föstudagur, september 28, 2007

Dagsferðin hin seinni

Planið þennan daginn var að fara í Thiksey klaustrið, seinni tilraun að ná morgunbænunum því engar voru þær í síðustu heimsókn. Eftir það að keyra um svæðið fyrir vestan Leh.

Bílstjórinn, vinalegur maður með yfirvaraskegg, sótti okkur tímalega kl. 6 á hótelið á Tata bifreið. Við keyrðum framhjá dauðum hundi sem hafði verið keyrt á stuttu áður og vorum mætt í klaustrið um 6.30. Við gengum inn í aðal hofið í klaustrinu sem athöfnin átti að fara fram í og þar í horninu voru 4 múnkar að búa til sandlistaverk en þau eru nokkuð algeng í klaustrum hérna og kann ég ekki frekari skil á trúarlegu gildi þeirra. Mislitur sandur er settur í sívaling sem er mjór í annan endann og breiður í hinn ásamt því að hafa mjög gróft yfirborð. Þeir grúfa sig síðan yfir myndina og nota litla stöng sem þeir strjúka yfir sívalinginn og við það kemur sandurinn í litlu magni út og þeir geta myndað listaverkin.


Eldri munkur fylgist gaumgæfilega með þeim yngri, rétt skal vera rétt.


Þetta krefst gríðarlegrar vandvirkni.

Morgunbænirnar byrjuðu um 7 leytið og fór ég út til að sjá ungu munkana safnast saman fyrir utan kyrjandi. Þeir eldri höfðu þegar tekið sér sæti inni, kyrjandi. Einhver yfirmunkur var þarna úti með strákpöttunum sem leit út eins og vondi kallinn í bíómynd og virtust strákarnir hræddir við hann. Hann hóf þá að kalla þá einn af öðrum til sín og notaði prik til að slá virkilega fast í hönd hvers og eins og var það greinilega sársaukafullt. Ég var mjög hissa á þessu en það verður sennilega að ala þessa ungu stráka upp því engvir eru þeir foreldrarnir og yfirmunkarnir þurfa væntanlega að stjórna stórum hópi. Það er líka möguleiki að hann hafi verið að refsa þeim fyrirfram fyrir að vera óþekkir í messunni, enda kom það á daginn.


Vondi munkurinn pikkar út drengi til refsingar.


Þessi blásturshorn voru notuð í upphafi morgunbænanna upp á þaki klaustursins svo að vel heyrðist í allar áttir.

Eftir að allir messuhæfir munkar höfðu komið sér inn fengum við okkur sæti á gólfinu eins og aðrir og hlustuðum á þá kyrja og spila á flautur, trumbur og klingja bjöllum. Við tókum slatta af myndum enda umkringd mukum á öllum aldri. Yngri mynkarnir voru greinilega ekki að taka þetta mjög hátíðlega, voru þeir oft í hálfgerðum slagsmálum og þurftu þeir eldri að sýna þeim aðhald. Þeir höfðu samt þeirri skyldu að gegna í athöfninni að bera í munkana einfaldann mat og drykki ásamt því að þurka af öllu á milli.


Hluti af morgunbænunum, þessi var sá eini sem klingdi bjöllum.


Tveir spiluðu á flautu/trompet og tveir börðu í trommu.


Þessi var eitthvað að sprella.


Einn af fjölmörgum drengum í klaustrinu.

Það vakti mikla kátínu hjá þeim yngri þegar lítil eðla kom hlaupandi að Sonju þar sem hún sat í mestu makindum á gólfinu við myndatökur. Sonja ætlaði að stökkva upp öskrandi en náði að kæfa mest öskrið og setti upp skelfingarsvip í staðinn. Hún náði heldur ekki að stökkva upp heldur bara rétt að lyfta sér svo eðlan fór undir lappirnar og hvarf undir vegginn bakvið hana. Sonja færði sig af góflinu og settist inn í horn til "sandmunkanna"

Við fórum þegar athöfnin hafði staðið yfir í meira en 2 klukkustundir - þetta var einhver sérathöfn sem tekur mjög langan tíma. Yngri munkarnir voru líka ansi þreyttir og sumir lágu fram á bekkina þegar við héldum á brott.


Einn stekkur glaður út í sólskinið á meðan annar hleypur inn. Svipað innáskiptingu í fótbolta.


Þessi virtist glaður að sleppa út.

Við ókum í gegnum gríðarlega mikil hernaðarmannvirki fyrir vestan borgina á leið okkar að fyrsta stoppinu sem var lítið þorp sem heitir Taru og er það ekki hluti af venjulegu túristaleiðinni heldur eitthvað sem við báðum um, það er nefnilega ekkert klaustur í þeim bæ. Við fengum okkur göngu í gegnum þorpið sem er umlikið ökrum og stoppuðum hjá fjölskyldu sem var að skilja hveitikornin frá grasinu. Það er gert með því að þeyta heyinu upp í loftið og láta vindinn taka kornið og feykja því til hliðar en grasið er þyngra og fellur beint niður. Þegar enginn er vindurinn standa menn/konur og bíða þar til kemur smá gola og þá er grasinu þeytt upp. Á meðan er blístrað eða sungið lag þar sem vindurinn er hvattur áfram og er allstaðar sama lagið sungið. Það er gríðarlega gaman að sjá fólkið svona á ökrunum, eins og að stíga marga áratugi aftur á íslandi. Fólk er einnig vingjarnlegt og sýnir okkur hveitið sem það hefur í dósum og leyfir okkur að smakka. Það er sérlega gaman að sjá þetta í þessu stórkostlega landslagi - eiginlega erfitt að lýsa því í orðum.


Ég reyni fyrir mér í að skilja hveiti og ætli megi ekki segja að þetta sé í fyrsta skipti í mörg ár sem ég vinni ærlegt handtak.


Afinn við vinnu á akrinum.

Allstaðar á leiðinni eru hernaðarflutningar þar sem þetta er afar mikilvægt svæði fyrir Indland og herinn með mikil ítök. Stuttu fyrir utan borgina er stór herflugvöllur og nokkrar herstöðvar. Einnig eru sum þorpin þannig að vegurinn liggur í gegnum þau og er skrítið að sjá bílskúraraðir líkt og raðhús með götunni sem nýttir eru í hina ýmsustu hluti eins og búðir, viðgerðaverkstæði, trésmíðaverkstæði, ruslageymslur, stofur, geymslur o.flr. o.flr.


Kona bíður þess að verða fullfermd.


Vegagerðamenn vinna gríðarlega erfitt starf við erfið skilyrði.


Vegagerðakona gengur heim á leið í sandroki.


Dæmi um landslag á leiðinni.

Skilti með spaklmælum til að forða slysum eru út um allt Ladakh hérað. Við höfum dundað okkur við að punkta þau niður enda sum hver nokkuð fyndin því rím virðist skipta meginmáli. Hérna eru nokkur:

A-in þrjú: "Alert avoid accident"
A-in fjögur: "Always alert avoid accident"
"After whiskey driving risky"
"All we wait, better be late"

B-in þrjú: "Beware before bends"
"Be mr. late than late mr"
"Break the speed, that's the need"
"Check your nerve on my curve"
"Child is a father of man"

D-in þrjú: "Don't drive drunk"
"Darling I like you but not so fast"
"Driving and drinking, a fatal coctail"
"Fast won't last"
"He who touches 90 will die at 19"
"If you fall asleep, your family will weep"
"Left is right" (vinstri umferð hérna)
"Mighty one eighty one"
"Run on horse power, not on rum power"
"Slow drive long life"




Við skoðuðum næst fallegt klaustur við bæinn Basgo sem er eins og oft uppi á kletti í gömlum kastala. Við fórum ekki inn í klaustrið en nýttum okkur stórkostlegt útsýnið til myndatöku og yndisauka. Nokkrir verkamenn voru að vinna við rætur klaustursins í algjöru logni og gríðarlegum hita, sannkölluðum hitapotti. Þeir voru ekki öfundsverðir en voru glaðir og brosmildir eins og langflestir virðast vera hérna.


Útsýnið ofanaf klaustrinu.


Sonja þreytt eftir göngutúr í gríðarlegum hitapotti við klaustrið.

Lítill bær var næstur á dagskránni, Likir, og fengum við okkur stuttan göngutúr í honum. Þegar við vorum komin ofarlega í byggðinni urðu á vegi okkar tveir litlir strákar og spurðu þeir okkur hvort við vildum koma í skólann þeirra. Við ákváðum að taka boði þeirra og hittum nokkra krakka sem voru að leik á skólalóðinni og voru þeir æstir í að fá myndir af sér teknar. Eftir þónokkurn tíma með þeim og gnægt mynda kíktum við á kennarana þrjá inni í skólanum og báðum þá um heimilisfang til að senda þeim myndirnar. Skólinn var þrjár litlar stofur nánast alveg tómar. Það eina sem var inni í stofunum voru töflur og myndir á veggjunum - annað virtist vanta. Þetta var a.m.k. fátæklegasti skóli sem við höfðum séð. Merkilegt hvað fólk virðist vera elskulegra og þægilegra eftir því sem það er fátækara. Vill einhver eiga peningana okkar?


Þessi ungi piltur var feiminn og virtist ekki almennilega vita hvaða tæki þetta var sem hann var að horfa í.


Þessi var greinilega sprelligosi skólanns, dansaði og fíflaðist fyrir framan okkur. Á bak við hann má sjá töflu svo greinilegt er að hluti af kennslunni fer fram úti.


Nánast tóm skólastofa.

Við fengum okkur að borða í síðasta þorpinu, Alchi, og eftir það benti bílstjórinn okkur á klaustrið sem var stutt frá matsölustaðnum og sagði að það væri alveg þess virði að skoða það. Við vorum bæði orðin þreytt en ákváðum að láta slag standa. Þegar inn í klausturgarðinn var komið reyndist enginn vera þarna og þegar við vorum í þann mund að snúa við kom eldri múnkur og spurði okkur með handahreyfingum hvort við vildum skoða hofið. Við ákváðum að kíkja inn, hann opnaði og kveikti fyrir okkur. Inni voru gríðarlega stórar tréstyttur, sennilegast um 5-6 metra háar frá 11. öld. Það var skrítið að vita til þess að þessar styttur voru nánast frá þeim tíma sem Ísland var að byggjast og menn að grafa sig inn í hóla í eintómu volæði og vesælddómi. Stytturnar voru líka mjög unglegar og ég virtust ekki degi eldri en 950 ára.

Á heimleiðinni fékk Sonja sér langan lúr í bílnum, við vorum nokkuð þreytt þegar til Leh var komið enda um 12 tímar síðan við lögðum af stað. Við báðum bílstjórann að keyra okkur aftur á ferðaskrifstofuna sem við höfðum keypt ferðina og fengum við helmings afslátt af henni vegna þess að við fórum bara hálfa leið miðað við það sem við upphaflega greiðslu og gekk það upp í ferð morgundagsins til Nubra Valley.

Við komumst að því að plastpokar eru ólöglegir í Leh þegar við keyptum tvær bækur og urðum að taka utan af þeim í búðinni. Ég held að þetta sé góð löggjöf hjá þeim.

Góður og skemmtilegur dagur.

1 ummæli:

Burkni sagði...

Ég missti hreinlega andlitið þegar ég sá myndina af gljúfrunum tveimur með mislitu ánum, svo stórfengleg er hún.

PS: Kallinn segist endilega vilja eiga peningana ykkar ...