Eftir að hafa fengið okkur hádegisverð hringdi Sonja í þann aðila sem okkur hafði verið bent á að tala við af ferðaráðunauti John Isaac. Tilgangurinn var að panta ferð með rútu til Leh og benti hann okkur á konu til að tala við. Þessi kona var mjög hjálpsöm og benti okkur á að kaupa ferðina bara hjá einum hinna fjöldamörgu söluaðilum sem eru við aðalgötuna, það væri hægt að treysta þeim öllum. Eins teiknaði hún upp fyrir okkur gönguleið um þorpin hérna í nágreninu sem hafa mikið af innfæddum og fáum ferðamönnum. Við höfum hug á að fara í þessa gönguferð þegar við komum aftur í bæinn.
Sonja hélt síðan upp á hótel til að leggja sig og ég fór í stutta gönguferð í gamla bæinn og virti þar fyrir mér mannlífið ásamt því að fá talsvert magn af hveiti yfir mig. Þar sem ég var bara með eina myndavél gat ég ekki tekið mynd af myndavélinni útataðri í hveiti þrátt fyrir miklar tilraunir :-)
Við ætlum síðan mjög snemma að sofa í kvöld, helst um 20 leitið því framundan er mjög erfið ferð til Leh í Ladakh. Við förum í 9 manna jeppa í 19 tíma ferð sem byrjar kl. 2 að nóttu til um erfiða fjallaleið og endum Leh sem er í rúmlega 3500 m hæð yfir sjávarmáli. Þessi leið er víst um næst hæsta fjallveg í heimi og þykir einstök í fegurð og það að sjá þegar sólin kemur upp gerir ferðina víst að því fallegasta sem Indland hefur upp á að bjóða. Við erum orðin nokkuð spennt fyrir ferðinni en ástæðan fyrir því að við höfum verið á þetta mikilli hraðleið fyrstu dagana á Indlandi er sú að það er ekki langt þangað til leiðin lokast vegna snjóa og ætlum við að ná þessu á meðan það er ennþá tækifæri til þess. Við borgum fyrir að sitja í tveimur fremstu sætunum og kostar ferðin okkur 1400 kr. á mann (þess má geta að meðal máltíð kostar hérna undir 150 kr. á veitingastað).
Við segjum því bless og ætlum að reyna að sofna svo við verðum hress í jeppaferðinni.

Sölumaður með ávexti og grænmeti.

Eldri konur að spjalla saman.

Flott gleraugu.

Bláklædd kona á gangi við brúnna skammt frá hóteli okkar.

Önnur kona skammt frá hóteli okkar.

Þessi piltur var nokkuð feiminn í fyrstu en ekki eftir að við sýndum honum myndinna á skjánum í myndavélinni.

Skólakrakkar í skjóli frá síðdegisrigningunni. Þegar stytti upp fóru allir að kasta einhverju hvítu í hvorn annan, líklegast hveiti og var þetta heilmikill slagur sem bæði börn og fullorðnir tóku þátt í.

Ég fékk einnig að kenna á því, þessi mynd er tekin nokkrum sekúndum áður en ég fékk á mig hveitiskammt og myndavélin varð gjörsamlega hvít og hætti síðan að virka stuttu síðar. Hún virðist vera í lagi núna og við vonum það besta. Ég get bara sjálfum mér um kennt :-)

Þessi herramaður sem heitir Balak Ram vildi endilega að mynd yrði tekin af sér og við ætlum að reyna að prenta hana út fyrir hann í Leh.

Þessi gaur gekk um með fötu með kertum sem fólk baðst yfir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli