laugardagur, október 27, 2007

52. Bólur og bið eftir bóluefni

Hugmyndin var að dvelja hérna við ströndina í Kerala í 3-4 daga en dvölin reyndist töluvert lengri en það. Það var ekki bara mögnuð ströndin og hótelið sem ollu því heldur malaríulyf frá Íslandi. Þar sem þessir dagar fóru að mestu leyti í viðburðasnauða afslöppun, flokkun mynda og lestur bóka þá ætla ekki að fara mjög ítarlega í þá sálma því annars yrði langlokan á við Passíusálma.

Þar sem okkur tókst ekki að verða okkur úti um Malarone hérna á Indlandi var eina lausnin í stöðunni að fá lyfið sent að heiman með DHL ásamt umsögn læknis þannig að tollurinn hérna myndi ekki senda þetta beint í ruslafötuna hjá sér.

Nettenging er af skornum skammti hérna á ströndinni svo við vorum við netlaus í byrjun dvalar. Okkur til mikillar gleði sáum við einn daginn tæknimann setja upp tölvu við afgreiðsluborðið og virkaði netið sæmilega í tvo daga en maður varð að vera mjúkhentur því á nokkurra mínútna fresti kom upp villuboð og ef maður ýtti á OK til að samþykkja hrundi nettengingin og ekkert í stöðunni annað en að endurræsa. Við þurftum því að safna öllum villuboðsgluggum neðst á skjáinn. Þetta olli svo aftur því að tölvan fór í viðgerð því aðrir gstir hótelsins gerðu alltaf OK og við aftur netlaus en það tók bara einn langan, mjög langan netlausan dag.

Þegar við tengdumst loks aftur umheiminum sáum við að malaríupakkinn var enn í "Clearence delay" og hafði verið í 4 daga. Mamma Sonju reyndi að grennslast fyrir um þetta heima en menn virðast ekki hafa miklar áhyggjur af sendingum eftir að þær fara frá Íslandi og gáfu upp númer sem við áttum að hringja og fá upplýsingar. Eftr töluvert basl því númerið virkaði ekki þá hringdum við aftur í DHL á Íslandi sem drullaðist til að gera e-ð fyrir þennan 12 þús kall (sendingarkostnaður) og reyndist pakkinn bíða þess að við myndum samþykkja að greiða toll fyrir pakkann hérna á Indlandi, urðum reyndar hissa á því að þeir hefðu ekki reynt að ná sambandi við okkur til að láta okkur vita að málavöxtum.
Þar sem við vorum nú búin að greiða 30þ fyrir töflurnar ásamt flutningskostnaði samþykktum við að greiða fyrir toll og kostnað hérna, það gat nú ekki verið það mikið. Ísland bar skilaboðin áfram að pakkinn átti að berast á nsæstu tveimur dögum sem var ásættanlegt.
Daginn eftir fengum við hringingu frá tollinum og þeir spurðu hvort við ætluðum að greiða kostnað og toll fyrir lyfin. Þeir þögðu í smá stund og spurðu svo hvort það væri rétt að lyfin hefðu kostað 30.000 dolllara!! Sonja sagði það ólíklegt. Þá vildu þeir fá nýtt farmbréf og staðfestingu á kostnaðinum sem gefinn yrði upp þar og okkur lá orðið á þessu svo við vildum vita hvað tollur af þessum blessuðu 30 þús USD væri og við urðum hissa svo ekki sé meira sagt á svarinu:

"Það kostar 400.000 Rúbís".

Semsagt það kostar okkur 650.000 íslenskar krónur að leysa út lyfin. Við urðum að sjálfsögðu hvumsa yfir þessu og sögðum að við myndum redda réttri upphæð - það gæti ekki frestað pakkanum um meira en dag. Hann ætlað að hafa samband síðar um daginn þegar nýtt farmbréf hefði borist. Við fórum að hugsa um varaáætlun fyrir ferðalagið okkar því það gæti reynst þrautinni þyngri að ná út lyfunum. Það hefði kannski verið betra ef annað okkar hefði flogið til London, keypt lyfin og flogið til baka.

"Hvers virði er lífið?" spurði Sonja þegar ég var að fussa yfir verðinu á Malarone lyfinu.
"Ja, þetta fer nú að slaga í það."

Eftir nokkra eftirgrennslan og rándýr símtöl af hótelinu í DHL á Íslandi og mömmu Sonju kom í ljós að DHL hafði sett ÍSL krónur í upphæð farmbréfsins þó þar væri greinilegt dollaramerki fyrir framann reitinn. Þar sem tímamunurinn er 5,5 klst þá er dagurinn hálfnaður hér þegar liðið heima fer á stjá svo það er erfitt að fullnýta daginn. DHL heima sendi nýtt farmbréf en við fengum ekkert símtal.

Þetta dollaraklúður flækti málið og tollurinn sat á lyfjunum eins og ormur á gulli, enda lyfin miklu dýrari en gull samkvæmt farmbréfinu. Daginn eftir hófum við strax að hringja í eitthvað útibú DHL hér á suðurströndinni til að ná sambandi við einhvern og það reyndist Mumbai. Á hádegi virtist nýja farmbréfið vera að ná til tollsins en DHL hér var efins að tollurinn myndi trúa þessum mun - frá 30.000 niður í 460 er ansi stórt stökk. Við sögðum þeim þá að opna bara pakkann því þar væru kvittanir og þá væri augljóst að 30.000 var íslenska upphæðin. Við vorum orðin ansi þreytt á þessum hægagangi, það fór heill dagur í að leiðrétta smáatriði og lítið haft samband við okkur. Áslaug móðir Sonju stóð sig eins og stríðshetja þar sem hún barðist við DHL bálknið heima, það endaði með því a föstudaginn að hún fór á skrifstofu þeirra, hlammaði sér þar niður og sagðist ekki ætla að hreyfa sig fyrr en málið væri leyst. Þeir reyndu að gefa henni símanúmer sem við gætum hringt í en hún tók ekki í mál að við þyrftum nokkuð að gera - þeir fengu greiddar 12 þúsund krónur fyrir að koma pakkanum til okkar og það skyldu þeir gera, sérstaklega eftir að hafa klúðrað upphæðinni á farmbréfinu. Þetta var því hörð barátta um það hvort við gætum farið til Varenasi áður en við færum til Nepal en það er borg sem okkur langar mikið að sjá. Við sáum fram á að þurfa sleppa henni og fara beint til Nepal - takk kærlega fyrir okkur DHL. En ekki bara þurftum við að sleppa Varanasi heldur vorum við "föst" innan hótelgarðsins því við áttum jú von á símtali eða sendingunni á hverjum degi!



Dagskráin var mjög svipuð alla dagana - Á morgnana morgunmatur og síðan fylgjast með fiskeríi fram að hádegismat. Dvalið við sundlaugina eftir hádegi og kannski kíkt aðeins á ströndina og í sjóinn fram að kvöldmat. Um kvöldið tölvuvinna, lestur og sjónvarp.



Yfirvofandi ógn af blóðþyrstum risakakkalökkum sem allstaðar geta birst setti sinn svip á dagana hérna. Það þurfti að framkvæma svokallað "pöddutékk" áður en prinsessan steig fæti inn á klósettið sem fólst í því að ég fór inn á klósettið og leitaði í hverju horni og skúmaskoti að pöddum.
"Ok, það eru engar pöddur, þú mátt koma inn."
"Ertu alveg viss?"
"Já."
"Leitaðir þú allstaðar?"
"Já."
"Tókstu sturtutjaldið frá?"
"Já."
"Og leitaðir þú allstaðar í sturtunni, líka bakvið fötuna?"
"Já."
"Leitaðir þú undir vaskinum?"
"Já."
"Og allstaðar á gólfinu og undir öllu?"
"Já."
"Og bakvið klósettið?"
"Já."
"Og undir setuna?"
"Já."
"Ok, er þá alveg öruggt að enginn kakkalakki er þarna?"
"Já."
"Ertu nokkuð að plata mig?!"
"Já ... ég meina nei."
"Ok, þá kem ég inn."
"Jájá."


Sonja fer síðan á klósettið og gerir sjálf leit á öllum þeim stöðum sem eru nálægt henni og ekki í sjónfærði þegar hún athafnar sig. Meiri vitleysan - er þetta komið frá þér Þór?

Kakkalakkabaráttan var þó að hluta til fyrir luktum dyrum því annars hefði Sonja setið andvaka upp í rúmi með skó í annarri og flugnaspaðann í hinni. Hún talaði um það daginn áður en við fórum að seinna herbergið hefði verið besta herbergið á hótelinu, það væri kakkalakkalaust ... það var nú ekki alveg rétt hjá henni.
Þegar við vorum búin að vera tvo daga á þessu nýja herbergi fór ég í sturtu en Sonja sat inni í rúmi og var að lesa. Ég var nýstiginn í sturtuna þegar kakkalakki kom upp úr niðurfallinu, eða hliðarfallinu öllu heldur því niðurfallið var gat sturtuveggnum, um 8x6 cm. Hann barðist ákaft á móti straumnum og komst á milli lappa minna og horfði ég vantrúaður á tröllvaxið skordýrið. Ég greip þvínæst fötu sem var í sturtunni og reyndi að kremja kvikindið en því miður voru um 2-3 cm bil fro botni á fötunni og niður á gólf, mjór hringur var neðst á fötunni sem var snertiflötur við gólfið. Þetta var því töluverður eltingaleikur sem krafðist mikillar lagni svo Sonja heyrði ekki sífellda skelli fötunnar í gólfið. Það hafðist loksins og bak hans brotnaði með háu klikki en þar sem þetta eru lífseig kvikindi og taldir m.a.s. geta lifað af kjarnorkustyrjöld þá hélt hann áfram að sprikla. Ég náði í klósettpappír, henti honum í klósettið og sturtaði niður. Hann sturtaðist því miður ekki niður og hélt hann áfram að sprikla í klósettinu. Ég þakti yfirborð vatnsins í klósettinu sæmilega með klósettpappír og sturtaði aftur niður þegar skálin var búin að fylla sig og þá sem betur fer hvarf hann að sjónum og ég andaði léttar.

Við pössuðum okkur að fylla í þetta gat þegar við vorum ekki í sturtu, fyrst tróðum við klósettpappír en svo bjúggum við til okkar eigin "rist", þ.e. spaðahlutanum af flugnaspaða var skellt fyrir gatið og þrjár fullar vatnsflöskur sáu um að halda honum á réttum stað. Ég taldi því víst að ekki myndu birtast fleiri kvikindi á klósettinu - rangt.

Tveimur dögum síðar fór ég á klósettið seint að kvöldi til að tannbursta mig og þar mætti mér á borðinu við hliðina á vaskinum annað skrímsli. Hann tók strax á fætur þegar ég kom inn og hrinti tannburstunum úr vegi sínum þegar hann ruddist áfram eins og nashyrningur niður á gólf. Þar tók hann á rás og ég á eftir með fötuna góðu en þar sem sturta var ekki í gangi í þetta skiptið og Sonja aðeins nokkrum metrum frá mér þurfti ég að fara að öllu hljóðlaust, svipað og góður leynimorðingi. Ég elti hann í dágóða stund þar sem hann hentist út um allt gólf á miklum hraða og erfitt var að hafa í við hann. Hinn mikli leynimorðingi hafði reyndar að lokum betur þegar bak hans var brotið með miklu braki og spruttu svitatár fram á enni morðingjast yfir hávaðanum sem þetta olli - hafði hún tekið eftir þessu? Ég kíkti í gegnum rifuna á klósettinu og sá Sonju í rúminu horfa í áttina að hurðinni.

"Er ekki allt í lagi?"
"Jújú, þurfti bara að skella mér á settið."
"Er þér illt í maganum?"
"Já, eða nei, eða jú aðeins."
"Slæmt?"
"Nei, það er ekkert að mér í maganum."
"Hvað ertu að vesenast?"
"Ég er að klára."
sagði ég þegar ég henti kakkalakkanum í klósettið og passaði mig vel í þetta skiptið að hylja hann vel og vandlega með klósettpappír því ekki vildi ég þurfa að sturta niður tvisvar og ljóstra þannig upp um það hverskonar hryllingsherbergi þetta væri. Ég horfði stressaður ofaní vatnið og sá kakkalakkan hverfa sjónum - mér hafði tekist að hylja morðslóðina.

Ég velti því aðeins fyrir mér hvernig hann hefði komist upp á borð þar sem allt er flísalagt rennisleipum flísum, taldi nánast ómögulegt að hann hefði klifrað þarna upp. Ég áttaði mig á því að viftan sem var beint fyrir ofan klósettið var sennilega leiðin sem hann hafði komið inn og erfitt eða ómögulegt að varna þessari leið. Ég gætti þess að vera alltaf fyrri til á klósettið til að kanna enn betur hinar ýmsu kakkalakkaleiðir. Sem betur fer sást enginn þarna framar - þeir hafa kannski skynjað hættuna að vera svona nálagt mér og fötunni góðu. Eftir fyrri kakkalakkann í sturtunni þá lét ég vita í móttökunni, bað þá að eitra en passa að Sonja frétti ekki af þessu. Eftir kakkalakkann í vaskinum sagði ég þó ekkert - það er víst ekki mikið hægt að gera við þessa pest.

Sannleikurinn er oft sagna verstur.



Gireesh, starfsmaðurinn magnaði í móttökunni, er orðinn eins og góður félagi hefur aðstoðað okkur mikið við hluti sem ekki eru í hans verkahring, t.d. hringt út og suður vegna lestarferða, flugferða og að ógleymdum ófáum DHL símtölum. Einn daginn kenndi hann mér leikinn Carrom sem er borðleikur og takmarkið er að skjóta plötum í horngöt - hann rótburstaði mig þó að ég hafi sýnt sæmilega takta að eigin mati á tímabili en óvanir fingur verða fljótt aumir af að gefa selbitana. Ég náði reyndar að hefna mín daginn eftir, en ekki á honum heldur Sonju þegar ég malaði hana og hló djöfullega starfsmönnunum til mikillar furðu - hafa þeir aldrei séð alæmennilegt keppnisskap?
Sonja náði reyndar að hefna sig daginn eftir þegar hún flengdi Eldklerkinn og rótburstaði hann. Ég hafði reyndar mér til málsbátar að ég var meiddur á fæti og náði því ekki að beyta mér að fullu.


Ég pungsveittur af áreynslu enda verið að taka mig í bakaríið.


Sonja orðin nokkuð ánægð með sig.

En að öðru mikilvægu, matnum sem var ekki sá besti en vel boðlegur og vorum við vel haldin alla vikuna. Við Sonja erum ekki mikið fyrir að borða fisk á ferðalögum þó við gerum töluvert af því heima og því pöntuðum við aldrei fisk hérn. Matseðillinn er frekar berrassaður að frátöldum fiskiréttunum því þetta er við sjóinn og fiskur aðaluppistaðan. Við sáum einstaka manneskju borða fisk hérna og eru það yfirleitt heilsteiktir fiskar, steiktir þangað til þeir eru orðnir svartir að lit og svo huldir ýmsu mauki svo erfitt er að plokka bein og annað úr - ekki mjög girnilegt að okkar mati.
Við þurftum að panta allan mat, nema morgunmat, með tveggja tíma fyrirvara og fannst okkur að við værum alltaf annaðhvort að panta eða éta mat - matur, matur, matur.
Ég fékk mér á hverju kvöldi einn Kingfisher bjór og var þjónninn næstum hættur að spyrja hvað ég vildi drekka - kom með ískaldan á hverju kvöldi. Eitt kvöldið fór hann að sækja bjór en á sama tíma hringdi síminn og við biðum og biðum og biðum eftir þjóninum með bjórinn eftirsótta.

"Hvað tefur bjórinn minn?" spurði ég Sonju.
"Síminn."
"Það hlýtur þá að vera símtal frá djöflinum."

Bjórinn barst mér að lokum og rann ljúflega niður líkt og fyrri daginn.



Annars er þessi dvöl hérna lengsta tímabil ævi minnar, eða síðan ég gekk (eða skreið réttara sagt) stoltur um með bleyju, sem ég hef verið án nærbuxna. Ég var í pilsinu allan tímann með smá viðkomu í sundskýlu, og verð ég að segja að þetta er hin besti klæðnaður.
Já, pilsið fer í þvott núna.



Eins og áður hefur komið fram vorum við ein fyrstu dagana á hótelinu og því voru viðbrigði að fá fleiri gesti og því ekki fulla athygli starfsmanna - við urðum smávegis eins og börn sem var að eignast lítið systkin. Fyrst var það amerísk kona sem við sátum með tvær kvöldmáltíðir og spjölluðum við, indælis manneskja þrátt fyrir þjóðerni. Hún er rúmlega fertug, lögfræðingur hjá hinu opinbera og hætti með kærastanum sem hún hafði verið með í 15 ár. Hann var alveg laus við að vilja sjá heiminn svo hún hefur ferðast talsvert á hverju ári síðan. Hún hafði svipaða skoðun á Delí og við þannig að þetta eru kannski ekki fordómar hjá okkur.
Tvö yngri pör hafa komið í skemmri tíma en við spjölluðum ekkert við þau að ráði. Og síðan var það þýska kellingabeyglan sem við höfum forðast eins og pláguna.
Hún var frekar lítil, ófríð um 55 ára gömul en greinilega ákveðin og sæmilega efnuð. Um leið og hún kom inn í afgreiðsluna og opnaði munninn var ljóst að hún væri ekkert sjarmatröll. Hú talaði við starfsmennina með leiðindar yfirlætistón blandað við ensku sem var með einum mesta þýska hreim sem við höfum heyrt, kraftakarlaþýska með ýktari hreim Arnold Schwarzenegger .
Hún spjallaði við okkur nánast um leið og hún kom inn um dyrnar og fór að segja okkur frá heilsuhælinu sem hún hafði dvalið í sl. 3 vikurnar og hvað það kostaði í samanburði við nánast öll önnur heilsuhæli í nágrenninu. Hún dró ekki andann á milli þess sem hún skipti um umræðuefni og fór að segja okkur frá því hvernig hús eyðilagðist fór í flóðum fyrir tveimur árum og ég hélt í alvöru að hún væri að fara að gráta fyrir framan okkur svo mikið fékk þetta á hana. Við ákváðum að afsaka okkur og láta okkur hverfa.
Daginn eftir þegar við fengum okkur göngutúr um ströndina mætti hún allt í einu og fylgdi okkur eftir þó við reyndum eftir fremsta megni að vera sjálfum okkur nóg án þess að vera dónaleg. Hún bað okkur loks að taka mynd af sér á sína vel sem við gerðum með glöðu geði. Myndavélin tók enga mynd, eitthvað rautt ljós pípti en þar sem sólin var sterk (eins og ég hef áður kynnst) þá sá ég ekki skilaboðin sem komu á skjáinn, auk þess sem þau voru á þýsku. Við stungum þá upp á því að minniskortið væri tómt.

"Nei, ekki möguleiki - það er stórt!" sagði hún með sínum óþolandi hreim.
"Hversu stórt?" svöruðum við og þar sem við vorum með stórar myndavélar í höndunum hefði hún kannski mátt álíta að við hefðum eitthvað vit á þessu.
"Ég veit það ekki, það er stórt."
"Hversu margar myndir hefur þú tekið á kortið?"
"Ég er ekki viss en ekki það margar að það fylli kortið, það er mjög stórt."
"Og ertu ekki viss um hvað það er stórt?"
"Nei - þetta skiptir ekki máli, ég læt einhvern taka mynd af mér síðar, það virkar að taka myndir inni með flassi."
Í því leit Sonja á skjáinn og sá þar skilaboð um "Kapacitet..." svo við vorum nokkuð viss um að minniskortið væri fullt.
"Ok, en við ættum kannski að prófa að eyða einni mynd og sjá hvað gerist?" svöruðum við og ég er ekki viss um hvort við vildum hjálpa henni að leysa þetta dularfulla sakamál eða ná að knésetja hana.
"Já, ég get svosem gert það." sagði hún og grúfði sig yfir vélina og eyddi út tveimur myndum.
"Ok, horfðu frekar á sólina svo myndin verði skemmtilegri." svöruðum við og tókum mynd, vélin virkaði.
"Skrítið - hún er sennilega biluð." sagði konan svo við kvöddum hana og forðuðum okkur.

Við heyrðum seinna samtal á milli hennar og eigandans. Eigandinn var eitthvað að vesenast niðri í afgreiðslu og sú þýska arkaði niður í afgreiðslu, greinilega búin að mæla sér mót við eigandann sem ætlaði að fara með henni í bílferð og sýna henni eitthvað hérna í nágreninu:

"Jæja, ég er tilbúin." sagði kvenkyns Schwarzenegger .
"Ég biðst afsökunar, ég tafðist aðeins og á eftir að skella í mig hádegismat en verð tilbúin eftir 10 mínútur." sagði eigandinn afsakandi.
"Ertu ekki búin að borða hádegismat?"
"Nei, strákarnir í eldhúsinu eru að elda hann fyrir mig og eru að klára."
"Getur þú ekki bara borðað banana?"

Við heyrðum hana sama dag biðja, eða öllu heldur krefjast, þess að fá morgunmat kl. 6 á morgnanna. Á þeim tímapunkti voru aðeins við Sonja og sú þýska á hótelinu og því alveg klárt að starfsmennirnir í eldhúsinu þyrftu að vakna upp til að útbúa mat þegar auglýstur morgunmatur er frá kl. 8 - það skipti hana greinilega engu máli, heimurinn snýst í kringum rassgatið á henni.

Við vorum reyndar að spá í að spyrja hana hvort hún gæti ekki fengið sér banana í morgunmat en þorðum því ekki - það borgar sig alls ekki að reita þýsku þjóðina til reiði.

Ég hugsaði mikið um það þegar ég sat við sundlaugina hvernig ég gæti komið henni fyrir kattarnef.



En að okkur sjálfum. Það má segja að ég hafi legið á sjúkrabeði á meðan við dvöldum á hótelinu, var frekar óheppinn hérna. Fyrst lenti ég í smá basli með að temja sjóinn eins og ég hef þegar sagt frá. Ég brann illa á öxlum og baki þegar ég stóð of lengi á ströndinni að draga fisk að landi þannig að ég varð fyrst bleikur, síðan fjólublár og að lokum rauður sem dofnaði yfir í skjannahvítann (mér til mikillar armmæðu). Kannski gott að brottför héðan tafðist því ég hefði ekki boðið í að vera með þungan bakpokann á öxlunum í þessu ástandi.
Að lokum fóru flugurnar að gefa mér gaum og fór ég vægast sagt illa úr viðskiptum mínum við þær ef viðskipti skyldi kalla því ekkert fékk ég í staðin fyrir allt blóðið sem þær sugu úr mér af miklum móð, nema þá kláða. Fékk ekki svo mikið sem eina kexköku eins og blóðbankinn býður þó. Þegar ég var sem verstur var ég sennilegast með yfir hundrað bit á líkamanum sem hvert einasta öskraði á athygli og gott klór - það var mjög erfitt að standast það. Ristarnar fóru sérstaklega illa út úr þessu og vissum við ekki alveg hvað hefði gerst með þær. Okkur grunaði að ég hefði kannski fengið einhverjar flær á þær þegar ég var að vaða í sjónum þegar sólin var sest og fleiri kvikindi fara á stjá, eða þá að sama flugan hafi staðið fyrir öllu þessu á meðan ég var sofandi og tók ekki eftir neinu. Sennilegast er síðari tilgátan sú rétta því stór hluti bitanna eru í línu eins og flugan hafi gengið og bitið með nokkurra millimetra millibili. Hægri ristin var sínu verri en sú vinstri og taldi Sonja ekki færri en 35 bit á þessum litla kafla og var húðin öll rauð af ertingu og bólgin. Kláðinn var himneskur.
Við fundum Aloa Vera plöntu í garðinum, stálum einu blaði í skjóli myrkurs og bárum á líkama minn. Húðlitur minn breyttist í græanan því það þurfti nánast að bera á allan líkaman.
Það er flugnanet fyrir öllum gluggum í herberginu okkar þannig að það sést mjög lítið af flugum hérna innandyra þó að þær séu ein og ein - ég held að eðlurnar sem eru á veggjunum í herberginu nái nú flestum sem slæðast inn.
Við höfðum því góðan tíma að stumra að veikum líkama mínum sem hefur átt sælari og frískari daga.

Hraust sál í veikum líkama.


Hérna sést hversu rauður ég er á öxlunum og efst á baki.


Útbitnir fætur - Gireesh dauðbrá þegar hann sá meðferð flugnanna á fótunum og vildi reyndar meina að þetta væri eitthvað annað en bit eftir moskítóflugur.

Það sem hefur helst fangað athygli okkar hér í sjónvarpinu eru indversk tónlistarmyndbönd sem mörg hver eru stórskemmtileg. Karlkyns stjörnurnar eru yfirleitt orðnir örlítið þéttvaxnar og ósjaldan komnar af léttasta skeiði en það stoppar þá ekki í að vera í þröngum fötum og dansa hraða poppdansa með hópi af dönsurum sem allir eru með mottu til að undirstrika Borat samlíkinguna. Stórksemmtilegt.
Ég virði Indverjana mikið fyrir að halda fast í það sem þeim finnst flott og töff en ekki eltast blint við bandarískar fyrirmyndir í tónlistarmönnum og myndbandagerð eins og við gerum gjarnan í Evrópu. Oft er falleg náttúra, sem þætti kannski væmin heima, í bakgrunni og þeir virðast einnig vera hrifnir af þorpum og þorpsbúum sem eru oft aukaleikarar í myndböndunum ásamt þjóðlegum hlutum. Allt er þetta blandað við sterka liti og misgóðar klippingar, myndi ekki ganga heima. Maður sér þó miklar breytingar í nýjustu myndböndum, ef stelpurnar eru í sarí þá eru þeir ansi stuttir og þorp/náttúra sjást sjaldan.

Skrítið að maður frá 300.000 manna þjóð sem er einöngruð í ballarhafi sé að kalla fólk og siði næstfjölmennustu þjóðar heims skrítin.

Mikið er auglýst af húðkremum til þess að lýsa upp húðina og er gjarnan sýndur myndarlegur karlmaður sem reynir við stúlku en hún sýnir honum engan áhuga fyrr en hann hefur borið undrakremið á sig og húðin áberandi mikið ljósari - þá kemur annað hljóð í kerlu og allt er gott sem endar vel. Svo má á móti lesa í blöðum ýmsar greinar um það að ekki er hægt að lýsa húðina meira en grunnliturinn býður upp á.
Skrítið að heima eltumst við við að vera brún en hérna við að vera ljós - mannkynið er svo sannarlega skrítin dýrategund.

Önnur auglýsing er símanúmer sem hægt er að hringja í og velja úr 10.000 lögum til að hlusta á í gegnum símann. Ég hef áður sagt frá því að hljómgæði virðast ekki skipta miklu máli hérna og styður þetta þá yfirlýsingu mína. Það greinilega mikill business miðað við íburðinn á þessum auglýsingum og tíðni sýninga þeirra undirstrikar það.



Elskuleg systir Sonju setti inn athugasemd á ferðasöguna þar sem hún fer þess á leit við mig að ég snyrti skegg mitt og raki það helst allt af. Ég vara sterklega við því þar sem ég hef tekið eftir beinni tengingu milli lengd bloggana og skeggsíddar minnar. Bloggin byrjuðu sem frekar stutt og þægileg en er nú orðin óyfirstíganleg langloka sem aðeins mestu lestrarhestar nenna að lesa. Ég þori því ekki að eiga við skeggið og snyrta það (þori varla að þvo það) fyrr en ég kem heim og sagan hefur verið til lyktar leidd. Einn möguleiki reyndar er að "go Indian" og raka allt af en skilja yfirvaraskeggið eftir en þá yrði bloggið kannski eintómar stríðsfyrirsagnir.
Það er kannski ekki mikið betra.



Við dvöldum í góðu yfirlæti í um viku á þessu strandhóteli og var þetta kærkomin slökun í miðri ferð okkar áður en seinni hlutinn hefst. Næst á dagskránni er Nepal í um viku og Bhutan í tæpar þrjár vikur. Við skoðum Rajhastan í nokkra daga áður en við förum heim og hellum okkur aftur í lífsgæðabaráttuna. Við vorum þó að frétt að vinur okkar John Isaac verður hér í Delí í byrjun des og er von okkar að hitta hann áður en við förum heim.


Sonja slakar á í hengirúmi.


Ekki margar tennur í þessum.


Sonjusandlistaverksbúx.


Fótspor í sandinum.


Hluti aflans flokkaður.


Sólin skín á hús í hótelgarðinum.

Við sáum í The Hindue, dagblaðinu sem Sonja fletti á hverjum morgni yfir morgunmatnum, að Singapore Airlines væri farið að bjóða upp á svítur með tvöföldum rúmum í flugi sínu frá Singapore til Sydney. Þýðir þetta ekki að það að komast í "The 5 mile high club" telst ekki lengur til tíðinda? Ég segi bara eins og Woody Allen að ég gæti ekki hugsað mér að vera meðlimur í klúbbi sem hefur fólk eins og mig sem meðlimi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Við þökkum fyrir frábæra ferðasögu og einstaklega fallegar myndir. Það er okkur góð dægradvöl að lesa söguna ykkar þar sem við dveljumst nú í roki og rigningu á Íslandi í stað þess að vera "heima" í blíðunni í Portúgal.
Hér kemur gamalt húsráð fyri Jóa til að draga úr kláðanum eftir flugnabitin. Skera niður sítrónu og nudda safanum á bitin. Það virkar. Palli og Þórunn

Nafnlaus sagði...

Sæl verið þið.
Nei Jóhann hún Sonja hefur þetta ekki frá mér. Ég veit vel að allir hennar bestu kostir eru frá mér komnir. En það er nú svona. Einn og einn ókostur fylgr fljóðinu. Heimamundur úr móðurætt.
Pa

Burkni sagði...

Hmm eitthvað á ég erfitt með að henda reiður á öllum þessum texta því það fór framhjá mér hvernig malaríudæmið endaði?