Ég fann heita og góða bunu á vinstri löppinni og miðaði því til hægri. Heit buna fannst þá á hægri löppinni - ég miðaði meira til miðju að ég hélt en greinilega of stutt því núna voru báðar lappir baðaðar í volgri bunu. Ég gafst upp, kveikti öll ljós, kláraði að pissa og þreif blótandi í kringum klósettið. Það sannaðist það fornkveðna að það er ekki alltaf nægilegt að hafa stórt sverð - maður verður að kunna að beita því.
Til að nýta hið frábæra hótel, og frekar dýra, dvöldum við í herberginu fram til hádegis en skruppum reyndar fram til að borða morgunverð.

Ég í glugganum að lesa eitthvað.
Við spurðum hótelð um lestarferðir til Varanasi en það var fyrirhugaður næsti áfangastaður okkar. Þeir bentu á ferðaskrifstofu sem þeir eru í sambandi við og buðu okkur skutl þangað og til baka þegar okkur hentaði, án gjalds. Góð þjónusta fannst okkur.
Við ræddum um það áður en við lögðum af stað að læra af mistökunum og bara bóka lestarferðina ef verðið væri gott og fá uppgefna þóknun skrifstofunnar.
Ferðaskrifstofan var stutt frá hótelinu og lítill feitur maður með mikið bil á milli tannana tók á móti okkur. Hann var ekki ólíkur Danny Devito í vexti og andlitsfalli og talaði alveg sæmilega ensku - hann bauð okkur sæti fyrir framan borðið sitt.

Ferðaskrifstofumaðurinn sem kemur mikið við sögu hér að neðan.
Hann stakk upp á því að taka frekar Deli->Kerala->Varenasi->Nepal í staðin fyrir Deli->Varenasi->Kerala->Nepal eins og við höfðum ráðgert, þ.e. að fara fyrst til Kerala áður en við tökum Varenasi. Það hljómaði ágætlega og skynsamlega með tilliti til lestar- og flugferða. Hann bauð okkur drykki - te, kók eða vatn en við afþökkuðum.
Hann fór með okkur í gegnum allt planið næstu tvær vikurnar og stakk upp á hvernig við færum á milli staða og tímum og fletti upp öllum nauðsynlegum upplýsingum í bókum/bæklingum og virkaði þetta allt mjög vel á okkur.
Hann stökk frá í 10 mínútur og yngri strákur settist hjá okkur og var hann frekar pirrandi - hlustaði ekki á það sem við höfðum að segja og lét eins og við vissum ekkert - vildi skipuleggja allt fyrir okkur. Við spjölluðum bara saman á íslensku þar til sá eldri kom aftur og tók upp þráðinn frá því sem frá var horfið.
Hann bauð okkur te, gerði það reyndar tvisvar og í þriðja skiptið eftir að hann ýtti á okkur með það samþykktum við te, ekkert að því að drekka smá te - eða hvað?
Áður en við vissum af vorum við búin að plana alla ferðina allt fram til Nepal frá og með morgundeginum, flug til Kerala, lest þaðan til Varenasi og að lokum flug þaðan til Nepal.
Heildarverð reyndist vera 51.500 Rs eða um 87.000 krónur íslenskar. Við ræddum aðeins um það hvað hann fengi í sinn hlut og sagði hann að það myndi leggjast 10%

Við báðum um sundurliðun á þessu en hann sagði að þar sem þetta væri pakki gæti hann það ekki - fengjum bara eitt verð í pakkann og var ekkert hægt að tjónka við hann. Hann dró reyndar fram flugbæklinginn og benti okkur þar á að t.d. bara flugið fyrir einn Varanasi-Nepal væri 27.000 RS en með svona pakka yði þetta allt ódýrara. Við samþykktum pakkann og greiddum það sem við höfðum á okkur, 12.000 Rs.
Hann bauð okkur að lokum upp á 4-6 tíma skoðunarferð um borgina, okkur að kostnaðarlausu sem og far á flugvöllinn daginn eftir. Við samþykktum það, þó að við gerðum okkur grein fyrir að einhver hlyti að borga kostnaðinn og það mjög líklega við með hærra verði. Við fórum þó nokkuð sátt út og inn í bílinn hjá aðstoðarmanninum sem hóf að skutlast með okkur.
Við reyndum aðeins að biðja hann um ákveðna staði og sögðum "... it's close to .....". Hann svaraði alltaf: "Yes, it's closed!". Þegar við lærðum inn á hvaða orð hann skildi gekk þetta aðeins betur auk þess sem það var jú sunnudagur og því margt lokað.
Við byrjuðum að reyna finna Malarone, malaríulyfið sem við þurftum að fá en það var ekki til í "Lonely-planet apótekinu" frekar en á öðrum stöðum sem við höfðum athugað á í ferðinni. Þar sem flest var lokað gáfumst við bara upp á þessu. Eftir að hafa kíkt á kaffihús og keyrt framhjá harðlæstum myndavélabúðum fórum við í garðinn við India Gate. Þetta er stór grasflöt með löngum og miklum tjörnum og sést forsetahöllin í fjarska. Þarna safnast Indverjar mikið saman á frídögum og slaka á með fjölskyldu og vinum en það var einstaklega mikið að fólki þennan daginn því að múslimar voru að fagna lokum Ramadam, skildist okkur. Við gengum þarna aðeins um en fengum aðeins of mikla athygli að mati Sonju, enda voru henni sendir fingurkossar, reynt að faðma hana og flautað á eftir henni.

Veggir eru margir útataðir í misgömlum hráka. Þetta er meira að segja við hótelið okkar og er sá staður í borginni nokkuð snyrtilegur og flestar fínustu búðir bæjarins staðsettar þar, Adidas, Nike, Benetton ofl.
Við staðnæmdumst einu sinni í garðinum og virtum fyrir okkur smágerða íkorna leika sér við tré en þeir eru út um allan garð og líta út svolítið eins og mýs. Áður en við vissum af stóðu um 20 manns með okkur og horfðu á íkornana og okkur, aðallega okkur en enginn sagði neitt.
Við flúðum aftur í bílinn eftir svipuð dæmi og fyrir ofan - vorum að spá í að setjast niður og slappa af en það hefði ekki verið möguleiki því alltaf þegar við stoppuðum myndaðist hópur af fólki í kringum okkur, aðallega unglingsstrákar og börn, en eitthvað af fullorðnum. Við höfum nú yfirleitt gaman af þessu en í þetta skiptið var þetta of mikið og því gott að komast í bílinn.

Parið í garðinum.

Strákar að biðja okkur að taka af sér myndir.

Hress strákur leikur sér í tjörninni.

India Gate sést þarna fyrir aftan.

Þarna sést hvað strákar slást oft til að komast inn í myndina.

Stúlka sem var í garðinum.
Eftir hring á planinu fyrir framan forsetahöllina fórum við á síðasta áfangastaðinn með bílstjóranum þennan daginn, Humayun's Tomb. Þetta er falleg bygging með miklum og stórum garði sem lokaður er af innan virkisveggja. Byggingin sjálf var byggð á 16. öld og er fyrirmynd Taj Mahal og má greinilega sjá hversu líkar byggingarnar eru. Þetta er fyrsta byggingin sem notaði rauðstein og marmara í svo miklu magni.

Fyrir framan forsetahöllina og horft til baka - India gate í fjarska.

Humayun's Tomb.
Þegar við vorum skoða bygginguna þyrmdi allt í einu yfir mig.
"Hvað vorum við eiginlega að hugsa?" spurði ég Sonju.
"Vorum við ekki búin að ákveða að borga í mesta lagi lestarferðina ef hún væri ekki of dýr?".
"Þú segir nokkuð." svaraði Sonja.
"Við borguðum í blindni hátt í 100þ krónur án þess að hafa hugmynd um hvort þetta sé sanngjarnt verð."
"Já, þetta var frekar mikið rugl, það skal viðurkennast!" svaraði Sonja hugsandi.
Við ræddum þetta aðeins og skildum í raun ekkert hvað við höfðum verið að hugsa því þetta er mikill peningur og við ekki viss um að þetta væri gott verð sem við greiddum fyrir þetta. Auk þess sem við vorum þá búin að negla niður allar dagssetningar fram að Bhutan og það er frekar óþægilegt. Við höfðum borgað 12.000 Rs inn á ferðina af 55.500 Rs og í lok þessarar dagsferðar ætluðum við að taka út úr hraðbanka og klára greiðsluna.
Við ræddum aðeins okkar á milli hvernig við gætum komið okkur úr þessari klípu sem við höfðum sjálf komið okkur í og ákváðum að fara á hótelið á milli þess sem við kláruðum greiðsluna og athuga á netinu hvað flugfarið myndi kosta.
Klukkan var hálf sex þegar við vorum búin að skoða bygginguna og þá voru tveir staðir eftir sem bílstjórinn ætlaði að fara með okkur á en við báðum hann að fara með okkur á hóteli. Hann vildi þá endilega koma við í Goverment Store en við afþökkuðum það - og spurði hann aftur þegar við vorum að keyra framhjá henni. Þessir menn eru greinilega á góðri prósentu þarna. Hann reyndi ákaft að spyrja okkur um daginn eftir hvort við ætluðum að versla þá - ætlaði greinilega að fá sinn hlut þótt síðar yrði.
Við fórum upp á herbergi en bílstjórinn ók í burtu, hafði greinilega ekki vitað að við ætluðum að klára að greiða ferðina sem var ágætt því þá hefðum við betri tíma að

Við leituðum að kvittuninni sem hann hafði skrifað fyrir okkur en hvorugt okkar hafði hana - við höfðum ekki aðeins látið plata okkur upp úr skónum heldur líka gleymt að taka kvittunina fyrir 12000 RS .... þvílíkir kjánar.
Við ræddum aftur hvað hefði eiginlega komið fyrir okkur því við leggjum það í vana okkar og leita upplýsinga hjá nokkrum og taka svo ákvörðun. Ég fékk þá fáránlegu flugu í hausinn að hann hefði hreinlega sett eitthvað kæruleysislyf í te-ið okkar og ef maður hugsar meira um það þá er það sennilegast mjög auðvelt fyrir þá án þess að það komist nokkurntíman upp. Það skrítna er að við vorum staðföst í því eftir nýlegt svindl að borga ekkert hjá svona mönnum heldur kaupa bara sjálf og ég er yfirleitt mjög tortrygginn þegar kemur að svona mönnum en það er eins og við höfum ekki verið með sjálfum okkur og bara borguðum það sem hann bað um. Ef ég hefði haft meiri pening á mér hefði ég sjálfsagt greitt ennþá meira af ferðinni en Sonja lumaði reyndar á mun meiri pening sem hún hélt eftir vísvitandi. Síðan er eins og á sama tímapunkti stuttu eftir að við fórum frá honum að það þyrmdi yfir okkur bæði og við skildum í raun ekkert hvað við hefðum verið að hugsa. Já, dularfullt mál sérstaklag þar sem að Sonja byrjaði seinna á teinu og drakk ekki nema varla helminginn, annars hefðum við borgað helminginn af ferðinni.
Klukkan var um 18.30 og við ákváðum því að fara aftur á fund djöfulsins án peninganna sem við höfðum lofað honum. Við fórum fram í afgreiðslu og minnti Sonja mig á að vera brosandi þegar við báðum um að komast aftur á ferðaskrifstofuna - afgreiðslumaðurinn kannaðist við að við hefðum farið fyrr um daginn og sagði aðstoðarmanni að keyra okkur á ferðaskrifstofuna. Við þökkuðum góðlátlega fyrir - það var samt óverðurský fyrir ofan hausinn á mér.
Ferðaskrifstofumaðurinn sem við skulum áfram kalla djöfulinn var í sæti sínu, tók brosandi á móti okkur og bauð okkur sæti.
Við byrjuðum að smáspjalli, sögðum frá ferðinni um daginn og að okkur hefði líkað hún bærilega - hann var ánægður með að heyra það. Plottið var að byrja á kvittuninii áður en allt færi í háaloft:
"Við gleymdum því miður kvittununni hjá þér fyrr í dag - gætum við nokkuð fengið að sjá hana?" sagði ég eins góðlega og ég gat.
"Neinei, ég lét ykkur fá hana!"
"Nei, við erum nokkuð viss um að við fengum hana ekki." sagði ég öllu ákveðnara.
"Jú, ég lét ykkur fá hana!" sagði hann en fór að blaða í reikningamöppunni greinilega ekki viss í sinni sök þó að hann hefði verið viss í orðum.
"Ó, hérna er hún." sagði hann og við sáum kvittunina í bókinni ásamt afritinu fyrir aftan.
"Gætum við fengið hana?" spurði ég mjög saklausri röddu.
"Jájá, þið fáið hana þegar þið hafið greitt eftirstöðvarnar af skuldinni."
"Það væri betra að fá hana núna." sagði ég ákveðið.
"Nei það er ekki hægt. Þetta er fyrir allri greiðslunni og þið fáið hana þegar þið hafið greitt upp allann pakkann.".
"Ok, en við þurfum a.m.k. að fá kvittun fyrir því sem við höfum þegar greitt." sagði ég jafn ákveðið og áður. Hann var orðinn frekar skrítinn í framan, greinilegt að hann var hættur að skilja í okkur eða farinn að gruna að við yrðum til vandræða.
"Ok, ég skal búa til kvittun." sagði hann pirraður og páraði kvittun fyrir 12.000 Rs og henti fram á borðið til okkar.
"Ertu búinn að bóka alla ferðina fyrir okkur, þ.e. báðar flugvélarnar og lestina?" spurði ég næst.
"Já, allt hefur verið bókað og núna þurfið þið bara að klára að greiða eftirstöðvarnar!" sagði hann frekar pirraður.
"Getur þú sagt okkur hvað 'tourist quota' er í lestarferðum?" spurði Sonja til að taka smá málið á aðrar brautir en það er eitthvað sem hefur lengi valdið okkur hugarangri.
"Ég bókaði lestina, bara venjuleg lest!" sagði hann, var greinilega ekki að hlusta almennilega á spurninguna. Eftir smá tal til að útskýra hvað við vorum að meina þá skildi hann okkur loks og sagði okkur að það væru ákveðin svæði í lestinni frátekin fyrir túrista og það þyrfti að greiða fyrir þau sæti með dollurum.
"Get ég fengið að sjá kvittanir fyrir greiðslunum?" spurði ég þvínæst.
"Þær eru hérna!" sagði hann og rétti mér reikningabókina.
"Nei, ég er ekki að meina okkar kvittun heldur kvittunum sem þú fékkst fyrir greiðslunum!"
"Þetta er eina kvittunin, ég skil ekki alveg hvað þú ert að meina!" svaraði hann heldur meira pirraður en áður.
"Ég meina að þegar þú greiddir flugfélaginu og lestarmiðana þá hefur þú væntanlega fengið staðfestingu á greiðslunni þar sem kemur fram upphæðin sem þú greiddir. Við þurfum að fá að sjá það til að vita hvort við erum að greiða sanngjarna upphæð!"
"Ég var búinn að segja þér að ég fæ 30% afslátt hjá fyrirtækjunum og rukka 10% af þér og þú færð 10% afslátt af pakkanum þannig að ég græði í raun 20%." sagði hann hrannalega.
"Já, ég skil það alveg en þú getur nefnt hvaða upphæð sem er við okkur og við vitum í raun ekkert hvort upphæðin er tvisvar eða þrisvar hærri sem við greiðum en ferðirnar í raun kosta!" sagði ég og reyndi að leyna því að ég var líka orðinn pirraður.
"Þú ert ekkert að borga margfallt hærri upphæðir, ég er búinn að útskýra hvernig þetta virkar."
"Já, en get ég fengið að sjá kvittanir fyrir þessum greiðslum þannig að ég geti verið sannfærður um það?"
"Ég skil ekki hvað þú ert að fara, ætlar þú að fara að hnýsast í bókhaldið hjá mér? Ég er mið mótt bókhald sem ég þarf að standa skil á fyrir yfirvöldum og það nægir. Ég var búinn að segja þér að þetta væri pakki sem er ekki sundurliðað! Annaðhvort greiðir þú þetta eða við hættum við allt!" sagði hann orðinn verulega reiður.
Við Sonja sátum og ræddum aðeins okkar á milli á íslensku í um 5 mínútur og hann sat rauðleitur fyrir framan okkur án þess að segja orð, andaði bara mjög hátt. Við vorum sammála um það að við fengjum ekki að sjá neinar kvittanir eða staðfestingar og því málið orðið verulega erfitt. Við ræddum aðeins okkar á milli það sem hann sagði að við hættum við allt - var það kannski lausnin á málinu að hætta við allt? Okkur þótti samt frekar erfitt að biðja um það og því vorum við mjög tvístígandi.
Ég spurði aftur hvort við gætum fengið að sjá gróflega skiptingu á ferðunum og hann hrifsaði blað og penna á borðinu og hripaði tölur á það. Í því kom maður, um 30 ára, sem hafði greinilega verið annarsstaðra á skrifstofunni á meðan þetta að ofan fór fram eða nýkominn inn. Hann kynnti sig á mjög góðri ensku sem traustan viðskiptavin sl. 5 ár - sagði að þetta væri mjög traustur maður og hann yrði að vera það til að getað verið í þessu í 32 ár eins og hann vildi meina að skrifstofan hefði verið opin. Við Sonja þekkjum þetta bragð ágætlega eftir mörg svipuð mál - láta einhvern starfsmann þykjast vera viðskiptavin og hlaða hrósi á skrifstofuna og sölumanninn. Okkur finnst þetta ekki sniðugt bragð eða sérlega trúverðugt - auk þess sem þessi maður hafði verið þarna fyrr um daginn og var síðan seinna að vesenast í málum ferðaskrifstofunnar.
"Þetta er ekkert vantraust á skrifstofuna eða hann, við verðum bara að vera viss um að það sé ekki verið að plata okkur til að greiða alltof háa upphæð. Við höfum lent í því alltof oft og erum bara að kanna okkar mál!" sagði ég við meintan viðskiptavininn.
"Þið verðið að vinna heimavinnuna áður en þið mætið, þýðir ekki að koma svona eftirá!" svaraði hann réttilega, við vissum þetta svosem alveg.
"Já, ég veit það alveg en svona er staðan bara núna og við þurfum að fá einhverja staðfestingu á því að þetta séu sanngjarnar tölur!" svaraði ég.
"Þið verðið að hafa trú á ykkur sjálfum og þeim ákvörðunum sem þið takið, þýðir ekki að efast um allt!" svaraði hann.
"Ég veit það - en þegar maður veit að maður hefur gert mistök, mistök sem kannski er hægt að lagfæra þá er það sem maður gerir er það ekki, laga mistökin og finna góða lausn á hlutunum?" spurði ég hann að bragði.
"Já, ætli það ekki." muldraði hann.
Má bjóða ykkur te með rapamin spurði djöfullinn - við afþökkuðum.
Djöfullinn rétti okkur blað með sundurliðuninni - hún var nokkuð eðlileg þó að verðin væru í það mesta en ofaná þau var 22.5% ríkisskattur sem við höfðum ekki vitað af. Við tókum eftir að verðið á fluginu til Nepal var 8.500 Rs á haus fyrir skattinn og það var töluvert hærra en það sem við höfðum séð á netinu þó að við hefðum ekki skoðað nákvæmlega þetta flug.
Ég sagði honum það og greip hann þá símann og sagði:
"Talaðu bara við þau - þau munu segja að flugið sé uppselt. Ég á nokkur sæti frátekin og gjaldið miðast við það." sagði hann og rétti mér símann um leið og hann hafði hringt.
Ég spurði um verð á fluginu, nefndi Varenasi og Nepal og dagsetninguna og hún sagði að það væri upppantað eins og hann hafði sagt. Ég spurði hana þá um meðalverð á þessu flugi og svaraði hún að það væri 5.700 fyrir Business Class og 4.700 fyrir fátækan pöpulinn.
Ég sagði honum þessi verð og hann hélt langa ræðu um það að hann myndi borga meira fyrir frátekni sætin og að stundum væri verð 20 dollarar og stundum 200 dollarar. Hann blaðaði í heftinu sínu og sýndi okkur dæmi um reikning frá því fyrr um daginn sem hann hefði t.d. tapað á - engar upphæðir voru á honum og erfitt fyrir hann að sannfæra okkur um þetta. Auk þess vildi hann meina að allt flug til Nepal frá Varanasi væri upppantað í heilan mánuð og við gætum því ekkert komist þangað ef við slepptum þessu dýrmæta frátekna sæti. Við vorum ekki alveg að kaupa það - það hlyti þá að vera laust til Nepal frá einhverri annari nálægri borg.
Nokkrir vestrænir viðskiptavinir komu inn á meðan samningaviðræðurnar eða öllu heldur þræturnar stóðu yfir og virkaði hann ofur kumpánlegur við alla - stökk á fætur og nánast faðmaði fólkið sem var að koma úr ferðum. Hann oflék.
Eins lofaði hann okkur 3-4 tímum í bílferð daginn eftir ásamt því að vera sífellt að tuldra um að við gætum fengið flugvél í staðin fyrir lestina á sama verði - það var bara ekki málið og því var hann ekki að sannfæra okkur neitt með þessu tali.
Við ræddum heillengi saman við Sonja og gott er að hafa íslenskuna á svona stundum og geta rætt málin í friði. Hann sat lengi orðlaus á meðan við ræddum málin fram og til baka - Sonja var meira á því að við greiddum bara umsamið verð og við yrðum bara að taka því þó að þetta væri eitthvað hærra. Ég var ekki sannfærður, var í báðum áttum og átti mjög erfitt með að ákveða mig. Þá kom hann með líflínuna sem ég greip:
"Þú getur borgað fyrra flugfarið og við hættum við afganginn!" sagði hann.
"Ok, ef við gerum það getum við kannski skoðað málið betur í kvöld og svarað þér á morgun með hitt."
"Nei, ef þið viljið greiða bara flugfarið þá hættum við við afganginn og það verða engin viðskipti á milli okkar aftur!" svaraði hann reiðilega.
Við Sonja ræddum þetta í 5 mínútur og ákváðum að stökkva á þetta tilboð.
Hann var pirraður en tók við 5000 Rs sem vantaði upp á og sagði reyndar að aksturinn á flugvöllinn daginn eftir væri ennþá í boði ókeypis sem var fallega boðið hjá honum. Hann tók fyrri hótun til baka og sagði að við gætum komið á morgun ef okkur myndi snúast hugur.
Ég bað hann um flugseðilinn og hann vildi alls ekki láta okkur fá hann - sagði að bílstjórinn kæmi með hann daginn eftir. Ekki skipti neinu máli þó að ég sagði að við ættum flugmiðann því við værum búin að greiða hann að fullu, við fengjum hann daginn eftir þegar bílstjórinn myndi sækja okkur því hann ætti eftir að bóka eitthvað.
Við vorum búin að sitja þarna inni í eina klukkustund og hálfa til svo við orðin andlega og líkamlega þreytt, gáfum því eftir og samþykktum að fá seðilinn daginn eftir. Hann reyndi að vera kumpánlegur þegar hann kvaddi okkur en það sauð greinilega á honum.
Ég var ringlaður þegar ég gekk út - leið ekkert mjög vel því þetta hafði tekið verulega á. Við ákváðum að fara á Ruby Tuesday sem var í sömu götu - til að fá okkur eitthvað sem við vissum nákvæmlega hvað væri og gætum gengið að vísu - þurftum á því að halda. Á leiðinni stoppaði leigubílstjóri við hliðina á okkur:
"Komið þið sæl. Ég þekki ykkur frá hótelinu, bróðir minn vinnur þar í móttökunni." sagði hann frekar æstur í röddinni.
"Nú, svöruðum við." höfðum lent í svipuðum manni síðast þegar við vorum í Delí, ef ekki bara sama manni.
"Já, hvernig hafið þið það?"
"Fínt! Hvað heitir hótelið aftur, ég er alveg búinn að gleyma nafninu?" spurði ég til að prófa hann.
"Það er þarna sagði hann." og benti óljóst í einhverja átt sem var klárlega röng.
"Ferðamannaupplýsingastöðin er í þessa átt og þeir gefa ókeypis kort af Delí, þið þurfið að fara í dag því hún er lokuð á morgun." sagði hann og bætti við: "ég skal koma með ykkur og sýna ykkur."
"Við þurfum ekki að fara í hana!" sögðum við ringluð.
"Jú, komið - ég skal sýna ykkur hvar hún er."
"Nei" sögðum við og hröðuðum göngu okkar og stungum hann af.
Síðast þá vorum við hér á föstudegi og átti skrifstofan þá að vera lokuð á laugardeginum, núna átti hún að vera lokuð á mánudeginum. Ætli þeir vinni bara annanhvern dag?
Við fórum inn á Ruby Tuesday, settum slagbranda fyrir hurðina og ég var að gæla við að setja upp vélbyssuhreiðrið í hurðinni.
Ég var orðinn mjög ringlaður á þessum tímapunkti og jafnvel orðinn vænusjúkur - fannst allir í kringum okkur vera að reyna að plata okkur og allir væru saman í liði, hinu liðinu. Skrítin tilfinning.
Skammt frá veitingastaðnum sat kona með nakið ungabarn á gangstétt og sprautaði sig í æð - kannski táknrænt fyrir erfiðan, erfiðan dag.
En þar sem að hótelið og ferðaskrifstofuna voru greinilega eitthvað tengd þá ákvað Sonja að gott væri að sýna hótelinu hversu ánægð við værum þarna og að við værum framtíðarkúnnar. Það var jú hugsanlegt að djöfullinn hefði hringt á hótelið og kvartað undan okkur. Við spurðum því um nokkrar dagssetningar og svona en bókuðum ekkert.
Það sem átti að vera þægileg ferð á veitingahúsið til að ná aftur fótum reyndist ekki vera afslappandi. Það er hefð á staðnum þegar viðskiptavinir eru ánægðir að þeir hringi bjöllu við útidyrnar þegar þeir ganga út og við sátum mjög nálagt henni. Veitingastaðurinn var fullur og ánægðir viðskiptavinir í sífellu að ganga út hringjandi helvískri bjöllunni. Á næsta borði var unglingsstúlka sem átti afmæli og stóðu starfsmennirnir allt í kringum okkur og sungu langan og skrítin afmælissöng - sem var bæði brjálæðislegur og trylltur. Við kláruðum fljótt að borða og gengum út.
7 ummæli:
Ha ha ha, þetta er nú meira ruglið þessi viðskiptahættir!! Eruði ekki bara orðin þreytt á þessu? Það verður allavega gott að koma heim í örugga landið okkar þar sem allt er einfalt, ekki satt?
Margrét var alltaf að fá e-a útlendinga, þá helst Asíu búa, sem voru alltaf "I pay 500 for this" og Margrét bara nei hann kostar 1990... Og þeir alltaf "I pay 500...." Sem sagt, við skiljum ekki þeirra viðskiptahætti og þeir ekki okkar!!!
Vonandi verður gaman í Nepal, mig langar ÓGEÐSLEGA að fara til Nepal!!!!! Góða skemmtun!!
hæ hæ
flotar mindir Markús kann að standa ein. Ég er veik og amma er að passa mig. Ég hlaka til að fá þig heim.
kveðja og knús
EmýSaraBjörnsdóttir
Góða kvöldið.
Við hjónin vorum í matarboði hjá foreldrum Sonju og þau sögðu okkur frá þessari síðu ykkar.
Gulur af öfund, yfir þeim ævintýrum sem þið eruð að upplifa, sit ég hér og dáist að öllum þessum frábæru myndum sem þið eruð að taka.
Þið eruð skemmtilegir pennar og ég á pottþétt eftir að vera reglulegur gestur á þessari síðu.
Frábær lýsing á hálvitanum sem var hangandi út úr lestinni þar til hann fékk grein í hausinn. Og hver hefur svo ekki upplifað að míga á fæturnar á sér á myrku ókunnu hótel-baðherbergi. Örfáir segja aftur á móti frá því :)
Kær kveðja,
Bjössi Esjugrund 25.
Eftir vikuferð til Kröflu þá hef ég nú verið að vinna upp allmarga ferðadaga og er nú loksins búinn að ná ykkur í skrifunum (þetta tekur ekkert smá mikinn tíma að lesa í gegnum allt þetta ferðalag, sem er gott ;)
Og bara til að minna ykkur á að þetta blogg fær hiklaust 10 drullukökur.
PS. Er búinn að fá frí 3 mánaða frí í vinnunni á næsta ári. Íbúðin er enn hálf í kössum en þetta er allt að koma.
Svo legg ég til að Jói fari í klippingu í Nepal. Sindri fór í klippingu þar (þegar hann og Alma voru þar fyrir ca 10 árum) og fylgdi klippingunni nudd sem kom skemmtilega á óvart.
Svo vorkenni ég líka Sonju, verður víst að segjast að Hr. Síðskeggur lítur mun betur út í upphafi ferðarinnar en hann gerir nú.
Annars er nú spurning hvort að Sonja geti ekki líka bara klippt Jóa eftir að hann hefur gleypt einn draumstaut.
Hér er sól og blíða og er að spá í að skella mér í Laugardalslaugina á eftir og svo í mat til Mömmu og Pabba.
Maður er orðinn alveg húkk'd á að fylgja eftir æsispennandi ævintýrum ykkar! Erum farin að sakna Sonju soldið á skrifstofunni.
Takk fyrir kortið!!
patent-Einar
Já - ævintýrin gerast enn! Gaman að lesa pistlana hjá ykkur:) Hlæ hérna ein fyrir framan tölvuna og les upp fyndn punkta fyrir Jóa og Danna:)
Búin að vera hérna í tölvunni hjá Jóa og hann var að spá í að fara og kaupa sér aðra... því ég er víst að einoka hana hihihi
Kv.
MCM
Skrifa ummæli