mánudagur, október 22, 2007

46. Óbærilegur hiti tilverunnar

Cochin er í fylkinu Kerala sem er alveg syðst á Indlandi og því ágætis tilbreyting frá fjallasvæðunum sem við höfum dvalið mest í hingað til.

Við gistum á litlu gistiheimili sem rekið er af systrum í húsinu sem þær ólust upp í en þær breyttu því fyrir um 8 árum og búa nú í nýju húsi bakatil. Þetta er nokkuð heimilislegt því maður þarf að fara úr skónum, bara eitt sjónvarpi í setustofunni ogv við sem gistum uppi fórum í gegnum eldhúsið. Gistiheimilið er í þorpi sem heitir Fort Cochin og er raun hluti af borginni Cochin en hún byggist upp af meginlandinu og nokkrum litlum eyjum. Þorpið er í mjög portúgölskum stíl og er allt líf hérna í mjög rólegum og þægilegum gír.


Gistiheimilið sem er mjög miðsvæðis. Þessi bíll af gerðinni Nova Ambassador en ég held að nærri helmingur bifreiða í Cochin séu eins og þessi.


Sonja í herberginu okkar.


Sjálfsmynd.

Ég byrjaði morguninn á að snyrta yfirvaraskeggið á mér því það var orðið sítt enda hef ég ekki snyrt það síðan það fór að vaxa af miklum móð í byrjun ferðar. Ég hef nánast ekkert getað borðað nema mjólkurhristinga með röri síðustu daga því skeggið vill taka góðan toll af öllum mat. Ég hef einnig greint óvenju mikinn fjölda af rasshára og grunar að yfirvaraskeggið hafi legið upp í munn, í gegnum allt kerfið og standi út að aftan.

Við tókum strax eftir því þegar við gengum út að hitinn og rakinn hérna er með algjörum ólíkindum. Maður verður rennblautur af svita og raka þegar maður er rétt kominn út og erfitt að athafna sig í þessu loftslagi. Rakinn er slíkur að himininn er hvítur allan daginn, mosi er utaná húsum og rakalykt er allstaðar og þá aðallega inni í húsum. Ég hef ekki rakatöluna á hreinu en grunar að hann sé rúmlega 100%.

Allt er í hægagangi í bænum, hann mjög róandi og þægilegur ásamt því að vera ákaflega fallegur og þægilegt að ganga um. Fólk er vinalegt og flestir heilsa manni á götunum brosandi - börn spila knattspyrnu og krikket á opnum svæðum sem eru ansi algeng og götulífið skemmtilegt. Þessi hluti Cochin er mjög gamall og hefur verið mjög setinn af ýmsum í gegnum tíðina, síðast Portúgölum. Þetta er því mikill kokkteill af byggingarstílum, trúarbrögðum og tungumálum þót í dag séu kristnir í miklum meirihluta. Húsin eru flest mjög gömul og því lágreist, sjaldnast meira en tvær hæði. Það eru að sjálfsögðu þó nokkrar minjagripabúðir en við héldum okkur fjarri þeim þar sem nóg er komið og ekki var að sjá að mikið nýtt væri í boði hér. Sölumennirni reyna að sjálfsögðu að ná okkur inn en eru satt að segja ekki ágengir, meira að segja tuk-tuk bílstjórarnir spyrja mann bara svona 3x hvort maður vilji far.

Ég fékk kúrekaveikina, eins og ég kýs að kalla hana, eftir að við höfðum gengið góða stund í bænum. Sú veiki lýsir sér þannig að raki á innanverðum lærum veldur því að þegar lærin nuddast saman við göngu svo að lokum verður skinnið verður aumt svo manni verður erfitt um gang. Það veldur síðan því að maður gengur eins og mjög hjólbeinóttur kúreki þannig að lærin snertist ekki og er erfitt að halda einhverri reisn í þessu ástandi.

Við spurðumst fyrir í nokkrum apótekum að malaríulyfinu Malarone en gáfumst endanlega upp eftir að síðasti apótekarinn hló og hristi hausinn þegar við spurðum hann, nú var allt kapp lagt á að reyna fá þau send að heiman.

Við sjóinn er mjög gaman að fylgjast með mönnum veiða fisk með stærstu veiðistöng sem ég hef séð ef ég má kalla þetta því orði. Þetta er mikil grind með lóð á öðrum endanum og net strengt yfir hinn endann. Mennirnir láta netið síga niður í sjóinn og eftir góða stund toga með köðum netunum upp úr sjónum með góðri hjálp frá lóðunum. Þetta kallast víst kínversk net en ætli mynd skýri þetta ekki miklu betur:



Aflinn í hverju togi var af skornum skammti. Þetta voru flest allt mjög litlir fiskar en einstaka stærri fiskur slæddist með. Það var fróðlegt að fylgjast með þessum óvenjulegu veiðiaðferðum og skoða hinar ýmsu fisktegundir sem römbuðu í netið, gott ef við sáum ekki bara Nemo.


Ég sýni þeim hvernig íslendingar veiða fisk.


Einn af "fiskimönnunum".


Þessi fiskur er lifandi og stendur hreyfingalaus - talandi um að taka dauðanum með mikilli reisn.


"Fiskimaðurinn"" var kominn í erótískar hugleiðingar.

Það er mjög erfitt að finna matsölustaði sem framreiða bjór í bæjum í Indlandi - greinilega erfitt eða dýrt að fá vínveitingaleyfi. Við gengum framhjá flottum veitingastað sem hét Restaurant & Bar og þar sem ég hafði ekki smakkað bjór lengi og við bæði þreytt eftir göngu í hitanum ákváðum við að kíkja inn. Ég fékk mér þar bjór af Kingfisher gerð og Sonja gos. Þegar ég var að vera búinn með bjórinn fór Sonja á netið í næsta húsi því hún þurfti að sinna malaríumálum svo ég pantaði mér annan bjór. Bjórinn er 650 ml þannig að þetta var töluvert magn fyrir þreyttan mann. Þar sem ég var einn inni á þessum glæsilega veitingastað setti ég upp iPodinn og hlustaði á tónlist. Það var frekar skrítið að sitja þarna einn inni, sötra bjór og hlusta á tónlist með fimm þjóna í kringum mig að fylgjast með þegar ég myndi smella fingrum og biðja um eitthvað meira.

Þegar Sonja kom aftur héldum við á Kathakali sýningu. Katchacali er ein af skrautfjöðrum héraðsins og er dans sem er jafngamall Shakespeare þótt sumir hlutar séu frá 2 öld. Fyrstu tveir tímarnir fara í það að listamennirnir sitja á sviðinu, mála sig og hvern annan og er fólki frjálst að mæta áður en sýningin hefst og fylgjast með þessu. Síðan byrjar sjálf sýningin og er byrjað á að kynna hvernig menn tjá sig með svipbrigðum og látbragði t.d. segja "Já", "Nei", "Farðu út", "Api" o.s.frv. Allt er þetta gert með gríðarlega sterkum svipbrigðum og ofleik svo þetta verður hin ágætasta skemmtun. Það mætti kannski líkja þessu við leik í gömlu þöglu myndunum frá Hollywood bara svona 100x meira ýktur leikur.
Hljóðfæraleikarar leika undir og söngvari syngur á máli þeirra þegar við á. Á hverju kvöldi eru mismunandi söguþræðir, allt aldagamlar sögur þannig að þetta er allt mjög þjóðlegt og gott að það sé haldið í hefðir. Sýningin sjálf fór fram í stórum bambuskofa fylltum kertum og reykelsum þannig að stemmingin þarna inni var hin ágætasta.


Setið í rólegheitum á sviðinu og sett upp andlitið.


Svipuð stemming hérna.


Held hann sé að leika apa á þessari mynd.


Aðalhetjan sem drap þann vonda í lokin. Góðu kallarnir eru alltaf grænir og þeir vondu eru rauðir en þeir gulu er svona mitt á milli.


Sjáið hvað hann er vondur!

Rétt eftir að sýningin sjálf hófst helltist þreytan yfir mig og ég sá ekki hvernig ég gæti haldið út sýninguna í rúmlega eina og hálfa klukkustund í viðbót. Sonja sá sem betur fer um nánast alla myndatöku enda hefur hún afskaplega gaman af því að taka myndir á svona sýningum og náði hún að mínu mati nokkrum frábærum myndum við erfiðar aðstæður. Ég barðist um á hæl og hnakka við að halda mér í stólnum og taldi mínúturnar. Í lok sýningarinnar minnkaði aðeins þreytan sem sennilega bjargaði mér alveg - ég varð gríðarlega ánægður þegar sýningin kláraðist og klappaði sennilega manna hæst og ég er ekki frá því að ég hafi kallað nokkur húrra hróp af einskæri ánægju að ekkert væri framundan annað en að borða smávegis og síðan unaðslegt rúmið í loftkældu herberginu. Þess ber þó að geta að við vorum bara að horfa á sýnishorn af þessum dansi því hefðbundin sýning er 7-9 klst, fer allt eftir því hvaða saga er sögð. Það hlýtur að vera gríðarlega erfitt fyrir bæði hljóðfæraleikara, söngvara og dansara að halda uppi sýningu svo lengi, okkur grunar helst að það hljóti að vera nokkur góð hlé innifalinn í þessum 9 klst.

Við þurftum að kíkja aftur á netið eftir sýninguna því við vorum enn að redda heimilisfangi næsta hótels svo hægt væri að senda malaríulyf að heiman en það gekk mjög mjög erfiðlega að fá heimilisfangið. Líðan mín var svipuð nú og í rútunni frá Manali fyrr í ferðinni þar sem ég sat við hlið Sonju eins og Andy Pipkin og nánast slefaði af þreytu með hausverk og vott af ógleði, engin vildi missa af partýi ársins í aumingjans haus mínum og líkama.
Ég gafst upp, fór upp á veitingahúsið fyrir ofan og Sonja sagðist koma að vörmu spori.
Ég hafði enga lyst en var svangur og vissi að ég yrði að borða eitthvað þannig að ég pantaði súpu fyrir okkur bæði og kalda Pepsi. Sonja stóð við stóru orðin, kom skömmu síðar og súpan rétt á eftir henni. Þá var ég orðin alveg ónýtur - ógleðin hafði magnast upp, hausverkurinn gaf henni ekkert eftir og saman myndaði þetta óþægilegan kokteil í líkama mínum. Sennilega hef ég ekki drukkið nægilegt um daginn, fyrir utan bjórinn sem var sennilegast allt of mikill miðað við aðstæðurnar og ég því orðinn þunnur og kannski kominn með sólsting.
Ég borðaði um 27% af minni súpu en Sonja át sína með bestu lyst og við drifum okkur heim á hótel sem var um 15 mínútna gangur.

Þegar á hótelið var komið ældi ég og Sonja var orðin mjög áhyggjufull um að ég væri kominn með malaríu enda við alveg óvarin syðst á Indlandi og ég komin með 1-2 bit á handlegginn.

Ég fór að sofa hugsandi um að ég hefði kannski átt að drekka Gin & Tonic í staðinn fyrir bjórinn.

2 ummæli:

Burkni sagði...

Það hefðu víst þurft að vera 2-3 baðkör af G&T til að verjast malaríu af einhverju viti svo það er örugglega réttast að bíða bara eftir hraðsendingunni í lofttæmdu herbergi.

Nafnlaus sagði...

hehehe - rassháraaukning og kúrekaveiki, svo malaríuveiki ofan á allt saman!
Aldeilis mikið á ykkur lagt!
Kv.
MCM