Sonja fór síðan í sturtu en ég nýtti tímann í að blaða í túristahandbókum og hlusta á tónlistina sem við keyptum í gær, tókum iPodinn með. Það var róandi og þægileg stund sem ég átti með tónlstina í eyrunum, fallegt veður og stórbrotið umhverfið í kringum mig.
![](http://js.smugmug.com/photos/199754714-O.jpg)
Sonja við morgunverðarborðið.
Við lögðum af stað niður í bæ rétt fyrir hádegi og keyptum nokkra minjagripi og skoðuðum málverk í annarri málverkabúð. Afgreiðslumaðurinn þar var ótrúlega góður og var greinilega ekkert að reyna að plata okkur upp úr skónum þó að honum myndi væntanlega reynast það auðvelt því við vitum akkúrat ekkert um þessa list (eða það héldum við). Hann sýndi okkur mikið af fallegum myndum og vorum við hrifnust af gömlum myndum sem eru a.m.k. 100 ára gamlar og gætu verið upp í 300 ára gamlar. Hann bauð okkur að sjálfsögðu íslendingaafslátt enda þeir fyrstu sem villast inn í búðina hans. Við versluðum ekkert heldur sögðumst kíkja síðar.
Það er skrítið að karlmenn ganga oft um götur hérna og haldast í hendur. Það er ekkert tengt samkynhneygð því þetta telst eðlilegasti hlutur í heimi og menn á öllum aldri gera þetta. Það væri athyglisvert að sjá tvo bóndadurga að vestan labba niður í fjárhús og leiðast.
Við kíktum síðan á nýjan internetstað til að athuga hvort hraðinn væri betri en á þeim sem við höfðum stundað vefráp fram að því. Þetta var frekar skítugur staður án klósetts þannig að ég þurfti að halda í mér á meðan ég stundaði viðskipti þarna inni. Það var vinalegt að sjá litla mús skunda um gólfið eins og hún ætti staðinn og enginn virtist taka eftir henni eða veita henni athygli. Allar tölvurnar þarna virtust vera með vírus og minnislykillinn okkar fylltist af alls konar vírusabúxi. Sonja reyndar eyðilagði eina tölvuna, eða það héldum við, þegar hún setti minnislykilinn í samband við snúru sem mátti víst ekki gera og tölvan reyndi að endurræsa sig en Windows vildi ekki keyra sig upp. Þetta reddaðist þó allt held ég. Rafmagnið fór af þegar við vorum búin að vera smá tíma á netinu og þá var sett í gang hávær bensínvararafstöð rétt fyrir utan hurðina. Við kenndum afgreiðslustráknum að búa til bloggsíðu áður en við héldum á braut nokkrum tugum tölvuvírusum og milljónum annara vírusa ríkari.
Við borðuðum á World Peace Caffe sem er staður sem Lonely Planet mælir með. Þessi staður var virkilega skítugur en maður er nú farinn að lækka standardinn mjög mikið. Allir veitingastaðir virðast hafa þetta sameiginlegt:
1. Stólarnir eru plaststólar eins og eru oft notaðir á svölum á Íslandi, þeir voru einu sinni hvítir en eru núna misbrúnir.
2. Matseðillinn er í plastmöppu sem er að detta í sundur og mjög skítugur.
3. Allir eru multi-cusine, þ.e. með mat frá öllum heimshornum.
4. Enginn virðist vera með ljósmyndum af matnum (sem er gott).
5. Ef það er klósett þá er það MJÖG skítugt og oft bara hola - ekki einu sinni "indian style".
6. Vaskur er frammi til að þvo hendurnar (sem er gott).
7. Ekki er kveikt á Tandoori ofninum fyrr en um kvöldmatarleytið (nema í undantekningartilfellum).
8. Allir með sömu plastdiskana, ekki einnota samt.
Þar sem ég var í spreng þá spurði ég um klósettið, eftir að við höfðum pantað okkur pizzur. Afgreiðslumaðurinn baðaði út höndunum í allar áttir til að benda mér á að pissa bara úti. Skrítið að vera með veitingastað og senda kúnnana út á götu að pissa. Ég labbaði því út að næsta húsaskoti og pissaði þar eins og innfæddur, læt þó ekkert uppi um lyktina.
Pizzan var vægast sagt vond. Það tók um 40 mínútur að framfreiða hana en þetta var samt greinilega bara frosin bónuspizza með smá olíu ofaná og olían fór virkilega illa í mig, þ.e. ég hafði bragðið það sem eftir var dags í munninum. Þar sem Sonja var loksins komin með vott af matarlyst þá fannst henni þetta hinn prýðilegasta matur svo við skulum bara taka meðaltalið og segja að pissan hafi verið meðal góð.
![](http://js.smugmug.com/photos/199754717-O.jpg)
Ég að bíða eftir verstu pizzu sem ég hef smakkað.
![](http://js.smugmug.com/photos/199754719-O.jpg)
Sonja himinlifandi yfir pizzunni sinni.
Við fengum okkur göngutúr upp í konungshöllina fyrir ofan bæinn eftir matinn og var það um 20 mínútna gangur. Höllin sem ekki hefur verið í notkun í tugi ára er eins og nýbygging að innan núna, þ.e. það er ekkert nema tóm herbergi og dót eftir iðnaðarmenn. Það voru um 2-3 að vinna í henni þannig að ég hugsa að það verði langt þangað til hún nái fyrri reisn. Við sátum efst uppi á þakinu á höllinni þegar sólin settist og horfðum yfir Leh og nágrenni - það var ótrúlega fallegt.
![](http://js.smugmug.com/photos/199754722-O.jpg)
Hluti af borginni.
![](http://js.smugmug.com/photos/199754725-O.jpg)
Eldklerkur að virða fyrir sér borgina.
Þegar við komum niður í borgina ætluðum við að kaupa dagsferð daginn eftir en þar sem við vorum nokkuð sein í því voru báðar skrifstofurnar sem við vorum búin að kanna verð hjá lokaðar og við tókum því bara fyrirtæki að handahófi og pöntuðum bíl frá kl. 6.30 næsta morgun en við ætluðum að ná morgunbænum munkana í Thiksey klaustrinu sem er í um hálftíma akstur frá Leh.
Við erum að venjast háfjallaloftinu hérna held ég - heilinn er farinn að fá eðlilegt súrefnismagn og matarlystin hjá Sonju mun fljótlega ná fyrri hæðum þannig að ég ætla rétt að vona að veitingahús borgarinnar séu með góðar umframbirgðir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli