þriðjudagur, október 23, 2007

48. ... fór ég suður

"Isss, pabbi minn var miklu sterkari en þú þegar hann var á þínum aldri, hann mokaði skít 5 tíma á dag!" sagði Sonja við mig þegar hún horfði á mig hnykla vöðvana fyrir framan spegilinn.
"Nú, ég veit ekki betur en ég forriti skít 8 tíma á dag! svaraði ég réttilega.


Póstkortaföndur


Einmanna markmaður - er ekki alltaf sá lélegasti settur í markið?


Hart barist um boltann.


Konur á gangi í Fort-Cochin.

Síðasta daginn í Fort Cochin ætluðum við að nýta í markaðsrölt og ná nokkrum góðum myndum. Okkur þótti rétt að byrja á kryddmarkaðnum og sjá svo til. Kryddmarkaðurinn hérna í Cochin kom okkur mjög mikið á óvart - við bjuggumst við fjölmennu markaðstorgi sem angaði af framandi jurtum.. Við byrjuðum daginn á að heimsækja hann og þurftum að taka tuk-tuk til að komast þangað. Bílstjórinn stoppaði beint fyrir framan minjagripabúð á snyrtilegri götu og sagði að við gætum byrjað að skoða í búðinni, örugglega á prósentu þar. Við héldum nú ekki og byrjuðum að ganga út götuna sem virkaði líklegri til að selja krydd. Flestar búðirnar voru með eitthvað smávegis krydd en minjagripir voru ráðandi og mætti frekar kalla götuna minjagripamarkaðinn, þó að einstaka búð væri með gott úrval af kryddi. Við sáum fljótlega að við hefðum líklegast gengið í vitlausa átt og snérum því við og gengum í hina áttina.
Fljótlega komum við að stórri minjagripabúð sem var með stórum inngangi þannig að auðvelt var að sjá úrvalið eða hluta af því frá götunni. Þessi minjagripabúð var með flottustu hluti sem við höfum séð í svona búð - risastórar styttur og allskonar dót sem flest var í stærra lagi. Við stóðumst ekki mátið að kíkja inn og fundum þar fljótlega undurfagran rugguhest úr tré með gylltum skreytingum. Við forvitnuðumst um verð og reyndist hann vera á álitlegu verði og eins sér búðin um að senda hvert sem er. Það verður tilvalið fyrir Egil Inga litla frænda minn að fara í útreiðatúra á hestinum þegar hann heimsækir okkur. Þetta var ansi freistandi - við héldum áfram að skoða.
Næst rákumst við á skemmtilegt sófaborð eða ígildi þess, gert úr stóru tré með fjórum djúpum götum. Borðið var notað af ættbálki norðarlega á Indlandi við að þreskja hveiti og því ekki aðeins flott borð heldur með sögu og annað hlutverk. Við ákváðum fljótlega að fjárfesta í því en fannst það í stærra lagi og sagði afgreiðslustúlkan okkur þá að það væri annað borð með þremur götum í annari búð sem er með sömu eigendum og kíktum við því á það - það var í einu orði sagt fullkomið og ekki í mannlegu afli að sleppa því að fjárfesta í borðinu.


Sonja skoðar borðið gaumgæfilega.

Eftir samningaviðræður við eigandann fengum við sæmilegt verð í báða hlutina ásamt endanlegu verði á flutningi til Íslands - við kláruðum málið og nú er bara að bíða þess hvort hlutirnir skili sér heim.


Það var skálað í kók með röri eftir að við höfðum gengið frá kaupunum, hefðum nú ekki haft neitt á móti lakkrísröri.

Það að skoða í þessar tvær búðir, taka ákvörðun um kaupin og ganga frá þeim tók sinn tíma og þegar við gengum út nokkrum tugum þúsundum fátækari var klukkan orðin tuttugu mínútur í eitt. Við höfðum ætlað að taka ferjuna frá eyjunni áleiðis að lestarstöðinni hálfri klukkustund áður og því orðin verulega sein enn einu sinni.

Við tékkuðum okkur út af gistiheimilinu í miklum flýti á meðan tuk-tuk bílstjórinn beið eftir okkur og fylltum litla mótorvagninn af farangrinum okkar - síðan var haldið niður á höfn. Ferjan reyndist nýfarin þegar við komum og nokkuð ljóst að við myndum ekki ná þeirri lest sem við ætluðum að taka - við ákváðum samt að fara á lestarstöðina og bíða þar eftir næstu lest, ef einhver færi sama dag, því við vorum jú komin áleiðis með allan okkar farangur.
Við tókum ferjuna og hjólavagn þegar í land var komið og vorum komin á lestarstöðina um 14.15. Við keyptum miða í næstu lest sem færi kl. 17.30 en því miður var bara 3. klassi mögulegur í lestinni svo við yrðum að gera okkur það að góðu, hann var þó allavega loftkældur vagninn okkar. Annar klassi er svona sæmilegur en sá þriðji oft skítugur með mikilli fúkkalykt sem vill sitja í fötunum og því viljum við forðast þann klassa.

Ferjan kostaði 3 krónur íslenskar á kjaft - maður verður eitthvað svo brenglaður í hausnum af verðgildi peninga þegar maður fer úr minjagripabúð þar sem maður hefur eytt tugum þúsunda og borgar síðan 3 krónur fyrir 30 mín sjóferð.


Sonja í ferjunni á fremsta bekk.


Fiskibátur.

Við gátum geymt dótið okkar á lestarstöðinni en ung mjög dökk stúlka sem var þar til afgreiðslu leist nú ekki vel á að Sonja myndi kvitta fyrir töskunum okkar. Hún rétti mér blaðið þrisvar en ég benti alltaf á Sonju sem stóð fyrir framan hana, hún gafst upp á endanum og Sonja kvittaði undir.
Við nýttum tímann þangað til lestin myndi fara í að heimsækja veitinga- og kaffihús. Eftir þessi stopp skoðaði ég sólgeraugu í um klukkustund í sæmilegri gleraugnaverslun en fann bara ein gleraugu sem ég gat hugsað mér að kaupa - verðið á þeim reyndist vera um 25þ krónur og tegundin Hugo Boss. Talandi um að hafa alltof dýran smekk - við slepptum því að kaupa gleraugu fyrir mig en Sonja fann sæmileg gleraugu á sig sem kostuðu tífalt minna en þau sem ég hafði valið mér.


Við versluðum epli fyrir lestina.


Klúbbur fyrir milljónamæringa og fátækur pöpulinn húmir fyrir neðan.

Við mættum á lestarstöðina aftur um 40 mínútum fyrir brottför, misreiknuðum eitthvað tímann og tókum því strax farangurinn úr geymslunni og þurftum að bíða fullfermd þangað til lestin færi. Enginn biðsalur var á stöðinni fyrir 3 klassa og mikið fólk þannig að við fórum inn á litla testofu við lestarteinana og hlömmuðum okkur þar niður með allt okkar hafurtask. Afgreiðslumaðurinn kom til okkar og tók pöntun okkar um tebolla og spurði hvaðan við værum og virtist hinn skemmtilegasti kall. Við sögðum honum hvert við værum að fara og vissi hann deili á lestinni og sagði að hún færi líklegast af palli 2 - við þökkuðum fyrir upplýsingarnar og hann tók þéttingsfast í hönd mína eins og ég hefði gert honum greiða. Þegar við höfðum setið sæmilega stund og sötrað te-ið kom afgreiðslumaðurinn káti og sagði að lestin okkar væri komin, væri á palli 2. Við þökkuðum aftur fyrir og fengum aftur þéttingsfast handaband og bros sem yljaði manni um hjartaræturnar.

Við burðuðumst með dótið okkar að palli tvö þar sem lestin beið og fórum þá að rýna í miðana okkar og finna vagnnúmer en reyndist erfitt að sjá það á miðanum. Það eina sem við vissum var að við hefðum keypt miða í vagni með loftræstingu en lestin var ansi löng og við stödd miðja vegju án þess að vita í hvora áttina skyldi skundað. Þar sem engir starfsmenn voru í sjónmáli þrömmuðum við í átt að aftari endanum eftir óljósum leiðbeiningum frá einum af farþega. Þegar við vorum að nálgast síðustu vagnana rennblaut af svita sáum við tvo unga stráka sem voru greinilega starfsmenn. Þeir skoðuðu miðan mjög vel og bentu síðan í hina áttina og sögðu vagn nr. 2. Við þökkuðum fyrir okkur, andvörpuðum samt og gengum hröðum skrefum í hina áttina enda núna orðið stutt í að lestin færi samkvæmt klukkunni. Þegar við vorum mætt að vagni nr. 2 var lestin við það að fara og enginn starfsmaður sjáanlegur. Við ákváðum því að fara inn í vagninn og finna út úr vandamálinu inni í lestinni því við gætum í versta falli gengið á milli vagna þangað til við fyndum okkar stað í tilverunni.
Við tókum tvö síðustu sætin í vagninum og spurðum eldri mann sem sat þar rétt hjá hvort sætin væru ekki örugglega laus. Hann sagðist ekki vita hvort þau væru upptekin, það væri blað fyrir utan útidyrnar sem við gætum athugað á. Ég stökk út og skoðaði blaðið sem þar hékk og var greinilega búið að úthluta öllum sætum í lestinni því neðst á blaðinu stóð:

"Fjöldi lausra sæta: 0".

Öll sæti voru listuð og okkar nafn hvergi sjáanlegt enda hefði ég verið hissa að sjá þau þar sem við höfðum ekki gefið upp nöfnin þegar við keyptum miðana. Auk þess leit þessi vagn nokkuð vel út miðað við 3 klassa. Ég fór því aftur inn í lestina og annar farþegi benti okkur á að tala við starfsmann sem sat í fremsta sætinu. Ég hljóp fremst í vagninn og fann starfsmanninn þar sem hann sat eins og hver annar farþégi í sætinu og rétti honum miðann. Hann skoðaði hann vel og vandlega og sagði að lokum:

"Þessi miði gildir ekki í þessa lest - hún er full!".

Ég varð hissa við að heyra þetta, hann hélt áfram og sagði að miðinn gildi í lest nr. 4578 sem færi kl. 17.30. Þar sem klukkan var alveg að verða 17.30 stukkum við út með farangurinn og ég hljóp yfir brúna sem liggur yfir teinana og á upplýsingaklefann sem var þar hinummegin. Það voru 3 að bíða þar og beið ég mjög óþolinmóður eftir að röðin kæmi að mér og varð ég ánægður þegar upplýsingafulltrúin tjáði mér að lestin færi kl. 17.30 en hún væri ekki komin, kæmi á pall 2.

Þegar ég kom til Sonju sem horfði á lestina sem við höfðum gerst boðflennur í renna frá brautarstöðinni var ég jafn sveittur og Zidane þegar hann skallaði fantinn Materazzi. Við gengum róleg niður á pallinn og í þann mund sem við komum þangað renndi rétt lest inn á stöðina - það var góð tilfinning að sjá hana því við vorum farin að sjá fyrir okkur að þurfa að finna gistingu í bænum um nóttina.

Áfangastaður okkar í þetta skiptið er nánast eins sunnarlega og hægt er að komast í Indlandi og heitir Thiruvananthapuram, kallað til styttingar Trivandrum og er í Kerala eins og Cochin.

Vagninn okkar reyndist, eins og okkur hafði grunað skítugur og illa lyktandi. Eftir að lestin var farin af stað fóru smávaxnir kakkalakkar að gera vart við sig, skríðandi upp umm bekki og veggi prinsessunni til mikillar armmæðu. Hún sat því mestan hluta þessarar 5 tíma lestarferðar á brúninn á sætinu, á annarri rasskinninni og las nokkrar línur á milli þess sem hún svipaðist áhyggjufull í allar áttir. Mitt hlutverk var að hafa gætur á bekknum hennar og drepa hvert kvikindi vogaði sér inn á hann eða of nálægt honum.

Kvennfólk.


Sonja situr á brúninni á sætinu og les og ég fylgist grant með pödduferðum í nágrenninu.

Ég notaði lestarferðina í að hlusta á tónlist og hugsa hin ýmsu mál - ekki oft sem maður fær frið í 5 klukkustundir til að gera ekkert annað en að hugsa og slaka á. Um að gera að grípa tækifærið þegar það kemur.

Mér var hugsað til hugmyndar sem Sonja kom með fyrir 1-2 vikum síðan en ég sló hana eiginlega strax út af borðinu vegna þess að hún myndi aldrei ganga upp. Ég fór að pæla í því hvort ég hefði kannski verið of fljótfær og ákvað að finna fleiri vinkla á þessari ágætu hugmynd hennar.

Það sem henni datt í hug að gera er að taka einhvern dal eða þorp á Íslandi og gera þar grænt þorp sem myndi lifa á gæðum heimsins og ferðamönnum. Í bænum yrði reynt eftir fremsta megni að hafa sem minnstan óróa og óþarfa t.d. enginn vélknúin farartæki. Notast væri við hesta, hestvagna og jafnvel reiðhjól. Þetta myndi hafa það í för með sér að þögn ætti að vera meiri en í hinu dæmigerða þorpi á Íslandi í dag. Það væri hægt að bjóða fólki að taka 10 daga hugleiðslunámskeið í byrjun dvalar rétt utan við þorpið þar sem það mætti ekki tala og yrði notast við þessa 10 daga hugleiðslunámskeið sem eru vinsæl hérna á Indlandi og í Evrópu.
Þegar fólk væri búið í þessu 10 daga hugleiðslunámskeiði myndi það dvelja í bænum og hjálpa til við að veiða fisk, heyja, vinna handverk, mjólka, slátra eða annað sem þarf að gera til að lifa af. Eldra fólk yrði kallað til sem hefur ekkert að gera í dag og það myndi kenna og leiðbeina fólki við þjóðlega hætti þannig að bæði yrðu eldra fólk nýtt og það fengi hlutverk ásamt því að kunnátta sem er að deyja út yrði nýtt og meiri líkur á varðveislu.

Það mætti taka þetta lengra og semja við íslensk stjórnvöld um að öllum Íslendingum yrði boðið að dvelja einu sinni í þorpinu sér að kostnaðarlausu, myndum jafnvel borga með bankastarfsmönnum - þjóðfélagið myndi sennilegast græða meira á því heldur en það myndi kosta því í versta falli kæmu margir út sem betri menn. Það mætti kannski hugsa sér að þetta kæmi í stað herskyldu sem kennir ungum mönnum aga í sumum löndum.

Það væri hugsandi að fá alla sem maður þekkir til að fjárfesta - arðurinn yrði sennilegast ekki verri en hjá KB, Glitni, Bakkavör o.flr. - lífshamingja og lífsfylling.

Á kvöldin mætti hugsa sér stórt ball þar sem fólk myndi enda á að berjast með vopnum og allir myndu endurfæðast að morgni. Úr spenum geitarinnar myndi endalaust renna volg, gamaldags mjólk.

Ég hugsaði líka mikið um það hvað það er erfitt fyrir mig að hrífast virkilega af þeim stöðum sem við heimsækjum. John Isaac vinur okkar Sonju og ljósmyndari sagði okkur einu sinni frá því þegar hann kom í fyrsta skiptið til Grand Canyon í Bandaríkjunum. Hann mætti þar rétt fyrir sólarupprás og beið þar með myndavélina tilbúin að fanga hana á mynd. Þegar sólin kom upp varð hann svo dolfallinn af fegurðinni að hann gat ekki annað en farið á fjórar fætur og grátið eins og lítið barn.
Hann er kannski ekki venjulegur maður en ég myndi mikið vilja hrifast svipað og hann af þeim stöðum sem við heimsækjum. Það er náttúrlega persónubundið hversu "hrifgjarn" maður er en ætli fólk af okkari kynslóð sem er búið að sjá gjörsamlega allt í sjónvarpi að falleg náttúra eða staður vekur ekki sömu hughrif og fólk af annari kynslóð? Ég veit það ekki alveg.

Mér finnst stundum að ég fljóti hálf sofandi í gegnum lífið, skorti meðvitund og sé ekki full vaknaður ennþá. Ég held að það sé eitthvað sem Yoga kennir - lifa fyrir núið því framtíð og fortíð eru ekki til, meiri meðvitund. Wake up Boo!

Mér verður líka oft hugsað til neysluhyggjunnar heima og hversu mikið brjálaði það er að þræla allt sitt líf til að sanka að sér einhverjum hlutum - ég er ekki að halda því fram að ég sé eitthvað betri en næsti maður, síður en svo. Ef við myndum taka allt þetta í burtu, alla okkar hluti og allt sem við stöndum fyrir hvað væri þá eftir? Myndum við þekkja okkur sjálf eða væri kannski ekkert eftir?

Ég er íbúð í miðbænum, Grand Vitara, Macintosh tölva, stórt sjónvarp, háskólagráða, vinna í hugbúnaðarfyrirtæki, espressokanna og minjagripir. Ég er neytandi.

Ég sá litla pöddu á gólfinu í lestinni sem ráfaði stefnulaust um gólfið ... ég drap hana.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ha ha ha ha, Jóhann mér finnst nú frekar sorglegt að þú sklulir vinna við skít alla daga!! En nokkuð gott samt :)

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ
Alltaf gaman að sjá og heyra hvað þið hafið fyrir stafni. Borðið er alveg spes og verður áreiðanlega mjög flott þegar það verður komið á Leifsgötuna :-)
Það eru ekki margir með svona sófaborð.
Ég get nú ekki séð neina bændabrúnku á ykkur sem þið nefnið í blogginu. En vonandi fáið þið nú svolítinn lit á ykkur þarna á ströndinni.
Kveðjur og knús
Mamma bleika og pabbi blái

Burkni sagði...

Vantar ekki bæjarkallara í friðarþorpið?

Nafnlaus sagði...

Sæl elskurnar mínar
Mér líst óskaplega vel á þessa hugmynd um þorp þar sem ríkir algjör friður og ró, það væri dásamlegt fyrir nútíma stress fólk að dvelja á slíkum stað.
Verða engin tígrisdýr á vegi ykkar, það er víst þó nokkuð um þau í fjöllunum.
Fylgist spennt með öllu ykkar skemmtilega basli. Held maður fái algjöra ferðabakteríu eftir svona ferðalag. Gangi ykkur vel, kveðja frá Nínu

Hjörleifur sagði...

Hvaða helvítis kommúnistakaftæði er þetta, eins og það yrði eitthvað gaman að vera fastur í einhverju þorpi á Íslandi í roki og rigningu og á veturna bara snjór og kuldi og myrkur og húsin í niðurníðslu. Þetta draumaþorp sem þú ert að tala um er til og heitir Krummaskuð og er út á landi og þar er hundleiðinlegt að búa.

Held að það væri þá betra að kaupa sér bara sumarbústað í Grímsnesinu.

Nafnlaus sagði...

Byrjar vel þessi pistill hehehe pabbi minn var miklu...
Enn leiðinlegt að missa af lestinni:( Skemmtileg hugmynd og neysluhyggjan er svo mikil hérna - en sammála Hjörleifi - kannski eruð þið orðin alltof góðu vön þarna úti - hér er slydda, rok, rigning, haglél, snjókoma... og hálka á heiðinni í morgun! Okkar hugleiðingar voru um hvar við ættum að kaupa nagladekkin! Þið verðið að fara koma heim;)
Kv.
MCM