Við Sonja sváfum bæði mjög vel síðustu nótt þrátt fyrir risa partý með danstónlist fyrir utan gluggann hjá okkur (við erum á jarðhæð). Það segir okkur líklegast hvað maður verður þreyttur af þunna loftinu hérna.
Við borðuðum staðgóðan og bragðgóðan morgunverð sem samanstóð af eftirfarandi:
1. Kornflex.
2. Köld mjólk.
3. Heit mjólk.
4. Ristað brauð.
5. Marmelaði.
6. Te.
7. Kaffi.
8. Eggjahræru.
9. Melónum og eplum.
10. Smjör
Eftir að hafa fyllt magann fórum við í bæinn og byrjuðum að kíkja í minjagripaverslun sem var reyndar líka listaverkabúð sem selur málverk/teikningar á gömlum pappír. Pappírinn sem málað er á er tekin úr 300 ára gömlum bókum héðan og þegar blaðinu er snúið við sást gamalt letur. Myndirnar sjálfar voru ótrúlega flottar, virkilega vel vandað til verks með fínum teikningum og gullhúð. Ég er ekki alveg viss um pælinguna með að notast við blöð úr 300 ára gömlum bókum - það má ekki einu sinni taka það úr landi því 100 ára gamlir hlutir og eldri má ekki flytja út. Eins mætti segja að þetta sé skemmd á verðmætum en ég var virkilega hrifinn af myndunum og Sonja líka og við útilokum ekki að fremja skemmdarverk og kaupa svona 2-3 stk. (myndin er c.a. 40x20 cm og kostar um 4000 kr.). Ástæðan fyrir þessari endurnýtingu er víst sú að þetta eru/voru bækur skrifaðar á Urdu sem enginn hefur víst áhuga á lengur. Það verður þó að segjast að breyta þeim í listaverk er betri endurnýtingu en þegar við breyttum okkar skinnhandritum í nærföt og annað álíka merkilegt.
Síðan héldum við á poló völlinn en þar fór fram lokahátíð hátíðarinnar sem hefur staðið hérna í 2 vikur. Við settumst í sæti sem voru þarna undir tjaldi, töldum okkur heppinn að fá stóla því það var allt að fyllast og aðallega af eldra fólki héðan frá Ladakh. Stuttu áðurr en athöfnin byrjaði kom lögreglan með skilti og setti niður fyrir framan sætaraðirnar sem við vorum á og stóð TOURISTS á því stórum stöfum. Um leið og túristunum fjölgaði hófu löggan að reka allt heimafólkið úr sætunum og leið manni mjög illa að sitja þarna áfram en allt gamla fólkið skrölti úr sætunum sem það hafði náð löngu áður en hátíðin byrjaði og settist í sandinn undir brennandi sólinni fyrir framan tjaldið. Eftir sátum við og aðrir túristar og vonandi flestir með samviskubit.
Athöfnin var nokkuð skemmtileg - fullt af fólki að dansa og syngja og mikið um skemmtilega búninga.
Nokkrar myndir frá hátíðinni:
Hérna eru fleiri myndir fra´hátíðinni og aðallega af fólkinu sem var að fylgjast með:
Eftir hátíðina kíktum við í aðra minjagripabúð og þar voru flottar búddastyttur og var listamaðurinn sjálfur að selja þær, þ.e. sá sem málar þær. Undurfögur tónlist hljómaði í búðinni og eftir að hafa spurt um uppruna þessarar tónlistar, sem var frá Leh, þá keyptum við diskinn. Ég er nú þegar búinn að setja hann inn á iPodinn minn og verður gott að hlusta á hann þegar maður þarf slökun.
Kona snýr bænahjólinu skammt frá miðbænum.
Við fórum síðan á matsölustað sem er bæði á efstu hæðinni og þaki háreists hús í gamla bænum - Sonja hafði hug á að fá sér pizzu enda hefur hún verið slöpp í maganum undanfarið svo hún þolir illa kryddaðan mat. Ég hinsvegar þoli það mjög vel, er alls ekki þreyttur á indverskum mat og er mjög stoltur af því að svitinn á mér er farinn að lykta eins og krydd, líkt og hjá hreinræktuðum Indverja. Við ætluðum að fara upp á þakið en þegar við komum upp á efstu hæðina blasti við mér undurfögur sjón. Já, hreint út sagt stórkostleg og himnesk sjón. Það var sjónvarp uppi á vegg sem sýndi leik Everton og Manchester United og tveir tjallar sátu þarna og horfðu á hann. Sonja ákvað því að við skyldum setjast þarna við hlið þeirra og horfa á leikinn sem ég samþykkti með semingi. Ég skildi ekkert í því að tjallarnir, sem virtust vera hreinræktaðar og ósviknar knattspyrnubullur voru báðir að drekka Fanta og ekkert annað. Þegar þjónninn kom pantaði Sonja kók og ég spurði hvort hann ætti Cobra (indverskur bjór). Hann sagði já og ég öskraði í huga mér svo glamraði þar: YES! Stuttu síðar kemur þjónninn með tvær kók ... ég sagði honum að ég hafði pantað Cobra, bjór og þá hafði hann víst misheyrst og haldið að ég hefði sagt kók. það sem verra var (miklu, miklu verra) að veitingastaðurinn hafði ekki vínveitingaleyfi og því var engan bjór að fá. Þetta var nett áfall því ég var svo gott sem hálfnaður og rúmlega það með bjórinn í huganum og farinn að undirbúa að panta annan bjór (þetta hefði reyndar bara verið annar bjór minn síðan ég kom til Indlands). Við ætluðum síðan að panta okkur mat en þá var Tandoori ofninn ekki í gangi og því ekki hægt að fá neitt Ítalskt, ekkert Indverskt og í raun varla neitt. Sonja náði þó að panta eitthvað kínverskt sull og ég pantaði mér sveppasúpu. Kók og sveppasúpa er léleg innáskipting fyrir Bjór og pizzu.
Stuttu eftir að við fengum matinn kom inn á veitingastaðinn maður með vélbyssu sem var greinilega mikið notuð þvi málningin var farin að flagna af henni. Hann gekk um staðinn og horfði tortryggilega á glösin okkar og var þetta greinilega áfengiseftirlitsmaðurinn. Ég horfði upp í loftið og flautaði til að sýna hversu saklaus ég væri af áfengisdrykkju og varð glaður yfir því að fá ekki afgreiddan bjór því ég hefði varla náð að klára leikinn.
Þar sem farið var að skyggja og sagan frá því þegar ég þurfti að þreyfa mig áfram langa leið kvöldið áður enn fersk í huga Sonju þá drifum við bara upp á hótel eftir matinn. Við erum með Star Sports í herberginu hjá okkur þannig að ég hef verið að horfa á bolta í kvöld í fyrsta skiptið síðan ferðin byrjaði - það er hressandi. Sonja situr móð við lestur bóka þannig að við höfum það ágætt.
Við erum að spá í að versla minjagripi fyrir íbúðina okkar á morgun og hugsa ég að við löbbum bara inn í búð, setjumst niður og segjum: "Sell us something very old and very expensive!".
Á mánudag og þriðjudag gæti verið að við leigjum okkur bílstjóra og bíl og keyrum um þorp og klaustur í nágrenni við Leh. Það fer reyndar eftir því hvort Sonja nái almennilega að jafna sig á þunna loftinu.
Manchester United vann annars leikinn 0-1, ensku knattspyrnubullunum til mikills ama því þær voru frá Liverpool borg og harðir stuðningsmenn Everton.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Áfengiseftirlitsmaður með vélbyssu, skildi Villi vita af þessu?
Hæ hæ
Mikið er gaman að lesa um það sem þið sjáið og upplifið í þorpinu ykkar. Ekki datt mér í hug að þú gætir horft á enska-fótbóltann þarna Jóhann minn.
Hafið það sem best.
Knús og kveðjur
Mútta bleika
Hlakka til að sjá málverkin og "something very old & very expensive"!
Jóhann er alveg að gefa manni lýsingargóða og nákvæma mynd af ferðalaginu... sérstaklega með kryddlegnu svitalyktinni og samviskubiti í garð gamalmenna á hátíðinni.. í þessum pistli.
Jiii - áfengiseftirlitsmaðurinn! Mig minnir að þeir hafi látið fara eins lítið fyrir sér og hægt er hérna heima...
En í lokin - sammála með lélega innáskiptingu í mat og drykk!
Kv.
M
Halló halló!!
Eruði á lífi? Ótrúlega flottar myndir, alltaf svo gaman að skoða :)
Þið eigið bara eftir að horast niður þarna úti!!
Sonja, ég var að vinna í afmælinu hennar Katrínar á Logos í kvöld, ótrúlega gaman!!
Annars er ég að fara til London á morgun, langaði bara að segja bless bless!!
Og já, á ég að taka upp úr töskunni fyrir ykkur? Má ég vera e-ð heima hjá ykkur að læra? Með Kristínu?
Elska ykkur :*
Skrifa ummæli