Staðsetning hótelsins er í einu orði sagt frábær. Það er við langa gulli slegna sandströnd með pálmatrjám eins langt og augað eygir í báðar áttir. Á ströndinni eru nokkrir fiskibátar sem hvíla sig í sandinum og fáir á ferli fyrir utan morgnana þegar veiðimenn draga inn net sín.
Ekkert annað hótel er á allri strandlengjunni, aðeins innfæddir fiskimenn og því stórkostlegt að fá tækifæri til að dvelja hérna og fylgjast með lífinu. Loftslagið er dásamlegt, þægileg gola á ströndinni og fallegar öldur sem skríða tignarmiklar að landi þar sem þær hverfa.
Það má alveg búast við því að það spretti upp fleiri hótel hérna á komandi árum, fasteignaverðið segir manni það því það hefur rokið upp sl. 6 mánuði og greinilegt að peningamenn eru farnir að bjóða í landskikana. Ein ekra af landi við ströndina kostar núna um 100.000 evrur - sennilegast ágætis fjárfesting að fjárfesta í landi og reka fólk sem hefur átt landið í tugi ára í borgina þar sem það fölnar eins og afskorið blóm.
Inngangurinn í hótelgarðinn.
Aðkeyrslan að hótelinu er eins og á herragarði.
Þetta er hótelið sjálft.
Eldklerkur í pilsi og kasmírskri skyrtu á netinu í afgreiðslunni.
Gangurinn upp er ekki tröppóttur heldur sléttur sem er frekar sérstakt, kannski þau séu að uppfylla reglulgerð fyrir aðkomu fatlaðra. Mér sýnist Sonja ekki vilja sjást á myndinni.
Giftingamynd af eigendum hótelsins sem hafa verið mjög hjálpleg að segja okkur frá svæðinu.
Enginn annar gestur er á hótelinu sem er girt af með háum veggjum og opið út á ströndina. Allt í allt er Starfsfólkið um 10 og okkur líður eins og milljónamæringum þegar við sitjum við sundlaugina og sjáum starfsfólkið vinna vinnu sína og tilbúið að hlaupa til ef okkur vanhagar um eitthvað. Einkaströnd og einkavilla - er það ekki virði 3000 krónur íslenskar á nótt?
Við byrjuðum daginn að segja frá kakkalakkanum sem hafði verið á baðherberginu um nóttina og starfsmaðurinn í móttökunni sem er í einu orði sagt frábær, ótrúlega þægilegur og hjálpsamur bauð okkur strax annað herbergi á hæðinni fyrir ofan. Þar sem þessi kvikindi koma sennilegast upp um frárennslið á sturtunni sem hefur enga grind þá erum við hólpnari fyrir kvikindunum á hæðinni fyrir ofan. Við þáðum gott boð hans og fórum í mun bjartara en minna herbergi - okkur finnst minni hótelherbergi þægilegri. Nýja herbergið var endaherbergi og því gluggi á baðherberginu sem gerir að bjart og kakkalakkar eru hrifnir af myrkri. Auk þess var frárennslið bara eitt gat og því auðveldara að loka, engin minni göt.
Meginpartur dagsins fór í að sleikja sólina við sundlaugina á þartilgerðum sólskinsbekkjum. Ég er lítill sólarunnandi en líkaði þetta ágætlega þar sem ég var með iPodinn minn, lá þarna og horfði upp á lauf pálmatrjánna stíga tignarlegan dans við undirleik vindsins og frjálsa fuglana svífa um himininn fyrir ofan. Þetta er lífið!
Sundlaugin góða.
Sonja í sólbekknum með góða bók í hönd.
Starfsmaðurinn góði lét okkur vita um hádegisbil að fiskimennirnir væru komnir með afla að landi á ströndinni ef við hefðum áhuga á að fylgjast með því. Við tókum góðan göngutúr og sáum fólk taka fisk úr netunum, þorpsbúa koma og bjóða í fiskinn. Aðrir voru að koma bátunum í land þannig að það var mikið að sjá þarna.
Kona með þunga byrðar á höfði sér.
Sitjandi krákur þær svelta.
Hvaða jólasveinar eru þetta hugsar þessi drengur.
Þarna er verið að draga bát að landi.
Fiskimenn að huga að daglegum störfum.
Barist við bátinn og öldurnar.
Þessi gleymdi sér við að spjalla við okkur og hleypur til baka þegar hann sér að allir aðrir eru að draga bátinn að landi.
Þessi kona var að versla sér fisk á pönnuna.
Þessi líka.
Erfitt er að eiga við þessa báta því þeir þungir.
Nokkrir stráklingar að leika sér í flæðarmálinu.
Búið að tæma netið af fiski og kominn tími til að skola af því í sjónum.
Eins mikill sjóari eins og þeir gerast.
Netin þrifin.
... og þau tekin aftur upp á land.
Síðan fara menn í sjóinn og skola af sér slorið.
Allt að gerast þarna.
Bátur dreginn eftir flæðarmálinu.
Við fórum aftur á ströndina seinna um daginn, ég íklæddur sundskýlu því öldurnar voru mjög vígalegar og ég trúði því að það væri gott sport að vaða út og finna öldurnar skella á mér. Enginn var á ströndinni en fljótlega komu 3-4 strákar og léku sér í sjónum rétt hjá mér.
Það var þægileg tilfinning að láta ilvolgar öldurnar leika um sig og láta þær henda manni til og frá. Ég gerðist aðeins of æstur og fór lengra út þar sem öldurnar voru mjög vígalegar, þær stærstu um 2-3 metrar gæti ég trúað. Ég höndlaði öldurnar nokkuð vel þangað til sú stóra kom. Þeir brimbrettamenn sem elta sumarið endalausa með því að ferðast um allan heim og brimbretta á öldum allt árið um kring hefðu átt að vera þarna og grípa þessa. Hin fullkomna alda held ég.
Ég sá hana koma í fjarska og var hún eins og maður sér í bíómyndum, myndaði hring og hægt að koma manni fyrir inni í henni. Ég bjóst við að hún myndi minnka þegar hún kæmi nær en það fór lítið fyrir því - ég var reyndar orðinn svo ánægður með mig eftir að hafa tekið fyrri öldur léttilega að ég snéri mér við og beið eftir að aldan tæki með mig með sér og skolaði mér mjúklega áfram eins og skemmtilegt leiktæki - aldan hafði aðrar hugmyndir um það.
Það var gríðarlegt högg sem ég fékk á mig, ég ætla ekki að líkja þessu við að fá flutningabíl á mig en þetta var kannski ekki ósvipað. Mér sortnaði fyrir augum þegar ég fékk þungt höggið á mig og fann hvernig aldan hrifsaði mig með sér, negldi mér niður á sandbotninn og skrapaði mig eftir honum nokkra metra upp í fjöruna. Ég varð mjög ringlaður en náði loks að standa upp og vissi að ég hefði skrapast illa á hliðinni en fyrsta hugsunin var að ná jafnvægi og ná vatninu úr vitunum en nef og munnur var fullur af sjó.
Þegar ég náði að standa upp var sjórinn að hrækja spjátrungnum mun nær landi þannig að sjórinn var lítill þar og ég náði að átta mig á aðstæðum. Ég stóð þar stutta stund frekar ringlaður og fór síðan í land, reynslunni ríkari.
Þarna er ég að undirbúa að kljást við öldurnar.
Í miðri öldu sem er þegar skollin á.
Aldan búin að kenna mér lexíu, ég komin á fætur og er að ná áttum.
Ég var mjög aumur í síðunni enda fékk ég þungt högg þar þegar ég skall á botninn og varð fljótlega bólginn og blár. Það fór líka að blæða úr þeim stað sem ég hafði skrapast sem mest en það voru för alveg upp bakið. Við fórum því aftur upp á herbergi og gerðum að sárunum, ég frekar sneyptur en Sonja eins og móðir sem þarf að skamma lítinn strák fyrir kjánaskap - ég átti það inni. Enn og aftur kom sjúkrabox Sonju að góðum notum, þetta sem ég vildi að hún sendi heim því það tæki alltof mikið pláss og nóg af plástrum í apótekum Indlands þegar við þyrftum - hér er næsta apótek ekki í göngufæri.
Sést aðeins í skrámurnar og ég bólgnaði upp þarna niðri á síðunni.
Starfsmennirnir ráku upp stór augu þegar þau sáu bakið á mér þegar ég kom aftur inn, augun voru sennilegast svipað stór og augun á skrímslunum sem dvöldu á baðherberginu okkar.
Um 2-3 tímum síðar um kvöldið var ég eitthvað að reyna að minnka sandbirgðirnar úr hárinu og hallaði mér fram og fann allt í einu vökva renna úr báðum nösum og það ekki dropar heldur bunaði nánast. Ég hélt strax að ég væri kominn með blóðnasir en reyndist þetta þá bara sjór sem hafði einhverstaðar dvalið í vitum mér, var kominn með nóg af þessu rugli og vildi frekar á gólfið.
Sjórinn 1 - Eldklerkur 0
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Flott hótel og ótrúlega fallegur staður, skil vel að ykkur líði vel.
Já sjórinn getur verið stórhættulegur !!!!!!!! Reynslunni ríkari er það ekki ?
Knús
the pink lady
Óhætt að segja að sjórinn hafi slökkt í Eldklerknum í þetta skiptið!
Þú hlýtur nú að vera búinn að upphugsa ráðabrugg til að KNÉSETJA sjóinn!!
Svo mæli ég með því að þú standir hruflaður í flæðarmálinu og kallir á sjómennina: "Landkrabbar - landkrabbar allir saman!!"
Jahérna, ertu með ónotað rými í höfðinu sem sjórinn hefur safnast fyrir í? Hvað getur það verið? :-D haha
Það er gæfa að þér skolaði á land en ekki á haf út.
Takk fyrir frábærar sögur.
Kveðja,
Böddi
Yndislegt hótel og þjónar á hverjum fingri! Njótið þess að hvíla ykkur - sérstaklega Jóhann þar sem hann steypist á kaf og skrapar á sér síðuna! Dí-mar
Kv.
MCM
Skrifa ummæli