mánudagur, september 24, 2007

Dagur hinna harðlæstu klaustra

Klukkan hringdi óþolinmóð kl. 6.05 og eftir tvö himnesk "blund" (snooze) skriðum við á fætur og í brækurnar. Hótelstarfsmennirnir fóru að ráði okkar og skriðu á fætur þegar við komum fram og skelltu fram staðgóðum morgunverð. Við hinkruðum smá stund í anddyrrinu þangað til bíllinn okkar kom og okkur til mikillar furðu var aukafarþegi í bílnum, kona um fimmtug sem sat meira segja í hinu heilga framsæti. Við fórum inn í bílinn og buðum góðan daginn og vorum ekkert að spyrja strax hvað þessi kelling væri að gera í bílnum okkar.

Eftir smá akstur stoppaði bílstjórinn á leigubílastöðinni, sagðist þurfa inn að redda leyfi fyrir akstri dagsins. Ég spurði þá hví þessi kelling væri í framsætinu (fór reyndar fínna í það) og hún sagði þá: "Voruð þið ekki spurð að því hvort ég mætti koma með í ferðina og borga þriðjung?". Við kváðum svo ekki vera og hún baðst afsökunar á því en við sögðum að þetta væri í góðu lagi þó að við hefðum kosið að vera bara tvö og annað okkar frammí. Bílstjórinn sem var lítill góðlegur karl fór síðan inn og var fullar 10 mínútur að reyna fá í leyfið. Venjulega er það gert daginn áður en þar sem við höfðum pantað ferðina svo seint var það ekki hægt. Þegar hann kom aftur í bílinn voru aðeins 15 mínútur í morgunbænirnar og því greinilegt að við yrðum sein. Ég spurði hann hvað hann yrði lengi að keyra og hann hætti þá við að starta bílnum og fór að stama eitthvað mjög rólega við öskruðum eiginlega öll á hann í einu að starta bara bílnum og keyra af stað því við máttum engan tíma missa.

Laumufarþeginn reyndist vera New York búi sem var að ferðast ein og var hin ágætasta kona - hún einokaði hið bragðgóða framsæti allan daginn en það slapp.

Við komum í klaustrið (Thiksey) um korteri of seint og stukkum út úr bílnum og hlupum inn fyrir klaustursvegginn en þar var enginn á ferli þannig að við hluðum upp líklegustu tröppurnar. Þegar þangað upp var komið varð á vegi okkar ungur munkur og eftir smá eftirgrennslan reyndist ekki vera nein messa þann daginn því allir munkarnir voru niðri í þorpinu að biðja með almúganum.


Klaustrið er byggt á hæð og munkarnir búa og starfa í húsunum í hlíðinni.


Munkarnir á gangi fyrir neðan klaustrið á leið til Leh.

Við röltum því bara um klaustrið en það var nánast allt læst og lítið að sjá. Ég fór upp á efstu hæð sem var að hluta svalir og hluta nokkur herbergi. Það heyrðist ómfagur bænasöngur úr ysta herberginu og gekk ég að því. Ég leit inn um litlar dyr og sá inni í sæmilega stóru herbergi stórkostlega flotta sjón. Þar í horninu sat gamall múnkur í fullum skrúða að kyrja og var hann með einhver reykelsi í kringum sig sem gáfu frá sér reyk sem sólarljósið braust í gegnum. Hann var einnig fallega staðsettur í ljósinu frá glugganum þannig að þetta var hið fullkomna ljósmyndatækifæri. Ég klæddi mig hljóðlega úr skónum og læddist inn. Laumufarþeginn kom í humátt á eftir mér og þegar ég var kominn inn á mitt gólfið rankaði hann við sér, hætti að syngja og starði á mig. Ég gerði þá bara eins og hver fullmótaður óþolandi túristi, benti á myndavélina og spurði hvort ég mætti taka mynd. Hann öskraði upp og benti á útidyrnar til merkis um að við ættum að drulla okkur út og skammast okkar (ég gerði það a.m.k. þó hann hafi ekki beðið um það). Við hlupum út, skömmustuleg og laumufarþeginn rak hausinn í hurðakarminn og ef Búdda hefði haft fullkomna stjórn á aðstæðum hefðum við bæði skollið með höfuðið í - áttum það skilið.
Við komumst síðar að því að ástæðan fyrir því að klaustrið var lokað var sú að munkur hafði dáið þá um nóttina og hinir munkarnir voru niðri í þorpinu að biðja fyrir honum með fólkinu. Öskrandi munkurinn var greinilega einhver yfirmúukur sem var að biðja fyrir sálu þess látna - við hljótum sennilega einhverja bölvun en verðum bara að taka því eins og menn.


Bænahjól sem skal snúa skal réttsælis þegar gengið er framhjá þeim.


Útsýnið úr klaustrinu er ansi magnað.

Næsta stoppustöð var annað klaustur lengst uppi í fjalli, Hemis. Rétt áður en við komum að því stoppuðum við og horfðum á þorspbúa í haustverkum. Það var virkilega skemmtilegt og í raun mun skemmtilegra heldur en klaustrið sem við skoðuðum í kjölfarið. Við sáum ekki þegar kornið var slegið en náðum konu sem rak jakuxa og asna hring eftir hring til að þreskja kornið. Konan söng án afláts þannig að ómaði nánast í öllum dalnum. Annað merkilegt eru stórir steinmúrar sem eru hér um allt en við höfðum ekki tekið eftir þeim fyrr en þarna um daginn. Þeir eru um 4m á breidd og var hver múr um 200-300 metrar á lengd, stútfullir af steinum sem var búið að höggva út bænaorð. Gríðarlegur fjöldi er af þessum úthöggnu steinum og kæmi mér ekki á óvart að þeir séu þarna í milljónatali.

Klaustrið var OK.


Unnið og sungið.


Þessi stúlka passaði að asnarnir kæmust ekki í kornið.


Hveitikornin skilin frá með hjálp vindsins.


Nokkrir steinar með letruðum bænum.


Talið er að Jesús hafi komið til Ladakh og heimsótt þetta klaustur, þetta er eitt elsta klaustrið í Ladahk.


Sonja sagði að ég liti út eins og Ingjaldsfíflið með þessa hettu sem átti að vernda mig fyrir sólarljósinu því við gleymdum sólarvörninni á hótelinu.


Þorpið fyrir neðan klaustrið var ansi skemmtilegt.

Næsta klaustur sem við höfðum viðkomu í, Tak-Tok, var enn harðlæstara en það fyrsta - það var enginn á ferli og spurning hvort það hafi verið eitthvað tengst dauða munksins í Thiksey.

Við fengum okkur góðan göngutúr um þorpið hjá þessu lokaða klaustri sem heitir Sakti og var það nokkuð hressandi. Gríðarleg náttúrufegurð er þarna og skemmtilegt að sjá svona ekta þorp. Við gengum fram á mæðgur sem voru að hita upp eða steikja hveiti á stórri pönnu. Sú yngri gekk með stórt járnílát til okkar og gaf okkur bendingu um að smakka á kræsingunum. Þetta smakkaðist eins og popp og var virkilega gott. Hún hætti ekki fyrr en við vorum öll búin að borða okkur nánast södd.


Á gönguferð um þorpið.


Hveitið steikt.


Hveitið endar í þessum pokum.

Næst á fullskipaðri klaustradagskrá bílstjórans var Stakna. Fallegt klaustur með útsýni yfir Ladakh. Við þurftum að keyra yfir hengibrú á leiðinni í klaustrið og var skrítið að finna brúargólfið gefa eftir fyrst þegar bíllinn keyrði inn og og svo sveiflast aðeins fram og til baka. Þetta var svipuð tilfinning og þegar var verið að keyra mann blindfullan á skólaböll í gamla daga en það er allt önnur og mun svæsnari saga. Klaustrið var OK.


Útsýnið yfir Ladakh.


Fengum laumufarþegann til að smella þessari mynd af okkur.


Klaustrið Thiksey í fjarska.


Farið yfir hengibrúna..

Síðan brenndum við í klaustrið Shey sem er reyndar líka að hluta til gömul höll. Það reyndist líka læst en þar sem 4-5 aðrir gengu hinar ótal tröppur upp að klaustrinu vorum við orðin hópur og samþykkti munkurinn með semingi að opna. Var ekkert voðalega hress, greinilega hundleiður á þessum túristum. Annar eldgamall múnkur, sem ég held sveimerþá að hafi setið fyrir dauða sínum var þarna úti og benti okkur að fara þegar við komum. Þegar við vorum búin að skoða hofið sjálft sem inniheldur gríðarstóran búdda þá sagði hann okkur aftur að fara með handahreyfingu - við hlýddum honum í það skiptið og fórum.

Eftir þetta var eftir á dagskránni konungshöllin með gríðarlega stóru safni. Við vorum öll frekar þreytt á klaustrum og söfnum og báðum um að fara frekar í þorpið Sabu því við vildum frekar sjá fólk en klaustur sem eru flest frekar svipuð. Hann vildi endilega koma þar við því það væri í leiðinni og við samþykktum það. Þetta er eina höllin sem enn er í notkun af konungsfjolskyldunni og eru safnmunirnir m.a.s. notaðir við mjög hátíðleg tækifæri.

Á leiðinni til konungshallarinnar á leið í gegnum lítið þorp þá rölti svartur köttur yfir veginn fyrir framan okkur. Bílstjórinn okkar sem er Búddisti og strangtrúaður snarstoppaði bílinn því hann þorði ekki áfram - sagði það boða mikla ógæfu. Bíllinn sem var að koma úr hinni áttinni stoppaði líka og innihélt greinilega eins hjátrúarfullan bílstjóra. Okkar bílstjóri bakkaði þá og lagði bílnum í vegkantinum og bílstjórinn í hinum bílnum gerði það sama. Við bjuggumst við löngum og þreytandi þrjóskuleik en sem betur fór kom bíll stuttu síðar sem hafði greinilega ekki hugmynd um stórhættulega köttinnn, hann brunaði því grunlaus framhjá okkur og hvarf sjónum yfir hæð í fjarska. Eftir það keyrðu báðir bílarnir af stað en ekki fer frekari sögum af óheppna ökumanninum sem keyrði í gildru svartka köttsins.

Konungshöllin reyndist eftir allt ekkert vera í leiðinni því þetta var þokkalegur krókur. Ég spurði hann þegar við vorum rétt hjá af því hvort hann hafði ekki örugglega sagt að þetta væri í leiðinni en þá var það of seint því höllin blasti við okkur rétt fyrir framan. Við báðum hann þá að snúa við því við nenntum ekki að skoða safnið þar sem við höfðum verið á ferðinni í c.a 11 tíma og orðin frekar þreytt. Höllin var örugglega OK.


Börn að bíða eftir skólabílnum.


Herbílar notadir sem skólabilar.


Skólastúlka.


Ef börn myndu hanga svona aftaná skólabílnum á Íslandi yrði þetta forsíðufrétt held ég sveimerþá.

Á leðinni til Sobu tókum við uppí bílinn konu sem var að koma af ökrunum og átti heima í Sobu - góðverk dagsins. Við fengum okkur góðan göngutúr í þorpinu og fórum síðan aftur til Leh.

Þegar við nálguðumst Leh fór laumufarþeginn að tala um greiðslur, þ.e. að hún myndi borga 1/3 af ferðinni og samkvæmt útreikningum hennar 665 RS. Hún átti bara tvo 500 RS seðla og spurði hvort við gætum gefið henni til baka. Við snérum við öllum vösum og settum alla okkar smápeninga í hrúgu og áttum bara 300 RS og þá vantaði upp á heil 35 RS sem gera um 60 krónur íslenskar. Ég bjóst nú við að hún myndi bara gefa okkur þennan mismun eftir liðlegheit okkar og góðmennsku að leyfa henni að njóta návistar okkar í heilan dag og auk þess höfðum gefið henni af brauðinu okkar um daginn þannig að ég bjóst við að þetta yrði ekkert mál - RANGT. Þegar við komum á skrifstofuna rukkuðu þeir okkur aukalega um 200 RS, ætluðu fyrst að rukka okkur um 500 RS vegna staðarins sem við vildum ekki fara á en gáfum það eftir vegna þess að bílstjórinn sagði að það væri í leiðinni. Eftir smá rifrildi var sæst á 200 RS umfram. Okkur vantaði ennþá þessi 35 RS til að vera kvitt við kerlu og þeir gátu ekki skipt fyrir hana þannig að hún ákvað að koma með okkur upp á hótel og skipta þar og labba síðan í bæinn. Hún kom með okkur en þeir hér gátu bara skipt í 100 og þetta varð því nokkur reikistefna og henni tókst að móðga indæla starfsfólkið hér. Við enduðum svo á því að tapa c.a. 50 RS á þessu öllu saman en hún var voða ánægð og sátt og hér í Ladakh er það fyrir öllu að halda friðinn svo við höguðum okkur eins og innfæddir. Ég er samt hneykslaður á öllu þessu umstangi hjá henni fyrir nokkrar krónur. Sumt fólk er ekki í samblandi!

Við fengum okkur kvöldverð rétt við ferðaskrifstofuna. Þar bar helst til tíðinda eftirfarandi samtal milli míns og þjónsins (samtalið var reyndar á ensku því mjög fáir hérna eru vel að sér í íslensku og þetta því þýðing höfundar):

J: Áttu bjór?
Þ: Já, en hann verður framreiddur í tekatli.
J: Ha?
Þ: Já, við höfum ekki vínveitingaleyfi og því færðu hann í tekatli og verður að drekka bjórinn úr tebolla.
J: HA??
Þ: Jájá.
J: Ég ætla að fá einn bjór hjá þér.

Ég hefði líklegast ekki fengið mér bjór en þar sem þetta var einstakt tækifæri að smakka eitthvað öðruvísi og ég annálaður sælkeri var ekki hægt að sleppa þessu. Það var skrítið að drekka hann úr tebolla en mjög skemmtilegt.

Eftir kvöldverðinn og stutt alnet var röðin komin að nuddinu. Við höfðum pantað heilnudd kvöldið áður og var mæting kl. 20 stundvíslega að staðartíma. Við gengum inn í nuddaðstöðuna og var vísað inn í þann hluta herbergisins sem var skilinn af með stóru tjaldi og þar voru tveir nuddbekkir. Ég ætlaði að rjúka úr öllum fötunum og fleygja mér á bekkinn en Sonja stoppaði mig af áður en ég náði að særa velsæmiskennd nuddaranna, það er varla að kvenfólk sé í bikini á baðströndum og hvað þá meira.
Eftir stutta bið komu nuddmeistararnir sem voru piltur og stúlka í kringum 25 ára, bæði mjög myndarleg. Þau sögðu okkur að fara úr öllum fötunum, við urðum mjög skrítin í framan og álitum sem svo að þau meintu öllu nema nærfötum og ég klæddi mig úr í skyndi. Sonja hvíslaði að mér að spyrja hvort við ættum líka að fara úr nærfötunum og ég spurði um það þegar ég stóð á miðju gólfinu fyrir framan þau á nærbuxunum. Já, var svarið eins og ekkert væri eðlilegra en þetta er langt frá því að vera eðlilegt fyrir teprulega Íslendinga. Ég henti mér úr nærbuxonum og stóð þarna eins og illa gerður hlutur (bókstaflega) og stráksi benti mér á að leggjast. Ég gerði það og heyrði útundan mér Sonju hvísla að mér hvað hún ætti að gera og ég sagði við hana að fara bara úr fötunum - það gera það greinilega allir (eða það vona ég). Sonja tók á sig rögg og var stuttu síðar alls nakinn á kjötborðinu við hliðina á mér. Við vorum síðan nudduð á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum í 90 mínútur og fórum síðan upp á herbergi og sofnuðum svefni hinna spéhræddu.

Dagurinn var góður.

6 ummæli:

Burkni sagði...

Á ég að trúa því að nuddið hafi síðan verið EINI ATBURÐURINN SEM ÞIÐ TÓKUÐ ENGAR MYNDIR AF?????

Nafnlaus sagði...

sæl bæði tvö, Eg skemmti mer konunglega við að lesa bloggið ykkar. Þið ættuð að gefa út ferðabók hún n
mundi seljast. Bestu kveðjur og góðar stundir.
Amma Sigurlaug.

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ
Gaman að fá aftur blogg að lesa. Þetta er stórfenglegt landslag og frábærar myndir. Ég sé fyrir mér tvær bækur: Á slóð fiðrildanna eftir Ólaf Jóhann hahha og svo finnst mér bókin Flugdrekahlauparinn koma upp í huga mér, landslagið finnst mér geta passað við lýsingar í bókinni.
Jæja þið njótið sannarlega lífsins.
Knús
Mútta bleika

Nafnlaus sagði...

Hæ, hæ
gaman að heyra að þú sért nú öll að braggast Sonja.
Ég hef líka verið nakin á nuddstofu í Búlgaríu, frekar skrítin tilfinning.
Kveðja
Steinunn Ósk

EddaHronn sagði...

Hæ skötuhjú :)
Gaman að skoða myndirnar ykkar rosalega fallegar!...er búin að vera "á leiðinni að kommenta"-týpan síðan ég kom frá Róm, en er sjálf búin að vera á miklu flakki.
Langar súm sé að þakka ykkur fyrir síðast :)
Held áfram að kíkja hjá ykkur.
Megið þið eiga góð ævintýri og upplifa margt skemmtilegt!

Kær kveðja frá London
x Edda Hrönn

Nafnlaus sagði...

Hi! Looks so beautiful everything! Even you...hi hi...with your nice headcloth!!! Take good care of you two and be careful. Lots of hugs! /Maria