mánudagur, október 22, 2007

47. Hér er Pálmi, um Pálma, frá Pálma til Pálmafrumskógarins

Heilsan var mun betri þegar við vöknuðum eldsnemma um morguninn. Við tókum því sameiginlega ákvörðun um að fara í bátsferðina um hin svokölluðu "Backwaters Kerala" sem við höfðum pantað daginn áður, áður en ég drakk frá mér alla heilsu með aðeins tveimur bjórum.

Ég lenti í minniháttar slysi þegar ég gekk berfættur út af baðherberginu en misfella er í gólfinu þannig að baðherbergisgólfið er um 5 cm neðar en gólfið í herberginu, engin karmur er aðeins þessi misfella og allt flísalagt. Ég var búinn að gleyma þessari ágætu byggingatækni og sparkaði í misfelluna með ilinni og kom sæmilegur skurður á ilina s við rætur stóru tánar. Það voru ákveðin vonbrigði þar sem ég var búinn að sjá fyrir mér að busla í vatninu í bátsferðinni.

Frá gistiheimilinu var um klukkustundar akstur að bátnum sem yrði fararkostur okkar um daginn. Þar tók á móti okkur innfæddur maður sem er einn sá grennsti maður sem ég hef nokkurntíman séð og mjög dökkur á hörund. Hann var mjög hávaxinn og fæturnir eins og títuprjónar, við vorum viss um að hann gengi ekki heill til skógar en hann reyndist hinn besti maður og skemmtilegur í þokkabót.

Fararskjóturinn var eftir hefðbundnu kerölsku sniði með þaki úr greinum, tveir menn sáu um að ýta bátnum eftir sýkjunum með löngum bambusprikum, já ýta en ekki róa.

Það var friðsælt að renna mjúklega eftir þröngum síkjunum með pálmatré allt í kring ásamt öðrum gróðri og ekkert sem heyrðist nema hljóð í fuglum sem flugu allt í kring ásamt fiðrildum og drekaflugum. Einstaka vatnasnákur gladdi augað með fagurlegum hreyfingum sínum þegar þeir syntu á miklum hraða á vatnsborðinu.


Báturinn okkar.


Falleg pálmatré og bátur.


Sæmileg umferð þarna.


Mikið um að vera.


Notast við bambus til að ýta bátnum áfram. Prikin eru mjög löng og þeir stinga þeim í botninn og ýta svo.

Dýralífið færðist aðeins of nálagt þegar ég sat í mestu makindum í sæti mínu og fékk skell í brjóstið - þegar ég leit niður var þar sæmilega stór eðla sem hafði greinilega verið eitthvað að flækjufótast í þakinu fyrir ofan mig, skrikað fótur og dottið beint á mig. Hún stóð þar hreyfingaleys þangað til ég notaðist við myndavélina og ætlaði að skutla henni í vatnið en þá hljóp hún aftur á bakið á mér - miklu meiri friður þar fyrir taugaveikluðum túristanum. Ég makaði því bakinu í stólinn af miklum móð eins og ég væri kominn með krampakast - þá stakk eðlan af vonandi til að hrella annan túrista.

Við fórum í land á tveimur stöðum fyrir hádegi. Í það fyrra sáum við kalsíum búið til í litlum kofa. Við gengum framhjá stórum hrúgum af kræklingaskeljum og var úldin fiskilyktin megn í kæfandi hitanum. Þarna sýndu þeir hvernig þeir raða haganlega kókosskeljum í botninn á gryfjunni og þar ofaná kolum - kræklingaskeljunum er síðan mokað þar ofaná áður en það er kveikt í öllu. Úr þessu verður til kalsíum svona án þess að fara nánar í það.


Kolum blandað saman við kræklingaskeljar.

Í næsta stoppi voru tvær konur að búa til kaðla úr innviðum kókosskelja sem síðan eru nýttir af öðrum, t.d. í teppagerð o.flr. Skeljarnar eru geymdar á botni síkis í nokkra mánuði til að láta þræðina verða gegnsósa af vatni þannig að þeir verði ekki jafn stamir og verða þeir sterkari við það. Konurnar ganga afturábak og draga úr kókoshnetunum þærði með ákveðnum snúningi - böndin eru þar á eftir rúlluð saman. Þetta virkaði mjög einfalt en það þarf lagni til að gera þetta rétt. Við keyptum af gömlu konunni heimagerða sleif gerða úr svokölluðu "Jackfruit" tré.


Konurnar draga þræði úr körfum sínum fullum af innviðum pálmahnetna.


Þessi óskup sæta eðla var þarna að fá sér hádegissnarl.

Ræðararnir og leiðsögumaðurinn elduðu fyrir okkur hefðbundna Keralska máltíð í hádeginu og var hún snædd undir frumstæðu skýli. Það var notast við lauf bananatrés fyrir diska - máltíðin var hin ljúfengasta og ræðurunum greinilega margt til lista lagt.


Sveittir túristar gæða sér á hinum ágætasta hádegismat.

Klósettið var inni í skóginum og gerðist ég svo djarfur að heimsækja það. Ég var fyrstur í hópnum sem fór á það enda fljótur að spæna í mig þessa ljúfengu máltíð. Klósettið var tæplega tveggja metra hát skýli sem maður þurfti að ganga í hálfhring um til að nálgast klósettið. Það sennilegast verið langt síðan einhver fór þarna inn því ég þurfti að vaða stórgerðan köngulóavef við innganginn og var það óþægilegt enda á ég ekki skap með köngulóm. Eins er þetta í miðjum hitabeltisfrumskógi og pálma- og bananatré allt í kring sem ég gæti trúað að væri upplagðar aðstæður til að risaköngulær gætu lifað góðu lífi. Ég var því með hvern vöðva sperrtan þegar ég gekk þarna að klósettinu og sprændi á settið tilbúin að öskra eins og Flanders ef einmanna ekkja, banana-, berserkja-, fugla- eða tröllakóngulær eða hvað þetta drassl heitir myndi pompa á hausinn á mér eða síga úr köngulóakaðli niður í mannaleit. Sem betur fer gerðist ekkert slíkt og ég var ánægður að vera á lífið þegar ég kom aftur að matarborðinu og gat ekki mælt með þessu klósetti fyrir prinsessuna.

Það var að koma svipað slen yfir okkur eins og daginn áður - loftslagið greinilega að stríða okkur. Við Sonja fórum því beint í bátinn aftur eftir matinn og náðum að leggja okkur í stólunum sem er merkilegt því ég get nánast aldrei sofnað sitjandi. Þegar haldið var stað aftur var farið meira um stór vötn og því minna að sjá, allavega lítið nýtt. Við sváfum því bæði af okkur fyrstu tvær klukkustundirnar af siglingunni eftir matinn, það var mjög ljúfur svefn.

Síðasti kafli ferðarinnar var á breiðu síki þar sem mikið af verkamönnum voru að afferma litla báta fulla af sandi. Það var fróðlegt að sjá aðfarir þeirra við að afferma bátana og þess á milli slappaf í vatninu og kæla sig niður. Virðist vera mikil uppbygging á þessari eyju því bátarnir voru fullfermdir af sandi í tugatali.


Verkamenn kæla sig niður í vatninu.

Við vorum enn þreytt þegar við gengum frá borði og stauluðumst inn í rútuna þar sem við dottuðum þangað til á gistiheimilið var aftur komið. Sumir ferðafélaganna voru indverskir og þar á meðal einn frá Hyperbad (borg hér nokkuð sunnarlega inn í miðju landi) sem sagðist hann sjálfur í virkilegum vandræðum með að höndla loftslagið í Cochin og skildi vel að við værum þreytt. Hann tók í hönd mína þegar hann fór úr rútunni og óskaði okkur góðs gengis með þeim orðum að loftið myndi venjast.


Kona þvær þvott rétt við staðinn sem við gengum frá borði.

Við hentum dótinu inn í herbergið okkar og gengum í bæinn til að fá okkur að borða áður en við færum að sofa. Við höfum sennilegast verið mjög þreytuleg því einn sölumaðurinn fyrir utan minjagripabúð bauð okkur ekki inn eins og þeir er vanir heldur sagði: "Ég sé að þið eruð þreytt, þið komið kannski síðar í búðina mína?"

Við fórum á sama veitingahús og kvöldið áður, "Rooftop Restaurant" því okkur hafði litist ágætlega á hann og ekki náð að borða neitt að ráði kvöldið áður.
Þegar ég skar í einn bitann af kjúklingnum mínum var hann blóðugur eins og rare nautakjöt, frekar ólystugt. Ég kallaði því þjóninn til mín, sagði honum að þetta gæti ég því miður ekki borðað eins kurteislega og ég gat og brosti. Sonja er alltaf að minna mig á að brosa meira því það vill stundum líta út eins og ég sé virkilega fúll og þá getur maður nú bara fengið úthræktan mat. Hann varð fyrst frekar vandræðalegur og sagði síðan að kokkurinn væri veikur og því ekki vitað almennilega hvað hann væri að gera. Hann sagði að þeir myndu gera nýjan rétt sem þeir stóðu við. Okkur var samt hugsað til þess að veikur kokkur væri að eiga við matinn okkar. Þeir lokuðu veitingahúsinu stuttu síðar og biðu eftir að við færum út.

Við erum í bláendanum á rigningartímanum hérna og því rignir eins og helt sé úr fötu þegar sólin sest. Það var því grenjandi rigning þegar við fórum út af annars ágætum veitingastaðnum og því keyptum okkur regnhlíf fyrir utan, fötin hefðu aldrei þornað í rakanum.

Við gengum saman undir regnhlífinni í rigningunni eftir auðum, blautum strætum. Er þetta ekki það sem þið kallið rómantík?

3 ummæli:

Hjörleifur sagði...

Það er líka rigning hér , en það er bara ekkert rómantískt við hana og maður liti út eins og hálfviti með regnhlíf hérna í þessu rokrassgati.

Nafnlaus sagði...

Það er ágætt að heyra að það er ekki allaf bongóblíða hehehe myndirnar sýna alltaf svo fallegt og stillt veður og ALLT svo rómantískt við ykkur;)

eyjo sagði...

Mikið rosalega er Hyperbad flott nafn á borg!