þriðjudagur, september 11, 2007

Síðari dagur í Deli.

Ég las einhverstaðar að ekkert gæti undirbúið mann fyrir Indland. Ég held að það sé nokkuð til í því. Hérna fá öll skilningarvit manns að vinna yfirvinnu þegar borgirnar eru skoðaðar. Hávaðinn í umferðinni er gríðarlegur, mikið af mótorvögnum og öðrum farartækjum sem flauta í sífellu ásamt því sem fólk talar yfirleitt mikið og hátt. Lykt af mat er nánast allsstaðar og er hún sterk eins og maturinn er oft. Í lélegri hverfum blandast hlandlykt við matarlyktina og í enn verri hverfum lykt sem ég held að sé af mannaskít. Augun fá líka sinn skerf því það er gríðarlega mikið líf allsstaðar og Indverjar eru mikið fyrir að nota mikla og litríka liti á bæði klæðnað og annað. Það er t.d. skrítið að sjá í mestu fátækrarhverfunum konurnar í litríkum og mjög hreinum sari og ganga þær þar um eins og gyðjur.

Indverjar eru með eindæmum kurteist og vinalegt fólk. Það er gaman að tala við þá og þeir vilja allt fyrir mann gera ásamt því að vera yfirleitt hressir og skemmtilegir. Þeir eru líka forvitnir, t.d. á hliðargötum sem koma fáir túristar þá vilja þeir vita hvaðan við erum og horfa mikið á mann og grínast.

Það að setjast upp í mótorvagn og fara þannig um borgina er eins og að setjast í rússíbana því umferðarmenningin hérna er vægast sagt öðruvísi en við eigum að venjast. Menn sikksakka fram og til baka, akreinar eru minna en ekkert virtar, aðeins eru sentimetrar á milli faratækja og ótrúlegt að við skulum ekki einu sinni hafa nuddast utan í annað farartaæki. Mótorvagnarnir eru flestir með hliðarspeglana að innan því annars væru þeir farnir á bílunum eftir nokkrar sekúndur á götunum. Manni líður eins og korktappa að fljóta niður flúðir á stærstu umferðargötunum. Dæmi um það er að beygja á stórum gatnamótum þegar bílstjórinn okkar keyrir á fullu inn í umferðina sem inniheldur stóra trukka og annað og beygir ekki fyrr en á síðustu stundu ásamt því sem farartækið sem við stefnum á beygir líka örlítið sem veldur því að þau rekast ekki saman. Við setjum upp kæruleysisham þegar við förum upp í farartæki og maður er einhvernvegin aldrei hræddur - ekki einu sinni þegar stór trukkur stefnir á mann í nokkurra metra fjarlægð því maður einhvernvegin veit að þetta reddast allt.

Við fórum tiltölulega snemma af stað niður í bæ um morguninn. Sonja sagði mér að henni hafi dreymt að við hefðum verið að gifta okkur og ég spurði hana að því hvort það hefði verið góður draumur eða martröð. Hún svaraði því ekki, sennilegast eins gott.

Við ákváðum að byrja við Rauða virkið í gömlu Deli. Þar á gatnamótunum var talsvert af fólki og lítil stúlka í rauðum kjól bauð okkur blævangi þar sem við stóðum og biðum eftir grænum göngukalli. Við sögðum nei en hún gafst ekki upp og virtist gáfaðri og skynsamari í talsmáta en aldur hennar gaf til um. Eftir nokkra stund sýndum við góða uppeldisaðferð (ekki það að við séum eitthvað að halda að við séum í einhverju uppeldisstarfi, sérstaklega við stúlku eins og þessa sem hefur líklegast reynt meira og þurft að hafa meira fyrir lífinu en við) og gáfum henni pening, 10 RS sem er talsverður peningur og hún virtist mjög ánægð. Nokkrum sekúndum síðar kom hún aftur og benti út á ljósin og sagði "It's OK - you can walk" þó grænn kall væri ennþá og mikil umferð á báðum tvöföldu akreinunum. Síðan labbaði hún út á götuna eins og ekkert væri og alveg yfir og bílarnir stoppuðu fyrir henni og enginn virtist pirraður á því. Við hlupum yfir á eftir henni eins og við værum að hlaupa á milli skotgrafa í stríðunu með byssukúlur allt í kring.


Litla stúlkan sem hjálpai okkur yfir götuna


Þó það líti þannig út er Sonja ekki að hlæja af vinnandi manni heldur sagði hann eitthvað við okkur þegar hann fór framhjá sem við vorum að hlæja að.

Eftir stutta dvöl við virkið fórum við inn í borgna (í bókstaflegri merkingu) og gengum inn fyrstu mjóu hliðargötuna sem við sáum. Þannig eyddum við næstu klukkutímunum í að labba litlar hliðargötur án þess að hafa hugmynd hvar við vorum. Það var virkilega gaman því þarna sér maður nánast allt og sennilega fátítt að ferðamenn komi þangað. Allskonar litlar búðir eru við þessar götur sem selja mat og varning og fólk er að vinna við að búa til mat og hluti út um allt á þessum götum. Sumar af þessum hliðargötum voru mjög hreinar og fínar og aðrar dimmar og skítugar, svona eins og gengur. Göturnar virtust líka vera skiptar upp eftir því hvað var framleitt þar, t.d. voru nokkrar götur sem pappír var búin til í, önnur sem möppur voru settar saman, önnur skrifblokkir (fengum m.a.s. gefnar skrifblokkir af góðum manni), enn önnur hurðahúna o.s.frv.
Við þurftum líka að vera vel vakandi því öðru hverju komu vespur á fljúgandi ferð þarna í gegn þó varla væri pláss fyrir þær og maður þurfti þá bara að vera fljótur að leggjast upp að veggjum. Einu sinni var keyrt á mig, reyndar af reiðhjóli með vagni þegar ég var að taka mynd og steig óvart eitt skref afturábak. Reiðhjólamaðurinn varð alveg trítilóður en ég bara brosti til hans og þá rann af honum reiðin og hann hélt áfram.
Eins eru mikið af flækingshundum þarna og í einni dimmri hliðargötunni var frekar óárennilegur hundur sem stóð meter frá okkur og urraði á okkur og virtist vera að bjóða okkur upp í dans. Okkur leist nú ekki á þetta því ef við yrðum bitin þyrftum við að fara upp á spítala innan 4 klst til að halda lífi því annars fengjum við hundaæði sem er víst ólæknanlegt. Okkur var "bjargað" af Indverja sem var ekki langt frá sem kom og rak hann í burtu og brosti síðan blíðlega til okkar - já, þetta er yndislegt fólk, það verður að segjast.

Hérna koma nokkrar myndir frá gönguferðinni um hliðargöturnar:


Eins og sést hérna er ég búinn að klæða mig upp í föt eins og innfæddir og skeggið hefur vaxið aðins og upplitast í sólinni.


Þessir menn voru afar hressir við fyrstu litlu hliðargötuna sem við fórum í. Þeir voru þar að hefla timbur.


Verið að elda mat fyrir framan lítið hof.


Rakarinn bíður eftir viðskiptavinum.


Vinnandi menn að hvíla sig.


Litum inn í miðjugarð sem var nokkuð flottur - greinilega staður fyrir íbúa að iðka trú sína.


Hjá rakaranum.


Ansi flottur náungi.


Flækingshundar eru sofandi út um allt.


Við eina af götunum var lítill bílskúr þar sem var verið að flokka dósir úr rusli. Þessi skemmtilegi og snyrtilegi maður var að vinna þarna. Takið eftir hundinum sem er að róta í ruslinu.


Mjög skítug hliðargata.


Þreyttir vinnumenn.


Viðgerðamaður bíður eftir viðskiptavinum.


Ég held að þetta sé kaffihús.

Við enduðum á stórri götu sennilega miðsvæðið í gömlu borginni þar sem var mesta umferðaröngþveiti sem við höfum séð. Gatan var gjörsamlega stöppuð af vögnum ýmiskonar og allt stopp og gríðarleg læti. Við gegnum slatta tíma um þarna og fylgdumst með og virtumst við vera komin í meira múslímahverfi því margar konur voru með höfuðsjöl og þó nokkrar í búrkum. Við stöldruðum ekkert gríðarlega lengi þarna enda orðin svöng og ákváðum við því að halda í átt að verslunarhverfinu og fá okkur eitthvað gott að borða. Við spurðum því næsta reiðhjólavagnsstjóra hvað myndi kosta og bentum á staðinn á kortinu en hann virist ekki skilja mikið og innan við nokkurra sekúndna voru við umkringd af svona 20-30 mönnum sem allir vildu vita hvert við værum að fara og vildu greinilega hjálpa. Það myndaðist algjört öngþveiti þarna og ástandið var orðið frekar fyndið - gatan gjörsamlega stífluð. Þetta endaði á því að okkur var sagt að best væri að taka neðanjarðarlestina sem hægt væri að taka þarna rétt hjá og það var samið við hjólarann um að það kostaði 15 RS og við héldum þvínæst af stað.
Þegar við komum að stórum gatnamótum sem var með jafnvel meiri traffík en það fyrra benti hann okkur á tröppurnar fyrir neðanjarðarlestina og vildi fá greitt 15 RS fyrir hvort okkar. Við nenntum ekki að þræta við hann enda orðin svöng og auk þess eru þetta fáránlega litlar upphæðir (15 RS = 1.8x15 kr.).


Hjól og pollur.


Gotulif.

Við gegnum inn á mitt umferðartorgið sem var gríðarlega háfaðasamt og mikið af hjólavögnum og algjört öngþveiti fyrir leikmenn eins og okkur og löbbuðum niður tröppurnar sem virtust ekki eiga heima þarna því þær voru spánýjar og úr marmara og nánast enginn á ferð í þeim. Þegar við síðan komum niður var eins og við hefðum farið í tímavél eða verið flutt á annan stað í heiminum því þarna vorum við komin í nýtískulegustu neðanjarðarstöð sem við höfum komið á. Allt eins hreint og flott eins um um getur, falleg kvennmansrödd tilkynnti í kallkerfi um næstu lestir, tölvutöflur á veggjum yfir tímaáætlanir, rúllustigar af nýjustu gerð o.flr. það var einnig gríðarlegt öryggi þarna, þetta minnti mann á flugstöð - þurftum að ganga í gegnum málmleitartæki og síðan var leitað á okkur af þungbúnum lögreglum eða hermönnum og síðan fengum við að halda áfram. Lestirnar þarna voru líka tandurheinar og þetta í raun mun flottara en í stórborgum vestur-Evrópu.

Við náðum að koma okkur inn á mjög flott veitingahús rétt áður en það lokaði og borða þar frábæran indverskan mat. Eftir matinn kíktum við á nýtísku kaffihús og fengum okkur límonaði og kaffís og tókum svo eftir því að við vorum að falla á tíma með að ná rutunni því við áttum eftir að kaupa nesti og sækja farangurinn upp á hótel. Við tókum því næsta mótorvagn og hann keyrði okkup upp á hótel með viðkomu í búð. Ferðin tók 40 mínútur því við vorum á haannatíma. Það var ekki nægilega góður millitími því þegar við vorum komin upp á hótel voru aðeins 15 mínútur þangað til við áttum að mæta í rútuna til Manali og næstum jafn langt til baka og leiðin upp á hótel. Ég stökk inn bað um farangurinn og kvaddi hóteleigandann sem starði á magaveskið mitt þegar ég lagaði það til - hélt greinilega að ég ætlaði að gefa honum eitthvað feitt þjórfé en ég var nú ekki á því. Gaf samt strákunum tveimur sem náðu í bakpokana þjórfá og síðan var haldið af stað.
Ég sagði leigubílstjóranum hvert við værum að fara og að við þyrftum að vera komin þangað kl. 18. Hann leit á klukkuna og sagði "Rally" og gaf í. Hann keyrði eins og brjálaður maður og fór ýmsar hliðargötur til að sleppa við umferðina og leit í sífellu á klukkuna ásamt því að syngja hástöfum lög úr indverskum bollywood myndum. Þetta var mjög súrrealískt atriði og skemmtileg rússíbanaferð.
Ótrúlegt en satt náðum við á rútustöðina á akkúrat 15 mínútum og Sonja hljóp inn á skrifstofuna á meðan ég affermdi vagninn af farangri okkar. Bílstjórinn drap á hjólinu og kastaði mæðinni og var greinilega mjög ánægður með sig og sagði vantrúuðum öryggisverði frá vegalengdinni sem hann hafi farið á þetta stuttum tíma. Ég borgaði honum umsamda 200 RS og gaf honum síðan 20 RS auka fyrir glæsilegan akstur og skemmtilegan söng - hann varð mjög ánægður og kvaddi með handabandi.

Þegar á reyndi áttum við víst að mæta hinummegin við stöðina og þurftum því að hlaupa með allt okkar dót og taka þar á móti skömmum frá umsjónarmanninum sem sá um að allir væru komnir. Ég var löðursveittur eftir að hafa haldið á báðum bakpokunum okkar í miklum hita og raka og hafði auk þess ekki farið í sturtu í tvo daga. Ég henti því á fæturnar talkum fótadufti áður en ég fór inn í rútuna og það myndaðist hvít ský fyrir utan áður en ég steig inn. Framundan var 19 tíma rútuferð upp að rótum Himalayafjalla.

Ég kíkti í dagblað um leið og ég var kominn upp í rútuna. Aðalfréttin var að vörubíll með 211 pílagrímum á leið til Rajasthan fór út af veginum. Vörubíllinn fór útaf hlikkjóttri götu í gegnum vegrið og niður í gjá - helmingurinn lést. Hvernig í ósköpunum er hægt að koma 211 manns um borð í einn vörubíl og er bílstjórinn inni í þeirri tölu?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fyndið með umferðaröngþveitið sem þið sköpuðuð og bílstjórann á hjólinu sem sagði: Rallý! hihihi
MCM