miðvikudagur, október 31, 2007

55. Katmandu

Fyrsti heili dagurinn í Katmandu var ekkert gríðarlega viðburðaríkur. Við þurftum að redda ýmsum málum og fór dagurinn nánast allur í það.

Við gengum túristagöturnar í Tamil og skoðuðum möguleika á ferðum út fyrir borgina. Á þriðja stað sem við fórum á hittum við fyrir náunga sem virtist ekki vera á spíttí, þ.e. ofurákafur í að selja okkur bara eitthvað og virtist vera nokkuð eðlilegur. Hann kom með þá nýbreytni að hlusta á það hvað við höfðum að segja og hvað við vildum sjá og kom síðan með sínar hugmyndir. Flestir vilja þeir bara drífa málin í gegn, svara öllu sem maður segir með "já já já - getið tekið fullt af myndum" en svarið ber þess greinilega merki að þeir hafi ekki hlustað og segja manni hvað maður þurfi að skoða. Við ákváðum að kaupa af honum skoðunarflug um Himalayafjöll og Everest og vildum fá lengri tíma í að ákveða með 3ja daga ferð sem hann stakk upp á um þorpin. Sú ferð var skemmtileg fyrir þær sakir að við færum allra okkar ferða með almenningsrútum og gangandi og aðra nóttina var hugmyndin að gista í heimahúsi í þorpi sem er mjög afskekkt og ekki nefnt í túristabókum, það var ekki einu sinni á kortinu hans.

Á efri hæðinni í hússins sem ferðaskrifstofan var kaffihúsið frábæra með sína mögnuðu kaffidrykki og þráðlaust internet sem kostaði reyndar en bara 30 kall klukkutíminn. Það er mjög þægilegt hérna í Nepal en fyrir eina nepalska rúbíu fæst ein íslensk króna.


Konunglegar veigar á frábæru kaffihúsi.

Við náðum í flugmiðana til Bhutan á skrifstofu ríkisflugfélags Bhutans sem er eina flugfélagið sem má fljúga inn í landið og síðan var ferð heitið á Canon verkstæði sem okkur hafði verið bent á daginn áður. Við vorum góða stund að finna það og gengum í gegnum virkilega skemmtilegar göngugötur sem virðast ekki vera fjölsóttar af túristum. Þessr götur eru margar hverjar eitt stórt öngþveiti og ótrúlegt hvernig hlutirnir ná að ganga upp þegar ótal mótorhjól, reiðhjól og ýmsir vagnar eru fastir í óleysanlegri þvögu fyrir aðkomuaugað.


Kona fyrir utan skrifstofu flugfélagsins.


Síðdegissólin kastar löngum skuggum.


Lítil gatnamót.


Beðið eftir kúnnum.


Þessi er líka að bíða.


Ágætt úrval af kryddi. Ef einhver kryddáhugamaður er að lesa þetta þá get ég sent honum þetta í hærri upplausn þannig að hann geti séð hvaða kryddgerðir þetta eru.


Meira krydd.


Hliðargata.


Rauðklædd kona situr fyrir utan búð sína.


Þung byrði.

Við fundum loks verkstæðið og þeir skoðuðu linsuna gaumgæfilega sem hefur valdið okkur vandræðum allt frá því að ég fékk góðan skammt af hveiti yfir mig og myndavélina í Manali í byrjun ferðar. Við höfum þó náð að nota hana og tekið rúmlega helming myndir okkar á hana en hún hefur verið erfið og við þurfum að nota hana alveg rétt til að hún virki yfir höfuð. Þeir ætla að skoða hana og láta okkur vita hvað þarf að gera.
Okkur þótti athyglisvert að sjá vörðinn í bankanum fyrir neðan verkstæðið en hann var í borgaralegum klæðnaði en með tvíhleypta haglabyssu í hönd. Ef þetta var ekki vörður þá hefur bankarán verið í fullum gangi.

Við kíktum aðeins á teppi hjá örvæntingafullum og ágengum teppasölumönnum því áhugi minn á Kashmir teppum eykst dag frá degi enda eru þessi teppi með ólíkindum flott - það er ekki hægt að útskýra það, fólk verður að sjá þau með eigin augum. Það versta hérna er að aðeins silkiteppi eru fáanlega frá Kashmir sem kosta þrefalt meira en ullarteppin og eru ullarteppin dýr. En það er víst bannað að flytja ullarteppi inn frá Kashmir því ullartreppi eru framleidd hérna í Nepal og þeir vilja ekki samkeppnina.
Manni líður eins og flugu sem gengur inn í miðjan köngulóavef þegar maður kemur inn til teppasölumanna. Þeir nánast læsa hurðinni og draga fram stóla og halda síðan sýningu á hinum ýmsustu teppum. Einn sagði okkur að hann myndi selja okkur teppin á kostnaðarverði því systir hans væri að giftast og hann þyrfti peninginn nauðsynlega strax - það er ýmislegt reynt.
Þegar maður spyr um verð á teppum sem manni finnst flott sem eru undantekningalaust silkiteppi frá Kashmír, enda bera þau af öðrum teppum þá er verðið stjarnfræðilegt - um 150-200þ krónur og það eru alls ekki stór teppi. Þegar maður segir að þetta sé of mikið og býst til að brjótast út úr búðinni fara þeir að sýna manni allskyns mottur sem eru ekkert spennandi - svona Ikea mottur. Þeir skilja ekki að manni finnst þær ljótar þó maður segi þeim það beint út - vilja að maður segi hvað maður er tilbúinn að borga fyrir þær. Þegar maður kemst loks út sitja þeir eftir með fýlusvip. Við göngum beint inn í næstu teppabúð. Manni virðist að það sé gríðarleg örvænting að selja manni bara eitthvað þó svo maður hafi engan áhuga á því og ekki bara meðal teppasölumanna. Við höfum margoft farið inn í búðir sem selja allskyns minjagripi og verið að skoða eitthvað ákveðið en sölumennirnir draga fram gripi af öllu tagi og ota að manni.

Ég hef mjög gaman af því að ræða verð við fláráða teppasölumennina - Sonja hefur ekki alveg jafn gaman af því.


Teppasölumaður að stumra að dóti í glugganum sínum.

Seinnipartinn keyptum við 3ja daga ferðina í ferðaskrifstofunni - ekki annað hægt því ferðin hljómaði spennandi og sölumaðurinn var ekki með neina fagurgala um besta þetta og besta hitt. Þegar hann seldi okkur t.d. útsýnisflugið þá eru tvö flugfélög í boði og hann sagði að þau væru jafngóð og við yrðum bara að ákveða, hann gæti ekkert sagt hvað væri best. Allir aðrir sölumenn hafa ávallt haldið því fram að annað sé miklu miklu betra.

Um kvöldið fengum við okkur alvöru pizzu úr viðarofnum sem voru það góðar að bestu pizzur á Íslandi ættu erfitt með að standast samanburð.


Ætli hann hafi verið sendur í skammarkrókinn eftir að hafa brennt pizzu í ofninum?


Sonja bíður óþolinmóð eftir pizzunni.

Við fengum tölvupóst frá John Isaac og ætlar hann að hitta okkur í Delí í lok ferðar. Hann er búinn að klára ljósmyndabókina sína um Kashmír sem kemur út á næsta ári og er að bíða eftir svari frá Dalai Lama um að skrifa formála.


Á netinu á kaffihúsinu góða.


Everest bjór með frægri ljósmynd á miðanum.

Við gengum heim á hótel og heyrðum allskonar tónlist á hinum ýmsu diskótekum og pöbbum sem virðast vera hérna út um allt - á götunum var öngþveiti.


Vopnaðir verðir.


Sonja gengur upp á herbergið okkar á 4. hæð.

Það má segja að þetta túristahverfi hérna sé Sirkus fáránleikans.

Engin ummæli: