"Good."
"Where you from?"
"Iceland."
"Oh, very cold?"
"A little bit."
"How long you stay in India?"
"Two months."
"Your first time here?"
"Yes."
"Are you enjoying your stay here?"
"Yes, very much."
"Have you done any shopping?"
"Yes, but I don't do much shopping."
"There is a goverment store just over there with the lowest prices."
"I'm not going shopping."
"You must go today - tomorrow closed!"
"No."
"Yes, I'll show you!"
"No, thank you."
"I'ts just over there! Lowest prices!"
"No thank you."
"Lowest prices."
Þó við skrifum kannski frekar mikið um það sem fer úrskeiðis eða hvað okkur líkar illa við þá erum við virkilega hrifin af Indlandi - landið og íbúar þess hafa komið okkur á óvart og við hrifumst með í hrærigraut mannlífs, náttúru og menningu.
Nánast hvert sem við höfum farið hefur okkur verið tekið með opnum örmum af fólki og staðirnir bæði fallegir og skemmtilegir sem við höfum heimsótt ... fyrir utan einn.
Delí er sennilegast dæmigerð stórborg á Indlandi. Maður veit ekki alveg hvort maður eigi að elska borgina og allt það sem hún stendur fyrir eða hata hana, ef hægt er að nota slík orð um staði. Við höfum bæði upplifað skemmtilega hluti hérna og miður góða. Við höfum ekki dvalið mikið í borginni þó að við höfum komið í hana tvisvar í ferðalaginu og eigum eftir að koma a.m.k. einu sinni ef ekki oftar hingað - það er því erfitt að dæma hana af þessum stuttu kynnum en af fyrstu kynnum af borginni er hún mjög erfið þó eflaust hafi hún upp á fleiri góða hluti að bjóða heldur en slæma.
Fyrri hluti dagsins fór í að ganga slatta í Nýju Delí á því svæði sem hótelið er og leita að ljósmyndabúð því við þurftum nokkra smáhluti í tengslum við myndavélarnar.
Á meðan við gengum þar sem flottustu búðir borgarinnar eru staðsettar átti samtalið sér að ofan stað við götugabbara og það ekki einu sinni heldur um svona fimmtán sinnum á innan við tveimur klukkustundum. Menn koma að okkur og byrja að spjalla hvaðan við séum o.s.fv og þeir virðast oft vera ágætis menn því erfitt að svara ekki eða segja strax að maður hafi ekki áhuga því þetta gætu verið menn með góðum huga og þá fær maður samviskubit að hafa verið með dónaskap. Eftir að þetta hafði gerst hvað eftir annað ákváðum við að prófa að svara þeim bara á íslensku og láta eins og við kynnum ekki ensku. Það gekk sæmilega en menn voru oft fjári þrjóskir.
Á öðrum stað voru það vasaklútar sem otað var að okkur á svona 1 mín fresti, nokkuð ljóst að þeir eru ómissandi. Þegar ég var orðinn pirraður á þessu var ég að spá í að taka bara við einum vasaklút, segja "Thank you!" og ganga hratt í burtu.
Við höfðum séð um morguninn á netinu að malaríulyfið Malarone sem öll okkar plön gengu útfrá að kaupa í Delí áður en við myndum halda suður er ekki fáanlegt í Indlandi. Sérlegur aðstoðarmaður okkar heim á Íslandi fékk því það verkefni að kaupa lyfið og senda það með hraðflutningsþjónustu á hótel á suður Indlandi sem við hugðumst gista á.
Eftir þessa erfiðu gönguferð, svikarhrappar á hverju horni og ekkert gekk að finna neitt af því sem okkur vantaði, var sérlega ljúft að fara inn á vestrænt loftkælt kaffihús að fá sér espresso og ískaffi. Sonja fékk sér ljúffenga súkkulaðiköku. Þjóninum fannst mjög fyndið að heyra nafn Sonju eins og mörgum öðrum og sagði Sonja Gandhi hlægjandi þegar hann gekk í burtun með pöntun okkar.
Fjórir Indverjar sátu saman við borð og töluðu þeir allir á sama tíma í GSM síma - fyndið að fara saman á kaffihús og hver einn og einasti blaðrar í síma.
Farsímamarkaðurinn hérna er mjög harður og greinilega eftir miklu að slægjast því flestar auglýsingar hérna eru fyrir farsíma og þeir frekar algengir. Við höfum séð nokkrum sinnum í litlum búðum að menn hafa mynd af sér í borðinu eða á veggnum fyrir aftan t.d. einhverstaðar fyrir framan merkilegan stað eða fallega náttúru og er algeng að menn séu að tala í símann eða halda áberandi á símanum á myndunum - þetta er greinilega stöðutákn.
Þegar við vorum uppi í fjöllunum gengum við í gegnum mjög sorglegt þorp vegagerðamanna sem samanstóð (ef það er hægt að segja að það hafi staðið) af bárujárnskofum klastrað saman úr spýtnabraki. Einn strákurinn sem bjó þarna spjallaði aðeins við okkur og þegar við kvöddum hann tók hann mynd af Sonju með símanum sínum sem var Nokia af nýjustu og flottustu gerð, mun flottari en okkar símar til samans. Skrítið að búa við þessar aðstæður en geta samt keypt sér síma sem kostar formúgur fyrir innfædda því símarnir kosta ekki mikið minna hérna heldur en heima, þó nauðsynjavörur kosti margfallt minna. Gæti líka verið að þetta hafi verið "fell-of-the-truck" sími en ég er ekki viss því við höfum séð þetta áður.
Í gömlu Delí, nálagt rauða virkinu eru margar litlar ljósmyndabúðir og því ákváðum við að kíkja þangað eftir minniskorti, en okkur vantaði eiginlega 2gb minniskort. Við komum einnig á svipaðar slóðir þegar við komum hérna síðast en fórum þá snemma inn í litlu hliðargöturnar sem eru skemmtilegar. Núna vorum við meira á aðalgötunum og þvílík geðveiki sem það er að ganga þarna um. Hávaði, skitalykt, betlarar, gabbarar, sölumenn, troðningur, hiti og annað geta gert mann sturlaðan og ekki fyrir hvern sem er að þvælast þarna í erindagjörðum nema maður sé vanur borginni. Eftir að hafa skoðað í búðirnar í um klukkustund vorum við alveg búin með allt eldsneyti og fengum sterka þörf til að koma okkur í burtu. Við ákváðum samt að skoða Jama Masjid sem er stærsta moska Indlands og var í göngufæris. Breið göngugata liggur upp að moskunni sem hefur greinilega átt betri daga því gosbrunnarnir eru uppþornaðir og sölumenn með ýmsan varning hafa komið sér fyrir þar eins og á flestum mögulegum stöðum í kring. Það var mánudagur og okkur grunaði að það væri óvenju mikið af fólki enda tók þessi stutti göngutúr ágætan tíma. Við sjálfan innganginn eru betlararnir í röðum, búnir að raða sér vísindalega upp til að ná sem flestum rúbíum frá guðhræddu fólki sem er að fara að biðja um syndaaflausn í moskunni. Þeir geta verið ágengir og var einn gamall grindhoraður maður, sem hefur líklegast verið með holdsveiki eða eitthvað slíkt, mjög ágengur og greip þéttingsfast í upphandlegg minn og einnig í Sonju svo við þurftum að brjótast aðeins um til að komast undan dauðataki hans. Þegar við vorum komin inn um hliðið sáum við að öryggisverðir voru farnir að skipta sér af honum.
Upp tröppurnar að moskunni sitja betlarar eins og heiðursverðir alla leið upp og erfitt að þykjast ekki sjá þá - ef maður myndi gefa einum myndu hinir eflaust stökkva á mann eins og maður hafi skorað sigurmarkið á HM.

Göngugatan að moskunni og öryggishliðið.

Heiðursvörður upp tröppurnar.

Maður sér margt sorglegt þarna.

Maðurinn með hvíta hattinn varð brjálaður þegar ég tók þessa og fleiri myndir.

Viðgerðaverkstæði.

Full rúta.
Svæðið í kringum moskuna er mjög skítugt og mættu eflaust líkja því við ruslahauga á köflum - það var því gott að komast í burtu enda okkur farið að líða eins og manni sem er að missa vitið í bíómynd þegar ekkert nema óhljóð og fólk að koma upp í andlitið á manni - þið hafið sennilegast séð þetta.
Það var því velkomið að við máttum bíða eftir leigubílnum út á flugvöll á lokuðu veitingahúsi hótelsins þar sem var algjör þögn og friður ríkti. Við vorum reyndar ekki alveg viss um að við myndum sjá bílinn því það var nú ekki í beint góðu sem við kvöddum djöfulinn daginn áður.
Bíllinn birtist loks um hálfsex, þá var ein og hálf klukkustund í flug og hálftímaakstur út á völl. Okkur til mikillar furðu afhenti bílstjórinn okkur flugmiðana áður en við lögðum af stað, hélt að þeir vildu ekki láta okkur fá miðann því það væri kannski rétt peningaupphæð á honum og við kæmumst að því að við hefðum greitt allt of mikið fyrir miðana - en það reyndist ekki vera nein upphæð á þeim.
Eftir að hafa beðið við skráningarborðið í dágóðan tíma gátum við loks hent inn töskunum og gengið í gegnum öryggishliðið en þar reyndist vera svipuð röð. Það var vandlega leitað á hverjum farþega og öryggið í allra mesta lagi. Sonja mundi eftir því í röðinni að hún var með vasahníf af svissneskri gerð í pokanum og vorum við spennt að sjá viðbrögð þeirra við vopnasmygli okkar.
Pokinn fór í gegnum gegnumlýsingartækið og eftir það bað öryggisvörðurinn okkur um að taka tölvuna úr pokanum og síðan fór hún aftur í gegn og fylgdust þeir vel með henni á skjánum. Við fengum hana afhenta umyrðalaust og það jók nú ekki trú okkar á örygginu.
Á meðan við biðum eftir að flugvélin færi sem tók nú ekki langan tíma barðist ég við tímaritasjálfsala. Þegar ég var komin upp í 70 RS, af 80, þá tók sjálfsalinn ekki við síðasta seðilinn. Ég snéri honum á alla mögulega og ómögulega vegu og slétti úr honum eins og ég gat. Þrír Indverjar sem fylgdust með aðförum mínum komu til mín og réttu mér nýjan 10 Rs seðil sem ég prófaði og virkaði hann vel. Ég stimplaði því inn B3 sem var kóðinn fyrir Time en þá kom Err á skjáinn sem gaf til kynna að eitthvað stórkostlegt væri að þessum sjálfsala. Eftir að ég hafði prófað um þrisvar að setja inn kóðann og allir þrír Indverjarnir einnig og ungur sonur eins þeirra líka var okkur ljóst að blaðið kæmi ekki út. Einn af þeim hringdi því í þjónustunúmerið úr síma sínum og sagði að viðgerðamaður kæmi innan tíðar, ég þakkaði fyrir mig og þeir kvöddu. Indverjar eru mjög hjálpsamir og þetta er ekki í fyrsta skiptið sem fólk af götunni hringir úr eigin símum fyrir okkur.
Við gengum inn í flugvélina stuttu síðar með handfarangur okkar sem innihélt Time blaðið þrjóska og komum að sætum okkar í flugvélinni uppteknum. Indverjar virðast ekki pæla mikið í því hvaða sætanúmer þeir hafa á miðum sínum því það var full vinna hjá flugfreyjum að reka menn úr sætum og vísa þeim á rétt sæti fyrir flugtak. Þetta minnti mig á þegar beljur voru að koma í fjós í sveitinni í gamla dag og sumar beljurnar gátu aldrei ratað í réttan bás nema vera teymdar þangað. Inrdverjar eru heldur ekki mjög góðir í að mynda raðir eða virða þær. Yfirleitt gildir það bara að troða sér áfram og það er ekki einu sinni nóg að vera kominn alveg að t.d. sölulúgunni og vera klára sín viðskipti, þeir troða sér/sínu framfyrir þig og ná mjög oft að draga athyglina til sín svo maður þarf að bíða.
Þegar vélin var að taka á loft fór allt í einu eitthvað að leka á Sonju í stríðum straumum úr handfarangursrýminu sem hún stöðvað með miklu magni af servéttum. Með hjálp annara farþega náðum við athygli flugfreyjanna sem komu hlaupandi og þegar þær komu stökk maðurinn sem sat við hlið Sonju á fætur, náði í poka sem hann greinilega átti úr rýminu og var greinilega að valda þessum usla. Flugfreyjurnar sáu ekkert athyglisvert við þetta, þurkuðu hólfið og fóru síðan aftur í sæti sín. Eigandi pokans notaði öll nálæg dagblöð í að vefja í kringum undir pokann dularfulla sem við vitum ekki hvað innihélt. Það var engin sérstök lykt af vökvanum og við lögðum ekki í að smakka.
Veitingarnar í flugvélinni voru ágætar en drykkurinn kom spánskt fyrir sjónir - volgur sítrónusafi sem var saltari en meðalsaltur sjór. Ef lesendur heima vilja prófa hvernig þetta smakkast þá bara að setja 2/3 af sjó og fylla svo glasið með sítrónusafa.
Vélin hafði varla snert jörðina þegar flestir í flugvélinni stóðu upp, tóku töskur sínar og gengu fremst í vélina - flugstjórinn bað alla vinsamlegast um að sitja í sætum sínum en þrátt fyrir það stóður flugfreyjurnar í miklu stappi við fólk. Það settist að lokum en gangurinn var fullur af töskum og engin í beltum þegar vélin hægði á sér og stillti sér haganlega upp á réttum stað á vellinum. Ætli Indverjar séu með eitthvað ítalskt blóð í æðum?
Eldri maður í virðulegum gömlum bíl sótti okkur á flugvöllinn og keyrði okkur um klukkustundar leið á eyjuna Fort Cochim í Kerala.
Auk þess legg ég til að Delí verði lögð í eyði.
4 ummæli:
og manni finnst íslensk biðraðamenning vera á lágu stigi ...
Jabb, eg mundi ekki leggja i rod af fullum Indverjum!
Sonja
Tja þið ættuð þá væntanlega að vinna alla í raðakeppninni hér þegar þið komið til baka, búin að vera í æfingabúðum í Indlandi (og Kína).
Það er allt annað hljóð í ykkur núna...
En merkilegt með símamenninguna þarna - hér vill helst enginn kannast við að vera með síma - ef svo óheppilega vill til að mar þarf að hringja eitt stutt neyðarsímtal!
Kv.
MCM
Skrifa ummæli