laugardagur, október 13, 2007

36. Á skólabekk

Sonja hóf morguninn á því að fara með hluta af okkar fjöldamörgu minjagripum til skraddarans en hérna sjá þeir um að pakka og sauma saman pakkana - hún fór síðan með þá á pósthúsið og sendi þá til Íslands.

Ég var heima og sá um að henda inn bloggum sem vonandi flestir hafa lesið en netið hérna á hótelinu var ágætt og því um að gera að blogga fyrir fjölskyldu, vini, kunningja og ofsækjendur.

Hugmyndin var að heimsækja skóla hérna skammt frá þegar Sonja kæmi til baka en þegar ég spurði um far þangað í afgreiðslunni varð mér ljóst að það var laugardagur og því lítið um skólasetu. Það er merki um að maður sé að gleyma sér í ferðamennskunni þegar maður hefur ekki hugmynd um hvaða vikudagur er ríkjandi. Þau sögðu reyndar að það væri börn í skólanum til kl. 13:30 þannig að ég sendi góða hugstrauma til Sonju að flýta sér og sat því í hugleiðslu þangað til hún kom. Þá var klukkan orðin 12:15 og því skammur tími til stefni en við ákváðum að drífa okkur, hringdum í bíl og settum filmur í myndavélar.

Lítið rúgbrauð var bílakosturinn í skólann og eru göturnar hérna í bæjunum vægast sagt óárennilegar. Þetta eru flest allt mjóar hliðargötur sem bílar þræða, jafnvel stundum í báðar áttir, og hef ég aldrei á ævinni séð eins brattar götur, maður trúir því varla að hægt sé að fara þær á vélknúnum farartækjum. Það liggur við að maður þurfi að passa sig að fara ekki í afturábakkollhnís í sætinu og út um afturgluggann á bílnum þegar hann klifrar eins og Köngulóarmaðurinn upp stígana.


Keyrt niður mjóa hliðargötu.

Þegar við komum í skólann var fátt um manninn en eitthvað um börn og gengum við inn á skólasvæðið, en skólinn er mjög stór og í raun lítið þorp í þorpinu því flestir nemendur eru hálf-munaðarlausir. Þetta eru börn sem foreldrarnir hafa sent frá sér frá Tíbet og vonast til að þau fái betra líf á Indlandi.
Aðrir sem búa nálagt fara heim á kvöldin en skólinn er í úthverfi McLeud Ganj. Við vorum ráðvillt þegar við komum inn á svæðið því þeir fáu nemendur sem voru þarna voru á leiðinni út af lóðinni og vissum við í raun ekki hvað við mættum skoða ef það var þá eitthvað. Það er fátt glataðra en að vera vestrænn túristi með hálfs metra linsuböll framan á myndavélinni og arka inn í skólastofu sem maður á ekkert erindi inn á og vera hent út. Við spurðum því eldri mann sem við vonuðum að væri ekki seinþroska nemandi í námi og sagði hann okkur að við mættum skoða okkur um en ekki taka myndir án þess að hafa tilfallandi og tilheyrandi réttindi. Skólastjórinn var upptekinn og skrifstofan lokuð þannig að þetta virtist fýluferð. Við ákváðum því að ganga aðeins um svæðið og stálumst m.a.s. inn í eitt skólahúsið, skoðuðum mannlausar skólastofurnar en kona fyrir utan sem var líklegast kennari sagði að það væri í lagi að fara inn þannig að við vorum ekki bara að stelast.
Skólastofurnar voru hráar, flestar máttu við því að vera málaðar og stólar og borð voru komin til ára sinna. Á ganginum á milli stofanna voru vísdómsorð frá Dalai Lama sem ættu kannski meira erindi á töflur í skólum heima en annars var lítið að skoða þarna.
Fyrir utan voru börnin að þvo þvott og fylgdumst aðeins með þeim áður en við héldum áfram.
Fyrir ofan bílastæðið var lítið hús og fyrir utan sátu tvær konur og hópur af börnum að snæða hádegisverð. Við tókum nokkrar myndir af þeim og ræddum við konuna sem talaði ensku en hún vinnur þó ekki í húsinu heldur á elliheimili rétt hjá. Flest gamla fólkið vann áður við skólann en er nú orðið of gamalt til að vinna og býr því í einu húsinu á skólalóðinni. Það var fróðlegt að hlusta á konuna segja frá og gerði það ferðina í skólann þess virði.


Veggspjöld í skólanum með þörf skilaboð.


Skvett úr þvottinum - þetta er nemandi í skólanum.


Fötin hengd til þverris á gaddavírsgirðingu.


Börnin að þvo eigin þvott.


Börn að snæðingi í skólanum.


Mjög skrítið skólahús með völundarhús af stigum.


Opið skólaborð af gamla skólanum.

Þegar heim var komið kíktum við í Tíbeska safnið sem er við aðalklaustrið í bænum, skamt frá dvalarstað Dalai Lama. Þar fræddumst við um þá glæpsamlegu atburði sem Kínverjar hafa unnið á Tíbetsku þjóðinni og féllust manni hendur við að skoða safnið.


Kona fyrir utan klaustrið.


Maður mætir oft óárennilegum nautum á gangi.


Kona snýr bænahjólum.


Munkur í klaustrinu.

Við kíktum síðan á kaffihús og á leiðinni heim á hótel sáum við skemmtilegar ljósmyndir hengdar upp á bílskúrshurð á aðal verslunargötunni og var listamaðurinn, Pólverji sem hefur ferðast töluvert um Indland og selur myndirnar sínar bæði í Evrópu og hér á Indlandi. Hann gerir þetta skemmtilega, málar ljósnæman vökva á striga og framkallar síðan á hefðbundin hátt á strigann þannig að myndin er eins og máluð með penslum. Við ákváðum að kaupa eina mynd af honum og ræddum aðeins við hann um ferðalög hans. Eftir það samtal ákváðum við eiginlega að ferðast til Sikkim sem við höfðum aðeins gælt við áður en vorum eiginlega búin að slá út af borðinu því það er komið fram í október og Sikkim er ekki mjög greiðfært svæði.

Örlögin láta ekki að sér hæða.

1 ummæli:

Burkni sagði...

Ef þið komist lifandi frá Sikkim legg ég til að þið bætið úr wikipedia-greininni um það hérað, sem er afar snubbótt.

Ef ekki, var gaman að þekkja ykkur.
(amk Sonju)