þriðjudagur, september 11, 2007

Manali


View Larger Map

Manali er virkilega skemmtilegur bær en líður fyrir það eins og margir staðir virðist vera hérna á Indlandi að það er rusl út um allt. Ótrúlega vinalegt og skemmtilegt fólk og fallegt landslag vinnur það margfalt upp.

Við byrjuðum að spyrja mótorvagnstjórana þarna hversu langt væri á hótelið sem við ætluðum að gista á. Þeir vildu keyra okkur en okkur þótti tilvalið að labba aðeins þar sem við vorum nývöknuð og loftið þarna var hressandi. Þeir sögðu að það væri á sömu götu og við vorum við (sem er ekki skrítið því Manali er í raunu bara ein löng gata í gegnum dalinn. Við þökkuðum kærlega fyrir leiðbeiningarnar og gengum í átt að hótelinu. Eftir að við vorum örugglega búin að ganga heilan kílómeter spurðumst við fyrir hvar hóteli væri og var bent í sömu átt og við vorum að ganga og það væri í tveggja kílómetra fjarlægð. Ég var hissa á því og spurði manninn sem sagði þetta að fyrir kílómetra hafði mér verið sagt að þetta væri aðeins kílómeter og þá lækkaði hann þetta niður í einn og hálfan km úr tveimur. Ég brosti og þakkaði honum fyrir og við gengum aftur af stað og vonuðumst til að þetta væri ekki það langt. Við gáfumst þó upp því við vorum ekki viss um hvort þeir væru bara að segja eitthvað því við höfum lesið að Indverjar skammist sín þegar þeir viti ekki hlutina þegar maður spyr til vegar að þeir skálda frekar eitthvað upp frekar en að segja ekkert. Að lokum tókum því vagn á hótelið sem reyndist ekki vera langt frá.

Þegar á hótelið var komið reyndist það vera fullt en þeir vildu endilega setja okkur inn´i herbergi sem var á tveimur hæðum með öðrum sem voru einhverstaðar í tveggja daga gönguferð. Okkur þótti það ekki rétt þarsem þeir sem voru með herbergið á leigu yrðu nú væntanlega ekkert of hressir með það þannig að við báðum bílstjórann sem beið eftir okkur að keyra okkur á Holiday Inn sem er þarna samkvæmt auglýsingaskillti þegar maður kom inn í bæinn.
Það hótel reyndist vera alveg hinummegin í dalnum og var langur akstur. Sonja stökk inn og athugaði um kaup og kjör og reyndist það hótel vera svona meira "resort" eða sumarleyfisdvalarstaður. Þeir vildu þó endilega sýna Sonju herbergið og þjónn kom út til mín á meðan og gaf mér ókeypis svladrykk sem var kærkomið. Herbergið var hið glæsilegasta með sér garði og allar græjur en það kostaði um 4x meira en fyrra hótelið og meira en við vorum tilbúin að greiða þannig að við ákváðum að skoða hótel sem við höfðum séð á leiðinni.
Í þetta skiptið kíkti ég inn og herbergin voru einföld en tiltölulega snyrtilegt og allt frekar nýtt. Auk þess voru svalir með fínasta útsýni yfir fjöllin á móti. Ég fór aftur niður og sagði að ég ætlaði að skoða málið en þeir buðu mér þá 50% afslátt sem gerði þetta hlægilega ódýrt, um 900 RS nóttina þannig að við tókum því.


Sitjum á svölunum og drekkum svaladrykki og höfum þetta útsýni

Við kíktum síðan í miðbæinn og skoðuðum okkur um og kíktum á veitingahús. Þar fékk ég mér Rashmi Kebab og Sonja Murg Tikka Masala ásamt Naan brauði og Raita. Við drukkum kók með og hérna fær maður það alltaf í endurnýttum flöskum og er alltaf skítugt undir tappanum þannig að maður fær alltaf rör með.

Það er mjög skemmtilegt að labba um götur bæjarins og fylgjast með mannlífinu. Fólkið er undantekningalaust mjög kurteist og sumir forvitnir og gaman að vera í kringum svona gott fólk. Einstaka sölumenn eru á ferli en þeir eru ekki mjög ágengir ... sem er gott. Það rölta asnar, beljur og hundar í gegnum bæinn og þetta því allt mjög frjálslegt. Einn asni sem hefur greinilega leggbrotnað fyrir ansi mörgum árum síðan haltrar afskiptalaus um miðbæinn og er mjög sorglegt að sjá ástandið á honum.

Sonja virðist vekja mikla athygli hjá karlpeningnum og í eitt skiptið gengum við framhjá þremur ungum mönnum sem voru að pissa. 10 mínútum síðar var bankað í bakið á mér af móðum og másandi manni og reyndist þetta vara einn þremenninganna ásamt félögum sínum. Þeir spurðu hvort þeir mættu mæla þann stærsta þennan við Sonju til að athuga hvort þeirra væri hávaxnari. Þau reyndist vera mjög svipuð og þar sem ég var látinn dæma þá sagði ég Sonja til að spæla hann og tapaði hann þá veðmáli við hina.

Ég virðist líka fá einhverja athygli frá strákum hérna því eitt skiptið þegar við sátum á veitingahúsi hérna í bænum komu inn þrír unglingar, c.a. 17-18 ára og settust á næsta borð og pöntuðu sér gosdrykki. Við veittum þeim enga athygli en þegar þeir fóru út þá gekk einn þeirra að mér og spurði hvaðan ég væri og gekk mér illa að skilja hann því hann talaði ekki góða ensku. Hinir stóðu feimnir fyrir aftan en Sonja skildi þá betur og svaraði nokkrum spurningum þeirra fyrir mig en þeir litu ekkert á hana heldur svöruðu mér alltaf. Við kvöddum þá og um 15 mínútum síðar komu þeir aftur inn og spurðu hvort þeir mættu taka mynd af mér. Þeir skiptust síðan á að sitja viðhliðina á mér á meðan hinir tóku myndirnar og þökkuðu síðan feimnislega fyrir og gengu út. Þetta er eitthvað sem maður hefur sjaldan lent í og gefur ferðalaginu hérna skemmtilegna blæ.

Seinnipart fyrir dagsins hérna gegnum við í útjaðar Manali og þar fyrir neðan veginn í c.a. 50 metra fjarlægð voru mjög hrörlegar tjaldbúðir með miklu rusli í kringum. Við ákváðum að labba niður og kíkja á fólkið og taka nokkrar myndir. Börnin voru nánast sturluð af ánægju yfir heimsókninni og slógust um að fá að vera fyrir framan linsuna. Eldra fólkið virtist líka vera það vinalegasta. Hérna eru nokkrar myndir frá þessari heimsókn::


Fjölskylda fyrir framan eitt tjaldið.


Amman með barnabarn sitt.


Ung kona að undirbúa matinn og barn dansar fyrir aftan.


Sonja að sýna fólkinu myndirnar sem hún tók.

Við ætlum að reyna að prenta út einhverjar af myndunum sem við tókum af þeim og gefa þeim þegar við komum aftur í þorpið þegar við komum frá Leh. Vonandi finnum við stað sem býður upp á það þar en við höfum ekki fundið það hérna.

Við gengum síðan upp á hótel í myrkrinu og sáum m.a. á leiðinni ökumann mótorvagns ýta öðrum mótorvagni upp brekku með því að vera með löppina úti og spurna í bilaða vagninn og keyra áfram. sem sýnir hvað þessi farartæki eru létt.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá Manali:


Við að spegla okkur.


Flottur karl í miðbænum.


Mér tókst með brögðum að fá þessa konu til að brosa í myndavélina.


Bilaður mótorvagn.


Sólargeislar á fjallinu fyrir ofan þar sem hótelið okkar er.


Móðir og barn.


Þessi maður sat á gangstéttarbrún.


Þessi er líklegast að koma heim af markaðnum.


Fjölskylda og hænur.


Strákar að baða sig fyrir neðan veginn.


Tvær stúlkur að leik.


Báðar að borða epli.


Börnin vildu óð láta mynda sig.

Engin ummæli: