Já, ég verð bara að taka því, enda vön því að konur líti þannig á þig kæri eldklerkur.
Þetta var síðasta samtal okkar Sonju í flugvélinni frá London til Mumbai í gær. Ég var búinn að taka svefntöflu þannig að samtalið kannski rennur eitthvað saman við draum en ég er samt ekki viss um það. Byrjum samt ferðasöguna í Róm svo við vöðum ekki á skítugum skónum fram og aftur um tímavíddina:
Við lögðum eldsnemma af stað frá gistiheimilinu okkar í Róm, röltum á lestarstöðina og vorum þar mætt kl. 6. Þegar við vorum komin á flugvöllin hálftíma síðar reyndist vera 30 mín í innritun og þurftum við þá að hinkra. Eftir innritun héldum við inn á búðarsvæðið en fljótlega var stórum hluta þar lokað af og stuttu síðar skundaði Simon Perez þar í gegn með klanið sitt sem reyndist vera c.a. 30 manna hópur. Fólk sem var að missa af flugi var margt hvert orðið pirrað að geta ekki gengið yfir svæðið eins og vanalega og jafnvel misst af flugi útaf Perez-num.
Klukkutíma seinkun varð á okkar vél því það þurfti að bíða eftir einhverjum diplómötum sem skiluðu sér að lokum og þurftu að sjálfsögðu að koma sér fyrir í vélinni áður en okkur var hleypt inn. Þá hófst önnur leit í töskum farþega, öryggisverðunum hefur líklega ekki litist á blikuna yfir því hversu fólk var orðið pirrað og hefðu jafnvel getað gert dip-plómunum eitthvað ógagn. Þegar við vorum loks komin í vélina þá tók við heldur skemmri bið og það var víst e-r veik kona sem neitaði að fara úr vélinni og flugfreyjurnar neituðu að fljúga með svona veikan farþega! Hún fór nú loksins en þá þurfti að finna töskuna hennar innan um allan farangurinn og í þetta sinn voru engir 9 farþegar í vélinni.
Í London var síðan 6,5 klukkutíma bið eftir tengifluginu og eyddum við því að mestu í VIP svítunni en við vildum endilega prófa að nota passann sem við fengum með platínumkortunum okkar.
í fluginu til Mumbai voru einungis um 80 farþegar og vélin því ekki einu sinni hálffull - en samt fleiri en 9 farþegarninr til Rómar. Við gátum því dreift ansi vel úr okkur og lagt okkur yfir 3 sæti. Flugið tók 8,5 klst og tókst okkur að sofa megnið af tímanum, þökk sé undursamlegum svefntöflum sem bjarga mér alveg í svona aðstæðum. Við sátum með virðulegt fjölskyldufólk allt í kringum okkur og byrjaði ég á að fletta tímariti sem ég hafði keypt í fríhöfninni sem heitir Sport Daily og er svona dagblað líkt og Sun, Sunday Express o.flr. bresk blöð. Ég fletti fyrstu síðunni og þar var litmynd yfir alla síðuna af berbrjósta stúlkukinnd og varð skrítinn svipurinn á fólkinu í kringum mig þannig að ég var fljótur að fletta yfir á næstu síðu og þar var svipað efni á ferðinni og fletti ég sennilegast um 10 opnum og var á þeim öllum léttklætt (eða alls ekkii klætt) kvennfólk. Ég lokaði því blaðinu og aftaná blaðið sem var með fótboltafréttum og byrjaði að skoða blaðið frá þeim endanum þangað til eftir c.a. 3-4 opnur að það sama og áður byrjaði, þannig að ég pakkaði blaðinu niður og kíkti í 4-4-2 sem ég hafði líka keypt mér.
Við tókum leigúbíl frá flugvellinum hérna í Mumbai á aðallestarstöðina í miðri borginni. Þessi bílferð var um klukkustund á litlum og ljótum bíl og var mjög áhugaverð. Í fyrsta lagi ber svo ótalmargt fyrir augu að mann langar helst næstum að ganga til að geta tekið myndir og í öðru lagi er það bílamenningin. Það er eins og blindir menn séu að keyra sem þurfi að ýta á flautuna á 3ja sekúndna fresti til að gefa upp staðsetningu sína svo ekki sé keyrt á þá og þetta gera allir. Spurning hvort þeir noti jafn háþróað kerfi og leðurblökur?

Leigubílsstjórinn að keyra okkur frá flugvellinum.
Við keyptum síðan lestarmiða , rétt náðum 2 af síðustu 3 miðunum g þurftum að skrifa á stórt hvítt A4 blað beiðni um Tourist Quota eða eitthvað slíkt og stíla það á yfirmann lestarmála á þessari stöð. Ég skrifaði bara einhvern texta og sett inn upplýsingar eins og lestarmiða, dagsetningu og nafn og bað um að fá quota fyrir þessari ferð ... veit samt ekki alveg hvað þetta var sem við vorum að biðja um en það hlýtur að vera eitthvað voðallega gott (geri ráð fyrir að þetta sé einhver umsókn um að fá að ferðast). Eftir þetta var um 5 klst bið hérna eftir lestinni og er engin geymsla fyrir farangur þannig að við komumst ekki langt. Það var reyndar sæmileg biðstofa hérna á efri hæðinni sem við dunduðum okkur í þar til flautað var til lestarferðar, t.d. að skrifa þessi orð . Það er sér biðstofa fyrir Upper Class karla og Upper Class konur en Sonja fékk leyfi til að vera í karlasalnum enda um metri hærri en flestir karlmenn hérna og spurning hvort eru meiri kell'ingar, eins og maður segir stundum. Það er þó spurning hvort sú ákvörðun hafi verið rétt því hér spranga menn um á nærklæðunum einum fata til að skella sér í sturtu inn á klósetti, sumir leggja reyndar á sig að vefja handklæðunum utan um sig.
Ég rölti aðeins um hverfið áðan á meðan Sonja gætti taskna okkar og tók nokkrar myndir af fólkinu í kringum lestarstöðina. Það er mikið af fólki á ferli og maður fær vægast sagt mikla athygli. Athygli mína vakti að ég vakti athygli c.a. 50 manns í strætóskíli sem fóru ekkert leynt með að glápa á mig og snéru sér nánast allir þegar ég labbaði framhjá. Hafa þeir aldrei séð glæsilegan hvítan herramann með líkama grísks guðs?
Ég náði nokkrum sæmilegum myndum af fólki í þessari gönguferð og var t.d. einn alveg uppveðraður og dróg mig út um allt til að taka myndir af öllum sem hann þekkti. Fólk virðist yfirleitt vera í lagi með að það sé tekin mynd af því en sumir segja hátt NEI og bera höndina fyrir andlitið. Trikkið er að láta þetta bara ekkert á sig fá og spyrja bara næsta mann.
Hérna er það besta sem náðist fyrir utan lestarstöðina.

Sofandi maður á gangstétt.

Þessi maður var að steikja brauð.

Tveir hressir vinir.

Þessi kona vigtar fólk gegn greiðslu.

Þessi maður vildi endilega að ég tæki myndir af öllum sínum vinum.

Saumastrákur.

Kona að drekka te.

Sofandi farþegi að bíða eftir lest á lestarstöðinni. Þó að konan virðist fátæk og liggi sofandi á gólfinu finnst mér einhver reisn og þokki yfir þessari mynd sem ég á erfitt með að útskýra.

Lítill piltur á lestarstöðinni.
Einhverstaðar heyrði ég að Indland væri eins og suðupottur með nánst öllu blandað saman - ég held að ég skilji þessa samlíkingu ágætlega eftir fyrstu klukkutímana hérna. Umferðin er hávaðasöm, allt frá indverskum prinsessum niður í hálfdauða holdsveika menn sem liggja og standa á götunum, innanum hunda, ketti, rusl og við þetta bætist angan af elduðum mat, blandað við sorp, svita- og hlandlykt. Allstaðar er verið að elda og selja mat, klippa fólk, laga dekk, sauma o.flr., o.flr. þannig að mann- og götulífið er nánast jafn fjörlegt og upp í Breiðholti.
Við erum að fara í um 18 tíma lestarferð til Delí og þaðan höldum við áfram norður og endum í Leh í Ladakh uppi í Himalaíafjöllum og þá verður fróðlegt að sjá hversu lengi við höfum ferðast því þetta eru þegar komnir nokkrir klukkutímar. Sturtuferðin í lokin verður allavega ansi kærkomin og guð hjálpi þeim farþegum sem sitja með okkur síðasta hluta leiðarinnar.
1 ummæli:
Flottar myndir og skemmtileg lesning!!
Kveðja Steinunn Ósk
Skrifa ummæli