föstudagur, október 26, 2007

51. Þeir fiska sem draga

Að fylgjast með lífinu á ströndinni fyrri hluta dags þegar fiskurinn er dreginn í land gerir dvöl okkar hérna þess virði. Um kl. 5-6 hvern morgun er róið frá landi á þessum löngu árabátum sem eru kannski sérstakir í útliti fyrir það að vera lítlar útgáfur af víkingaskipunum fyrir utan að þessir eru segllausir.

Netunum er komið fyrir um 100 metrum frá landi í flestum tilfellum og látin liggja þar í um 2 klukkustundir. Þá er hafist handa við að draga netin að landi með kaðli og eru hátt í 50 manns sem hjálpast að við það verk sem er bæði erfitt og tímafrekt enda sjórinn úfinn og netin þung.

Á meðan þau eru dregin að landi eru menn sem synda alveg út að þeim og láta þar öllum illum látum til að smala sjófénaði inn í netin og einnig til að sjá um að þau lokist og komi í réttu lagi að landi.

Það að draga net að landi tekur hátt í klukkustund og eru menn í langri röð við það og einn á endanum sem sér um að kaðlar og net fari í haganlega hrúgu og enginn verði þar rembihnúturinn. Þeir sem eru komnir út á enda að þessum hnútamanni sleppa takinu og ganga fremst og grípa þar aftur í kaðal eða net og gengur þetta þannig hring eftir hring. Menn eru frekar rólegir í þessu en stöku sinnum er eins og elstu mennirnir gangi berserskgang þegar þeim leiðist þófið og öskra og taka almennilega á því til að hvetja þá yngri til dáða.


Netið dregið að landi.


Oft er mikil barátta fremst svo öldurnar beri ekki netið aftur á haf út.


Ég eins og tröll miðað við þessa smávöxnu menn.


Tvær raðir af dráttarmönnum.

Þegar netið loks kemur á land er það dregið haganlega upp á sandinn og opnað - marglyttur og annað drassl er skilið frá og stærstu fiskarnir teknir til hliðar sem eru oftast sorglega fáir. Algengustu fisktegundirnar eru sardínur, markíll og smokkfiskur. Afgangurinn, sem er flest seiði er safnað saman og hluti af þeim skipt bróðurlega á milli þeirra sem tóku þátt í drættinum. Afgangurinn af þessum smáfisk og stærri fiskurinn er seldur á staðnum eða tekinn í körfur og fluttur á markaðinn. Það er alltaf sami hópurinn sem vinnur saman við hvert net svo þeir eru væntanlega orðnir nokkuð samhentir.


Netið dregið upp á ströndina.


Aflinn.


Þetta fer á markaðinn.

Meðalverðmæti hvers togs er um 1500-2000 Rs sem útlegst sem 2500-3000 krónur og meðaldagslaun dráttarmanna ekki nema um 50 Rs. Eigandi netsins tekur 20% af aflanum og ræðarar fá stærri hluta en dráttarmenn. Þetta er því mjög fátækt fólk sem vinnur við þetta en er mjög vinalegt og skemmtilegt eins og flestir hérna í Indlandi.

Í dag eru 14 net á allri ströndinni en voru 40 fyrir fáeinum árum síðar - samt fer fiskur minnkandi aðallega vegna þess að sílum er ekki kastað heldur þau nýtt ásamt nokkrum samverkandi þáttum sem valda minni fisk í sjónum hérna.

Þegar við kíktum á ströndina var þriðja og síðasta kast dagsins í gangi á því neti sem er næst hótelinu. Ég var strax beðinn um að hjálpa við dráttinn sem ég að sjálfsögðu gerði enda til lítils að hafa tröllvaxinn mann við það eitt að taka myndir þarna þegar nóg er að hafa að vinnu.

Mér var boðinn hlutur eins og öðrum dráttarmönnum sem voru 3 smáfiskar en ég hafði það ekki í mér að þiggja það - hótelstjórinn stóð reyndar þarna rétt hjá og bauðst til að láta sitt fólk matreiðan fyrir okkur en þetta var frekar lítill afli og óþarfi að vera að taka frá þessum mönnum.

Við sleiktum sólina seinnihluta dagsins sem ég hef reyndar litla þolinmæði að standa í. Ég dró því Sonju niður að sjó seinnipartinn í myndatöku því ég verð að sýna bæði pilsið mitt góða sem ég hef ekki farið úr síðan ég kom hingað og líka sólgleraugun góðu. Ég nýtti tækifærið enda ekki sálu að sjá á ströndinni og hljóp ég því nakinn út í sjó - þvílík tilfinning.


Sólbaðsdýrkun.


Hádegisverður við sundlaugina.


Þarna er ég nakinn í sjónum.


Nýtt pils og sólgleraugu.


Sonja með nýja slæðu.


Enn ein sjálfsmyndin af okkur.

Dvöl okkar á ströndinni þennan daginn undir sterkri sólinni reyndist líkömum okkar um megn og brunnum við því bæði í fyrsta skiptið í ferðinni. Ég brann til ösku á öxlum og baki, var nánast fjólublár á þessum stöðum og Sonja brann á fótum en þó í minna en ég. Hún var svona "medium-rare" en ég var meira í áttina að very very well done.

Við höfðum engin smyrsl sem gera gagn eftir sólbruna, enda við viss um það að við myndum ekkki brenna því við volum vel birg af sólarvörn og Sonja yfirleitt mjög dugleg að veifa henni. Þannig að nú voru góð ráð dýr. Sonja fór því og pantaði hreinA jógurt og kvöldið fór að mestu leytið í að bera jógúrt á okkur, umgang eftir umgang ásamt því að syngja saman "Brennið þið vitar".

Sonja er ekki mikið fyrir indverskan mat - kryddið fer illa í hana og hún hefur reynt og reynt að borða hina ýmsu rétti en er nánast búin að gefast upp á því að henni muni þykja þessi matur mjög góður, þó að sumt finnist henni ágætt. Þetta hefur því verið erfitt fyrir hana matseldarlega séð enda mikið matargat og finnst gott að borða góðan mat.

Hún er því farin að hlakka til að fá slátur, uppstúf, kartöflur, grænar baunir og rauðkál a la mamma þegar hún kemur heim. Sonja spurði mig hvað ég hlakka mest til að borða þegar heim var komið. Svar mitt var: borða á Austur-Indía félaginu.

3 ummæli:

Burkni sagði...

Endilega haltu áfram að saka MIG um strípihneigð ...

Nafnlaus sagði...

Flottar myndirnar af ykkur að "pósa" á ströndinni. Þið takið ykkur vel út í indversku búningunum.Er þetta fyrir séð og heyrt eða hvað? :-)
Knús
The pink one

Nafnlaus sagði...

hihihi - gaman að koma inná bloggið ykkar aftur - eftir laaaangt hlé... merkileg atvinna hjá innfæddum!
Flott bæði tvö - Joe fullskeggjaður orðinn, í pilsi og með gleraugu! Sonja svona sæt og fín með slæðu við sundlaugarbakkann;) En ég skil þig Sonja vel með íslenska matinn! Var að borða á Austur-Indía fjélaginu um daginn og maturinn þar er fullsterkur!
Kv. MCM