S: Mátt þú stríða mér?
J: Þú ert ekki jafn viðkvæm og ég!
S: Ertu að segja að durtar séu viðkvæmari en prinsessur?
J: Ég er silkidurtur og þú steinsteypuprinsessa og ég því mun viðkdæmari.
S: Þetta er mesta vitleysa sem ég hef nokkurn tíman heyrt!
McLeod Ganj er lítill bær í hlíðum Himalayafjalla sem lætur ekki mikið yfir sér. Bærinn var mikilvægur stjórnsýslustaður Breta en eftir að hann fór illa út úr jarðskjálfta árið 1905 færðu Bretar sig neðar í dalinn.
Árið 1949 mörsuðu kínverjar inn í Lhasa í Tíbet og hertóku þetta áður friðsæla land. Hinn 14. Dalai Lama, öðru nafni Tenzin Gyatso reyndist nauðbeygður til að flýja landið fótgangandi árið 1959 eftir margra ára friðsamleg mótmæli og samningaumleitanir. Ekki allir Tíbetar mótmæltu friðsamlega og myndaðist andspyrnuhreyfing sem barðist hetjulega gegn risaher Kínverja og í nokkur ár tókst þeim að verja hluta af Tíbet. Þeir tóku að sér að fylgja Dalai Lama úr landi ásamt fleira fólki sem mikilvægt var að lentu ekki í höndum Kínverja. Þeir reyndu að taka eins mikið og mögulegt var af allra mikilvægustu handritunum og öðrum trúarlegum munum en það var auðvitað bara rétt sýnishorn. Eftir nokkra vikna ferðalag um Himalayafjöllin kom hópurinn í þetta fjallahérað og fékk að setjast að hérna í McLeod Ganj. Síðan hafa um 250.000 manns fylgt í fótspor Dalai Lama, flúið Tíbet fótgangandi og sest að hérna og á öðrum stöðum bæði á Indlandi og annarsstaðar í heiminum.
Dalai Lama heldur áfram að reyna á friðsamlegan hátt að frelsa fólk sitt og finna skynsamlega lausn á vandræðum Tíbets. Hann hefur nú undir það síðast látið að því liggja að möguleiki væri á að krefjast ekki sjálfstæðis fyrir Tíbet ef þeir fá bara að iðka trú sína, taka þátt í pólitík og njóta almennra mannréttinda. Finnst mörgum að hann sé að gefa of mikið eftir - það sé ekki til umræðu annað en að Tíbet verði sjálfstætt ríki. Hann hefur nánast ekki fengið neina hjálp frá alþjóðasamfélaginu, þ.e. stærri samtökum og 1.2 milljón Tíbeta hefur fallið fyrir hendi kínversku stjórnarinnar. Tíbetar hafa ekki rétt til að iðka trú sína og nánast öllum trúarlegum og menningarlegum verðmætum þjóðarinnar hefur verið eytt, eftir standa nokkur hof og annað svo túristarnir hætti ekki að koma. Mannréttindi eru að engu höfð gagnvart Tíbetum og reynir kínverska stjórnin allt hvað hún getur til að dæla kínverskum þegnum inn í Tíbet og er svo komið í Lhasa að Tíbetar eru að verða að minnihlutahóp í eigin höfuðborg. Ef það verða einhvern tíma einhverjar lýðræðislegar kosningar þá er það nokkuð ljóst hvernig þær fara.
Það vakti athygli síðastliðin vetur myndband sem hópur fjallagarpa tók upp í Himalayafjöllum af því þegar Kínverski herinn skaut úr fjarlægð nokkra Tíbetska borgara sem voru að ganga yfir fjöllin algjörlega vopnlausa. Kínversk stjórnvöld sögðu að þetta hefði verið gert í sjálfsvörn.
Dalai Lama fékk friðarverðlaun nóbels árið 1989 fyrir friðsamlega baráttu sína fyrir málefnum Tíbets.
Vegna þess hversu ört Kína vex sem heimsveldi, hversu mikilvægir þeir eru í alþjóðlegri verslunog viðskiptum og ekki síst sú þróun að stórþjóðir heims virðast gera lítið annað en að sleikja upp stjórn Kína veldur Tíbetum og fleirum miklum áhyggjum. Telja flestir að baráttan muni vera unnin fyrir gýg og að Kínverjar geti leyft sér að valsa um Tíbet og valta yfir Tíbeta án nokkurra vandkvæða. Auk þess að vaða á skítugum skónum yfir fólkið þá ganga þeir mjög BLA BLA BLA jarðar og henda mikið af allskyns hættulegum úrgangi í þetta mjög svo viðkvæma ECOSYSTEM.
Dalai Lama er kominn á efri ár og þegar hann fellur frá og leit hefst að arftaka hans sem verður væntanlega barnungur og hefur jafnvel aldrei búið í Tíbet óttast menn að botninn detti úr baráttunni.
Aftur að daglegu amstri okkar á ferðalaginu. Hótelið okkar er ansi þægilegt og vill maður helst ekkert fara út af því - bara sitja í garðinum og njóta góðra veitinga og kannski skella sér aðeins á internetið og leggja sig örskotsstund.

Hótelið okkar frábæra er litla húsið fyrir ofan stóra húsið næst okkur.

Herbergið okkar sem heitir "Tré og blóm". Herbergin hafa ekki númer heldur hafa verið nefnd.
Aðalklaustrið og íverustaður Dalai Lama er í sjónfæri frá garðinum og sáum við marga búdda sitjandi út um allt og hljómaði kunnugleg rödd úr hátalarakerfi yfir morgunverðinu. Þetta var Dalai Lama og vorum við Sonja að velta því fyrir okkur hvort þetta væri af segulbandi eða hvort hann væri raunverulega þarna í klaustrinu að fara með bænir. Við komumst að því seinna um daginn að hann hefði verið þarna og hver sem er getað farið inn og hlýtt á ræðu hans en við höfðum ekki rænu á að kanna málið betur. Jæja, hann fór a.m.k. með bænir yfir okkur á meðan við snæddum morgunverðinn.
Hann mun ekki vera sýnilegur opinberlega hérna aftur næstu vikurnar. Á morgun heldur hann til USA í erindagjörðum - ég vona að hann nái að særa djöfulinn úr G.W.B. en er viss um að hann nái ekki að koma fyrir hann vitinu, það er of mikið verk fyrir nokkurt afl.
Eins og áður sagði er Chonor House Hotel hluti af Norbulingka stofnuninni sem Dalai Lama er verndari. Í garðinum er minjagripabúð með munum sem hafa verið gerðar í stofnuninni sem sér um að viðhalda Tíbetskum handverksiðnaði og menningu. Við rákumst þar á tvo silfurhringi sem eru með drekamunstri og voru tveir af þeim nánast klæðskerasaumaðir á okkur. Við ákváðum að fjárfesta í þeim því þetta er gott málefni að styrkja og eins vantaði okkur hringa á hendur okkar. Skemmtilegir og skrautlegir hringar sem eru ekki allra en okkur finnst þeir flottir og standa fyrir góða hluti sem gerir þá betri en ella.

Hringarnir sem standa fyrir góða hluti.
Við röltum aðeins um bæinn og sendum heim einhverja minjagripi sem við höfðum keypt undanfarið. Eins keyptum við nýja minjagripi - ótrúlega skemmtilegir hlutir hérna sem munu sóma sér vel í ágætri íbúð okkar. Manni verður samt oft hugsað til þess hversu mikið drasl maður vill frekar eiga en peninga.

Auglýsingar á vegg og eins og sjá má er hér nóg af leiðum til að rækta sinn innri mann.

Sonja á kaffihúsi og aðal torgið er fyrir utan gluggann.

Gömul kona frá Tíbet.

Ekki veit ég hvað þessi er að pæla.

Sonja að skrifa utanum haganlega pakkaðann og innsaumaðan böggul.

Kjötsalinn.
Í einni búðinni voru ljósmyndir í borðinu af Richard Gere sem er greinilega fastagestur í búðinni enda flottir hlutir og dýrir. Ég hef haft hgu á að kaupa búddastyttu, úr málmi, lengi í ferðinni og vorum við búin að ákveða að fjárfesta í einni styttu í einhverri búðinni þennan daginn. Við ráfuðum inn í búð og þar á borði voru tvær flottustu búddastyttur sem ég hef á ævinni séð og voru þær líka ódýrar miðað við það sem við höfðum séð fram að þessu - samt vildi afgreiðslustrákurinn, ungur og hress piltur frá Kashmir, meina að þær væru handgerðar frá A til Þ. Ef þær eru handgerðar er það bara bónus en við fjárfestum í þeim báðum, annað var ekki hægt. Hann sagði okkur þegar hann var búinn að pakka þeim inn að önnur styttan væri í raun eini munurinn í búðunum hans tveimur þarna sem hann væri virkilega hrifinn af. Hann kvaddi styttuna með söknuði og við röltum ánægð úr búð hans. Hann sagði okkur einnig að styttan hefði verið búin að vera í hinni búðinni hans í nokkrar vikur og hann hafði þennan morgun tekið hana í minni búðina og sett á búðarborðið og stuttu síðar hefðum við skundað inn og keypt hana. Hann var að fara að loka búðinni til að fagna lokum Ramadan heima í Kasmhir þannig að við áttum greinilega að kaupa stytturnar.

Stytturnar glæsilegu.
Tveir ferðalangar voru í einni búðinni að skoða lítil skrautleg veski sem maður hefði haldið að væri frekar fyrir stúlkur og voru þeir í miklum pælingum. Þeir fjárfestu í einu þeirra og við heyrðum þegar þeir komu út að veskið myndi passa fullkomlega fyrir marujana.
Seinnipartinn heimsóttum við klaustrið og spjölluðum lengi við tvo munka sem stóðu og voru að virða fyrir sér glæsilegt útsýnið yfir Himalayafjöll. Annar þeirra flúði frá Tíbet fyrir 10 árum en foreldrar hins flúðu í kringum 1960 og settust að á suður-Indlandi. Þeir sögðu okkur aðeins frá ástandinu en án þess að segja eitt slæmt orð um Kínverja - það þykir mér merkilegt. Minnir mig á það þegar ég sá viðtal í fréttum heima um konu frá Ruwanda sem sá foreldra sína, systkin, flest önnur skyldmenni og vini brytjuð niður fyrir framan sig frá felustað sínum við hús þeirra. Nokkrum árum síðar hitti hún morðingja fjölskyldu sinnar og faðmaði hún þá við þennan fund. Fólk á Vesturlöndum á mjög erfitt með að skilja að hún geti tekið þannig á móti morðingjunum og svarar hún því til að það var hatur sem olli hörmungunum og missir ástvina sinna og eina vopnið sem hún hefur til að berjast á móti hatrinu og komið því til leiðar að þetta endurtaki sig ekki er að hata ekki, elska frekar. Þetta er eitthvað sem maður getur ekki skilið en vonandi einhverntíman.
Við kíktum á skrifstofu Dalai Lama og ég óskaði eftir fundi við hann en þar sem hann var á leið til USA tveimur dögum síðar þurfti hann að hvíla sig og því varð ekkert af fundinum sem er miður því ég ætlaði að koma til hans skilaboðum frá íslenskum stjórnvöldum :-)
Við snæddum kvöldmat á hótelinu góða og fórum snemma að sofa.
Hérna er friður.
3 ummæli:
Það sakar örugglega ekki að bæta við 'EUROPE' á svona böggla svo þeir byrji ekki á að ferðast um Indland þvert og endilangt meðan grunlausir póstdreifingaraðilar leita að bæ að nafni Ísland ...
hvað eru annars þessir góðu hlutir sem hringarnir standa fyrir?? ;)
nudge, nudge, wink, wink, say no more, say no more, nudge, nudge, wink, wink?
Hæ elskurnar
Þetta er fallegir hringar sem þið keyptuð og það á góðum stað :-)
Hótelherbergið er yndislegt, þið eruð greinilega á vönduðum hótelum sem er mjög gott mál.
Knús frá mömmu bleiku og pabba bláa
Ótrúlega flottar búddastytturnar sem þið keyptuð!!
PS. Sonja við eigum heima í Andrésbrunni 2 en ekki 7!!!!!
Póstburðarmaðurinn var ekki glaður en þetta komst til skila : )
Kv. Steinunn Ósk
Skrifa ummæli