Sonja sofnaði snemma enda slöpp og ég var eitthvað að vesenast í tölvunni fram yfir miðnætti. Ég fór að sofa, var klæddur kasmírsku fötunum mínum og hafði yfir mér lak og þykkt teppi. Ég lá andvaka og var búinn að liggja lengi, sennilegast til 3 eða 4, og hugsa um lífið og tilveruna þegar ég áttaði á mig að ég var farinn að skjálfa úr kulda og það líklegast valdið því að mér var ekki svefn auðið.
Eftir smá þreifingar til að finna annað teppi gafst ég upp og kveikti ljósið og leitaði aðeins í rúminu. Ég sá þá að Sonja var fullklædd undir tveimur þykkum teppum og var fjórða teppið sem ég leitaði að vandlega samanbrotið undir henni - sennilegast til að halda undirhitanum góðum eða til að finna ekki hnökra í rúminu í anda prinsessunnar á bauninni. Við pöbullinn sitjum greinilega ekki við sama borð og aðalsættin.
Hún lét mig að sjálfsögðu fá teppið þegar ég spurði um það og um leið og ég lét það yfir mig og hafði því tvö teppi fann ég hitann streima yfir mig og sofnaði ég stuttu síðar.

Sonja sofandi í herberginu um morguninn.

Klósettið á þessu hóteli var með allra besta móti og nóttin bara á 600 RS.
Nú var Sonju brátt í brók um nóttina, við reynum að skiptast á því ekki er gott að vera bæði veik í einu. Hún vildi því bara ávexti í morgunmat og helst ekki fara út - ég fór því einn upp á verslunargötu til að snæða morgunverð en Sonja dundaði sér við að pakka.
Ég byrjaði á að athuga með morgunverð á flottu kaffihúsi sem heitir Barista. Ég renndi í gegnum seðilinn og sá að þeir höfðu bara drykki á boðstólnum og eftir góða umhugsun ákvað ég að unaðslegur frappó eða latte væri ekki boðlegur morgunverður einn og sér, sérstaklega þar sem lestarferð beið okkar.

Ég kíkti við á kaffihúsi og náði að smella af þessari sjálfsmynd.

Þetta var í annað skiptið sem ég fór á þetta kaffihús. Í fyrra skiptið tók ég mynd af kaffibollanum mínum og afgreiðslustrákurinn sagði að hann myndi búa til hjarta fyrir mig næst þegar ég kæmi svo ég gæti tekið mynd af því - hann mundi greinilega eftir því. Þegar ég hafði fengið bollann horfðu allur strákarnir á mig úr leyni og voru greinilega að vonast eftir að ég væri ánægður - ég brosti enda flottur og æðislega bragðgóður bolli. Takk fyrir mig.
Á meðan ég var í bænum pakkaði Sonja dótinu okkar og fann þar gamlan banana sem hún ætlaði að henda en hææti við á síðustu stundu. Það væri betra að gefa öpunum hana.
Hún opnaði hurðina á hótelherberginu okkar út á svalir sem gengið er inn í herbergin. Hún veifaði þar aðeins banananum og á þakið fyrir neðan komu strax um 4-5 apar, allir glápandi á hana og biðu átekta. Hún braut hann í tvennt og henti honum á þakið sem var skammt frá og kom þá stór api á harðastökki og hrifsaði bananann frá hinum sem biðu. Hann endurtók leikinn þegar Sonja kastaði hinum helmingnum í hina áttina. Sonja ákváð þá að flýja aftur inn í herbergið en aparnir stóðu lengi á handriðinu fyrir framan gluggann og störðu inn með biðjandi augnaráð. Þegar það virkaði ekki þá upphófust mikil slagsmál um allar svalir, þakið og trén. Sonja var farin að sjá fyrir sér umsátursástand og komast ekki á lestarstöðina en þeir gáfust á endanum upp og létu sig hverfa.
Lestarstöðin var í um 15 mínútna göngufæri sem virtist lengra því við vorum með þungar byrðar á bakinu. Þegar við loks komum á áfangastað beið ein lest á sporinu sem reyndist vera okkar lest. Ein af ástæðunum fyrir því að við ákváðum að taka þessa lest til bæjarins Kalka var að lestin er þekkt fyrir að vera í stíl þeirra lesta sem voru snemma á síðustu öld á ferð á sömu teinum. Mikill íburður einkennir lestina og því vinsælt að fara með henni þessa 3ja tíma leið frá Shimla, auk þess sem leiðin þykir mjög falleg.
Lestin sem beið okkar á teinunum var langt frá þeirri lest sem brunaði um í huga okkar og við höfðum hlakkað til að taka. Þetta var venjuleg grá lest, mjög strípuð og ekki einu sinni hægt að ganga á milli vagna. Bekkirnir voru ekki mjög þægilegir og ekkert pláss fyrir mikinn farangur eða fætur - við vorum því í vandræðum með að finna stað fyrir plássfreka bakpoka okkar. Þar sem sætin okkar voru í miðjum vagni en farangurinn út við enda mjög nálægt hurðinni út þá settumst við í laus sæti nálægt farangrinum og vonuðumst að enginn hefði keypt þessi sæti. Auk þess fengum við þarna fjögur sæti og því ásættanlegt fótapláss.
Það var einn maður með eitthvað vesen bæði inn í lestinni og fyrir utan, kallaði til lestarstjórann og það var einhver reikistefna. Þegar lestin loksins tók af stað kom hann hlaupandi og stökk upp í vagninn á ferð - eitthvað sem hann gerði ítrekað á meðan á ferðinni stóð. Hann var hávaxinn maður um fimmtugt, með yfirvaraskegg og góða ístru - greinileg efnamaður.
Hann plantaði sér í dyrnar sem voru opnar og í fyrstu göngunum sem við skriðum í gengum öskraði hann allan tíman sem við vorum í göngunum öskri sem líktist stríðsöskri apache indíána og ef ég á að reyna að stafa það hljómaði það einhvernvegin svona: VÓUVÓUVÚ (reynið að ýminda ykkur indíánaöskur).
Þetta yrði greinilega ekki sú rólega skemmtiferð sem við höfðum vonast eftir.
Þetta öskur endurtók hann í öllum göngum fyrri hlutar ferðarinnar eða um fyrstu 3 klukkustundirnar. Já, ég er ekki að grínast með þetta.

Hann sat mikið í hurðinni á milli þess sem hann stóð - hérna erum við að fara í göng.
Þegar við vorum nýlögð af stað renndi önnur lest upp að lestarstöðinni og var þetta sú lest sem við höfðum séð fyrir okkur. útsaumuð sæti sem hægt var að halla aftur og þjónar um borð ásamt því að lestin var skemmtilegri að utan. Hugarburður hafði þá greinilega ekki bara verið hugarburður um útlit og innviði lestarinnar.
Við skoðuðum lestarmiðana sem sölumaðurinn fyrrnefndi hafði keypt fyrir okkur. Það fyrsta sem rak í augun að verðið var ekkert í samræmi við það sem hann hafði rukkað okkur um. Við höfðum borgað honum samtals 2000 Rs. fyrir miðana með þessari lest og næstu lest til Delí en þegar við lögðum saman heildarverðið á miðunum var heildarverðið ekki nema 1400 Rs. Hann hafði því ekki aðeins keypt miða í verri lest heldur en við höfðum beðið um heldur rukkað okkur um 600 Rs. fyrir að láta einn hlaupastrák skokka niður á lestarstöð til að kaupa miðana - eitthvað sem tók aðeins um 5 mínútur. Lestarstjórinn staðfesti það að þetta væri ódýrari lestin - hin var um helmingi dýrari.
Þetta ætti að kenna okkur að treysta ekki neinum - sölumaðurnn virtist mjög góður maður en hafði eins og allir aðrir sem vinna í þessari stétt það að markmiði að græða sem mesta peninga, hvort sem það fylgir því að ljúga og pretta. Það sauð aðeins á okkur til að byrja með en síðan hljógum við bara að þessu.
VÓUVÓUVÚ
Aftur að farþeganum leiðinlega. Hann hékk semsagt í hurðinni á fyrri hluta ferðarinnar og kallaði þar ótt og títt á félaga sinn í næsta vagni og höfðu þeir greinilega afskaplega gaman af því. Í göngunum öskruðust þeir á eins og áður sagði og slóst ungur sonur mannlega öskurapans fljótlega með í þann leik. Sá var um 5 ára gamall með mikinn frekjusvip og greinilega illa upp alinn ef hann var ekki bara sjálfala. Hann virtist komast upp með hvað sem er og virkaði ofvirkur því hann var í raun stjörnuvitlaus.
VÓUVÓUVÚ
Móðirin, fín kona með flott veski sem var greinilega merkjavara því miðinn var ennþá hangandi utaná, kom þegar henni var farið að lítast illa á heimilisföðurinn hangandi eins og apa utaná hurðinni á vagninum - greinileg að ganga í augun á samferðafólkinu sem voru um 10 manns. Faðirinn gaf nú ekki mikið fyrir að þetta gæti verið hættulegt og þótti þetta óttaleg kerlingavæl í eiginkonunni, hann settist bara niður í hurðinni og hegðaði sér eins og unglingur. Reyndi hún þá að fá strákinn til að koma með sér aftur í sætin sem þau höfðu til umráða fyrir miðri lest en strákurinn harðneitaði. Kom til nokkurra handalögmála þegar móðirin reyndi að fá hann aftur í vagninn en strákurinn barðist um með kjafti og klóm af mikilli frekju og gafst hún loks upp - hann hafði sigrað. Pabbinn reyndi líka að tjónka við honum en gafst líka upp og endaði það að fjölskyldan færði sig þarna fremst, dóttirinn sem virtist rólegri kom því líka og settist hjá þeim.
Það er greinilega verið að ala upp framtíðar góðmenni.
VÓUVÓUVÚ

Hann hafði afskaplega gaman af því að tala við fólk fyrir utan lestina - hérna er hann að tala við son sinn sem verður sennilega mikill maður. Afinn fylgist með en hann hafði enga stjórn á barninu frekar en aðrir.
Lestin stoppaði nokkuð oft, bæði á lestarstöðvum og einnig þegar aðskotahlutir eins og heilagar beljur voru á teinunum og fór heimilisfaðirnn digurvaxni alltaf úr lestinni til að spjalla við samferðafólkið í næsta vagni. Þó hann væri komin að hurðinni þegar lestin flautaði fór hann ekki inn heldur hljóp nokkur skref með henni og upp í á ferð eins og James Bond - hann fór mikinn.
Ekki skrítið að afkvæmið væri stjörnuvitlaust.
VÓUVÓUVÚ
Eitt skiptið þegar leikurinn stóð sem hæst og kallinn eins og fáviti hallandi sér út um lestina með aðra hönd úti og hina til að halda sér í vagninum, öskrandi á næsta vagn til að þau sæu hann örugglega - skall hann á grein og virtist stuðast við það því hann fór strax inn, lét samt á engu bera og settist niður. Þörf lexía.
VÓUVÓUVÚ

Þarna er hann rétt eftir að hann fékk greinina í hausinn - konan hans var sífellt að biðja hann um að koma inn og læsti hurðinni í eitt skiptið þegar hann fór á klósettið - hann var fljótur að opna hana aftur þegar hann kom út.
Eftir rúmlega 3 klukkustundir voru engin merki um að við værum að nálgast áfangastaðinn og varð okkur hugsað til orða sölumannsins en hann sagði að hún væri 3 tímar. Þegar upp var staðið var hún 6 tímar og ekkert virtist vera mikið um tafir - staðfestir þetta grun okkar að ekki sé hægt að treysta neinu sem kemur að tíma.

Hugsandi um samferðarmann minn.
Annar farþegi stóð í hurðinni á hinum enda vagnsins. Hann ungur faði var með kvikmyndatökuovél á lofti og tók upp alla lestarferðina. Í hvert skipti sem lestin stoppaði fór hann út og tók upp allt umhverfið í kringum lestina, lestina sjálfa, inn í vagninn og síðan aftur upp. Vonandi er hann að taka upp lestarferðina fyrir aldraða langömmu sína sem fór fyrstu ferðina fyrir hartnær 100 árum og vill upplifa hana einu sinni enn í sjónvarpi áður en hún kvittar sig út.
Ef ekki er erfið 6 tíma kvöldstund framundan fyrir vini hans og kunningja.

Eitt lestarstoppið kvikmyndað.
Þegar góðkunningi okkar fór loksins úr hurðinni stökk í hans stað strákur um tvítugt og stóð hann þar nánast til leiðarenda. Hann var ekki með sömu hvolpalætin - sennilega ekki kominn með aldur til þess.
Náttúran á leiðinni var náttúrlega virkilega flott - reyndar mjög svipuð því sem við höfðum séð síðustu daga í ökuferðinni til Kinnaur - þ.e. skógi vaxnar hlíðar. Lestin skreið oft um mjög hátt í hlíðunum og við höfðum gott útsýni yfir þorp og bæi langt fyrir neðan.

Dæmigert landslag á leiðinni

Stúlka hallar sér út um glugga á lestinni.

Sonja horfir út og hugsar.

Ég get líka leikið þann leik.

Magnað comb-over hjá lestarstjóranum, ætli hann hafi einkaleyfi á þessari greiðslu?
Lestin skreið inn á lestarstöðina í Kalka um klukkan 16.30 - sex klukkustundum eftir að við höfðum lagt af stað eins og áður sagði og ekki var nema klukkustund þangað til að lestin til Delí ætti að leggja af stað.
Lestarstöðin var frekar mannlaus og erfitt að vita hvert við ættum að fara. Við komum þó fljótlega auga á lestina okkar og var þá um hálftími í að við gætum sest inn. Við settumst því saman inn í biðstofu karla en biðstofur hér eru kynjaskiptar, allavega skv. skiltunum. Þar sátum við í um 20 mínútur í ansi súrri hlandlykt því stofan var lítil og klósettið sem hefur sennilega aldrei verið þrifið stóð opið. Karlmennirnir sem voru þarna inni voru allir með yfirvaraskegg og er ég nú með þá kenningu að þeir helli lyktarefnum í skeggin sín til að finna ekki hland- og skítlykt sem við finnum viða. Ekki er ljóst hvað kvenpeningurinn gerir.
Við ákváðum að bíða síðustu 10 mínúturnar fyrir utan lestina - lyktin var óbærileg.

Biðstofan.
Lestin reyndist ótrúlegt en satt vera framar vonum - þægileg sæti með borðum og innstungu til að tengja tölvuna og ég því fær um að skrifa þessi orð.
Lestin var full af einhverjum ríkingum - fínt fólk og viðskiptamenn. Við pössuðum sennilegast ekki alveg þarna inn klædd í afar skítug og rykug föt, ég auk þess á stuttbuxum.
Á borðinu við hliðina á okkur voru þrír ungir læknar sem höfðu undarlegt en satt lent í sæti á móti greinilega mjög virtum og þekktum lækni sem þeir litu greinilega allir upp til. Sá var eldri maður um 60 ára í dökkbláum vel pressuðum jakkafötum, hvítri skyrtu og með ljósblátt bindi. Hann var breiðleitur, frekar dökkur á hörund og með krullað svart hár - ekki ósvipaður Desmond Tutu í útliti. Gleraugun sátu vel á nefinu, voru hrein og glansandi og hann greinilega ágætlega efnaður. Þegar hann talaði hölluðu hinir þrír sér fram og gleyptu í sig hvert orð enda var hann greinilega klár maður. Þeir hljógu slepjulega þegar hann sagði eitthvað fyndið og vildu greinilega koma sér í mjúkinn hjá honum. Merkilegt var að hlusta á þá tala saman á ensku allir með indverskan hreim, held að það sé algengt að þegar menn tali mismunandi mállýskur hérna þá tali þeir saman á ensku. Eða kannski þykir það fínt að tala ensku, sýnir hversu vel menntaður þú ert - svona svipað eins og danskan þótti fín heima.
Við fengum ýmislegt að borða í lestinni - mest allt sætindi með stóru 'S'-i og kryddaðann mat. Ekkert voðalega gott en betra en ekkert.
Einhver nálagt okkur var greinilega með magaverk því öðru hvoru gaus upp kryddlegin skítalykt af sterkustu gerð en það voru í raun einu óþægindin í ágætri lestarferð og telst hún því afskaplega vel heppnuð.
Við komum á lestarstöðina í Deli laust fyrir kl. 10 um kvöldið og fylgdum fólksstraumnum langa leið um lestarstöðina. Töluvert áreiti var á leiðinni frá mönnum sem vildu annaðhvort bera farangurinn okkar eða fara með okkur í fyrirframgreidda leigubíla. En við erum orðin það vön þessu að við hlustum ekkert á svona menn enda þeir það ákveðnir og æstir að eitthvað annað en að hjálpa okkur, það skín ekki góðmennskan úr augum þeirra heldur bara dollaramerki. Við gengum út þar sem áreitið gerðist öllu meira og ákváðum að ganga að neðanjarðarlestastöðinni sem var þarna skammt frá. Um 4-5 menn fylgdu okkur, allir að benda okkur í mismunandi áttir. Þegar við vorum að koma að lestarstöðinni sáum við fullt af tug-tug's á plani skammt frá - þetta var greinilega leigubílastöðin. Þar fundum við bás þar sem hægt var að greiða fyrirfram fyrir ferðina svo maður yrði ekki rukkaður of mikið. Strákurinn sem var snyrtilegur í hvítri skyrtu rukkaði okkur um 35 Rs eftir að Sonja sagði honum hvert við vorum að fara. Í kringum okkur við sölubásinn voru um 15 leigubílstjórar sem hlustuðu á okkur segja hvert för væri heitið og hlustuðu síðan á afgreiðslustrákinn spyrja Sonju spjörunum úr um hvort hún væri gift og fleiri spurningar um ástarsamband hennar. Eftir viðtalið var okkur bent á tug-tug sem keyrði okkur á áfangastað.
Dyravörðurinn á hótelinu okkar, Hotel Palace Heights, sagði okkur þegar við komum að hótelið væri fullt og þegar við sögðumst eiga pantað hringdi hann upp og talaði í smá tíma við afgreiðsluna en á meðan stóðum við með hjartað í buxunum yfir að bókuninn hefði klikkað. Ekki gaman að vera hótellaus í Delí kl 22:30.
Hann benti okkur að lokum að lyftunni og við fórum upp í afgreiðslu. Herbergið okkar var ekki laust ennþá og báðu þeir okkur að bíða á veitingahúsinu sem er við hliðina á afgreiðslunni og sátum við þar í tæplega klukkutíma og fengum okkur snarl.
Loks vísuðu þeir okkur í unaðslegt herbergið en Sonja er búin að bíða eftir því í nokkra daga að koma í herbergið því þetta er sennilegast besta herbergið sem við munum fá í ferðinni - mikill lúxus og topp þjónusta og verðið eftir því. Í fyrstu Delí heimsókn okkar römbuðum við inn á veitingastaðinn án þess að átta okkur á þetta væri hótel en eftir frábæra máltíð var okkur boðið í skoðunarferð sem við þáðum þar sem hótelið okkar var frekar slæmt. Við ákváðum strax að gista hérna næst þegar við ættum leið um borgina - sem er núna.
Unaðslegar sturtuferðir biðu okkar á hótelherberginu og internetið auk sjónvarpið naut athygli okkar áður en svefninn gleypti okkur.
6 ummæli:
jói - ég geng nú þegar í pilsi - frá malasíu reyndar - en það eru bara alvöru karlmenn sem geta gengið í pilsi!
Hæ hæ
Gaman að sjá hvað "Sonja" er loðin í andlitinu á myndinni :-)
En svona í alvöru mikið svakalega er gaman að hjá ykkur. Fjölskyldan Andrésbrunni biður að heilsa.
Vid hofum nu sent Sonju i rakstur og hun litur sem betur fer miklu betur ut nuna.
Kortið er komið, takk elskurnar!! Og jóhann, takk fyrir pöntuðu myndina af Sonju um daginn ;) En gaman að sjá svona mynd af Sonju með hring ;) Flottir hringarnir ykkar!
Eðlisfræðilúðinn... :) Sko próf á morgun!!
Já VOÚVOÚVOÚ gæji sem var bara byrjaður að gera mig svona nett geggjaða hehehe þegar greinin small verðskuldað í smettið á honum!
En jahérna - eins gott að passa sig á svikurum! Gaman að "heyra" ferðasöguna hér hjá ykkur - mar lifir sig alveg inn í ferðina;)
Kv.
MCM
Er ekki annars löglegt að leysa svona vandamál með ofbeldi? Sparka gaurnum út á ferð og berja krakkann (sem hefur þó líklega verið reynt áður...)?
Skrifa ummæli