sunnudagur, september 16, 2007

Súrefni er nauðsynlegt

Þá erum við stödd í Leh eftir eftirminnilega ferð hingað eins og ég vona að hafi skilað sér í síðasta pistli. Við finnum bæði fyrir að loftið er þynnra en gengur og gerist hjá okkur og við verðum oft meðvituð um andardrátt okkar og þurfum stundum að draga djúpt andann til að fá inn nægilegt loft. Ég hlustaði á Sonju anda þegar ég var að vakna í morgun og heyrði að öðru hverju tók hún mjög djúpann andardrátt í svefni.

Maður verður móður við alla áreynslu og ég verð nánast móður við að vélrita á tölvuna og eins móður við að hugsa, því höfum við reynt að halda hugsuninni í lágmarki sem hefur gengið grunsamlega vel.

Borgin Leh er eyðumerkurborg sem er staðsett í dal í Ladakh í Kashmir sem inniheldur rúmlega 28þ íbúa. Fjöllin allt í kring eru áberandi og húsinn sem byggð eru í klettana setja sterkan svip á borgina, sérstaklega konungshöllin sem er staðsett rétt hérna hjá okkur. Borgin er í 3500 metra hæð og flugvöllurinn er víst hæsti innanlandsflugvöllur í heimi.

Þar sem borgin er þetta hátt uppi þá er mælt með að ferðalangar taki því mjög rólega fyrstu 24 klukkustundirnar í borginni og því var ákveðið að slaka bara á uppi á hóteli fyrsta daginn. Við sváfum út og þegar ég vaknaði stökk ég niður í miðbæ á internetið því ég þurfti að senda tölvupóst. Netið hérna er hægara heldur en Í Manali, en ég hef ekki kynnt mér innviði þess eins vel þannig að ég get ekki útskýrt hvað gerist að tjaldabaki - grunar að það gerist ekkert. Það tók mig um 30 mínútur að opna Gmail og senda einn stuttan tölvupóst. Afgreiðslumaðurinn er búdda munkur og mynd af Dalai Lama hangir yfir manni þannig að það hafði róandi áhrif á mann og maður var ekkert að stressa sig yfir hraðanum. Það markverðasta sem gerðist á meðan ég var á netinu var að belja gerði innrás inn á kaffihúsið en var stuggað út. Já, það er ekki nóg að vera heilagur til að komast inn á staði hérna - það er nokkuð ljóst.


Framhliðin á hótelinu okkar sem heitir Lotus hotel. Mjög fínt og rólegt hótel með góðu starfsfólki sem er farið að kalla okkur með nöfnum og vill allt fyrir okkur gera.


Nokkrar beljur að koma í heimsókn á hótelið.


Síðar um daginn fór Sonju að líða frekar illa og var komin með flest einkenni háfjallaveiki fyrir utan að hún var ekki með hausverk. Eftir að hún hafði ælt fórum við og töluðum við strákana í afgreiðslunni og einn af þeim, ungur strákur sem heitir Sonum bauðst til að keyra okkur til læknis. Við þáðum það enda er nauðsynlegt að bregðast fljótt við þessum einkennum því háfjallaveiki getur verið banvæn í verstu tilfellum.

Við settumst inn í litla bifreið hans og hann keyrði okkur fyrst á litla og ansi hreint hrörlega læknastofu í miðbænum. Við gengum þar upp á efri hæð og Sonum spurði um lækninn sem reyndist ekki við og því fórum við aftur út í bíl. Við spurðum hann þá hvort það væri ekki bara spítali í bænum sem við gætum farið á og hann sagðist ætla að prófa hann næst.


Sonja að ganga upp í hrörlega læknastofuna.


Þegar þangað var komið fór Sonum á undan okkur inn og talaði við hjúkkurnar og fyllti út plagg fyrir okkur og síðan greiddum við komugjald, 2 RS sem er c.a. þrjár og hálf króna og settumst niður og biðum.

Okkur var fljótlega vísað að læknastofunni en aðeins einn læknir var á vakt þarna og settist Sonja þar niður enda leið henni mjög illa þegar þarna var komið við sögu. Þegar við höfðum beðið í 20-30 mínútur kom hjúkka hlaupandi og kallaði á lækninn sem hljóp út úr stofunni og út ganginn og út úr húsinu. Það hafði orðið alvarlegt umferðaslys sem hann varð að sinna og því fórum við líka út enda varla líft inni vegna lakklyktar.


Sonja bíður fyrir framan læknastofuna og Sonum stendur þarna í rauðri peysu tilbúinn að grípa lækninn þegar hann losnar.


Annar inngangur var á hliðinni ská á móti þeim inngangi sem við biðum fyrir utan og þar inni var maðurinn fluttur sem lent hafði í slysinu. Við fylgdumst þar með hasarnum, hjúkrunakonur hlaupandi inn og út, kvennlæknir koma á vaktina greinilega í sjokki yfir slysinu. Stuttu síðar komu ættingjar og stóðu skammt frá okkur grátandi og huggandi hvort annað - þetta var greinilega alvarlegt slys.

Eftir c.a. klukkustund bakkaði minnsti sjúkrabíll sem ég hef séð upp að bráðamóttökunni og sjúklingurinn sem hafði alvarleg höfuðmeiðsli var færður í hann því það átti að flytja hann á herspítala sem var skammt frá. Þegar 4-5 voru komnir með í bílinn til að hugsa um sjúklinginn var ekki hægt að loka hurðinni á bílnum þannig að einn sjúkraliðinn þurfti að halda henni lokaðri og síðan keyrði bíllin í burtu. Læknirinn kom til okkar og annarra sem biðu og sagði okkur að koma með sér aftur í stofuna.


Inngangurinn inn á bráðamóttökuna.


Þegar kom að Sonju var hún skoðuð í þessu litla herbergi og allir sem voru að bíða voru einnig í herberginu og fylgdust með - greinilega ekki sama krafa um að veikindi séu einkamál eins og heima.

Læknirinn úrskurðaði að þetta væri ekkert alvarlegt, Sonja þyrfti bara að hvíla sig vel og gaf henni einnig töflur til að vinna á þessu. Eins úrskurðaði hann að hún þyrfti súrefni í c.a. 15 mínútur. Sonum fór því með okkur aftur til hjúkkanna og sagði þeim niðurstöðuna og ein af þeim gramsaði vel og lengi í kassa fullum af lyfjum þangað til hún fann það lyf sem Sonja skyldi taka og síðan þurftum við að bíða eftir súrefnisgjöfinni. Við biðum aftur úti og þrjár konur, greinileg nátengdar þeim slasaða sátu þar enn við dyrnar á bráðamóttökunni grátandi og huggandi hverja aðra - það var frekar átakanlegt að heyra í þeim. Hjúkrunakonurnar kom síðan út úr stofunni og hentu blóðugum tötrum í tunnu þarna rétt við konurnar og komu síðan með súrefnistækið sem gefa skyldi Sonju aukið súrefni.

Við fórum innst í sjúkraherbergi á öðrum stað í sjúkrahúsinu þar sem voru um 16 rúm og voru þau flest mönnuð af sjúklingum. Sonja lagðist þar á endarúmið og hjúkrunakonurnar fóru að setja saman tækið með því að nota stein við að lemja það saman og síðan byrjaði súrefnisgjöfin sem stóð í 40 mínútur. Stofan var nánst myrkvuð þegar við komum á hana en ljósin voru sett á þegar það var nánast komið svarta myrkur - greinilegt að ljósin eru spöruð á þessum bænum. Hjúkrunakonan sem var ein á vakt kom og stöðvaði tækið og útskrifaði Sonju og við gengum út úr stofunni og allir sjúklingar og gestir kvöddu okkur þó að við hefðum ekkert rætt við þau og einhverjir spurðu hvort líðanin væri betri.


Steinn notaður við að fínstilla tækið.


Sonja að anda að sér súrefni frkear súr á svipinn.


Sonum keyrði okkur síðan aftur upp á hótel - hann hafði beðið með okkur þarna í hátt í 4 klukkustundir og vildi alls ekki taka neinn pening fyrir ómakið. Peningar skipta fólk hérna sennilega ekki jafn miklu máli og okkur heima.

Sonja fór beint inn í herbergi þegar upp á hótel var komið en ég fór og fékk mér kvöldverð sem var fimmréttaður indverskur matur með súpu í forrét og eftirrétt sem ég kann ekki deili á.

Já, lífið getur verið erfitt - maður getur orðið móður við það eitt að anda.

3 ummæli:

Sonja sagði...

Vid vitum ad myndin af mer er skemmd, hun hefur ekki flust almennilega yfir a minnislykilinn. En madur verdur ad saetta sig vid ymislegt her i Leh i tessum netmalum og rafmagnsmalum.

Nafnlaus sagði...

Oh my god hvað það er gott að það er ekkert alvarlegra að þér, ég myndi ekki vilja vita af þér á spítala þar sem steinn er notaður til að fínstilla tækin!!

Nafnlaus sagði...

virkar líka veikluleg á myndunum elsku Sonja - en vonandi líður þér betur núna:)
En hver er litli skrattinn?
M