Plan dagsins var afslöppun með smá bæjarrölti þar sem við myndum kíkja aðeins í túristabúðir og segja "Sell me some junk".
Við byrjuðum á nokkuð hefðbundnum morgunverð í garðinum og gáfum okkur góðan tíma í það. En hlutirnir vilja þróast öðruvísi, skyndileg beljuinnrás raskaði heldur ró okkar. Skyndilega komu 3 beljur hlaupandi í fimmta gír upp tröppurnar í garðinn sjálfan og beint í blómabeðið með tilheyrandi brussugangi eins og belja er siður. Þrír blómapottar urðu fyrir barðinu á þeim og nokkrar rósir enduðu í maga þeirra áður en einn starfsmaðurinn kom hlaupandi blótandi og ragnandi og rak þær í burtu, þær hlupu út jafn skyndilega og þær komu. Þær virðast hafa lært grunnatriðin í leifturárásum og nota þá tækni með ágætis árangri.
Á meðan Sonja fór í sturtu hlustaði ég á nýju tónlistina sem við keyptum okkur, frá Nepal, og fór að velta fyrir mér tónlist og tónlistarmönnum. Inntakið var að tónlistamenn sem gera tónlist eins og þessa eru gríðarlega hæfileikaríkir, gera þetta af mikilli innlifun og gleði ásamt því sem útfærlslan er stórkostleg og áhrifamikil. Þeir fá samt litla sem enga eftirtekt á meðan belja eins og Britney Spears á meiri pening en öll Nepalska þjóðin og fær ómælda athygli og aðdáun. Fussumsvei! Það væri kannski ráð hjá þessum Nepölsku tónlistarmönnum að bera brjóstin og rasskinnarnar - það virðist gefa vel í aðra hönd. Málið er væntanleg, sem löngu er vitað að sönn list og peningar fara sjaldan saman og margur verður að aurum api. Ég ætla að endurtaka mig og segja aftur fussumsvei!
Sonja nýkomin úr sturtu.
Hérna í Leh og Ladakh er mikið af fólki frá Tíbet, bæði flóttamenn og aðrir sem sjá sér ekki fært að búa þar við núverandi ástand. Í bænum eru t.d. 3 tíbeskir markaðir, þ.e. allir sölumennirnir frá Tíbet og þar ætlum við að versla eitthvað drasl á áður en við höldum á aðrar slóðir. Fjöldi þeirra er slíkur að sagt um Ladakh að það sé "Tíbet-askara" heldur en Tíbet. Við Sonja sáum síðasta vetur mynd á kvikmyndahátíð sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir. Leikstjórinn var viðstaddur og það var mikið öryggi á sýningunni þar sem kínverska stjórnin má alls ekki sjá hvaða fólk er verið að tala við frá Tíbet í myndinni af ótta við að þeir hefni sín á þeim. Þetta var gríðarlega áhrifamikil mynd sem situr enn í okkur og fjallar um mannréttindabrot kínverja á hinum friðelskandi tíbetbúum sem hafa verið kallaðir friðmesta fólk í heimi. Eftir sýninguna sendi ég þáverandi utanríkisráðherra tölvupóst og spurði þar hvort Ísland gæti ekki beitt sér í því að kínverjar láti af mannréttindabrotum í landinu en fékk mjög dræmar undirtökur - hún hefur sennilega ekki treyst sér til að semja bréf á ensku eða bara alveg sama um þetta. Vinur okkar George Jardine frá Adobe fór til Lhasa með nýju hraðlestinni frá Kína (Beijing) til Tíbet og sagði um staðinn að hann væri virkilega sorglegur því það væri gjörsamlega búið að eyðileggja alla menningu þeirra. Allt sem er þarna, hof og annað væri augljóslega bara innihaldslausir sýningagripir og í raun ekkert eftir.
Það er annars mjög þægilegt að sitja hérna í garðinum og horfa á fiðrildin fljúga á milli fallandi haustlaufanna. Það eru ekki margir á hótelinu þessa dagana enda erum við í enda ferðamannatímabilsins og manni líður stundum eins og síðasta manni inni á veitingahúsi - þ.e. að maður þurfi að fara að drífa sig í burtu. Það er samt ótrúlega þægilegt að vera hérna á þessum tíma - allt ennþá opið en ekki mikið af ferðamönnum. Á hótelinu okkar eru t.d. 2-3 herbergi í notkun en samt sami fjöldi af starfsmönnum sem við höfum kynnst ágætlega og þetta eru virkilega góðir drengir og veita okkur frábæra þjónustu.
Ég sá stærstu býflugu sem ég hef séð þennan morguninn sveimandi um blómin en hún er svo stór og þung að blómin gáfu oftast undan og flugan datt aðeins niður áður en hún náði sér á flug. Hún er um tvöfalt lengri og breiðari en stærstu hungangsflugurnar á Íslandi en það sem var sérstakt við hana var að allur búkurinn var kolsvartur og glansandi. Ef einhver líffræðingur er að lesa þetta mætti hann segja mér hverskonar kvikindi er þarna á ferðinni (eða eru eintómir heimspekingar að lesa þetta?).
Eftir afslöppun í garðinum héldum við niður í miðbæ og ég gerði góðverk dagsins. Kona kom á móti okkur ýtandi stórri kerru heim til sín og ég bauðst til að taka við og var hún mjög glöð með það. Þegar ég var búinn að ýta kerrunni í 3-4 mínútur fór ég að vona að hún ætti ekki heima efst uppi á fjallinu og sem betur fer var ekkert langt í heimili hennar því annars hefði eldklerkur brunnið yfir og ekkert verið eftir nema brunarústir.
Konan horfir biðjandi með nýtísku vagninn sinn.
Eldklerkur hlaupandi með vagninn upp götuna.
Við fengum okkur að borða á Le Terrese sem er veitingahús með útsýni yfir aðalgötuna hérna. Ég spurði um klósettið áður en snætt yrði og var mér afhentur lykill að klósettinu og útlistað hvar þar væri að finna en ég þurfti að fara aftur niður, í gegnum húsið og bakvið þar sem klósettið átti að vera. Þegar ég var búinn að ganga í gegnum ganginn var þverhnýpi niður, um 4 metrar og steypustyrktarjárn stóðu út úr húsinu þar sem gangurinn endaði. Ofaná járnunum var búið að koma fyrir trébrú sem var ekki mjög árennileg og endaði hún í litlum steiptum kofa svona 4 metrum frá húsinu og virtist kofinn vera á tveimur hæðum - dyrnar á efri hæðinni. Þegar ég hafði gengið yfir og opnað hurðina með lyklinum og gengið inn barst mér að vitum góðkunnleg skíta- og hlandlykt. Þetta var semsagt kofi með moldargólfi og í miðjum kofanum var lítið gat sem úrgangur okkar mannana átti greinilega að fara í gegnum og safnast saman á hæðinni fyrir neðan. Ég meig þarna innan um flugur sem gerðust ákaflega ástleitnar, renndi síðan upp og hljóp yfir viðarbrúnna sem ég hafði staulast yfir áður.
Slátrarinn með ólystugt kjöt umvafið flugum..
Fancy shop.
Næst á dagskránni var að kaupa dagsferð morgundagsins, þ.e. ökuferð vestur fyrir Leh. Við ákváðum að taka aðra ferðaskrifstofu en við höfðum keypt hjá tveimur dögum áður með misjöfnum árangri, nú prófuðum við Dreamtravels. Þessi ferð var aðeins dýrari enda ætluðum við að taka örlítið lengri dag með fyrsta stoppi í múnkamessunni sem við höfðum misst af áður. Viðskiptin um ferðina gengu skjótt og vel fyrir sig.
Með næsta dag vel skipulagðan skunduðum við að kaupa málverk. Ég var mjög spenntur enda ég hafði planað gríðarlega flókna aðferð við að knésetja þá og fá málverkin á undirverði og helst gera þá gjaldþrota.
Við byrjuðum á málverkabúð sem var ofar í götunni við þá sem við höfðum áður farið í fyrr. Afgreiðslumaðurinn var virkilega þægilegur svo við eyddum um 1-2 tímum í að skoða verkin og tókum til hliðar þau sem okkur hugnaðist. Þegar við vorum komin niður í 6 verk báðum við um verð í pakkann. Á meðan við vorum að fletta sá ég að fyrri búðareigandinn ganga framhjá og gjóa augunum inn í búðina. Stuttu síðar kom hann alveg að dyrunum og leit snöggt inn, greinilega að athuga hvort þetta hafi ekki örugglega verið ég, og fór síðan. Búðareigandinn hinn seinni gaf okkur upp heildarverð, sagðist síðan ætla að gefa okkur afslátt og við áttum að meta hvort hann væri nægur. Ég sagði honum þá að ég hefði annað plan í huga. Hann ætti að hugsa vel afsláttinn sem hann vildi bjóða okkur og vonandi væri það hans lægsta verð. Við myndum síðan ekkert kaupa af honum heldur fara og hugsa málið og ef okkur myndi lítast á verðið þá koma aftur seinna um daginn og klára viðskiptin. Við ræddum þetta aðeins og hann virtist ekkert of hrifinn af þessu plani, hann varðgríðarlega stressaður og svitinn fór að leka af honum. Hann gaf okkur loks 20% afslátt og við gengum út.
Bandaríska konan, laumufarþarþegi fyrri dagsferðarinnar var ágætlega að sér í indverskum málverkum, þekkir víst einhvern sem verslar mikið með þau í Bandaríkjunum. Við sögðum henni að við hefðum hitt á ágætis málverkasala sem hafði boðið okkar antík málverk á fínasta verði. Hún sagði að það væri ekki möguleiki að til sölu væru antíkverk því slík verk væru öll á söfnum og ef þau væru í sölu væru þau á nokkur þúsund dollara stikkið takk fyrir. Ég hafði því ákveðið að hella mér yfir málverkasalann og helst láta hann fara að grenja fyrir framan okkur ef ég gæti - það var a.m.k. planið.
Við gengum því niður götuna þar sem búð svikula málverkasalans, fyrri búðareigandinn, var til húsa og stóð hann fyrir utan hurðina og heilsaði okkur - vissi alveg hvar við höfðum verið og beið eftir okkur eins og könguló. Ég heilsaði honum og sagði honum að ég hefði rætt við kunningja minn sem væri sérfræðingur í bransanum og að antík málverkin sem hann hefði boðið okkur gætu ekki verið ekta og hann því svikari. Hann varð eins hissa og knattspyrnumaður sem fær rautt spjald fyrir að fótbrjóta andstæðing sinn og hélt langa ræðu um það hvað hann hafði sagt, að hann hefði aldrei sagt að málverkin væru antík heldur aðeins pappírinn. Það var a.m.k. inntak varnarræðu hans og ég sagði á móti að ég væri fullviss um hið gagnstæða og upphófst þarna smávægilegt rifrildi. Hann bað okkur þá að koma inn í búðina, ætlaði að útskýra málið og fara aftur yfir þetta, bara til að hreinsa nafn sitt. Hann semsagt fór yfir málið og ég var ekki nema 95% viss um að hann hefði boðið okkur antík verk en nennti ekki að halda málinu til streitu og sagði við hann að þetta hefði greinilega verið misskilningur og bað hann afsökunar á því að hafa kallað hann svikara svo við skildum nokkuð sáttir. Að lokinni heimsókninni hafði ég svo gott sem samþykkt að kaupa af honum tvö verk á 20% afslætti þannig að það er nokkuð ljóst hvor hafði vinninginn í þessu rifrildi .... ekki ég.
Við vorum síðan eitthvað að væflast um miðbæinn það sem eftir lifði dags þangað til það fór að líða að annarri lotu í málverkaslagsmálunum. Þegar við vorum rétt ókomin í fyrri málverkabúðina sáum við þriðju búðina hinum megin við götuna sem leit ágætlega út og ákváðum við að kíkja inn bara til að sjá verðin og hvaða úrval búðareigandinn hefðu upp á að bjóða.
Búðin var lítil en snyrtileg, ungur drengur lék sér á gólfinu og traustvekjandi eldri maður sat bakvið búðarborðið. Við buðum góðan daginn og byrjuðum á að skoða verkin sem voru uppi á vegg. Við spurðum hann síðan um verð á einu verkinu og setti hann upp gleraugu og horfði í áttina og spurði hvaða númer væri undir málverkinu. Hann sagði síðan: "Ég er svo latur, viljið þið ekki bara fá verðlistann?" og rétti okkur lítið spjald með númerum frá 1-56 og stigmagnandi verð þar fyrir aftan (listinn var líka í borðinu hjá honum þannig að hann var ekki með marga í gangi). Því var auðvelt fyrir okkur að skoða verðin útfrá númerunum fyrir neðan og eftir að hafa gramsað aðeins í bunka hjá honum varð okkur ljóst að þetta var töluvert ódýrara en hinar tvær búðirnar. Þetta flækti hlutina aðeins því við vorum á leiðinni að kaupa í hinum tveimur búðunum verk sem við höfðum tekið frá. Þar sem klukkustund var í lokun hjá flestum búðum, við orðin svöng og þreytt ákváðum við að fresta málverkakaupum fram á laugardag þar sem ferðalög voru fyrirhuguð næstu þrjá daga og laugardagur næsti frídagur.
Við byrjuðum á því að fara til svikula málverkasalans og gengum inn í annars ágæta búð hans og sat hann þar á gólfinu með góðlegum háöldruðum hvítklæddum föður sínum, í anda múslima, tók í hönd okkar og heilsaði okkur með virtum þegar málverkasalinn kynnti okkur fyrir honum.
Hann bauð okkur sæti og sagði ég honum að við myndum ekki versla við hann þennan daginn, þyrftum lengri tíma til að ákveða okkur, myndum ekki versla fyrr en um laugardaginn. Hann varð ekki alveg nógu sáttur og við ræddum þetta fram og til baka og að lokum gaf ég honum upp verð sem myndi sannfæra mig um að gera viðskipti á staðnum. Verðið sem ég hafði samið við hann áður var 12.600 RS (upphafleg 15.700 RS) og sagðist kaupa þetta á staðnum fyrir 8.000 RS. Hann varð hvumsa yfir þessu verði og hófst hörð samningabarátta þar sem ég hafði öll spil á hendinni því ég sagði alltaf: "Ok, then we will come on Sunday if we want to buy!" enda lá mér ekkert á að versla verkin. Við enduðum þó á því að sammælast um 8.500 RS sem ég held að sé ágætis verð enda niður um helming frá fyrsta verði og skildum sæmilega sáttir, þó að það hafi verið erfitt að vera svona harður við hann fyrir framan föður hans. Reyndar höfum við ekkert vit á svona málverkum og hann hefur sennilegast grætt fúlgur fjár og ég því farið með skottið út úr búð hans í annað skiptið þennan daginn.
Þó að ég hafi verið mjög stoltur af prútti dagsins var ég þó langt frá meti mínu í þessari íþrótt en það var þegar ég náði að prútta verð á Terracotta styttu í Xi'an í Kína úr 210 í 12 Yen. Konan sem afgreiddi mig nánast henti styttuna í mig ... ég skil hana vel.
Annars prúttar maður á þessum stöðum meira upp á "principið" heldur en að spara peninga því það munar yfirleitt ekki meira en einhverjum krónum frá fyrsta verði og því sem maður sammælist um. Málið er bara að það verð sem gefið er upp þegar maður spyr er langt fyrir ofan eðlilegt verð og það er gert ráð fyrir þessari athöfn, þ.e. að sammælast um annað verð. Ég prútta hart og borga síðan aðeins meira - sölumennirnir verða bæði hissa og ánægðir og það borgar sig margfalt að gefa þesar krónur til baka.
Síðari málverkasalinn tók heldur betur í að ég kæmi á laugardaginn, enda lofaði ég honum því að ég myndi koma.
Á leiðinn heim hjálpaði ég ungum manni að ýta vagni sínum sem innihélt russlatunnu með vatni upp göturnar í Leh þangað til leiðir skildu. Um kvöldið fórum við snemma að sofa ... svefn er mikilvægur þeim er víða ferðast.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
I wish not approve on it. I regard as precise post. Particularly the designation attracted me to study the sound story.
Good post and this fill someone in on helped me alot in my college assignement. Say thank you you for your information.
Skrifa ummæli