Eitt það sem kom mér mest á óvart í þessu ferðalagi var hversu gaman ég hafði að skrifa söguna og verður þetta ómetanlegt fyrir okkur síðar meir að geta lesið söguna og upplifað ferðalagið á nýjan leik. Eins verður gaman fyrir afkomendur okkar, ef einhverjir verða, að lesa hvað við vorum að gera og hugsa.
Ferðalagið heppnaðist í alla staði ótrúlega vel þó að veikindi hefðu sett kommustrik í reikninginn á köflum. Í byrjun ferðar vorum við bæði á malaríulyfinu Larium - þekkt aukaeinkenni eru martraðir, þunglyndi ásamt öðrum smákvillum. Við byrjuðum að taka lyfið tveimur vikum áður en við fórum út til að fá reynslu á aukaverkanir þess því sumir finna ekki fyrir neinu. Það gekk allt vel í byrjun og aukaverkanir virtust ekki vera að plaga okkur, engar martraðir og allt í góðu en á 3ju og 4ju viku, þ.e. fyrstu tveimur vikum ferðarinnar fór Sonja að taka eftir miklum kvíða sem endaði í þunglyndi - hún var hætt að vilja fara fram úr rúminu og fara út úr hótelherberginu okkar. Einkennin voru þó allra verst svona á 3ja og 4ja degi lyfsins en við tókum það bara einu sinni í viku svo Sonja ætlaði nú bara að harka þetta af sér en þegar hún "festist" undir sænginni, gat hvorki lesið né horft á sjónvarp og þótti þetta allt heldur tilgangslaust var ljóst að þetta gengi ekki. Við ákváðum að taka ekki lyfið meir enda í yfir 2000 m hæð og því ekki mikil hætta á malaríu og við myndum svo redda okkur betra lyfi þegar við kæmum aftur til Delhi.
Við mælum því með að fólk hugsi vel hvaða malaríulyf það tekur áður en haldið er í langt ferðalag.
Eftir þetta voru það magakveisur sem stungu upp höfðinu öðru hvoru og var Sonja óheppnari með þessi mál en ég enda er ég með stálmaga. Þetta var þó ekki það mikið að þetta setti neinn svip á ferðina en óþægilegt og leiðinlegt á meðan yfir gekk. Sem betur fer sluppum við nokkuð vel þökk sé æðri máttarvöldum og risavaxinni lyfjatösku Sonju.
Við sáum sitt lítið af flestu á Indlandi, fórum hæstu fjallvegi í heimi á ferðum okkar um Himalayafjöll, veiddum fisk við strendur Kerala syðst í Indlandi og heimsóttum Nepal og Bútan. Það má því segja að við höfum komið víða við og séð margt áhugavert og skemmtilegt - engin ástæða að rifja það allt hér upp.
Myndavélarnar voru alltaf með okkur og er hægt að telja þá daga sem við snertum ekki á myndavél með einum putta. Við höfum bæði mest gaman af mannlífsmyndum og til að ná almennilegum slíkum myndum á ferðalögum verður maður helst að komast í návígi við fólk, vera djarfur og spjalla svo maður sé ekki bara að smella af líkt og fólkið sé til sýnis í dýragarði. Nokkrum sinnum fundum við fyrir einhverju tilgangsleysi og fannst við vera að frekjast með að troða myndavélinni í andlit fólks - hugsa að margir sem hafa áhuga á ferðaljósmyndun upplifi svipaða hluti. Það verður erfiðara og erfiðara að taka slíkar myndir því myndvænt fólk verður þreytt á sífelldum myndatökum og fer að segja nei eða heimta peninga sem er orðið algengt. Það má segja að ef maður tekur andlitsmynd af einhverjum og gengur í burtu þá er maður bara að taka en ekkert að gefa til baka þannig að það er kannski erfitt að finna gott jafnvægi í þessu. Við höfðum þá reglu að borga fólki ekki fyrir myndatöku því það skapar vont fordæmi og eyðileggur fyrir þeim sem á eftir kom. Miklu betra er að senda fólki myndina í pósti og þurfum við að fara í gegnum lista af 100-200 manns sem við höfum gefið slíkt loforð.
Margir hafa spurt okkur hvað standi uppúr í ferðinni en við eigum virkilega erfitt með að nefna eitthvað eitt því eins og áður sagði var ferðin mjög viðburðarík - prófið að spyrja okkur eftir 5 ár, þá verður fróðlegt hvað poppar fyrst upp í hugann úr ferðinni. Ætli það megi ekki segja að í fljótu bragði standi eftirfarandi staðir uppúr (í tímaröð):
- Hin hrikalegu Himalayafjöll sem oft minna á stærri útgáfu af flottustu svæðum Íslands
- Ladakh, kóróna Indlands
- Srinigar með sín rómantísku vötn
- Gullna hofið í Amritsar sem og borgin sjálf
- Kinnaur dalurinn með sínum fallegu þorpum og hrikalegum vegum á stundum
- Austur hluti Bútan með sínu stórkostlega mannlífi
- Borgin Udaipur með vatnahöllinni og líflegum miðbæ
- Hinn gríðarlega skemmtilegi smábær Bundhi
Ég get ekki metið það sjálfur hvort við höfum þroskast við þetta langa ferðalag en veit þó að við erum reynslunni ríkari og eigum ógleymanlegar minningar frá þessum miklu og líflegu menningarlöndum. Það er þó eitt sem við finnum bæði fyrir þegar við komum heim en það er að við kunnum miklu betur að meta það sem við höfum hér heima og má segja að líf okkar sé sannkallaður lúxus. Við tökum flest það sem við höfum sem sjálfsögðum hlut og því hefur maður gott af því að prófa eitthvað gjörólíkt lengur en 2 vikur til að sjá hlutina í víðara ljósi og ná jarðtengingu því að sumu leyti verður gildismatið ansi brenglað við að búa í góðu yfirlæti hér á vesturhveli jarðar.
Við erum bæði mjög sátt við að vera komin heim til Íslands aftur - það er einhvernvegin þannig að þegar maður er erlendis þá innstillir maður sig inn á þann tíma sem maður verður úti, þ.e. ef maður ætlar að vera viku þá er maður sáttur með að fara heim á þeim tíma og eins með þrjá mánuði. Ef við hefðum ætlað að vera úti í ár og þyrftum að fara heim eftir þrjá mánuði yrði maður ekki alveg jafn sáttur. Það verður mikið að gera hjá okkur á hinum ýmsu sviðum núna þegar heim en það verður bara spennandi og skemmtilegt að takast á við daglegt amstur þannig að við erum sátt, mjög sátt.
Okkur langar til að þakka þeim fjölmörgu sem hafa fylgst með ferðum okkar, sérstaklega þeim sem hafa verið duglegir við að setja inn athugasemdir og senda okkur tölvupósta - það var virkilega hvetjandi fyrir okkur að fá viðbrögð við þessum pistlum og ekki síst það stuðlað að því að við náðum að halda dampi.
Fyrir þá sem finnst að þeir hafi eitt dýrmætum tíma sínum í vitleysu er bara eitt að segja: "Þeir sem kunna landafræði, þeir ferðast ókeypis!"
Við þökkum þeim sem hlýddu, góðar stundir.
Jói og Sonja
9 ummæli:
Takk fyrir mig
Hjölli
Glæsilegt, undursamlegt!
Takk fyrir
Gunnlaugur
Gaman af þessu.
Kveðja frá Hólum
Bjarni
Elsku Sonja og Jóhann
Takk fyrir dásamlegar myndir og skemmtilega ferðasögu. Hef ferðast með ykkur á hina ýmsu staði með því að Googla og sem hefur gefið mér nýja sýn á heiminn. Þið eruð hugrökk,jákvæð og áræðin.
Dásamlegt að fá ykkur heil heim.
Knús
Mútta bleika
Halló halló ég þekki ykkur ekkki neitt, datt inn á þetta blogg í gegnum Dr.Gunna sem benti á ykkur fyrir nokkru. En ég er ekkert smá ánægð með ykkur. Myndirnar eru frábærar og ferðasagan góð.
Velkomin heim og takk fyrir mig.
Gunnhildur
Hæ
Búinn að fylgjast með ykkur í nokkurn tíma, frábær saga og enn betri myndir.
Takk fyrir mig !
kv.
Davíð Þór
Jæja jæja - búin að lesa mikið af byrjuninni og núna endasprettinn - það er e-ð eftir í miðjuhlutanum - verða að ná því í náinni framtíð;)
Takk fyrir að vera:)
Verðum að hittast fljótlega, eta, spjalla og hlæja saman;)
Kv.
MCM
mjog ahugavert, takk
Skrifa ummæli