Þá erum við komin upp á herbergi eftir langan en virkilega góðan dag. Við borðuðum frábæran morgunmat hérna á gistiheimilinu sem innihélt allt milli himins og jarðar, m.a.s. Bruschetta með tómötum og margt annað gott. Við spjölluðum við tvær hollenskar stúlkur á meðan við fengum okkur morgunmat og ítalskt expresso.
Við héldum síðan af stað eftir að hafa spjallað við hóteleigendurna, sem eru skemmtileg Ítölsk hjón og fengið hjá þeim upplýsingar til að byrja fyrsta daginn á réttum fæti.
Rétt eftir að við lögðum af stað skoðaði ég sólgleraugu hjá sölumanni og spurði hann um verð eftir að ég hafði fundið gleraugu sem hentuðu mér og sagði hann 15 evrur og ég þakkaði þá fyrir og gerði mig líklegan til að fara. Hann stoppaði mig og vildi endilega selja mér og ég náði að prútta þetta niður í 5 evrur og borgaði manninum. Eldri Ítali stóð þarna hjá og fylgdist með og kallaði ákaft Bravo og klappaði eftir að sölumaðurinn samþykkti 5 evrurnar þannig að ég var nokkuð ánægður með mig þó að ég hafi sjálfsagt borgað of mikið fyrir þau.
Við tókum síðan strætó niður í miðbæ og fórum út við ána Tíber og skoðuðum okkur þar aðeins um. Það verður að segjast að byggingarnar hérna eru stórkostlegar og nokkuð ljóst að slefandi geðsjúklingar hafa fengið hugmyndirnar að þeim flestum. Við gengum þar um litlar göngugötur í gríðarlegum hita. Það er sennilegast ágætis upphitun (bókstaflega) fyrir Indland að labba mikið í þessum hita. Við erum að reyna að drekka mikið vatn því við klikkum alltaf á því í ferðalögum okkar. Ég gerði ekki nægilega mikið af því í dag, leið reyndar nokkuð vel en ég drakk 3 bjóra og ýmislegt annað en fór ekki á klósettið fyrr en í kvöldmatinum núna kl. 20:30 í kvöld.
Við höfum hvorugt náð að finna okkur ljósmyndalega séð hérna og því ekki komist í almennilegan "ljósmyndatrans" - ég held að málið sé bara að við erum ekkert mikið fyrir að taka myndir í stórum borgum, finnum a.m.k. miklu meira myndvænt í þorpum og sveitum. Það skiptir hinsvegar engu máli því markmiðið hérna er að slaka á.
Fyrir þá sem vilja stúdera það sem við gerðum í dag þá hét hverfið sem við þræddum Piazza Navona og þar í kring. Skoðum m.a. Pantheon og Castel Sant'Angelo sem var nokkuð tilkomumikið fyrir íslenskan sveitastrák og úthverfastúlku.
Við keyptum okkur Cognac Frapin Grande Champagne V.S.O.P. í fríhöfninni til að drekka á kvöldin svo við fríkum ekki út í niðurgang því er planið að drekka staup á hverju kvöldi. Ætli ég sverji mig ekki í ættina og mæti heim sem virkur alki, sjáum samt til með það.
Við borðuðum pizzu í hádeginu en spaghetti og tortellini í kvöld og voru báðir réttirnir ágætir en ítalir kunna greinilega ekkert að elda svona rétti.
Ítalir eru annars eins og flestir vita skemmtilegt og hjálplegt fólk með ágætis notendaviðmót - stúlkurnar í flegnum bolum svo sést í "bringuhárin" og strákarnir svipaðir.
Hérna koma nokkrar myndir (Sonja valdi myndirnar þannig að ég ber enga ábyrgð á því að þær eru nánast allar af mér og bið ég hérmeð viðkvæma lesendur afsökunar á því):
Vélin á flugi nánast tóm á leið til Rómar. Það verður dýrt fyrir okkur 9 farðegana að kolefnisjafna ferðina.
Harmonikkuleikari á Via dei Coronari, sem er lítilli hliðargata.
Ég að drekka fyrsta bjórinn í ferðinni og bíða eftir Pizzu með skinku (reyndist vera hráskinka) og sveppum.
Stórglæsilegur ungur maður sem fellur eins og flís í rass inn í ítalíuskaran á götunum. Þetta eru gleraugun góðu sem ég náði að prútta niður.
Ég bjó til þessa festingu á myndavélatöskuna mína. Málið er að ég keypti mér tösku og keypti betri ól á hana en það passaði ekki nægilega vel að festa ólina beint á breiða festinguna þannig að ég útbjó þetta sem hefur haldið nokkuð vel hingað til ... 7, 9, 13.
Þarna erum við uppi á Castel Sant'Angelo með borgina í bakgrunni.
Þessi kona var þarna uppi líka, ótrúlegt en satt.
Já, þetta eru nú ekkert spes myndir svosem en þjóna sínum tilgangi að festa á filmu ferðasögu okkar.
Planið á morgun er að skoða hringleikahúsið Colloseium og eyða bróðurpart dagsins á því svæði við söng og dans.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ekkert að staupa - svona gott stöff sötrar maður, og ekki bara eitt glas í einu :)
Það er nú alltaf jafn gaman að lesa bloggið ykkar þegar þið eruð á ferðalagi....hlakka til að lesa alla ferðasöguna :)
Kveðja
Steinunn Ósk
Skrifa ummæli