laugardagur, september 29, 2007

Ferð til Nubra Valley - Fyrri dagur

Rétt fyrir átta vorum við búin að skófla í okkur morgunmatnum og biðum eftir bílnum. Bíllinn sem skyldi flytja okkur til Nubra dals átti að koma kl. 8 fyrir utan hótelið. Yfirleitt er ég mjög þolinmóður maður en það fór lítið fyrir því þenan morguninn og ég lét m.a.s. út úr mér kl. 8.04 að við gætum farið aftur að sofa því bíllinn kæmi ekki úr þessu.

Edlklerkur reyndist ekki sannspár frekar en fyrri daginn því bíllinn renndi í hlað um 10 mínútum síðar og var við stýrið mjög grannur ungur maður, greinilega smá töffari. Mér leist þó ágætlega á hann þó að mér sé illa við töffara og Sonju leist að sjálfsögðu vel á hann enda með góðan smekk á karlmönnum og kærir sig ekki um neitt nema eðal töffara. Hann fór fljótlega að spyrja okkur um það hvort við værum gift og skildi ekkert í því að ég væri ekki búinn að giftast henni því Sonja væri mjög falleg. Ég stríddi honum aðeins og sagði að hún væri nú ekkert svo falleg þegar Sonja var að hlusta líka og að ég væri ekki viss um að ég vildi giftast henni. Ég sá hneykslis- og undrunasvip á andliti hans.

Vegurinn byrjaði strax að klifra upp bratt fjallið fyrir ofan Leh og var oft gríðarlega mikið hengiflug niður af veginum sem við sikk sökkuðum á. Við fórum næst hæsta fjallveg fyrir farartæki stuttu áður og bættum um betur í þetta skiptið því þessi leið er sú hæsta. Hæsti punktur á þessari leið er í Khardung La sem er í 18.380 fetum sem gera um 5.606 metra. Ég er nú yfirleitt ekki bílhræddur maður en þar sem ég sat vinstra megin í bifreiðinni, þeim megin sem sneri niður hlíðina, og ökumaðurinn fór oft nánast með dekkið hálft útaf brúninni þegar við mættum stórum flutningabílum þá var mér ekki um sel, enda gríðarleg þverhnýpi þarna. Við sáum á einum stað í hlíðinni brunnið brak flutningabifreiðar sem hafði hrapað gríðarlega langt niður hlíðina og það var ekki til að minnka fiðringinn í maganum.


Útsýnið yfir Leh frá veginum upp fjallið.

Eftir stutt myndastopp á hæsta punkti var allt niður á móti og ekki eins bratt í fjöllunum þó að enn væri landslagið mjög óárennilegt og maður skilur varla hvernig þessir vegir hafa verið byggðir. Engin þorp voru á leiðinni upp enda bændum varla stætt að byggja bú utaní þverhnýpu fjalli. Það var breyting á því á ferðinni niður - mjög mörg og falleg þorp inn á milli ljótra herstöðva sem virðast vera eins og fugladrit um Ladakh.


Hæsti vegkafli í heimi fyrir bifreiðar og við. Ég geri ekki ráð fyrir að við förum hærra því við erum ekki mikið göngufólk, a.m.k. ekki betri helmingurinn.


Bænaflögg fyrir ofan hæsta punktinn.


Á leið niður fjallið.


Þorp í hlíðinni á móti þegar niður er farið að Nubradalnum.

Við þurftum að stoppa í einni af þessum her- eða eftirlitsþorpum til að sýna vegabréf eins og gengur og kvitta fyrir því að við hefðum farið inn á svæðið. Ég skokkaði þar á eftir á klósettið eða útikamarinn sem var fyrir ofan veginn og það má með sanni segja að þar hafi óskapnaðurinn náð nýjum hæðum eða kannski nýjum hægðum. Lyktin var óbærileg og skítur þarna út um allt í hrúgu sem maður hálfvegis stóð á. Ég ætla ekki að fara meira út í lýsingu á þessu klósetti, mæli bara með að menn fari sjálfir og taki út þetta klósett.


Hermenn skipta á sér.


Þessi hefur greinilega lofað því að kíkja ekki á meðan hinn fékk sér að pissa.


Útsýni yfir Nubra frá klaustri sem við heimsóttum á leiðinni.

Við fengum okkur stuttan hádegisverð á litlu tíbetsku veitingahúsi og bar það helst til tíðinda að fastagestir eru greinilega það stuttir að ekki þykir ástæða til að hafa útidyrnar í eðlilegri hæð, því skall ég með hausinn í þegar ég gekk inn og næstum því rotaðist held ég sveimerþá. Þetta pínulitla veitingahús var nánast fullsetið og sennilega þótti fólki skrítið að sjá mig ryðjast inn á staðinn og ráfa um með hausinn í lúkunum og stynja eins og andsetinn væri. Daginn eftir skoðuðum við skallann og reyndist þá vera skurður eftir gjörninginn og stór kúla. Ég leit þá ekki lengur út eins og foli heldur einhyrningur.


Lítið og skemmtilegt veitingahús sem var staðsett í litlum kofa ofaná öðru húsi. Klósettið var á ruslahaugum fyrir aftan húsið.


Hérna má glögglega sjá áverkana.

Þegar niður af fjallinu var komið keyrðum við inn Nubradal og var skrítið að koma úr miklum kulda og snjó efst á fjallinu í eyðimörk á aðeins 3 tímum. Nubra dalur er eyðimörk að mestu leiti með miklum sandöldum eins og menn hafa séð frá Sahara en hér eru gróðurbelti inni á milli sem bæir hafa myndast í kringum. Endastöð okkar þennan daginn var líitð þorp í Nubra sem heitir Hunder. Eftir stutta leit að gistihúsi sammældumst við um að fara á Snow Leopard sem er lágreist hús með fallegum garði. Herbergið okkar var hið ágætasta ef miðað er við annað á þessum slóðum, með útsýni út í garðinn.

Við fengum okkur stuttan göngutúr eftir að hafa hent inn farangrinum og komumst að því að þetta þorp er alveg með eindæmum flott, nánast eins og draumaland. Það er mjög gróðursælt og eru litlir göngustígar á milli hlaðinna garðveggja og eru oft litlir lækir sem liggja með göngustígunum. Beljur og asnar eru á hverju strái og mjög vinalegt fólk sem stoppaði og spjallaði nánast undantekningalaust við okkur. Allir virtust vera brosandi og ánægðir enda varla hægt í svona fallegu og friðsömu umhverfi.


Kona og belja á leiðinni heim.

Við sáum margt skemmtilegt eins og í einum stórum garði stökk belja skyndilega af stað og var á harðahlaupum á eftir hvítri kisu sem náði með naumindum að bjarga sér upp í tré skjálfandi af hræðslu. Ekki vissum við að beljur gætu náð þessum hraða.

Við gleymdum tímanum við að horfa á stráka spila krikket á einum stað í þorpinu og áttuðum okkur ekki á því að það var að koma myrkur fyrr en næstum því of seint. Þorpið er allt mjög langir og hlykkjóttir göngustígar og allt ópupplýst þannig að ef við hefðum misst gönguna í myrkur þá hefðum við varla náð að finna gistiheimilið aftur held ég. Ef við hefðum náð heim þá væri það illa tætt og útrispuð. Þar sem að búfénaðurinn gengur um sjálfala allan daginn þá er hvert hús með hlaðin vegg og svo gaddavírstré ofan á þeim svo að dýrin geri ekki innrásir og þessi gaddavírstré eru ekkert grín. Við hröðuðum okkur því heim og náðum með herkjum að finna gistiheimilið án teljanlegra áverka og nákvæmlega 4.07 mínútum síðar var skollið á svarta myrkur.

Bílstjórinn var mjög hissa þegar við settumst við kvöldverðarborðið klukkan 18.30 því hann sagðist sjálfur ekki borða fyrr en 21. Við létum það ekkert á okkur fá og snæddum þarna hinn ágætasta mat sem var eldaður á heimili eigandans og spússu hans í húsi við hliðina á gistiheimilinu, samt í sama garði. Eftir matinn settumst við inn í sjónvarpsherbergi á neðri hæð heimilis eigandans og sátum þar á teppi á gólfinu með heimilisafanum og 3-4 öðrum gestum. Rafmagnið þarna er jafn dyntótt og annarsstaðar í Ladakh og fór það af alls 4 sinnum þarna um kvöldið og var þá notast við batterí-lampa. Þetta minnti okkur á nánast horfna tíma á Íslandi því maður tekur rafmagn sem gefið heima og verður hissa þegar það fer. Í Ladakh virðist vera regla að það fer af mörgum sinnum á dag og eru flestar búðir og þjónustufyrirtæki eins og netkaffi með olíurafstöð fyrir utan inngang til að grípa í.

Við fórum snemma að sofa enda erfiður dagur að baki og annar erfiður að bringu.

Engin ummæli: