mánudagur, október 29, 2007

53. Haldið norður

Ég skellti mér í síðasta skiptið á ströndina eldsnemma um morguninn. Vaknaði kl. 5.20 og dreif mig strax út og skildi Sonju eftir í herberginu sem þurfti að fara redda flugmiðum ofl. svo við næðum tímanleg til Nepal.

Þar sem hliðið úr garðinum á ströndina var lokað þurfti ég því að klifra upp og stökkva um 3 metra niður í sandinn í fullum herklæðum, þ.e. með tvær myndavélar. Sem betur fer var svo búið að opna hliðið þegar ég lauk myndatökum - það er öllu erfiðara að stökkva upp! Daginn áður hafði einn gestur hótelsins mætt að hliðinu kl. 5.40 og vörðurinn stóð við það og neitaði að opna það - sagði að það yrði opnað kl. 6 og ekki mínútu fyrr eða síðar. Ég var því sennilegast að stelast en væntanlega er þeim alveg sama ef maður getur klifrað yfir.

Við höfðum heyrt skellina í öldunum inn í herberginu okkar svo ég vissi ég að þær væru stórar og myndarlegar og varð ekki fyrir vonbrigðum. Menn fara út á sjóinn fyrir birtingu sem er um kl 06 og ég náði því að sjá nokkra báta fara út.

Það var nú meira mál en að segja það að fara út á sjó á þessum litlu bátum í þessum sjógangi. Ég veit ekki hvað öldurnar voru háar en þær stærstu sennilegast ekki minni en 5 metrar eða svo án þess að ég geti fullyrt um það.

Það eru yfirleitt tveir á hverjum bát en þriðji maðurinn hjálpar þeim yfir fyrstu ölduskellina. Þeir biðu með bátinn eftir réttu öldunni oft í 15-20 mínútur áður en lagt var í'ann - greinilegt að rétta augnablikið er mikilvægt, ætli það sé ekki hætta á slysum og ekki möguleiki að komast út á rúmsjó nema að sleppa vel í gegnum þetta. Ég sá t.d. einn bátinn gera fjórar tilraunir áður en hann komst loks yfir erfiðasta hjallann. Eldri og reyndari menn standa í fjörunni, öskra og blóta þeim yngri og gefa þeim góð ráð þegar þeim finnst að þeir eigi að fara út - spara heldur ekki að hlæja þegar illa fer.
Manni leist oft ekki á blikuna þegar bátarnir lentu í verstu öldunum og bátastrákarnir hentust í allar áttir en oftast náður þeir að stinga sér inn í ölduna þegar þeir sáu að stefndi í óefni. Það var því mjög skemmtilegt að fylgjast með mönnunum glíma við hrikalegar öldurnar.

Það var ansi magnað þegar sólin kom upp, lýsti fyrst upp sjóinn og færði sig svo upp ströndina hægt og rólega - mikið sjónarspil að vera á ströndinni þennan morguninn.

Ég ætla að setja inn nokkrar fleiri myndir og þær síðustu af ströndinni sem ég tók þennan morguninn:


Á fullri ferð upp ölduna.


Þarna eru þeir að fara í gegnum úfið brimið.


... en ekki tókst betur til en að þeir duttu - takið eftir hendinni sem kemur upp úr sjónum.


Sést varla í bátinn.


Þeir eldri fylgdust vandlega með þeim yngri berjast við öldurnar.


Stórhuga ungir menn.


... lagt til atlögu.


Þarna stefndi í óefni og menn stökkva út í sjóinn áður en aldan nær þeim.


... þarna er aldan að taka bátinn.


... og báturinn á hvolfi.


Vélknúnu bátarnir áttu mun auðveldara með að komast yfir erfiðasta hjallann.


Vígalegar öldur.


Flottur "six-pack" á þessum.


Sólin farin að kyssa ströndina.


Gullin birta.

Sonja eyddi kvöldinu áður á netinu að skoða flug til Nepal en við þurfum að vera komin þangað fyrir 3. nóvember því þá eigum við flug þaðan til Bútan. Þar sem við höfum hug á að skoða okkur um í Kathmandu var stefnan að dvelja þar nokkra daga. Við vorum svo gott sem fallin á tíma með Varanasi vegna allra tafanna auk þess sem við vildum helst ekki fara þangað án malaríulyfs og því skoðaði Sonja hvaða möguleika við hefðum á flugi til Katmandu bæði frá Varanasi og Delí. Flugið leit ekki nægilega vel út því hún fann bara eitt flug á mannsæmandi verði, eða um 10þ krónur á mann og auk þess með Jet Airways sem er víst mjög gott - öll önnur flug voru frá 1500 dollurum ... á mann.
Við ákváðum því að gefa DHL upp á bátinn í bili og halda áfram með ferðalagið. Hugsanlega getur pakkinn beðið okkar í Delí en við gátum ekki beðið lengur.

Nú voru góð ráð dýr því lestin til Delhi tekur um 2 nætur og við ekki bjartsýn á að til væri ódýrt flug. En við eftirgrennslan fann Sonja flug frá Trivandurum morguninn eftir en illa gekk að bóka á netinu og alltof seint að hringja nokkuð. Við pökkuðum því um kvöldið og eftir að ég hafði dundað mér á ströndinni um morguninn fórum við út á flugvöll án flugmiða - hef aldrei áður gert það.

Sonja gekk í flugið til Delí (Jet Lite) og ég rauk í næsta bás að athuga með eina ódýra Delí-Kathmandu-flugið (Jet Airways) á sunnudeginum. Það varð því hvorutveggja að ganga upp til að þetta plan okkar sem stóð á brauðfótum gengi eftir. Annars hefði plan C komið til og það var bæði tímafrekt og dýrt: taka þriggja daga lestarferð til Delí og nánast gefa annað nýrað fyrir sóðalega dýrt flug til Nepal.

Þegar Sonja var búin að vera í dágóða stund í sínum bási kallaði hún á mig, rétti um þumalputtan og sagði: "Við erum að fara til Delí". Þetta voru frábærar fréttir og stuttu síðar svaraði sölumaðurinn í mínum bási að það væri laust til Nepal en flugið væri reyndar var að fyllast. Þetta gekk því allt upp og líklegast er bara einhver verndarengill sem passar okkur eins og mamma vill meina.

Eftirá að hyggja var það mikil lukka að við riftum okkar viðskiptum við ferðaskrifstofu djöfulinn í Delí. Í fyrsta lagi hefðu þær ekki gengið upp því DHL klúðraði málum og við vildum ekki fara malaríutöflulaus til Varenasi.

Í annan stað græddum við um 20þ krónur á því að gera þetta sjálf og það allt með flugvélum en einn leggurinn hjá honum var með lest þannig að pakkinn okkar hefði átt að vera dýrari. Eftir að hafa keypt miðana sjálf þá sáum við að hann ætlaði að plata okkur í gegnum skattinn, þ.e. verðin sem hann gaf upp voru eðlileg þangað til hann bætti ofan á 22.5% skatti! Hérna er mjög algengt að verð séu án skatts og því var það í sjálfu sér ekki óeðlilegt heldur bara hlutfallið því hingað til höfum við ekki séð meira en 12.5% svo hann ætlaði greinilega að stinga 10% í eigin rassvasa. Ég spurði Girish, okkar mann á strandhótelinu, hvort hann vissi til þess að skatturinn gæti verið 22,5% en hann varð ansi hissa. Það eru ýmsar leiðir sem þeir beita hér.

Djöfulinn 0 - Undirmeðvitund okkar 1

Flugferðin var hin ágætasta og ekkert um hana að segja. Við hittum kanadíska stúlku þegar við vorum að ganga úr vélinni og spjölluðum aðeins við hana. Hún spurði hvaðan við værum og þegar við höfðum sagt henni það var svarið:

"NO, get out of here!!" með mikilli tilfinningu.

Reyndist þetta vera mikill Bjarkar áhangandi og hún hefur farið á ótal tónleika með henni en aldrei hitt Íslending. Það var í raun eins og við hefðum sagt:

"Við komum frá stjörnunni Zorg í miðju Lunar 58 sólkerfinu." svo hissa var hún að við værum frá Íslandi.

Hún stakk upp á að vera samferða í leigubíl og skipta kostnaðinum sem var hin ágætasta hugmynd. Við borguðum fyrirframgreiddan leigubíl sem gekk vel en röðin úti gekk ekki svo vel, ef röð skal kalla. Þetta var samanasfn fólks sem allt hafði greitt fyrirfram en hver og einn reyndi að ota sínum tota - mjög indversk röð. Við vissum ekki alveg hvort við vorum í röðinni eða ekki og hvenær kæmi eiginlega að okkur. Loksins tróðum við okkur að lausum bíl en hljóp þá maðurinn fyrir aftan okkur fyrir framan okkur og inn í bílinn. Sú kanadíska varð nokkuð reið og öskraði á manninn en við vorum nú ekki að stressa okkur á þessu, svona ganga hlutirnir fyrir sér hér og er alltaf að gerast. Auk þess var maðurinn kominn inn í bílinn og ekki sjéns fyrir okkur að gera neitt í málinu. Við gengum því bara að næsta bíl sem var rúgbrauð.
Skottið sat á sér og við báðum því bílstjórann að opna það sem kom grautfúll út úr bílnum og lögreglumenn allt í kring öskrandi á alla að flýta sér, bara í einhverja átt - bara burt svo þetta gengi eitthvað. Þó þetta líti út eins og algjört stjórnleysi fyrir fólk eins og okkur er þetta sennilegast allt mjög skipulagt í augum Indverja - þeir eru allavega hæfilega afslappaðir.
Við hentum pokunum í skottið og fórum inn, ég í framsætið. Bílstjórinn skellti skottinu en það lokaðist ekki og skellti hann svona 10-15 sinnum og ekkert gekk, bara hávaði. Sú kanadíska var aftur frekar pirruð og kallaði í sífellu "It's broken!". Við Sonja bara brostum að þessu, skildum ekki af hverju hún var að skipta sér af þessu, þeir finna yfirleitt sjálfir út úr svona hlutum. Það voru komnir um 6-7 manns þarna fyrir aftan að reyna að loka skottinu og allir gerðu þeir nokkrar tilraunir og var þetta orðið frekar spaugilegt. Við enduðum á að taka allan farangurinn í aftursætin og hurðin var hálf opin að aftan leiðina á hótelið.

Kanadíska stúlkan sagði okkur frá því að hún hefði hitt mjög marga vestræna ferðamenn sem láta allt fara í skapið á sér og eru ekki að taka Indlandi eins og það er. Okkur Sonju var hugsað um það að hún væri nú ekki mjög jákvæð sjálf miðað við þessa stuttu reynslu af henni - hvernig ætli þessir aðrir ferðamenn séu eiginlega?

Við gistum nánast á sama stað og síðast þegar við vorum í Deli - reyndar á ódýrara hóteli hinum megin við götuna. Hótelið sem við vorum síðast á, þó gott væri, var aðeins of dýrt til að taka það aftur nema maður nýti alveg 24 klst og við ákváðum að prófa annað. Þetta nýja hótel var reyndar líka dýrt en við viljum frekar hafa smá þægindi og borga örlítið meira. Sonja er reyndar orðin svo mikill "big-timer" í sambandi við hótelval að næst munum við taka Michelin hótelbókina með okkur og skilja Lonely Planet eftir.

Við kíktum á Costa kaffihús þegar við höfðum skráð okkur inn og hótelið og borðuðum á Pizza-Hut um kvöldið (ég skammast mín hálfvegis fyrir það en stundum er gott að fara á slíkan stað og vita nákvæmlega að hverju við göngum). Pizza Hut er nánast við hliðina á hótelinu þannig að það er smávegis afsökun.


Súkkulaði.


Um kvöldið horfði ég á leik á hótelinu og fékk mér bjór með - þarna er ég að fagna kærkomnu marki.

Inni á Pizza-Hut var skrítin lítil stúlka um 4ra ára sem sat þar með foreldrum sínum og gaf nasistakveðju í sífellu, þ.e. rétti hendina fram með lófann niður. Á milli þess sem hún gerði þetta öskraði hún frekjulega þannig að það var eins og Adolf sjálfur væri endurholgaður og mættur galvaskur á staðinn. Eins gott að þetta var ekki í Þýskalandi, þá hefði sennilegast staðið í mörgum maturinn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...


Spurning hvort litla stúlkan sé með "Tourette" ekki alltaf hægt að átta sig á þessum sjúkdómi.
FLottar myndir af ströndinni.
Kveðja
Mútta