miðvikudagur, október 31, 2007

54. Til Nepal


Konungsríkið Nepal sem liggur á milli Indlands og Kína er himnaríki fyrir fjallaprílara og göngufólk. Um 64% af landinu er skilgreint sem fjöll og landið því að mörgu leyti erfitt fyrir ábúendur þess en landbúnaður skiptir gríðarlega miklu máli. Eitt af hinum fjölmörgu fjöllum er hæsti punkutur heims, Everest, sem er sennilega það sem flestir tengja við landið.

Landið er sannarlega Disneyland fjallamanna.

Nepal er eitt af fátækustu löndum heims og er helsta ástæðan hiða erfiða stjónmálaástand síðastliðinna ára sem hefur haft gríðarleg áhrif á gjaldeyristekjur en fjöldi ferðamanna hrapaði við ástandið í landinu.

Árið 2005 tók konungur við alræði af ríkisstjórninni þegar hann hrifsaði af henni völdin og lýsti yfir 3ja mánaða neyðarástandi í landinu þar sem allur fréttaflutningur af hernaðaraðgerðum var bannaður og fólksöfnuður í Kathmandudalnum einnig bannaður. Þetta leiddi til gríðarlegra mótmæla í landinu og mikils óróa þar sem margir féllu - konungurinn lét loks undan árið 2006 og samþykkti að endurreisa lýðræðið. Stuttu síðar gerði þingið konunginn nánast valdalausan sem bætti ástandið því konungurinn var vægast sagt óvinsæll. Ástandið hefur síðan batnað hægt og rólega þó að Maóistar (kommunitaflokkur Nepals hafi ennþá völd sums staðar í landinu og stendur styr í kringum þá) og ferðaiðnaðurinn er hægt og rólega að taka við sér.

1. júní árið 2001 átti sér stað atburður í konungshöllinni hér í Kathmandu sem fékk ekki aðeins á Nepalbúa heldur heimsbyggðina. Rólegur kvöldverður konungsfjölskyldunnar breyttist í martröð þegar drukkinn krónprinsinn, Diprendra, myrti með skotvopni 10 meðlimi fjölskyldunnar og þar á meðal foreldra sína, konunginn og drottninguna. Eftir þennan hræðilega atburði reyndi hann að taka eigið líf en það misfórst aðeins hjá honum og hann lifði í tvo daga áður en hann kvatti þennan heim, nýkrýndur konungurinn.
Ekki er almennilega vitað hvað olli því að hann framdi þennan voðaverknað en almennt er talið að ást hanns á almúgastúlku sem foreldrar hans meinuðu honum að eiga hafi valdið þessu. Þeir hótuðu strippa hann af tign hans og auðæfum ef hann myndi giftast henni og hann var greinilega ekki fullkomnlega sáttur við það.
Ýmsar samsæriskenningar hafa verið í gangi og verður væntanlega aldrei vitað almennilega hvað nákvæmlega gerðist.

Það var falleg sjón að sjá fagurhvít Himalayafjöllin í fjarska þegar flugvélin fór að undirbúa sig til lendingar í Kathmandu. Vélin fór í loftið um hádegi frá Delí og þetta er aðeins um klukkustundar flug í glæsilegri flugvél Jet flugfélagsins.


Flugvélin tekur á loft frá alþjóðaflugvellinum í Delí.


Skrítin skýjamyndun fyrir ofan mistrið.


Himalayafjöllin í fjarska.

Eins og oft vill gerast gengu hlutirnir hægt fyrir sig á flugvellinum í Katmandu, sérstaklega vegna þess að flestir ferðamenn sækja um vegabréfsáritun við komu þ.á.m. við.
Við gleymdum reyndar að taka passamyndirnar úr stóru bakpokunum okkar og þær því gagnslausar þar sem við höfðum ekki fengið töskurnar í hendurnar fyrir vegabréfsáritunina. Sem betur fer var lítið ljósmyndastúdíó á flugvellinum. Passamyndirnar voru frekar slappar en náðu samt að sýna glögglega mismunandi persónuleika okkar Sonju á glöggan eins og sjá má.


Dæmi hver fyrir sig.

Þegar við höfðum sloppið framhjá búrakrötunum sem rukkuðu okkur um 30 dollara á mann fyrir áritunina og fengið bakpokana gengum við út og ætluðum að finna fyrirframgreiddan leigubíl. Þar strax á hægri hönd eru tvær leigubílsstöðvar með bás þar sem hægt er að greiða fyrir bíl í borgina og stukku á okkur nokkrir menn frá hvoru fyrirtæki fyrir sig til að ná viðskiptum okkar. Við vorum alveg óviðbúin þessu og vissum fyrst ekki hvaðan á okkur stóð stormurinn - þetta var eins og að ganga inn í fangelsi með eina klámmynd í hönd og allir stökkva á fætur til að tryggja sér hana.
Við völdum bara annað fyrirtækið af handahófi og starfsmenn hins fyrirtækisins öskruðu allskonar formælingar á okkur - við urðum mjög hissa.

Okkur leist strax sæmilega vel á borgina, hún er ekki mjög stór, um 700.000 manns búa í henni sem er frekar lítill hluti af tæplega 30 milljón manna þjóð finnst mér. Kofar og lélegur aðbúnaður í úthverfunum undirstrikar fátækt landsins og eru margar götur í borginni ómalbikaðar sem telst til tíðinda nú á tímum. Eins og oft á Indlandi þá hópast betlarar, oftast lítil börn og ungar konur, á gluggana á bílnum okkar þegar hans staðnæmist á ljósum eða vegna umferð og grátbiðja um peninga. Það er oft erfitt að láta sem maður sjái ekki þessa eymd en þetta er því miður bara staðreynd hérna sem og alltof oft annarsstaðar. En þegar yfirfvöld og ferðabækur ítreka að ekki skuli ýta undir betl líður manni aðeins betur en ekki mikið satt að segja.

Borginn býður upp á iðandi mannlíf í þröngum götum þar sem hlutir hafa ekki breyst mikið í hundruðir ára og mannlíf er mjög fjölbreytt og litríkt enda koma hérna saman mörg trúarbrögð. Aðal ferðamannahverfi borgarinnar kallast Thamel og er sá hluti borgarinnar ferðamannavænasti staður sem við höfum komið á í ferðinni. Hérna er hægt að finna frábær kaffi- og veitingahús, vestrænar búðir, bari og diskótek - ásamt að sjálfsögðu minjagripabúðum. Flest hótel borgarinnar eru í þessu hverfi og ákváðum við að gista hérna á hótelinu Nirvana Garden Hotel sem ber nafn sitt af litlum blómagarði á milli bygginganna tveggja sem tilheyra hótelinu.

Það er mjög fínt að komast í almennileg vestræn þægindi í formi búða, kaffihúsa og veitingastaðinna svona í miðri ferð og rétt fyrir Bútan. Fyrir ferðina hefði ég haldið að ferðast mikið á afskekktum og fátækum stöðum jarðar myndi valda því að maður yrði fráhverfur vestrænum lúxus og þægindum og myndi breytast í einhvern furðufugl. Málið er hinsvegar að þegar maður dettur aftur í "siðmenninguna", þó svo það sé ekki nema að hluta til, eins og t.d. á svona staði þá nýtur maður þess meira að hafa lúxus og kann betur að meta hann. Heima lifum við í miklum velliystingum sem er orðið daglegt brauð - þegar maður hinsvegar ferðast þar sem maður fær ekki heitt vatn, mjög stopult rafmagn, ekkert kaffi, kalt hótelherbergi, hart rúm, ekkert net, ekkert GSM samband o.s.frv. skilur maður betur hvað maður hefur það í raun gott - maður lærir að meta lúxus og þægindi og maður lærir að meta hann, a.m.k. til skamms tíma.

Í fyrri ferðalögum okkar um Austur-Evrópu og Asíu vorum við meira á farfuglaheimilum og líkaði það mjög vel þá. Í þessari ferð höfum við valið dýrari hótel sem kosta reyndar ekki mikinn pening miðað við hótel heima. Það má sennilegast segja að ein af ástæðum þess að við veljum frekar dýrari hótel er að við erum með dýran búnað og þurfum meira næði í skriftir ofl. á kvöldin og það gengur ekki á farfuglaheimilum. Auk þess eru farfuglaheimili sjaldnast vel í borg sett og það skiptir líka máli og svo höfum við bara efni á betri hótelum. Svo verður nú bara að viðukennast að það er mjög gott að koma í hreint og þægilegt herbergi þegar við komum þreytt í holuna okkar að kvöldi.

Ég pantaði hótelið í Katmandu í gegnum síma daginn áður frá Delí og þurfti að útskýra fyrir ringluðum hótelstarsmönnunum af hverju það stóð Johann á vegabréfinu mínu en Yohan á hótelskráningunni. Við hlógum síðan öll af þessum misskilningi eftir að þeir skildu að þetta er nánast eins borið fram.

Við kíktum aðeins á netkaffihús þar sem skilti upp á vegg sagði "Smoking is strictly restricted" og fundum síðan hið fínasta steikarhús. Það var á annarri hæð og inngangurinn ekkert gríðarlega áberandi en þetta var bara eins og að ganga inn á kaffihús í New York - varla svona flott kaffíhús heima auk þess sem þeir voru með þráðlaust net!
Um kvöldið fengum við okkur bæði nautasteik, fyrsta beljukjötið í um tvo mánuði - það smakkaðist eins og góð steik.
Ég skolaði matnum mínum niður með köldum Nepal bjór og horfði með öðru auganu á fótboltaleik sem var í gangi í sjónvarpinu fyrir ofan barinn. Þegar við höfðum klárað þáði ég ókeypis Irish Coffee sem fylgir með öllum máltíðum en Sonja sagði pass þar sem ekkert sem heitir kaffi fer inn um varir hennar án þess að fara aftur út um þær í formi hráka eða jafnvel ælu.
Dyggustu lesendur ferðasögunnar muna sjálfsagt eftir sögunni um djöflinum í Delí og okkur grunar að hann hafi lætt kæruleysislyfi í te-ið okkar svo við myndum kaupa allar mögulegar ferðir af honum. Það sama má segja að hafi gerst á þessum stað, því mig grunar að einhverju lyfi hafi verið blandað í bjórana og Irish Coffee-ið mitt því eftir að ég hafði innbyrgt drykkina var ég tilbúinn að kaupa nánast allan barinn.
Ég reyndar drakk ekki mikið - aðeins þrjá drykki en þeir stigu aðeins í. Mikið lifandi óskaplega gaman er að vera töluvert hífaður að mörgu leiti.
Johnny Cash var á fóninum og við yfirgáfum staðinn áður en ég gat skemmt viðstöddum með hillbillidansi í takt við Cash.


Kíktum í kjörbúð og keyptum súkkulaði sem við höfum ekki séð mikið af í Indlandi.

Góður dagur endaði á því að ég horfði á frábæran knattspyrnuleik á hótelinu. Það er magnað að þrjár góðar knattspyrnustöðvar sem sýna fótbolta frá englandi og víða eru allstaðar í boði. Þær heita Ten Sports, ESPN (í raun Sky Sports en með annað nafn hérna í Asíu) og Star Sports. Þessar stöðvar virðast vera mjög ódýrar hérna eða jafnvel greiddar með auglýsingum því knattspyrna er ekki jafn vinsæl í Asíu og heima þó að sumsstaðar sé hún mjög vinsæl. Indverska landsliðið er t.d. neðar á styrkleikalistum en það íslenska, hvernig sem það er hægt.
Ten Sports sýnir frá evrópukeppninni í knattspyrnu og er sniðugt kerfi að áhorfendur geta valið með SMS skilaboði hvaða leik þeir vilja horfa á en margir eru í gangi á sama tíma, og er síðan sá leikur sem fær flest sms-atkvæði sýndur og sá sem fær næstflest atkvæði sýndur óbeint þar á eftir. Ég get því ekki kvartað yfir að geta ekki horft á knattspyrnuleiki hérna.

Þegar við gengum heim frá vetingahúsinu um kvöldið kom að okkur maður og opnaði lófann og voru þær litríkar töflur og spurði hann hvort við vildum LSD. Ég afþakkaði strax og gekk áfram en áttaði mig strax að ég hafði ekki verið herramaður og spurði því Sonju: "Ó, afsakið - vildir þú kannski?"

1 ummæli:

Hjörleifur sagði...

Ég ætlaði að skrifa eitthvað voða sniðugt en er bara alveg búinn að steingleyma þvi.

Svo ég segi bara stuð í staðinn