þriðjudagur, október 23, 2007

49. Skrímsli á baðherberginu

Gistiheimilið í Trivandrum var gamalt hús, eða villa öllu heldur sem hefur verið breytti í gistiheimili. Starfsfólkið var mjög hjálpsamt og nettengt tölva til staðar í afgreiðslunni fyrir gesti þannig að þetta var nánast fullkomið. Það eru sömu eigendur af þessu gistiheimili og hótelinu sem við ætlum að gista á við ströndina þannig að þau sjá um að flytja okkur á milli - gæti ekki verið betra.

Aðaltakmark dagsins fyrir utan að fara á strandhótelið var að kaupa pils á Eldklerkinn. Starfsmaður gistiheimilisins benti okkur á stað sem best væri að kaupa slíkt pils, sem kallast reyndar Mundu. Ábending hennar reyndist vera stórgóð því þetta var búð á 4 hæðum sem borgarbúar virðast kaupa sín föt, enginn túristi þarna inni og verðin eftir því. Eftir að okkur hafði verið bent í allar áttir fundum við pilsin. Þau voru nánast öll eins, ljósdrappleit með mismunandi lituðum röndum þannig að valið var ekkert gríðarlega erfitt. Eftir að ég hafði valið pils og starfsmaðurinn kennt mér að klæða mig í það þannig að það myndi haldast uppi kíktum við á nokkrar slæður fyrir Sonju, og fjárfesti hún í fjórum. Að ganga frá greiðslu var flókið því fyrst gengum við frá kaupunum við starfsmanninn sem hafði hjálpað okkur að finna varninginn, skildum hlutina eftir hjá honum og fengum kvittun fyrir því. Við fórum að öðru borði með kvittunina og gengum þar frá greiðslu, fengum aðra kvittun fyrir að varan væri full greidd. Þar sem að slæðurnar hennar Sonju voru á annarri hæð þurftum við að fara í gegnum sama ferli þar.
Að lokum þurftum við að fara með þessar greiðslukvittanirnar og sækja vörurnar á kassa við útidyrnar. Þetta hljómar kannski ekki flókið en að vera staddur í stórri búð með starfsmönnum á hlaupum í allar áttir og enginn talar nema nokkur orð í ensku þá var þetta hin sæmilegasta gestaþraut.

Við hentum slæðunum hennar Sonju til skraddarans fyrir utan til að ganga frá lausum endum og fjárfestum í minniskorti í ljósmyndabúðinni fyrir utan. Næst á dagskránni var markaðurinn sem reyndist vonandi vera alvöru markaður.

Það reyndist hin mesta skemmtun að ganga um markaðinn, margt að sjá og fólk yfirleitt mjög vingjarnlegt. Mest var af matvörum en eitthvað af öðrum vörum þó það hafi nú verið í mjög miklum minnihluta. Fiskihlutinn var fyrstur á dagskránni með sinni sterku og miklu fiskilykt. Það vakti athygli okkar að bara konur voru þar að selja fisk, ekki einn einasti karlmaður - greinilegt að það er oft mikið kynjaskipt því grænmetishlutinn sem var næstur hafði um 80% karlmenn við afgreiðslu. Ætli þeir vilji ekki vinna í fiskinum vegna lyktarinnar og konur þurfi að láta sig hafa það?
Við tókum mikið af myndum og lofuðum mörgum að prenta þær út og koma þeim til þeirra - hugmyndin er því að koma þarna aftur við þegar við komum af ströndinni færandi hendi.

Nokkrar myndir af fisksölunum:












Fiskur lagður til þerris.

Mennirnir í grænmetishlutanum voru ekki síður hressir en kerlingarinnar og fengum við gefins mikið magn af bönunum. Kjötmarkaðshlutinn var frekar lítill og var allt nautakjöt búið en tveir menn voru að slátra ringluðum hænum sem áttu sér einskis ills von.


Þessi kona heppin að þurfa ekki að vera í slorinu.


Þessi kall var hress og skemmtilegur.


Ég er ekki viss um það hvort þessi var að vinna þarna eða ekki - hann var a.m.k. nývaknaður, svaf nánast í draslinu.


Flestir bananarnir seldir en bananar virðast vera vinsæl fæða á þessum slóðum enda mikið af bananatrjám.


Veit þessi ekki að það er ljótt að reykja?


Virkar frekar einmanna þessi.


Nei, þetta er ekki gull - hann var að koma með banana til okkar og þeir lýsast upp þegar hann gengur út í sólina.

Ekki einn einasti ferðamaður var á markaðnum sem gerði þessa reynslu enn skemmtilegri því oft hafa markaðir sem hafa sér langa sögu breyst í minjagripabúðir fyrir túrista - mér er t.d. í fersku minni flotmarkaðurinn í Bangok í Tælandi og nýrra dæmi Kryddmarkaðurinn í Cochin.

Dýragarður borgarinnar er í miðri lagfæringu og því margt sem er ekki í notkun en hann að mestu leyti mjög snyrtilegur og fallegur. Mörg skemmtileg dýr voru þar til sýnis frá Indlandi og öðrum stöðum í Asíu og fannst okkur mest til koma að sjá flóðhestana og krókudílana. Við vorum mjög nálagt krókudílunum, hefði veggurinn umvherfis þá verið aaaaðeins lægr hefðum við getað klappað þeim á bakið. Það kom okkur á óvart hvað það voru lágir veggir í kringum allar apagryfjurnar og voru m.a.s. með mjög stór tré þannig að við trúum ekki öðru en þeir gætu léttilega sloppið ef þeir hefðu hug á því. Ætli heimurinn fyrir utan sé ekki miklu verri en verndaða umhverfið fyrir innan.

Ég fann lítinn sting í annari hendinni þegar við vorum búin að vera smá tíma í dýragarðinum og sá þar stóra moskítóflugu athafna sig. Stuttu síðar var ég orðin rauður eftir bitið og komið far eða bólga. Okkur varð ekki um sel því ég óvarinn sem fyrr fyrir malaríu og þó garðurinn væri að mestu leyti snyrtilegur voru staðir í honum sem höfðu greinilega ekki verið þrifnir lengi. Við kláruðum í fljótheitum að skoða garðinn eftir að hafa borið á okkur ennþá meira af moskítóvörnum en vildum ekki dvelja lengi þarna af hræðslu við fleiri bit.


Rauðklædd stúlka hleypur á undan foreldrunum af spenningi að skoða næsta dýrabúr.


Við vorum svona nálagt krókudílunum.

Ég fann loksins sólgleraugu sem ég gat sætt mig við í ágætis gleraugnabúð við hlið skraddarans þegar við fórum að sækja slæðurnar hennar Sonju. Gleraugun voru af gerðinni Ray Ban og sitja ágætlega á mér og held ég að þetta hafi verið sæmileg kaup, 3500 Rs. Nú er ég ekki lengur gangandi tískuslys.

Við vorum búin að gleyma götunafninu á gistiheimilinu og okkur láðst að taka nafnspjald í afgreiðslunni - við höfðum nafnið á því og símanúmer. Tuk-tuk ökumaðurinn kannaðist ekki við nafnið og kallaði til mann sem stóð á gangstéttinni, eins og oft áður reif hann upp farsímann sinn, hringdi og leiðbeindi ökumanninum á áfangastað.

Bílstjórinn var þegar kominn á gistiheimilið og okkur því ekkert að vandbúnaði að henda dótinu í bílinn og halda af stað á ströndina - jibbí jei jei.

Það var um hálftíma akstur á strandhótelið og skemmtileg bílferð um þorp og sveitir. Bílinn staðnæmdist loks fyrir framan stórt hlið og þar fyrir innan var vegur umkringdur trjám eins og í herragarði - okkur leist strax vel á staðinn.
Það var komið myrkur þannig að við tékkuðum okkur bara inn og héldum upp í herbergi sem var hið sæmilegasta. Sonja varð fyrir gríðarmiklu sjokki þegar hún fór inn á klósett, þar lágu reyndar dauðir tveir tröllvaxnir kakkalakkar. Hún hafði einmitt verið að tala um það daginn áður að hún væri ekki búin að sjá neinn slíkan en greinilega gleymdi að segja 7,9,13 ... 21.

Við fórum niður í kvöldverð og báðum afgreiðslumanninn að fjarlægja líkin á klósettgólfinu sem þeir gerðu þrátt fyrir að setja upp undrunasvip fyrst. Þeir hafa eitrað allt með kakkalakkaeitrið og því voru þeir dauðir.

Ég prufukeyrði nýja pilsið mitt þegar við fórum í kvöldverðinn og verð ég að segja að þetta er mjög þægilegur klæðaburður. Ég skil núna vel klæðskiptinga og hef hug á að gerast slíkur þegar ég kem aftur til Íslands.

Sonju brá aftur illilega þegar hún hugðist skola hendur sínar í þvottaskálinni í matsalnum en þar var dauð eðla. Starfsmennirnir voru í einhverjum vandræðum með hvað þeir ættu að gera því þeir voru ekki vissir um að hún væri alveg dauð og enginn þeirra vildi handleika hana, hún fékk því að hvíla þar í friði.

Það rignir hérna hressilega á kvöldin og þegar við höfðum lokið okkur af við kvöldverðarborðið var komin úrhelli. Ég ákvað því að hressa mig aðeins við, fór upp í sundskýlu og fékk mér göngutúr úti í garði og niður að sjó - þvílíkt sem það var hressandi. Það var nánast komið svarta myrkur þegar ég kom að úfnum sjónum þar sem hann sendi hverja ölduna eftir annarri upp brúnleitann sandinn. Ég var berfættur og því fyrirtaks hugmynd að vaða aðeins út í myrkrinu og ausandi rigningunni til að hressa mig enn meira við. Ég sá einhverja hreyfingu í sandinum þegar ég var rétt ókominn út í sjóinn og þegar augun fóru að venjast myrkrinu betur sá ég að þetta voru stórir krabbar í hundraðatali sem skoluðust upp sandinn og tóku þar hlaup fram og til baka þangað til þeir fundu aftur sjóinn. Ég ákvað því að halda bara til baka því krabbabit í tánna var ekki það sem var ofarlega á óskalistanum mínum þessa stundina.


Sonja tók þessa mynd af mér frá svölunum þar sem ég stend í frískandi rigningunni.

Síðar um kvöldið fór Sonja á klósettið og spurði mig áður hvort ég væri viss um að það væru engir fleiri kakkalakkar. Ég svaraði því játandi, væri alveg handviss. Hún trúði mér svona rétt tæplega og gerði því stutta leit á baðherberginu og þegar hún tók upp sandalann minn sem lá á hvolfi á gólfinu leyndist þar risavaxinn kakkalakki sem tók á rás eftir gólfinu. Sonja öskraði upp, kom hlaupandi fram og sendi durtinn inn sem tókst eftir hetjulega áflog að drepa kakkalakkann að lokum - það var reyndar tvísýnt á köflum hvor hefði betur -djöfull eru þetta lífseig kvikindi. Okkur datt helst í hug að þeir væru að koma upp um niðurfallið í sturtunni svo við settum pappír fyrir það.

Um nóttina þegar ég fór á klósettið var þar kominn annar kakkalakki á sturtubotninn sem lá makindalega á bakinu og spriklaði, eitrið greinilega að stríða honum. Ég náði mér í klósettpappír og sturtaði honum niður og var ekkert að segja prinsessunni frá því enda er þetta gríðarlega viðkvæmt mál fyrir hana.

Takmark dvalar okkar á þessari strandvillu er að slappa af og þynna út bændabrúnkuna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ohhhh, góða skemmtun í strandvillunni, díses hvað ég öfunda ykkur!!1 Ég sit hérna í ilmandi límlykt í skólanum mínum, hæstánægð með að verið sé ða skipta um dúk í næsta herbergi.... omg hvað þetta er GÓÐ LYKT!!

En Jóhann ég ælt aða hrósa þér fyrir margar góðar myndir af systur minni :) En hveær ætlar þú eiginlega að raka þig? Ný trúlofaður maðurinn?

Nafnlaus sagði...

ji minn - fullt af pöddu-og skriðdýrasögum núna - oj oj oj kakkalakkar, krabbar, eðla og krókodílar... Eins og það sé ekki nóg þá fer Jóhann og ögrar öldunum eins og það sé ekki nóg um að vera?? Sammála síðasta ræðumanni - raka sig!!! Svo það verði ekki bóndabrúnka í andlitinu;)
Kv.
MCM