Fyrsti dagur hátíðarinnar í virkingu í Mongar var í dag og ein af ástæðunum fyrir því að við gistum í bænum. Við fórum nokkuð snemma á fætur en Sonja fann að hún var ekki búin að jafna sig fullkomlega þó hún væri mun betri og nánast fær í flestan sjá, þ.e. ef klósett væri við hendina til að leiða úrgang út í sjóinn. Hún ákvað því að vera á hótelinu fram að hádegi en þá ætluðum við að halda ferð okkar áfram keyrandi og myndum gista á öðrum stað næstu nótt.
Við Anan gengum saman upp að virkinu sem er nýlegt og staðsett fyrir ofan hótelið í um 5 mínútna gangi. Fyrsti dagur hátíða hérna í Bútan er ekki eiginlegur hluti af hátíðinni heldur æfing sem er opin og kemur slatti fólks til að fylgjast með. Eini munurinn er að dansararnir dansa ekki með grímurnar miklu sem notast er við á hátíðunum, eru ekki með neitt á höfðinu.
Reytingur af fólki var á hátíðinni, nokkrir túristar og innfæddir og því auðvelt fyrir okkur Anan að athafna okkur í ljósmynun. Hvert atriði er í c.a.l 10-15 mínútur og samanstendur af dansandi munkum og syngjandi stúlkum. Trúðarnir sjá um að halda sýnendum og áhorfendum við efnið og virðist fólk hafa gaman af fíflaskap þeirra - sérstaklega þegar þeir sveifla gervilimum og hafa þá útsperta í skauti sínu. Þeir hafa eins og gefur að skilja sérstaklega gaman að ögra stúlknasöngvurunum sem virðast ekki láta þetta mikið á sig fá. Allar þessar hátíðir, þær eru haldnar um allt land á mismunandi tímum, eru nánast eins og fylgja trúarlegum kennisetningum.
Sviðið.
Með liminn á lofti.
Áhorfendur á pöllunum.
Dansspor.
Önnur limamynd - Síðhærðir munkar.
Eitthvað að stríða háttsettum mönnum sem eru í bakgrunni.
Munkar í danssveiflu.
Fólk á pöllunum.
Setið á virkisveggnum.
Bútan er eina landið í heiminum þar sem opinbera trúin er Tantra form Mayhayana Búddisma og breiddist hún út um ákveðna dali landsins á 8. öld en á 12. öld breiddist trúin hratt um allt landið. Ég er engin sérfræðingur í Búddatrú en veit að á helgimyndum táknar maðurinn þekkingu en konan visku - þetta sameinast í því að kona og karl eru oft í ástaraflottum á búddamyndum.
Búddamynd úr einu klaustrinu.
Eftir að hafa veirð um klukkustund og hálfri betur fengum við okkur stuttan göngutúr um miðbæ Mongar sem tók reyndar ekki mikinn tíma og spjölluðum við fólkið sem þar var að sinna störfum sínum. Sá síðasti sem við hittum áður en við fórum upp á hótel var merkilegur kall sem allir í bænum virtust kalla með nafni, greinilega vinsæll maður. Anan spurði hvort við mættum smella nokkrum myndum og hann hélt nú það og stóð eins og stytta á meðan Anan lauk sér af. Hann gekk síðan í burtu í kuflu sínum og stígvélum.
Nýstarleg fjölbýlishús með hefðbundnu ívafi í miðbæ Mongar.
Merkilegi maðurinn.
Lífið í bænum.
Hótelið var lengur að undirbúa morgunmatinn - höfðum fyrst beðið um að fá hann kl. 11 en þeir voru tilbúnir að hafa hann kl. 11.30. Við enduðum á að borða rúmlega tólf sem var í seinasta lagi því löng keyrsla var framundan - við hentum því í okkur mat og brunuðum af stað.
Sonja yfirgefur hótelherbergið okkar.
Við keyrðum um falleg héruðin fram eftir degi þangað til við komum að brú sem við þurftum að fara yfir til að fara á áfangastað okkar um nóttina. Við ætluðum að gera krók og fara hina leiðina og heimsækja eitt þorp áður en við færum upp á hótel og héldum við Sonja að þetta væri bara um klukkustunda krókur enda var farið að skyggja. Þetta reyndist vera tveggja tíma akstur og þegar vð komum þreytt í þorpið var svartamyrkur og ekkert að sjá.
"Anan, getum við ekki bara gist hérna í nótt, við erum þreytt og nennum eiginlega ekki að keyra í 2-3 tíma á hótelið í myrkri?" spurði ég hálf pirraður.
"Við erum búin að panta mat á hótelinu og því verðum við að fara til baka."
"Heldurðu að þau séu byrjuð að útbúa matinn því hann verður varla fyrr en eftir 3 tíma" svaraði ég.
"Ég skal hringja og athuga." svaraði hann og tók upp símann og talaði eitthvað óskiljanlegt hrognamál í símann.
"Þeir panta matinn frá öðrum þannig að það er ekki hægt að hætta við matinn."
"Við skulum greiða fyrir matinn ef við getum gist hér."
"Ég held að öll hótel hérna séu upppöntuð, við skulum sjá til þegar við komum niður í miðbæ."
Munkar spila pool fátæka mannsins í litlu klaustri sem varð á vegi okkar.
Þessi var að fylgjast með einhverju fyrir utan en ekki leiknum.
Ætli þessir séu ekki að bíða eftir áætlunabíl.
Landslag á leiðinni.
Akrar langt fyrir neðan.
Sveitir í fjarlægð.
Við keyrðum aðeins um og Anan stökk inn á stærsta gistiheimilið sem hann vissi til að væri með stóran hóp um nóttina og reyndist það fullt.
Ég var orðinn frekar pirraður á þessu, skildi ekki að leggja af stað í þennan krók sem væri 2 klukkustundir hvora leið þegar væri augsjáanlega farið að dimma. Anan skynjaði þennan pirring held ég.
Við ákváðum að fá okkur tebolla og teygja úr okkur á búllu þarna skammt frá og þau sátu öll en ég stóð, grautfúli fýlupúkinn. Ég reyndar sá eftir að hafa verið svona þögull því gæðablóðið Pemba horfði áhyggjufullur á mig og Anan hefur sennilegast ekkert liðið vel með þetta heldur en það er nú ekkert nýtt að ég verði þögull þannig að ég sagðist bara vera þreyttur.
Fólk iljar sér við eld fyrir utan
Menn að fá sér bjór og við te.
Anan hringdi aftur í félaga sinn sem býr í bænum en var fjarstaddur þennan daginn og lagði síðan á.
"Góðar fréttir, við getum fengið óuppábúið rúm á mjög einföldu gistiheimili hérna skammt frá en þurfum að borða t.d. hérna."
Við Sonja ræddum málin aðeins á milli okkar og sögðum síðan: "Neinei, förum bara til baka, það er búið að ganga frá gistingu og mat þar."
Stuttu síðar hringdi Anan annað símtal og sagðist vera búinn að redda gistingu með uppábúnu og ákváðum við að skella okkur á það og báðum vertinn á búllunni að elda eitthvað fyrir okkur.
Við fórum með dótið á herbergið okkar sem var mjög fábrotið en ágætt - versta við það að það var mjög kalt og hvorki kamína né rafmagnsofn en það verður kalt á næturna og herbergið með tvær útihurðir sem báðar voru með 2-3 bil að ofan og neðan sem kuldin gat auðveldlega smokrað sig inn. Baðherbergið var með opinni grind út - við fengjum a.m.k. gott loft.
Klukkan 7.15 fórum við aftur niður á búlluna í kvöldverð og var ég komin í betra skap bæði vegna samviskunnar að hafa sært þessi gæðablóð, eins er Sonja mjög friðelskandi og vill að allir séu vinir sem skerst oft á við gríðarlega réttlætisþörf mína. Það var allt gleymt, allir aftur góðir vinir og áttum við skemmtilega kvöldstund saman á búllunni sem er eins sú einfaldasta sem ég hef komið inn á. Borð og bekkir eru allir með ljótum gólfdúk og nánast ekkert á veggjunum.
Einmanna Indverji kom inn með bjórglas í hendinni og settist á bekkinn hjá okkur og spjallaði í dágóða stund. Anan og Pemba töluðu ekki mikið við hann en við sögðum honum mikið frá landi og þjóð og hann sagði okkur frá sínum högum. Hann var kennari frá suður Indlandi en hafði kennt í þessum bæ í Bútan í 10 ár og hitti fjölskyldu sína sem býr á Indlandi aðeins 1-2 á ári þegar hann fer í heimsókn til þeirra. Þar sem þessi bær var mjög sofandi þá vorkenndum við honum þetta hlutskipti enda talaði hann mikið og hafði greinilega gaman af því að tala við einhvern því enginn annar en við vorum inni á staðnum. Við sögðum honum frá Íslandi enda virtist hann hafa einhvern áhuga á landinu og skildi ekkert hvernig buffalóar gætu lifað þar eftir að við höfðum líst veðurfari og gróðrinum í landinu.
Hann sat þarna einn eftir þegar við héldum upp á hótel en Anan og Pemba finnst vont að tala við fólk sem er að drekka og töluðu því ekki mikið við hann, kannski einhvers innbyggð óbeit á Indverjum að stríða þeim en hún er í öllum Bútönum.
Við að snæða mat og einmanna Indverjin talar á meðan.
Indverjinn vinalegi og eigandinn fylgist með honum.
Matardiskurinn minn.
Pemba gerði leit að rafmagnshitara og fann hann stuttu síðar og var það himnasending því herbergið var orðið ískyggilega kalt svona síðkvölds og myndi ekki batna þegar liði á nóttina. Tækið sendi strax frá sér unaðslegan hitann og við fórum fljótt að sofa.
Pemba hafði áhyggjur af því að það yrði brotist inn í bílinn og krafðist þess því að sofa þar. Við mótmæltum aðeins en Anan svaraði:
"Pemba likes to sleep in the car!"
Ég svaf að sjálfsögðu fjær tækinu en gerði þá reginskissu að fara úr að ofan undir hlýju teppinu, hélt að kuldaboli myndi ekki stanga mig þannig. Um nóttina fékk ég mikið hóstakast svo Sonja henti mér í flíspeisu, nær hitaranum og þá hvarf hóstinn eins og dögg fyrir sólu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ég heimta að þú komir heim með svona ástrappanlegan gervilim eins og trúðarnir eru með, hann verði geymdur í vinnunni og við síðan notum hann til að létta andrúmsloftið á viðkvæmum augnablikum!
Talar Anan bara fyrir Pemba eða....? Það svona virðist vera þannig!!!!
Skrifa ummæli