mánudagur, september 03, 2007

Knattspyrnumaðurinn Totti er hetjan hérna í Róm, sennilegast jafningi helstu hetjanna í Collosseum hérna forðum daga. Menn virðast alltaf þurfa fyrirmyndir og goð og er það vel. Ég hef reyndar reynt að útskýra fyrir mönnum hérna að Totti sé ekkert nema svindlari og hef notað þumalputta mikið niður þegar ég er að lýsa "kostum" hans. Ég hef nú ekki uppskorið mikið í þessari herferð nema að mér var hótað á bar í gær að ég yrði að borga tvöfalt verð þegar eg kæmi aftur. Einn maður í giftingunni reyndar samþykkti að lokum að Totti ætti það til að svindla þannig að þeir gera sér þó a.m.k. grein fyrir því.

Óharðarnir ferðamenn gætu kallað daginn í dag standpínu vegna þreytu í fótum eftir mikið "stand" í Vatikaninu að skoða hluti og málverk. Við ákváðum að taka leiðsögn um staðinn því það gaf okkur forgang í röðina, en hún er yfirleitt hátt í km. að lengd og um klukkutíma bið. Það borgaði sig algjörlega að hafa leiðsögn því erfitt er að henda reiður á því hvað er merkilegra en annað þarna. Leiðsögumennirnir hafa líka tæknivæðst því nú fær maður litla talstöð og eyrnatól og síðan talar leiðsögumaðurinn í hljóðnema og því nær maður að heyra allt en þarf ekki að slást um að standa fremst til að heyra. Við misstum okkur aðeins í búðinni þegar við vorum nýkomin inn og eyddum þarna 40þ krónur í styttu og veggtöflu. Styttan er brjóstmynd af Sesar og veggtaflan er af einhverjum kristilegum viðburði. Við vorum svo upptekin að kaupa að við heyrðum ekki þegar leiðsögumaðurinn var að útdeila miðunum sem var nærri búið að koma sér illa. Við gengum síðan með hópnum upp og aðeins áfram og síðan fóru allir í gegnum hlið með því að setja miðann í gegn og við komum alveg af fjöllum. Náðum samt að veifa leiðsögumanninum sem kom hlaupandi til okkar og sagði að hann gæti ekkert gert, við yrðum að fara niður og finna aðstoðarkonuna sem útbýtti miðunum en það var nú ekkert grín því staðurinn er eins og flugstöð, ótrúlega stór og mikið af fólki. Við hlupum niður og byrjuðum að leita að nálinni og tókst með heppni að finna stúlkuna eftir nokkra stund en hún var þá líka að leita að okkur því hún var með tvo afgangsmiða. Óþolandi svona túristar sem geta ekki fylgst með :-)

Eftir Vatíkanið og Péturskirkjuna fórum við að finna mat, það getur tekið ansi langan tíma ;) Það eru nokkur skilyrði sem staðirnir þurfa að uppfylla grunnskilyrði:
  1. Þurfa að vera a.m.k. 10 mín frá næsta túristastað
  2. Matseðillinn má alls ekki vera á 8 tungumálum, max enska og ítalska
  3. Matseðillinn má ekki vera með útvatnaðar ljósmyndir af misgirnilegum pitsum
  4. Útiborðin mega ekki standa út á hraðbraut
  5. Veitingastaðurinn má ekki vera við aðalgötu
  6. Hann þarf að vera kósý
  7. Lýsingin þarf að vera þægileg og 5500-6000 á kelvin skala.
  8. Staðurinn þarf að hafa myndarlegt starfsfólk af báðum kynjum.
  9. Matseðillinn þarf að kveikja í bragðlaukunum
  10. Rick Ashley má ekki vera á repeat á geislaspilaranum
  11. Aðrir matargestir þurfa að vera ítalskir að meirihluta
Annars erum við mjög opin og til í að prófa nýja hluti.

Með fullan maga héldum við af stað til Colosseum þar sem við ætluðum að fara í ferð með sama leiðögufyrirtæki og áður til að skoða stærsta neðanjarðargrafhýsi Rómar. Þegar til kom þá erum við Jóhann ekki nóg til þess að ferðin sé farin og þurftum við því að taka leigubíl þangað. Einungis er hægt að fara niður og skoða með leiðsögumanni og við fengum indverskan kaþólskan prest til að lóðsa okkur um ranghala hinna dauðu. Hins vegar þá var þetta kannski minna spennandi en við bjuggumst við því það er tvisvar búið að tæma grafirnar. Í kringum árið 800 var öllum þessum grafhýsum í kringum Róm lokað því e-jir barbarar voru alltaf að stela úr þeim bæði beinum og hlutum. Og þá var stór hluti beinanna tekinn og fluttur inn til Rómar. Svo þegar þetta fannst núna um miðja síðustu öld þá voru ferðamenn víst alltaf að nappa sér beini og beini til minja svo að restin af beinunum var flutt á neðstu hæðina sem er lokuð ferðamönnum. Talið er að um 300 þúsund manns hafi verið grafin þarna, þetta byrjaði sem leynigrafhýsi áður en kristni var leyfð. Við spjölluðum svo aðeins við leiðsögumanninn okkar sem var indverskur kaþólskur prestur, Vatikanið á og rekur grafhýsið, sem bauð okkur velkomin í litla kristilega þorpið sitt á suður-Indlandi þar sem kirkjan er með skóla fyrir börnin í þorpunum í kring. Við sjáum til hvað við gerum.

Við ætluðum nú ekki að segja mikið í orðum frá þessari ferð, myndirnar tala sínu máli, en ég held að það megi segja að við höfum brennt peningum, tíma og vonandi einhverri mör yfir daginn.

við borðuðum síðan um kvöldið á góðum veitingastað og var virkilega gaman að spjalla við ítalina (þröngt mega sáttir sitja!).


Trójumaður að taka spor á dansgólfínu. Þessi stytta er ein sú merkilegasta í páfagarði - um 200 árum eldri en Jesús og Michelangelo sá um að grafa hana úr jörðu. Hann var fyrir miklum áhrifum frá stíl hennar, sérstaklega dramatíkinni í andlitinu og líkamsstöðunni.


Ég þurfti að leggjast í gólfið til að ná réttu sjónarhorni af þessari styttu en eftirá séð þá er þetta sjónarhorn ekkert mjög gott - a.m.k. er ég ekki viss um að sá sem er á styttunni yrði ánægður með það. Michelangelo var mjög hrifinn af þessu verki og var beðinn um að laga styttuna en hann neitaði - fannst hann ekki þess verður að eiga við þetta verk.


Silencia, no fotos, no video, silence please, usssssssssssss .... Þetta er hin fræga sextánda kapella sem Michelangelo sá um að myndskreyta og harðlega bannað að taka myndir þarna inni. Vörður stendur fremst og kallar orðin að framan öðru hvoru og verðir hlaupa um allan sal og skamma fólk fyrir að taka myndir.


Sonja að skrifa póstkort til fárra útvalda sem hún síðan sendi úr Páfagarði.


Þessi staur eða súla eða hvað þetta er, er frá Egyptalandi og er yfir 5000 ára gömul. Hún var flutt frá Egyptalandi rétt fyrir krists burð og var þá þegar forngripur fyrir Rómverjana því þá var hún 3000 ára gömul og var sett í miðju Circus Maximus.


Indverjinn sem sýndi okkur neðanjarðargrafhýsið mælti með að við myndum skoða ákveðna kirkju í Róm. Við fórum þangað og ég tók þessa mynd af presti í skriftarstól. Ég spurði síðan prestinn í næsta skriftarstól hvort ég mætti taka mynd af honum en hann kallaði njet og skellti aftur hlerunum með látum. Hann hefur þurft að skrifta strax eftir fyrir dónaskapinn. Já, það er oft gott að sitja báðum megin borðsins.


Sonja að koma upp úr neðanjarðarlestinni. Lestirnar miðsvæðis í Róm eru allar útkrotaðar - sést ekki í hreinann blett á þeim hvorki innan né utan.


Skemmtilegur náungi sem sat við hlið okkar á útiveitingahúsinu. Hann var nokkuð líkur Halla, pabba Árna að mínu mati. Hann og konan hans voru frá Milanó og hann endaði á að gefa okkur með sér úr rauðvínsflöskunni þeirra (sem var virkilega góð) (Fattoria dei Barbi) og borgaði eftirréttinn okkar. Góður díll það.

Myndirnar frá deginum voru ekkert voðalega góðar og þegar ég var hálfnaður að skoða þær um kvöldið bað ég Sonju að rétta mér myndavélina svo ég gæti athugað hvort hún væri ekki örugglega stillt á sjálfvirkan fókus.

3 ummæli:

Burkni sagði...

Það er mjög algengt að ruglast og kalla Sistínsku kapelluna þá sextándu ...

mæli með að hengja sig ekki um of í ensku heiti hlutanna heldur þá upprunalegu :)

Joi sagði...

Hún er kölluð eftir 16. páfanum þannig að sextánda kapellan er nú alveg rétt ;-)

Pálmi sagði...

RANGT!

Get ekki stillt mig um að taka þátt í smá páfarifrildi

Páfinn Sixtus 4ði var engan veginn 16 páfinn. Páfar hafa ríkt frá fyrstu öld og þeir sem hafa náð lengstum líftíma í starfi hafa náð ca 20-30 árum. En kapellan er nefnd eftir honum samt Sixtus - sistine...