föstudagur, september 14, 2007

Svaðilfor um Himalayafjöll

Klukkan 1:30 hringdi klukkan og við spruttum á fætur eins og stálfjaðrir eftir tvö snús. Framundan var ferðalagið mikla frá Manali til Leh í Ladakh héraði.

Við kláruðum að pakka og biðum síðan eftir jeppanum sem ná myndi í okkur en við höfðum pantað tvö framsæti í honum, en hann átti að taka um 9 manns í sæti ef hann væri fullhlaðinn, þ.e. tveir í framsætinu, þrír fyrir aftan og tveir plús tveir í bekkjum í skottinu. Farangur skyldi síðan vera uppi á toppgrind, þ.e. ef hann væri fullur en annars í skottinu.

Við byrjuðum að bíða um 2 leitið en okkur hafði verið sagt að hann kæmi á milli tvö og hálf þrjú. Klukkan hálf 3 fór ég niður og vakti annan starfsmanninn í móttökunni en þeir sofa þar tveir á dýnum, og bað hann að hringja í ökumanninn. Hann var þá rétt ókominn og við bárum því dótið niður í afgreiðslu og jeppinn renndi upp að hótelinu stuttu síðar.

Ökumaðurinn var að tala í síma þegar við komum út en var búinn að opna skottið og við settum farangurinn okkar þar inn, greinilegt væri að við yrðum ekki mörg í bílnum því skottið yrði ekki mannað. Ég heilsaði ökumanninum þegar hann lagði á en gat ekki séð að hann móttæki kveðjuna þannig að við settumst bara inn í jeppann og það var örlítið sjokk að sjá hversu þröngt yrði um okkur. Sætin voru mjög einföld, t.d. engir hauspúðar og engin bílbelti og þegar við höfðum sest þá sátum við alveg bein í sætinu en samt voru hnén á okkur fast skorðuð við mælaborðið og því erfitt að láta fara vel um okkur þarna. Sonju leist ekki nógu vel á hversu mikið gírstöngin var ofan í henni enda kom það í ljós að hún þurfti svo gott sem að sitja á öðru lærinu á frá 1 gír upp í þann 4. Og þótt annað megi ráða af títtnefndu aksturslagi hans þá var hann yfirleitt í 2-4 gír. Á öðru stoppi okkar þá gafst Sonja upp og settist svo til klofvega yfir stöngina og því með aðra löppina undir sæti bílstjórans, þessa stellingu þarf að leika svo hún skiljist! Í aftursætinu var par frá Leh sem talaði nánast enga ensku. Bílstjórinn var aðeins að vappa fyrir utan með gemsann sinn og fór síðann inn í afgreiðsluna á hótelinu og var þar í c.a. 10 mínútur - virtist vera eitthvað vesen að finna þá farþega sem vantaði í bílinn.

Þegar hann loks kom inn í bílinn settist hann bara og keyrði af stað án þess að segja orð. Hann var c.a. 25-30 ára gamall, með yfirvaraskegg en annars mjög venjulegt útlit fyrir fólk á þessum slóðum.

Hann keyrði í smá stund og fann loks þann farþega sem vantaði og þá var aftursætið fullmannað, eða það héldum við. Hann keyrði áfram í lítið þorp sem er hluti af Manali, í dökkt húsasund og þar sást ekkert nema eitt höfuðljós á hreyfingu í fjarska. Þar reyndist standa einn farþegi í viðbót, belginn Chris sem hafði beðið þar í slatta tíma einn með höfuðljós og flækingshund sem var að vappa í kringum hann. Þegar Chris leit inn í aftursætið varð hann strax ósáttur því hann hafði keypt sæti nr. 3 og aðeins ættu að vera þrír farþegar í sætinu eftir því sem honum hefði verið sagt og borgað fyrir það 1000 RS. Ég með mína gríðarlegu samningatækni hafði borgað fyrir hin dýrari framsæti 900 RS en sagði honum ekkert frá því. Eftir mikið rifrildi fyrir utan þar sem meðal annars var hringt í söluaðilann á ferðinni samþykkti Chris með semingi að setjast inn í þrengslin í aftursætinu og sagði "Just another rip-off" - síðan var haldið af stað í mikla svaiðilför um Himalayafjöll til Leh.

Bílstjórinn sem greinilega talaði sæmilega ensku miðað við rifrildið áður sagði ekki orð í bílnum þegar þeir voru báðir komnir inn og stoppaði stuttu síðar fyrir framan hús og drap á bílnum og fór inn. Þar var hann í c.a. 5-7 mínútur og við biðum út í bíl og vissum ekkert hvað hann var að gera inni. Hann kom síðan loks út og brunaði af stað. Ég ætti kannski að undirstrika, feitletra, lita með rauðu og stækka letrið á orðinu bruna, því hann keyrði vægast sagt hratt. Það var svarta myrkur, aðeins sást það svæði sem ljósin lýstu upp en það aftraði honum ekki frá því að keyra á fljúgandi ferð á þröngum götum með litlum íbúðarhúsum á báðum hliðum og einstaka dýri vappandi um götuna. Það endaði líka á því að hundinginn keyrði á hvolp en það rétt slapp því hann náði að bremsa mikið og höggið varð eiginlega ekki neitt, þannig að hvolpnum var ekki meint af - hljóp a.m.k. í burtu.

Í mælaborðinu var hann með mjótt handklæði sem lá tvöfalt yfir það allt og hann fór að dunda sér við að raða þar undir kasettum sem höfðu eitthvað skolast til. Þetta gerði hann á meðan hann brunaði á þvílíkum hraða, virtist jafnvel auka hraðann í beygjum og greinilegt var að taugastrekkjandi bílferð var framundan. Hann setti síðan kasettu í tækið og var það indversk popptónlist með skrækum kvennröddum og hækkaði mjög hátt í lélegum græjunum þannig að bjögunin var mikil og hæstu tónarnir ískruðu í eyrum manns. Þar sem við þeyttumst um öngstræti fjallanna með óhljóðin í eyrunum þá bætir bílstjírnn um betur og kveikti sér í sígarettu. Okkur var farið að lítast illa á þessa bílferð.

Stuttu síðar vorum við komin úr byggð og við tók fjallavegirnir fyrir ofan Manali og jók hann þá hraðann töluvert og í þessu svarta myrkri - þetta var nákvæmlega eins og rallýakstur, keyrt mjög hratt í beygjum - flautað rétt áður en komið væri í þær til að láta vita af sér og bíllinn þaninn til hins ýtrasta. Þegar við komum úr bænum og inn á fjallaveginn voru tvö skillti með stuttu millibili sem við rétt gátum lesið á þegar bíllinn lýsti þau upp. á þeim stóð: "Drive slow, live long" og "Speed kills".


Algeng sjón - þessir vörubílar voru mjög algengir á þessari leið.

Þannig byrjaði þessi langi og erfiði dagur. Eins og sést á formálanum hérna á undan þá leist okkur ekkert of vel á þetta í byrjun en ákváðum samt að skella okkur í kærulausa gírinn og láta aksturinn ekki hræða okkur of mikið. Þetta átti að vera 16 tíma akstur en varð í heildina 19 tímar með fjórum stoppum, þ.e. tvö matarstopp í hálftíma hvort og tvö kaffistopp í korter. Ég ætla að reyna að segja frá því helsta sem gerðist í ferðinni án þess að vera of margorður en ákvað að hafa formálann nokkuð viðamikinn til að byggja upp spennu :-) Ég sá stjörnuhrap rétt áður en við lögðum af stað og því vissi ég að við myndum komast lifandi úr ferðinni.

Mestur kraftur fer í það að segja frá bilstjóranum því ég verð bara að nota orðið fáviti um hann, og vona að ég geti rökstutt slíka orðanotkun hér að neðan.

Bílstjórinn virtist vera nákvæmlega sama um okkur hin í bílnum og ekki bera virðingu fyrir nokurri lifandi skeppnu sem kom nálagt bílnum. Eins og áður sagði þá reykti hann ofan í okkur og spilaði þessa indversku tónlist í sínum lélegu græjum alltof hátt alla leiðina. Það kom ekki 5 mínútna hlé á tónlistinni allan tíman sem við vorum í akstri - eina pásan var þegar hver kasetta kláraðist og hann setti nýja í. Ég held að við hofum fengið 2 fyrir einn - bílstjóra og plötusnúð.

Aksturslag hans var í besta falli vafasamt og í versta falli glæfralegt. Það var samt langverst fyrstu klukkustundirnar en við áttuðum okkur síðar á því að hann var greinilega að reyna að ná hinum 3 bílunum sem við vorum síðan í samfloti með alla leiðina til Leh. En okkur hafði seinkað útaf vandræðum við að finna farþegana um nóttina. Þegar við náðum hinum bílunum skánaði aksturslagið en það var samt sem áður gríðarlega hratt ekið.

Hann sýndi öðrum bifreiðum ekki mikla tillitssemi. Þegar hann kom aftan að bíl sem fór hægar yfir þandi hann flautuna og háu ljósin þangað til hann gat komist framúr. Þegar mætt var bílum þá skellti hann háu ljósunum á þegar það voru svona 15 metrar í viðkomandi bíl en beið ekki eftir að hann kæmist framhjá. Eins var hann mjög óliðlegur við ökutæki sem komu á móti - t.d. þegar farartæki var að koma í gegnum þröngan kafla þá gaf hann í og stoppaði rétt fyrir framan bílinn og vildi að hann bakkaði alla leið í gegnum kaflan í staðinn fyrir að hann myndi bakka nokkra metra. Þetta kom nokkrum sinnum fyrir og oftast þurfti hann að lúffa enda ekki með nein rök sín megin. Eitt skiptið var þetta skólarúta með stálpuðum unglingum og undrandi hausar stungust útum alla glugga á rútunni horfandi á okkur eins og við værum algjörir fábjánar - sem var að hluta til rétt. Eitt skiptið var það stór vörubíll og stjórnandi hans var eldri góðlegur maður sem hristi hausinn og krosslagði hendurnar til merkis um að hann gæti spilað þennan þrjóskuleik lengi því það væri fáránlegt fyrir hann að bakka þessum stóra bíl a.m.k. 100 m í staðin fyrir að við bökkum 2m. Það var auk þess nokkuð algengt að verið væri að reka stóra fjár- eða geitahópa yfir veginn, oftast nálagt þorpum og sveitabæjum. Í þeim tilvikum var að sjálfsögðu ekkert annað að gera en halda niður flautunni í a.m.k. 10 sekúndur í hvert skipti margoft og koma á fullri ferð að hópnum og nánast vonast til að hann opnist eins og hafið fyrir Móses. Það gerðist að sjálfsögðu ekki enda á þessi maður pantað öruggt sæti á allt öðrum stað en Móses, en það er allt önnur saga. Hann negldi þó alltaf niður rétt áður en hann kom í hópinn en flautaði og nánast juðaði sig í gegn. Ótrúlegt var að sjá stillingu smala og bænda við þessari frekju og skiptu þeir ekki einu sinni svip heldur flýttu sér aðeins að ryðja veginn fyrir okkur. Eitt og annað smávægilegt mætti nefna í sambandi við bílstjórann en það yrði of langur textir
.
Eins og þið heyrið lesendur góðir þá hef ég ekki mikið álit á þessum bílstjóra en hann náði nú samt ekki að eyðileggja ferðina. Hann mátti eiga það helvískur að hann var skratti góður ökumaður og skilaði okkur í góðu ástandi á leiðarenda.


Farartæki okkar í ferðinni af gerðinni TATA Spagio.


Hjólbarðinn á bílnum var að syngja sitt síðasta.


Bílstjórinn knái að setja indverska popptónlist í kasettutækið.


Ef það væri hljóðupptaka þegar þessi mynd væri tekin væri það langt píp í bílflautu.


Þessi bílstjóri krosslagði hendur þegar bílstjórinn okkar vildi að hann myndi bakka mun lengri leið en við þurftum að gera.


Þarna var bílstjórinn alveg að missa það. Tveir bílar sem lokuðu götunni og þegar hann var að flauta á fullu (fyrsta flautið stóð í c.a. 30 sekúndur samfleytt) kom geitahjörð eftir götunni og kom á milli kyrrstæðu bílanna. Sem betur fer sá bílstjórinn ekki glottið á mér, þá hefði ég sennilegast þurft að ganga yfir Himalayafjöll eins og Henry Harrier.



Þessi leið sem farin var er næsthæsta leið í heimi fyrir vélknúin ökutæki, hæsti punktur er í Taglang La í Himalayafjöllum í 5328m hæð. Leiðin var opnuð almenningi árið 1989 og er haldið í lagi af hópum af starfsmönnum frá Nepal og Bihar sem dveljast upp í fjalli við erfiðar aðstæður og laga veginn þegar móðir náttúra ákveður að slíta hann, sem er nokkuð oft. Honum er haldið opnum til 15. september ár hvert en þá er kominn vetur og ekki í mannlegu aflu að halda honum lengur opnum.
Það er ekki ofsögum sagt að náttúrufegurðin á þessari leið er stórbrotin og stórkostleg, varlega orðað myndi ég segja. Landslagið minnir oft á Ísland, t.d. vestfirði, Landmannalaugar og fleiri staði nema hvað allt er bara margfallt stærra og meira í sniðum. Eins eru lítil þorp og sveitabæir sem setja svip sitt á landslagið.


Landslagið þarna var svo hrikalegt og gjáin það stór og mikil að ég efast um að það sé að skila því í ljósmynd. Þessi mynd a.m.k. skilar því engan vegin því þetta var mun hrikalegra en þetta sýnist.


Nei, þetta eru ekki Landmannalaugar heldur í Himalayafjöllum.


Dæmigert landslag fyrri hluta leiðarinnar.


Verkamaður gengur fram hjá skúrum.


Horft niður dalinn sem við keyrðum snemma í ferðinni.


Þarna vorum við komin ofar í fjallið og farið að þykkna upp.


Fjöllin eru oft hrikaleg ásýndar. Ef glöggt er skoðað má sjá göngustíga í fjallinu.


Þarna er vegurinn hogginn eða sprengdur inn í fjallið.


Þessi mikli dalur er í Kashmir - þarna keyrðum við eftir gríðarlega langri eyðimörk - hver bíll eftir sínu höfði því það eru engvir sérmerktir vegir þarna. Þetta gæti einnig verið á Íslandi.


Vinnumenn að vinna við vegaframkvæmdir.



Við þurftum að stoppa fjórum sinnum við varðtjöld á leiðinni og sýna vegabréf og þar voru allar upplýsingar úr því skrifaðar í bækur. Það var skondið að í fyrsta þannig stoppinu fórum við inn í tjald og þar sat varðmaðurinn uppréttur í rúminu með sængina yfir sér, hafði bara risið upp til að skrá okkur og síðan aftur að sofa. Ástæðan fyrir þessum skráningum öllum er að þetta svæði liggur nálagt landamærum við Pakistan og er herðnaðarlega mikilvægt.

Þar sem þessi ökuferð fer upp í gífurlega hæð finnur maður vel fyrir þynnra lofti og fær vott af hæðaveiki. Ég fann fyrir smá hausverk og svima í fyrsta stoppinu upp í fjöllum þar sem snæddur var morgunverður í tjaldi hjá Tíbetum. Ég vissi ekki alveg hvort þetta var þreyta, bílveiki eða háfjallaveiki þannig að ég ákvað að bíta í jaxlinn og reyna að halda út aðeins lengur enda ekki mikið annað að gera í stöðunni. Stuttu síðar þurftum við að stoppa vegna vegaframkvæmda og ég var ennþá nokkuð slappur og fer út til að fá frískt loft en þá fann ég fyrir svima vissi að þetta var líklegast útaf fjallaloftinu. Ég rölti til bílstjórans á næsta bíl og sagði honum frá líðan minni og hann sagði mér að drekka mjög mikið vatn, helst góðan sopa á tveggja mínútna fresti og gaf mér líka einhverja töflu sem átti að hjálpa mér við þetta. Þeir stungu líka upp á því að ég myndi skipta um bíl og fór ég því aftast í aðra smárútuna og sat þar í þröngu sæti umrkingdur fólki og farangri. Þar kom ég mér fyrir þannig að ég hallaði aðeins aftur og var þannig í svona 5-6 tíma. Hreyfði mig lítið og leið hvorki vel né illa. Ég gleymdi að taka með mér vatn í bílinn en sem betur fer gat ég fengið lánað.
Þegar við fórum upp á hæsta punktinn, sem var eins og áður sagði í 5328m hæð ákvað ég að fara ekki út, það voru aðeins fáir sem gerðu það því flestum leið ekkert of vel. Ég vissi líka að ef ég færi út myndi mig svima aftur og fá ógleði og líklegast kasta upp. Stúlka sem sat fyrir framan mig fór út og ég sá hana reika undarlega í spori þangað til unnusti hennar greip hana og hún ældi síðan stuttu síðar þarna fyrir utan. Þá kallaði einn bílstjóranna að við skyldum drífa okkur í bílana og halda áfram því hæsti punktur var að baki og leiðin núna niður og það er það sem þarf til að laga þessi áhrif hjá fólki. Sonja fór aðeins út og var líka óglatt og ég sagði henni bara að drífa sig inn í bílinn sinn. Ég hef ábyggilega litið út eins og Andy Pipkin (gaurinn í hjólastólnum í Litle Brittain) þar sem ég sat þarna afturí nánast í móki.
Þar sem ég sat aftast í smárútunni þá hossaði ég virkilega mikið en ég fann ekki bílveiki af því sem betur fer. Sá sem sat við hlið mér var vanur þessari leið, dökkur maður með túrban og klukkustund eftir að við fórum á hæsta punktinn stökk hann yfir mig, reif upp gluggann og ældi eins og múkki. Já, það er greinilegt að öðrum en okkur þótti þessi maraþonreið erfið.

Ég ætla að vona að Siggi og Búrkni hrekkjusvín geri ekki grín að mér fyrir að vera veikur í þessari hæð en það getur komið fyrir menn sem eru í frábæru formi - skiptir víst ekki máli. :-)


Þarna erum við á hæsta punktinum og ég hangi inn í bíl og lít út eins og Andy Pipkin.


Þarna erum við stopp vegna vegaframkvæmda og ég farinn að finna verulega til hæðaveikinnar og skipti um bíl til að athuga hvort það myndi eitthvað bæta þetta.


Gaurinn fyrir framan mig í rútunni varð ansi fúll í fyrsta stoppinu eftir að ég skipti um bíl til þess að athuga hvort ég væri í lagi. Ég hafði þá braggast aðeins og opnaði rúðuna hjá mér sem renndi til hriðar og tók sennilega eitt hár af honum með þar sem hann lá sofandi með hausinn að glugganum. Hann hrökk við og hreytti einhverjum óhróðri í mig en ég bara brosti til hans. Ég hefði glaður reitt öll hár af höfði hans, punghár og jafnvel rasshár til að geta sagt Sonju að ég væri ekki að syngja mitt síðasta þarna.

Seinnipartur leiðarinnar var í miklum kulda og það snjóaði töluvert og var mjög kalt inni í bílunum. Við Sonja vorum sem betur fer með svefnpoka sem bjargaði okkur alveg held ég.


Fyrsta stoppið - þarna var snæddur morgunmatur og fékk ég mér núðlur.


Þarna sitjum við úti eftir matinn að bíða eftir að lagt verði af stað.


Seinna stóra stoppið - búið að útbúa borð fyrir okkur.


Það sem olli líka ógleði hjá mörgum var að bílstjórarnir vildu aka með frekar stutt millibil og bílarnir pústðu mjög mikið. Ég held líka að lyktin og loftið af pústinu verði mun meiri í svona þunnu lofti en nenni ekki að gera grein fyrir máli mínu. Það olli því að það var oft mögnuð pústlikt í bílunum og þurftum við oft að hafa bundið fyrir vit okkar til að geta andað. Eitt skiptið þegar ég var aftast í smárútunni sá ég pústreik þegar ég horfði fram í rútuna þannig að þetta var mjög skrítið. Ein rútan pústaði áberandi mest og við lentum fyrir aftan hana síðustu 2-3 tímana og reyndum ítrekað að fara framúr en af einhverri fáránlegri ástæðu gerði bílstjórinn á undan allt til þess að það yrði ekki og því var virkilega vont loftið í bílnum okkar, blandað við sígarettureyk bílstjórans.


Eins og sést á þessari mynd var mikið pústað úr þessum bílum. Þeir voru líka án miðstöðvar þannig að þad varð á tíma ansi kallt í þeim.

Okkur var sagt þegar við keyptum ferðina að þetta væri rúmgóðir og þægilegir og ekkert mál væri að stoppa til að taka myndir. Þetta var nú ekki alveg rétt því eins og ég sagði áður þá var aafar þröngt um okkur frammí og eins of fyrr segir þurfti Sonja að hafa aðra löppina hinum megin við gírstöngina svo hann gæti skipt um gír. Þarna kom sér vel áralöng þjálfun hennar að sitja í þjöppuðum pallbíl við sumarstörf hjá Sorpu. Eins var ekki séns að biðja þennan bílstjóra að stoppa til að taka myndir. Hann gaf í ef eitthvað var þegar við tókum myndir út um glugganN og vildi varla taka pissustopp. Einu sinni þegar ég bað hann að stoppa var hann byrjaður að gefa bílnum inn og flauta þegar ég var hálfnaður að pissa, það gerðist reyndar oftar en einu sinni.

Þegar við vorum búin að vera í bílnum frá 2:40 til 17 þá var stoppað á stað og við héldum þá að við værum rétt að renna inn til Leh. Við spjölluðum þá við konu sem var að koma frá Leh og þau lögðu af stað kl. 5 um morguninn þannig að það var gífurlega langt eftir. Maður varð gífurlega þreyttur og slappur nokkrum sinnum á leiðinni en náðum alltaf að rífa okkur upp. Bílstjórinn virtist verða þreyttur á svipuðum tímum og við því til að halda haus þá setti hann alltaf svona indverskt teknó í spilarann og stillti það sérstaklega hátt . Síðastu 4-5 tímana fundum við reyndar ekki fyrir mikilli þreytu og þegar til Leh var komið fundum við varla fyrir þeytu sem ég skil í raun ekki.

Þannig hljómaði í stuttu máli þessi 18 tíma ferð um gríðarlega hátt landsvæði eftir allskyns vegum, allt frá malbikuðum vegum niður í slóða sem voru varla jeppafærir til hinnar afskektu borgar Leh í Ladakh héraði.

Þegar við vorum að nálgast Leh var keyt ansi greitt eftir ljóslausum götum með litlum kofum og húsum á báða vegu. Bílstjórinn var alveg hættur að spila indverska poppið og komin yfir í Indverska danstónlist. Þar ók hann á 120 km hraða og allt í einu var risavaxinn skriðdreki, sennilega af stærstu gerð, sem kom keyrandi á móti okkur á hinni akreininni á veginum og gnæfði yfir okkur og hljóðið í honum yfirgnæfði hljóðið í danstónlistinni. Þegar við vorum komin framhjá honum lýsti bíllinn upp þann næsta og alls voru þetta um 15 skriðdrekar. Það að keyra á þessum hraða um ólýst úthverfi framhjá stórum skriðdrekum komandi á móti okkur á hinni akreininni með danstónlist í botni var vægast sagt súrealísk tilfinning.

Endastoðin var í einhverju útverfi í myrkri og þar stóð hópuurinn úr öllum bílunum, horfði í kringum sig og velti fyrir sér hvernig ætti að komast á hótel. Einn pub og veitingastaður voru þarna á efri hæð í einu húsinu við óupplýst planið með drukknum unglingum, annars var ekkert þarna nema flækingshundar og tveir asnar að éta úr ruslinu. Við biðum þar í 20 mínútur eftir leigubílum sem bílstjórinn okkar sagði að kæmu og þá gafst ég upp og ætlaði að hringja í hótelið og biðja þá að senda eftir okkur en ekkert var þar GSM sambandið (eða réttara sagt er símafyrirtækið mitt greinilega ekki með reikisamning hérna). Ég fór því upp í veitingahúsið sem var vægast sagt frumstætt og spurði þar um taxa. Fjórir strákar sem voru að vinna þar komu til mín og skildu þeir eiginlega ekkert hvað ég var að reyna að segja (þrír af þeim skildu ekki einu sinni orðið taxi). Ég sýndi þeim símanúmerið á hótelinu og þeir buðust til að hringja fyrir mig. Sá sem greinilega átti staðinn talaði við hótelið þegar þeir náðu sambandi og á endanum komst hann að því hvaða hótel þetta var og bauð okkur að fljóta með sér því hann á heima rétt hjá því. Við hentum því dótinu okkar í gamla rúgbrauðið hans, ég sat afturí og Sonja framím. Hliðarhurðin viritst ekki lokast þannig að ég barðist við það alla leiðina að halda henni lokaðri þangað til við komum að hótelinu okkar - loksins. Þar komur 3 á móti okkur og spurði mikið hvernig við höfðum það því þeim var farið að lengja nokkuð eftir okkur. Við þurftum ekki einu sinni að skrifa okkur inn, þeir réttu okkur bara lykil, buðu okkur hressingu og svo góða nótt.

Núna er bara að bíða eftir ferðinni til baka ... það verður í flugvél.

6 ummæli:

Burkni sagði...

Ég er nú líka kallaður Búrkni skottulæknir og veit að menn geta þurft hæðaraðlögun fyrir talsvert minni hæð en þetta - svo ég skal gera grín að ýmsu áður en ég fer að bauna eitthvað út af þessu.

Þar að auki vil ég koma því á framfæri að mér þykir þetta blogg STÓRKOSTLEGT og að mér þykir vænt um ykkur.

kv
Búrkni Hrekkjusvín

Nafnlaus sagði...

Hæ elskurnar
Gaman að lesa bloggið, lýsingarnar frábærar. Ég tek undir það sem einhver skrifaði hér að þið verðið að gefa út þþþþþyyyyyykkkkkaaaaa bók um ferðina ykkar.
Kúns og kossar
Mútta bleika (og pabbi blái)

Nafnlaus sagði...

Elsku Sonja&Jóhann
Stóða nánast á öndinni við lesturinn, þetta er sú mest spennandi ferðasaga sem ég hef lesið og húmorinn hefur ekki beðið neina hnekki þrátt fyrir súrefnisskortinn, þið eruð frábær. Megi Shiva vera með ykkur og allar góðar vættir, bestu kveðjur frá Nínu

Nafnlaus sagði...

Ha ha ha, ég hefði dáið tvisvar á þessari leið, eruði ekki að grínast!! Ég myndi alrei þora þessu... Ég er svo bílhrædd, ég hélt í hvert skipti sem ég settist upp í leigubíl á Krít að ég myndi syngja mitt síðasta þar, en DJÍSUS!!! Ég dáist að ykkur...

Ógeðslega flottar myndir líka, vona að þið séuð búin að jafna ykkur á háfjallaveikinni, því eins og búrkni sagði þá þarf nú að venjast minni hæðum en þetta!!

Nafnlaus sagði...

Þetta er alveg mögnuð ferð hjá ykkur, ótrúleg ævintýri sem þið lendið í.
Góð ferð til baka!!
Kv. Steinunn Ósk

Nafnlaus sagði...

herra gúd á himmlinum (eins og amma hefði sagt)!
Það fyrsta sem mér datt í hug var: hvað ætli Áslaug hugsi?! jeminneini
Og mikið er fallegt þarna!
En Jóhann er alveg met - alveg til í að veita virkilega kvalafullar vaxmeðferðir á karlmönnum (gleymdir nú alveg bringuhárunum og undir höndum...;)
Jedúddamía - indversk teknó, reykingar og útblástur úr öðrum bílum, snarklikkaður bílstjóri!! Ég hefði sjálf keyrt! Flautað og gefið inn og keyrt í burtu þegar hann færi að pissa!!! hehehe skilið hann eftir í mökk:D
M