði um bækur um Kasmír teppi - er þetta að snúast upp í enn eitt æðið hjá mér? Ég fann enga en fann hinsvegar Tinna í Tíbet sem er aldeilis föngulegur gripur. Ég fór á kaffihúsið góða, fékk mér Espresso og las Tinna. Ég segi það aftur, hámenning er Hafnfirðingsins hugsun alla daga.
Mér þótti vænt um að afgreiðslustrákurinn spurði mig þegar ég kom inn hvernig Sonja hafði það og virtist hafa virkilegan áhuga á að vita það. Þegar ég kvaddi um hálftíma síðar klappaði hann mér á öxlina og sagði mér að fara vel með Sonju - þetta er uppáhalds kaffihúsið mitt.

Aftur upp á hótel með ávexti, vatnsbirgðir og DVD fyrir sjúklinginn.

2 ummæli:

Burkni sagði...

Hefur Sonja ekki verið nógu dugleg að drekka sterka áfengið?

Nafnlaus sagði...

Hæ tek undir þetta með sterka áfengið "KONÍAKIÐ" það hreinsar allt. Munið að taka með ykkur til Bútan og einn gúlsopa á morgnana og jafnvel einn á kvöldin. Ekki oft sem mæður hvetja börnin sín til drykkju :-)
Kveðja
Mútta