Manali er þorp í Kullu dalnum í Himachal Pradesh. Himachal Pradesh svæðið er nokkuð vinsælt hjá ferðamönnum því landslagið þykir stórfenglegt með mjög löngum og háum dölum við rætur Himalaya fjalla. Svæðið þykir hafa stórbrotnustu fjallavegi og fjallagönguleiðir sem fyrirfinnast. Mér þykir þetta nafn Manali hljóma frekar Afrískt og það kom upp skrítinn svipur á leiðsögumanni þegar ég spurði hvernig maður kæmist til Malavi. Þetta verður áfangastaður okkur á leið okkar til Ladakh og er rútuferðin um 18 tímar.
Þegar í rúturna var komið sáum við að við vorum í tveimur öftustu sætunum vegna þess hve seint við mættum og áttum ekkert annað skilið. Sonja hafði reyndar smávegis áhyggjur af því að hún yrði bílveik en það slapp nú þó hún hafi fundið fyrir örlítilli ógleði. Gallinn við sætin okkar var að hlífin fyrir takkana í loftinu var eitthvað laus og því blés loftræstingin of miklu köldu lofti á okkur og við höfðum alveg gleymt að taka nokkuð með okkur úr bakpokunum. Sonja var þó aðeins betur klædd en ég, hafði með sér peysu og var í buxum en ég var bara í stuttbuxum og stuttermabol. Þegar leið á ferðina fengum við þó teppi sem bjargaði okkur alveg. Auk bílstjórans var lítill karl í rútunni sem hét Hermens sem sá um alla þjónustu og að allt væri í lagi. Hann reyndi að líma fyrst dagblað og síðan plastið af teppinu mínu yfir svæðið í loftinu hjá mér sem var laust en það gekk nú ekki vel hjá karlgreyjnu. Fyrst setti hann plastbútinn upp og límdi síðan teiplengju yfir plastið án þess að fara útfyrir það og fá þannig einhverja festingu við loftið. Hann setti tvo límspotta beint á plastið og þá tókum við bara við og sögðumst redda þessu og gerðum þetta almennilega.
Það var sjónvarp í rútunni og hressilegri Bollowood mynd var skellt í tækið og eins og siður er víst hjá Indverjum í rútum þá var hljóðinu úr myndinni blastað í gegnum tilkynningahljóðkerfið á fullum krafti með tilheyrandi bjögun og truflunum þannig að þetta var nánast ærandi á köflum. Þannig kláraðist heil bíómynd (eða voru þær tvær) og allir virtust una þessu vel - við gerðum ekki athugasemd við þetta því við vildum ekki skemma skemmtunina fyrir hina. Sonja hafði það á orði að hún héldi að Indverjar gætu bara ekki þrifist án háfaða í kringum sig.
Fljótlega eftir að við lögðum af stað fór að dimma og það var gaman að sjá úthverfi Deli í dimmunni þar sem fólk safnast saman í garða sína og aðra staði og virðist vera að elda sér saman mat yfir varðeldum. Allstaðar er fólk á ferli og mjuög fjörugt götulíf, m.a.s. í kringum hraðbrautir.
Það var stoppað á 2 vegasjoppum á leiðinni sem voru mjög ólíkar. Fyrra stoppið var á bílaplani við lítið sveitahótel fyrir fínt fólk og var nokkuð öryggisgæsla við það. Lítil sjoppa var á planinu sem spilaði bjagaða tónlist í botni, greinilega til að laða að háfaðaþyrsta ferðalanga. Seinna stoppið var við lítla "sjoppu" sen var eiginlega bara hreysi úti í miðjum skógi. Klósettið á því voru tveir útikamarar og Sonju leist nú ekki vel á þá - ég þurfti að fara rannsóknarferð inn á þann sem virtist hreinni og athuga með skordýr. Það var ein fluga við dyrnar sem var c.a. 6 cm á lengd sem ég þurfti að gjöra svo vel og fjarlægja áður en klósettið var hæft fyrir prinsessur.
Þegar ég var kominn út úr rútunni á þessu hálftíma fyrra-stoppi fyrir framan hótelið gekk ég að hlið rútunnar og stóð þar og horfði í kringum mig. Þá kemur ökumaðurinn og opnar hliðarhólfið þar sem farangurinn er vanalegast geymdar og út úr því skríður maður í eins fötum. Þegar ég labbaði aðeins nær og leit inn í farangursgeymsluna var þar að finna litla viftu og útflatt teppi á milli farangursins þar sem greinilega hafði legið maður. Ég trúði þessu varla og spurði hvort hann hafi veirð þarna alla leiðina og reyndist svo vera. Þetta var þá annar bílstjóri til að skiptast á við þann fyrri að keyra á leiðinni og síðar endaði hinn þarna inni. Ég skil ekki alveg af hverju það þarf tvo bílstjóra plús einn þjón ef þeir komast ekki allir inn í rútuna. Þegar við vorum síðan að leggja af stað og annar bílstjórinn skreið inn sá ég tvo indverja labba þar framhjá og þeir trúðu ekki sínum augum og spurðu undrandi um þetta þannig að þetta er greinilega ekki venjan að búa svona um menn sem betur fer. Ég hugsa að eftirlitsmenn hjá vinnueftirlitinu heima á Íslandi fengju hjartaáfall ef þeir myndu sjá þetta.
Það virðist oft vera þannig að það vinna margir á sama staðnum. T.d. þegar við förum inn í litla sjoppur í borgunum til að kaupa vatn er ekki óalgengt að það sé einn starfsmaður vörður við dyrnar og 4-5 að vinna inni á stað sem er ekki stærri en mjög lítil sjoppa heima.
Sætin í rútunni voru úr leðri og þar sem ég var rassblautur af svita þegar ég mætti batnaði það ekki og ég var óþægilega klístraður á afturendanum alla leiðina. Ég brá nú samt á það bragð að fara úr nærbuxunum á miðri leið án þess að nokkur yrði þess var, og síðan aftur í stuttbuxurnar til að minnka svitann. Ég var nánast ekki búinn að fara úr þeim þegar Hermens labbar á alla faregana og sprautar með táfýluspreyi á allar fætur án þess að spyrja fólk sérstaklega um það. Ég er ekki viss um hvort hann hafi fundið lyktina af nærbuxunum og haldið að það væri táfýla eða hvort þetta er venjulegt vinnuferli um borð í þessari rútu.
Rútuferðin var annars prýðileg. Ég tók svefntöflu um 23 um kvöldið og svaf eins og ungabarn fram á morgun. Þegar við vöknuðum vorum við komin upp í fjöllin og stórbrotið landslag blasti við. Þar sáum við fyrstu mennina með húfur sem minnti okkur á að við vorum að fara í kaldara loftslag. Eins fór að bera mikið á öpum sem voru ofaná kofum og hangandi á trjám út um allt. Fjallaþorpin þegar við nálguðumst Manali eru einnig gífurlega flott í þessu bratta gróna landslagi.
Við stigum út úr rútunni og þorpið Manali tók á móti okkur með góðu fersku lofti og fallegu umhverfi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Jahh hérna! Ég er alveg í krampa hérna megin... Merkilegt hvað við erum orðin góðu vön, því það yrði nú e-ð sagt ef hljóðinu væri blastað á hæðsta styrk í gegnum tilkynningarhljóðkerfið í rútum hérlendis.
Maður í lestinni - ætlaði ekki að trúa þessu!
Rassblautur af svita - hljómar ekki vel og svo versnaði í því þegar þú sagðir að þú hefðir hent þér úr nærbuxunum!!! Í rútu!
Og Hermens! je minn með táfýlusprayið hahaha
Haldið áfram góðri ferð með góðum húmor og ekta íslenskum reddingum;)
Kv. MCM
Skrifa ummæli