fimmtudagur, desember 13, 2007

89. Heima-sætan-heim

Síðasti dagurinn í Indlandi var upprunninn - frekar þungbúinn enda farið að vetra á Indlandi og ákveðinn söknuður í hugum ferðalangra.

Það biðu okkar smá verkefni fyrir brottför svo við rifum okkur á lappir um kl 07 og hóf Sonja að umpakka en ég hinsvegar fór í gönguferð í leit að netkaffi. Þegar við pöntuðum þetta guðsvolaða hótel daginn áður hafði viðmælandinn lofað öllu fögru með netkaffihús í nágreninu: "Yes, there are lot's af internet caffee's outside the hotel, open 24 hours." Við létum hann marglofa þessu því maður er farinn að taka með ákveðnum fyrirvara því sem peningaþyrstir eigendur hótela segja manni, sérstaklega ef þetta eru lélegri hótel sem bráðvantar gesti.
Ég gekk í um 15 mínútur í þá átt sem hótelstjórinn hafði bent mér kvöldið áður þegar við mættum á hótelið. Ég gekk lengi og þessir 100m sem hann hafði talað um höfðu kannski átt að vera 100 km. Ég spurðist fyrir á tveimur stærri hótelum í nágreninu sem virkuðu mjög flott og þau hvorki höfðu net né vissu um neitt í nágrenninu. Þegar ég þurfti orðið að snuúa við til að missa ekki af fluginu heim þá rakst ég á ég lítið netkaffi á efri hæð gamals hús en eitthvað stórt tæki eða jarðskjálfti hafði aflagað steintröppurnar svo mikið að ég þurfti nánast að klifra upp. Þegar inn var komið spurði ég strákinn hvort ég gæti notað minnislykil en það var grundvöllur þess sem ég ætlaði að sýsla. Hann sagði "Nei" en ég ákvað sjálfur að kanna þetta og dró eina tölvuna fram sem var svo rykfallin að það sást varla í hana. Blessuð vélin virtist vera frá miðjum síðasta áratug og tengið sem ég var að leita að ekki til staðar. Ég klifraði því aftur niður úr húsinu og hélt áfram för minni til baka.

Leigubíllinn var snemma á ferðinni svo Sonja var enn að pakka en við náðum í sameiningu að klára vísindalega umpökkun Sonju og henda dótinu út í bíl.

Alþjóðaflugvöllurinn í Delí var fámennur og því gekk greiðlega að skrá okkur í flugið og fylla út pappíra um að við værum að yfirgefa Indland. Við settumst því næst upp í setustofuna, fengum okkur drykk, kíktum í blöð og unnum aðeins í tölvunni. Þegar maður yfirgefur Indland þá er fyrst röð til að gegnumlýsa farangurinn sem fer í farangursrýmið, svo er það að skrá sig inn, því næst fylla út blöð og fara í gegnum innflytjendaeftirlitið. Þar tekur við lítil fríhöfn, setustofur og annað til að eyða tímanum. Svo þegar maður fer í gegnum öryggishliðið svokallaða þá er leitað vel og vandlega á manni sem og í öllum handfarangri en eftir það er fátt í boði til afþreyingar og má maður þakka fyrir að hægt er að kaupa sér drykki. Það er því ekkert sniðugt að hraða sér í gegn þar til að sitja allslaus og bíða bara - ekki einu sinni innstungur svo hægt sé að vinna í tölvunni. Setustofan er áður en farið er í gegnum öryggishliðið og því datt mér í hug að spyrja afgreiðslustúlkuna hversu lengi maður væri að komast í gegnum það og að flugvélinni:

"Fyrirgefðu ungfrú."
"Já, hvað var það?"
"Hversu lengi er maður að fara héðan að flugvellinum?"
mismælti ég mig, ætlaði að segja flugvélinni.
"Þú ert á flugvellinum!" sagði hún mjög pirruð og hélt greinilega að ég væri algjör vitleysingur sem kannski er að hluta til rétt. Ég var reyndar að spá í að svara einhverju eins og: "Nú? Það útskýrir ýmislegt!", en gerði það ekki.

Rétt upp úr hádegi gengum við út í flottustu flugvél sem við höfum farið í og var það með hinu ágæta indverska flugfélagi Jet Airways. Lúxusklassinn er með vel stúkuðum sætum eða réttara sagt bekkjum þar sem hægt er að láta fara vel um sig í þessu tæplega 10 klukkustunda flugi. Sætin fyrir almúgann, þar með talið okkur voru einnig mjög þægileg og engin hætta að okkur myndi leiðast í fluginu. Hvert sæti er með skjá þar sem hægt er að horfa á bíómyndir, þætti auk þess að spila ýmsa tölvuleiki. Stór fjarstýring með skjá og lyklaborði er undir skjánum og m.a.s. tengi undir sætunum til að setja tölvur og annan rafmagnsbúnað í samband. Óheyrilegt magn af bíómyndum, leikjum, sjónvarpsþáttum er í boði ásamt því að maður getur sent tölvupóst og líklegast farið eitthvað á netið. Maður getur hringt á milli sæta, sjálfsagt áhugavert fyrir þá sem eru á lausu, ásamt því að hringja hvert á land sem er beint úr sætinu.


Mjög ánægð með flugvélina.


Fjarstýring með lyklaborði.

Hvorugt okkar svaf nokkuð í vélinni og við höfðum nóg að gera á Heathrow, ég að versla og Jóhann að blogga. Þegar við komum til Heathrow (London) fórum við eiginlega strax í biðstofuna fyrir farþega Flugleiða og sáum þar fyrstu Íslendingana í langan tíma. Í næsta sófa voru nokkrar miðaldra konur að koma úr verslunarferð, búnar að fá sér aðeins í litlu tána og rúmlega það.

"Gasalega var afgreiðslumaðurinn almennilegur!"
"Það eru svo lekkert hlutir í þessari búð!"
"Já, og fékk þetta á svo fínu verði!"
"Þetta var tvú-for-von!"


Hinum megin við okkur voru nokkrir ungir piltar, vatnsgreiddir í jakkafötum:

"Lánin virtust mjög hagstæð!"
"Eiginfjárstaða var ekki nógu góð."
"Álitlegur fjárfestingakostur!"
"Getum við ekki haft símafund og látið lögfræðinga okkar síðan klára málið?"


Þegar við gengum inn í Flugleiðavélina sem var fátækleg miðað við indversku flugvélina varð mér ljóst hversu gríðarlega smátt Ísland er. Við fórum úr landi sem telur 1,2 milljarða íbúa en í þessari litlu Flugleiðavél voru a.m.k. 20 andlit sem ég kannaðist við. Já, Ísland er lítið land.

Við vorum í hálfgerðu móki á lokakafla leiðarinnar því ferðalagið var orðið ansi langt, svefnlitlar síðustu næturnar á Indlandi og 5,5 klst tímamismuni á milli landanna. Ég náði ekki að sofa neitt enda tók ég ekki svefntöflur sem eru algjört skilyrði fyrir því að ég sofni í láréttri stöðu - Sonja hinsvegar dottaði.

Ómþýð rödd hljómaði í kallkerfi vélarinnar: "Góðir farþegar, velkomnir heim."

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir veita innsýn í ferðalag ykkar um framandi slóðir með skemmtilegum og fróðlegum sögum og frábærum myndum sem maður gleymdi sér löngum stundum yfir.
Velkomin heim úr stórkostlegri ferð.

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir ferðasöguna sem ég rakst á af tilviljun í haust. Síðan hefur maður fylgst með hverju fótmáli eins og í spennusögu. Myndirnar hreint frábærar og frásögnin lifandi og skemmtileg. Ef mögulegt væri myndi maður leggja í hann samstundis til þessara landa með slatta af peningum og góða myndavél. Velkomin heim.
Gunnlaugur Júlíusson