miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Fyrsti dagur

Jæja þá erum við loksins lögð í'ann og erum núna stödd í okkar ágæta hótelherbergi fyrsta daginn okkar í Róm. Sonja er þreytt eftir stressið síðustu daga og því ákváðum við að taka því aðeins rólega núna eftir morgunmatinn og ég er því að hamra þetta inn og Sonja að klára Flugdrekahlauparann.

Það var nokkuð magnað að við vorum aðeins 9 farþegarnir í c.a. 200 manna Boeing vél til Rómar. Þetta er síðasta flug út hjá ferþaskrifstofunni og það skýrir þetta, en vélin hefur væntanlega verið betur hlaðin af mannlegum varningi á leið aftur til Íslands.

Við komum hingað laust fyrir miðnætti í gær og það var voldug sjón að keyra framhjá hringleikahúsinu Collesium sem við höfum séð margoft á myndum í gegnum tíðina. Ólíkt því þegar ég sá píramídana í Giza sem voru mér minni en ég reiknaði með var Collesium töluvert stærra en ég bjóst við. Það er gríðarlega voldugt og ótrúlegt að það var byggt c.a. 1000 árum áður en óheppnum víkingum skolaði á land á Íslandi. Það þarf náttúrlega að vera stórt til að geta boðið upp á sjóorustur en það var einmitt gert fljótlega eftir byggingu þess, þ.e. áður en kjallaranum var bætt við. Menn eru reyndar ekki sammála um það hvort það sé bara þjóðsaga að þarna hafi verið haldnar sjóorustur en það verður samt er gaman að trúa því í huganum þegar við skoðum það fljótlega. Það er í göngufæri héðan þannig að við erum á ágætis stað.

Við erum í svokölluðu “bed and breakfast” sem er í raun bara íbúð sem hefur verið stúkuð niður í nokkur herbergi með eldhúsi þar sem boðið er upp á hreint stórgóðan morgunverð. Herbergið okkar er mjög fínt, hátt til lofts, stór gluggi, snyrtilegt bað og flatstjónvarp.

Planið hjá okkur næstu daga er að taka því rólega og slaka aðeins á. Við erum reyndar búin að merkja inn nokkra staði í litlu ferðabókina sem við keyptum okkur sem okkur langar til að sjá. Þar ber hæst hinar ýmsu dýlflisur sem ég er nokkuð spenntur fyrir en við ætlum samt að reyna að vera ekki að stressa okkur við að skoða allt.

Ég verð líklegast að vera í síðbuxum allan tímann hérna í Róm eftir að ég asnaðist til að fara í aðgerðina nánast rétt áður en við fórum út á flugvöll en maður verður bara að taka því.

Stóra ágreiningsefnið hjá okkur er farangurinn. Við erum með sitthvoran bakpokann sem hvor er um 15 kg. Auk þess að vera með allt myndavéladótið og auka tösku með sparifötunum sem við munum senda með einhverjum giftingagestinum til Íslands. Ég vil senda mjög mikið dót aftur til Íslands þannig að við höfum hámark 10 kg. Hvor en Sonja er ekki alveg jafn viss. Við ætlum að fara aftur yfir dótið okkar í kvöld og semja um málið ... við hefðum kannski átt að taka lögfræðinga okkar með til að útkljá þetta á meðan við gerum eitthvað skemmtilegra. Kóngur vill sigla en byr mun reyndar ráða. ;-)

Jæja, ég ætla að reyna að drífa Sonju út í góða veðrið ...

Engin ummæli: