miðvikudagur, október 31, 2007

56. Everest og hamborgari

Við dröttuðumst út úr hótelinu dauðþreytt kl. 5.30 með morgunmat í hendinni og inn í leigubílinn hjá Ramesh, feitlögnum eldri leigubílastjóra. Það var ennþá myrkur en fullt af fólkið komið á kreik á leið til vinnu eða þegar byrjað að vinna á götunum.

Ramesh benti okkur á konungshöllina og gretti sig í andlitinu þegar hann sagði frá nýja kónginum sem hann sagði vera vondan mann.

Um korteri síðar stóðum við í biðröð inn í innanlandsflugstöðina en það er leitað á fólki áður en það fær að fara inn og því sæmileg röð fyrir utan. Við settumst niður og hvíldum okkar eftir að við höfðum borgað flugvallarskatt og fengið miða með sætisnúmerunum, 4A og 4C. Það var þoka á flugvellinum og skyggni lélegt og við því ekki bjartsýn með að Everest myndi standa vígreifur fyrir framan okkur í háloftunum.
Það var tilkynnt um seinkun á öllum útsýnisflugum um klukkustund og útlitið ekki gott. Ef ekkert skyggni er fyrir útsýnisflug hjá fyrirtækjunum þá endurgreiða þau öllum flugferðina, þannig að fjárhagsleg áhætta var ekki mikil.

Loksins var kallað út í flugvél og við fórum í loftið um 45 mínútum síðar eftir að hafa beðið dágóða stund í rútu við hlið flugvélarinnar - greinilegt að veðrið var eitthvað að stríða mönnum.


Hermenn skokka fyrir framan flugvél samvinnuþjóðanna. "I don't know what I've been told that eskomo...."

Flugferðin var í um klukkustund, skyggnið eins og best verður á kosið og var flogið um 5 km frá þessum tignarlegu tindum. Við hefðum kosið að fara nær en maður skilur að það sé ekki spennandi að hafa margar flugvélar fljúgandi nálagt tindunum á hverjum morgni.


Þetta er stærsta hindúahofið hér í Katmandu og er mikil líkbrennsla í tengslum við það.


Hæsti tindurinn þarna er Everest sjálfur.


Myndvænasti tidnurinn, Cho-oyu sem fólk þekkir sennilegast af myndum.


Glæsilegt útsýni.


Gauri Shankar hinn heilagi tindur sem bannað er að klífa.

Þegar við gengum út af flugvellinum var þar hafsjór af leigubílstjórum sem vildu ólmir keyra okkur og við mundum ekkert hvernig leigubíllinn leit út og hvað þá bílstjórinn, bæði vorum við þreytt kl 05:30 og frekar mikið myrkur. Við þurftum því nánast að taka bílstjórann í 3ju gráðu yfirheyrslu afsíðis þegar hann kom til okkar og spurði hvort við ættum að drífa okkur - honum fannst við skrítin að muna ekki eftir honum.

Við ákváðum að leggja okkur aðeins þegar við komum á hótelið um 10 leitið en 3ja daga ferðin var fyrirhuguð strax á eftir flugferðinni. Ég stökk á skrifstofuna og sagði að við kæmum kl. 11.30 en leiðsögumaðurinn var þá þegar mættur og varð hann bara að gjöra svo vel að bíða, en það svosem allt í lagi því hann var á fullum launum sem eru 600 kall á dag.

Þegar við vorum búin að tékka okkur út, koma töskum í geymslu og rétt ókomin á ferðaskrifstofuna fór Sonju að líða mjög illa. Var með svima og mikil ógleði farin að gera vart við sig. Við ræddum þetta aðeins og ákváðum að það væri ekkert annað að gera en að fresta ferðinni um einn dag. Belgískur strákur kom og spjallaði við okkur þarna fyrir utan því hann sá stóru myndavélina okkar og linsuna sem vakti áhuga hans enda var hann atvinnuljósmyndari sjálfur. Við vorum sennilega frekar freðin við hann því Sonja var orðin mjög slöpp og ég hafði áhyggjur af ástandinu. Hann endaði á að segja að almennilegir ljósmyndarar þyrftu bara eina linsu því þeir gætu gert allt með henni - þetta var skemmtilegur strákur og það hefði verið gaman að spjalla við hann undir öðrum kringumstæðum.
Þegar við vorum að segja ferðaskrifstofubræðrum frá þessu rauk Sonja skyndilega út og rétt náði að hlaupa upp á kaffihúsið góða fyrir ofan og klósettið sem betur fer laust því það mátti ekki muna nema sekúndum að allt hefði farið á gólfið. Ég fékk mér kaffibolla og þráttaði við Sonju sem vildi keyra á ferðina enda leið henni betur eftir æluna en ég tók það ekki í mál - ekkert vit í að fara í fjallgöngu í þessu ástandi. Við fengum okkur aðeins að drekka og svona á kaffihúsinu en Sonju tókst lítið að borða og var frekar kalt svo þjónninn okkar - hann er farinn að kannast við okkur - spurði hvort allt væri í lagi. Sonja svöruðum til að henni væri eitthvað illt í maganum en ekkert alvarlegt. Óskaði hann henni bata á leiðinni út og sagði okkur að taka því rólega.

Sem betur fer gátum við fengið aftur sama herbergið og Sonja lagðist þar niður og hvíldi sig. Ég fór á klósettið til að tefla við páfann og átti fótum fjör að launa þegar Sonja kom hlaupandi inn og ældi í annað skiptið í klósettið en ég slapp. Það var greinilega óðs kvenna æði að ætla að reyna til þrautar að fara í ferðina.

Seinnipartinn þegar ástand Sonju var ekkert að batna varð okkur ljóst að hún myndi ekkert fara í fjallgöngu næstu dagana, sérstaklega þar sem að ælupest hjá Sonju er sjaldnast sólarhringspest. Þar sem að flugið til Bútan er eftir 4 daga yrðum við að afpanta alla ferðina. Ég fór því á fund ferðaskrifstofustráksins sem tók ekkert svo illa í þetta en sagði að það gæti verið að við þyrftum að borga a.m.k. hluta af hótelinu sem hann hafði pantað fyrir fyrsta kvöldið - ég held að það sé nú bara sanngjarnt. Við greiddum fyrr um daginn fyrir hálfan dag leiðsögumannsins sem hafði beðið allan morguninn og þeir geta því ekkert kvartað. Við ákváðum að taka stöðuna daginn eftir og þá myndi hann endurgreiða hluta af því sem við höfðum greitt fyrirfram.


Gömul og hokin kona.

Eftir þetta fór ég á K-to veitingastaðinn sem við höfðum farið á fyrsta kvöldið, settist þar við barinn og pantaði mér borgara og bjór - fyrir framan mig var sjónvarp með enska boltanum. Mér leið eins og sönnum karlmanni.
Þetta var fyrsti hamborgarinn sem ég hef borðað í tvo mánuði og var hann virkilega ljúfengur. Ég var reyndar fyrst að spá í að panta mér Fried Egg Burger en undirskriftin á honum hljómaði ekkert alltof vel:

"Tastes better after few beers."

Þetta eru ekkert sérstök meðmæli en ég var ánægður með Quarter Pounder borgarann minn sem smakkaðist ekki ósvipað og borgararnir á Hamborgarabúllunni heima.

Á veggnum fyrir ofan mig var mynd af feitlögnum breta, Nick Royle með bjór í hönd og brosandi út af eyrum. Fyrir neðan stóð að hann hefði borðað steik á staðnum hvern einasta dag í 5 vikna fríi sínu í borginni. Vöxtur hans var þannig að myndin hefur sennilega verið tekin í lok frísins hans.

Ég sat út á enda á barborðinu, eiginlega í horninu og var það með ráðum gert. Það voru nokkrar föngulegir kvennmenn inni á barnum og þar sem ég hef séð myndir af mér á þessari síðu skeggjuðum og litið í spegil í ófá skipti veit ég að útlit mitt er nánast ómótstæðilegt þessa dagana og ég auk þess kvensulaus þá vildi ég vera laus við áreiti frá þeim. Svitalyktin af mér er líka megn og efnin í henni eru kynæsandi fyrir hitt kynið. Óþolandi oft að vera svona myndarlegur - geta þær ekki litið á mann sem hugsandi manneskju með tilfinningar en ekki girnilegt kjötstykki endalaust?

Eftir hamborgarann fékk ég samviskubit, andartak í munninum ævilangt á lendunum. Hvernig á ég eiginlega að komast í pilsið mitt ef ég fitna?

Ég kíkti í allar bókabúðir á leiðinni heim og spurði um bækur um Kasmír teppi - er þetta að snúast upp í enn eitt æðið hjá mér? Ég fann enga en fann hinsvegar Tinna í Tíbet sem er aldeilis föngulegur gripur. Ég fór á kaffihúsið góða, fékk mér Espresso og las Tinna. Ég segi það aftur, hámenning er Hafnfirðingsins hugsun alla daga.
Mér þótti vænt um að afgreiðslustrákurinn spurði mig þegar ég kom inn hvernig Sonja hafði það og virtist hafa virkilegan áhuga á að vita það. Þegar ég kvaddi um hálftíma síðar klappaði hann mér á öxlina og sagði mér að fara vel með Sonju - þetta er uppáhalds kaffihúsið mitt.

Aftur upp á hótel með ávexti, vatnsbirgðir og DVD fyrir sjúklinginn.

55. Katmandu

Fyrsti heili dagurinn í Katmandu var ekkert gríðarlega viðburðaríkur. Við þurftum að redda ýmsum málum og fór dagurinn nánast allur í það.

Við gengum túristagöturnar í Tamil og skoðuðum möguleika á ferðum út fyrir borgina. Á þriðja stað sem við fórum á hittum við fyrir náunga sem virtist ekki vera á spíttí, þ.e. ofurákafur í að selja okkur bara eitthvað og virtist vera nokkuð eðlilegur. Hann kom með þá nýbreytni að hlusta á það hvað við höfðum að segja og hvað við vildum sjá og kom síðan með sínar hugmyndir. Flestir vilja þeir bara drífa málin í gegn, svara öllu sem maður segir með "já já já - getið tekið fullt af myndum" en svarið ber þess greinilega merki að þeir hafi ekki hlustað og segja manni hvað maður þurfi að skoða. Við ákváðum að kaupa af honum skoðunarflug um Himalayafjöll og Everest og vildum fá lengri tíma í að ákveða með 3ja daga ferð sem hann stakk upp á um þorpin. Sú ferð var skemmtileg fyrir þær sakir að við færum allra okkar ferða með almenningsrútum og gangandi og aðra nóttina var hugmyndin að gista í heimahúsi í þorpi sem er mjög afskekkt og ekki nefnt í túristabókum, það var ekki einu sinni á kortinu hans.

Á efri hæðinni í hússins sem ferðaskrifstofan var kaffihúsið frábæra með sína mögnuðu kaffidrykki og þráðlaust internet sem kostaði reyndar en bara 30 kall klukkutíminn. Það er mjög þægilegt hérna í Nepal en fyrir eina nepalska rúbíu fæst ein íslensk króna.


Konunglegar veigar á frábæru kaffihúsi.

Við náðum í flugmiðana til Bhutan á skrifstofu ríkisflugfélags Bhutans sem er eina flugfélagið sem má fljúga inn í landið og síðan var ferð heitið á Canon verkstæði sem okkur hafði verið bent á daginn áður. Við vorum góða stund að finna það og gengum í gegnum virkilega skemmtilegar göngugötur sem virðast ekki vera fjölsóttar af túristum. Þessr götur eru margar hverjar eitt stórt öngþveiti og ótrúlegt hvernig hlutirnir ná að ganga upp þegar ótal mótorhjól, reiðhjól og ýmsir vagnar eru fastir í óleysanlegri þvögu fyrir aðkomuaugað.


Kona fyrir utan skrifstofu flugfélagsins.


Síðdegissólin kastar löngum skuggum.


Lítil gatnamót.


Beðið eftir kúnnum.


Þessi er líka að bíða.


Ágætt úrval af kryddi. Ef einhver kryddáhugamaður er að lesa þetta þá get ég sent honum þetta í hærri upplausn þannig að hann geti séð hvaða kryddgerðir þetta eru.


Meira krydd.


Hliðargata.


Rauðklædd kona situr fyrir utan búð sína.


Þung byrði.

Við fundum loks verkstæðið og þeir skoðuðu linsuna gaumgæfilega sem hefur valdið okkur vandræðum allt frá því að ég fékk góðan skammt af hveiti yfir mig og myndavélina í Manali í byrjun ferðar. Við höfum þó náð að nota hana og tekið rúmlega helming myndir okkar á hana en hún hefur verið erfið og við þurfum að nota hana alveg rétt til að hún virki yfir höfuð. Þeir ætla að skoða hana og láta okkur vita hvað þarf að gera.
Okkur þótti athyglisvert að sjá vörðinn í bankanum fyrir neðan verkstæðið en hann var í borgaralegum klæðnaði en með tvíhleypta haglabyssu í hönd. Ef þetta var ekki vörður þá hefur bankarán verið í fullum gangi.

Við kíktum aðeins á teppi hjá örvæntingafullum og ágengum teppasölumönnum því áhugi minn á Kashmir teppum eykst dag frá degi enda eru þessi teppi með ólíkindum flott - það er ekki hægt að útskýra það, fólk verður að sjá þau með eigin augum. Það versta hérna er að aðeins silkiteppi eru fáanlega frá Kashmir sem kosta þrefalt meira en ullarteppin og eru ullarteppin dýr. En það er víst bannað að flytja ullarteppi inn frá Kashmir því ullartreppi eru framleidd hérna í Nepal og þeir vilja ekki samkeppnina.
Manni líður eins og flugu sem gengur inn í miðjan köngulóavef þegar maður kemur inn til teppasölumanna. Þeir nánast læsa hurðinni og draga fram stóla og halda síðan sýningu á hinum ýmsustu teppum. Einn sagði okkur að hann myndi selja okkur teppin á kostnaðarverði því systir hans væri að giftast og hann þyrfti peninginn nauðsynlega strax - það er ýmislegt reynt.
Þegar maður spyr um verð á teppum sem manni finnst flott sem eru undantekningalaust silkiteppi frá Kashmír, enda bera þau af öðrum teppum þá er verðið stjarnfræðilegt - um 150-200þ krónur og það eru alls ekki stór teppi. Þegar maður segir að þetta sé of mikið og býst til að brjótast út úr búðinni fara þeir að sýna manni allskyns mottur sem eru ekkert spennandi - svona Ikea mottur. Þeir skilja ekki að manni finnst þær ljótar þó maður segi þeim það beint út - vilja að maður segi hvað maður er tilbúinn að borga fyrir þær. Þegar maður kemst loks út sitja þeir eftir með fýlusvip. Við göngum beint inn í næstu teppabúð. Manni virðist að það sé gríðarleg örvænting að selja manni bara eitthvað þó svo maður hafi engan áhuga á því og ekki bara meðal teppasölumanna. Við höfum margoft farið inn í búðir sem selja allskyns minjagripi og verið að skoða eitthvað ákveðið en sölumennirnir draga fram gripi af öllu tagi og ota að manni.

Ég hef mjög gaman af því að ræða verð við fláráða teppasölumennina - Sonja hefur ekki alveg jafn gaman af því.


Teppasölumaður að stumra að dóti í glugganum sínum.

Seinnipartinn keyptum við 3ja daga ferðina í ferðaskrifstofunni - ekki annað hægt því ferðin hljómaði spennandi og sölumaðurinn var ekki með neina fagurgala um besta þetta og besta hitt. Þegar hann seldi okkur t.d. útsýnisflugið þá eru tvö flugfélög í boði og hann sagði að þau væru jafngóð og við yrðum bara að ákveða, hann gæti ekkert sagt hvað væri best. Allir aðrir sölumenn hafa ávallt haldið því fram að annað sé miklu miklu betra.

Um kvöldið fengum við okkur alvöru pizzu úr viðarofnum sem voru það góðar að bestu pizzur á Íslandi ættu erfitt með að standast samanburð.


Ætli hann hafi verið sendur í skammarkrókinn eftir að hafa brennt pizzu í ofninum?


Sonja bíður óþolinmóð eftir pizzunni.

Við fengum tölvupóst frá John Isaac og ætlar hann að hitta okkur í Delí í lok ferðar. Hann er búinn að klára ljósmyndabókina sína um Kashmír sem kemur út á næsta ári og er að bíða eftir svari frá Dalai Lama um að skrifa formála.


Á netinu á kaffihúsinu góða.


Everest bjór með frægri ljósmynd á miðanum.

Við gengum heim á hótel og heyrðum allskonar tónlist á hinum ýmsu diskótekum og pöbbum sem virðast vera hérna út um allt - á götunum var öngþveiti.


Vopnaðir verðir.


Sonja gengur upp á herbergið okkar á 4. hæð.

Það má segja að þetta túristahverfi hérna sé Sirkus fáránleikans.

54. Til Nepal


Konungsríkið Nepal sem liggur á milli Indlands og Kína er himnaríki fyrir fjallaprílara og göngufólk. Um 64% af landinu er skilgreint sem fjöll og landið því að mörgu leyti erfitt fyrir ábúendur þess en landbúnaður skiptir gríðarlega miklu máli. Eitt af hinum fjölmörgu fjöllum er hæsti punkutur heims, Everest, sem er sennilega það sem flestir tengja við landið.

Landið er sannarlega Disneyland fjallamanna.

Nepal er eitt af fátækustu löndum heims og er helsta ástæðan hiða erfiða stjónmálaástand síðastliðinna ára sem hefur haft gríðarleg áhrif á gjaldeyristekjur en fjöldi ferðamanna hrapaði við ástandið í landinu.

Árið 2005 tók konungur við alræði af ríkisstjórninni þegar hann hrifsaði af henni völdin og lýsti yfir 3ja mánaða neyðarástandi í landinu þar sem allur fréttaflutningur af hernaðaraðgerðum var bannaður og fólksöfnuður í Kathmandudalnum einnig bannaður. Þetta leiddi til gríðarlegra mótmæla í landinu og mikils óróa þar sem margir féllu - konungurinn lét loks undan árið 2006 og samþykkti að endurreisa lýðræðið. Stuttu síðar gerði þingið konunginn nánast valdalausan sem bætti ástandið því konungurinn var vægast sagt óvinsæll. Ástandið hefur síðan batnað hægt og rólega þó að Maóistar (kommunitaflokkur Nepals hafi ennþá völd sums staðar í landinu og stendur styr í kringum þá) og ferðaiðnaðurinn er hægt og rólega að taka við sér.

1. júní árið 2001 átti sér stað atburður í konungshöllinni hér í Kathmandu sem fékk ekki aðeins á Nepalbúa heldur heimsbyggðina. Rólegur kvöldverður konungsfjölskyldunnar breyttist í martröð þegar drukkinn krónprinsinn, Diprendra, myrti með skotvopni 10 meðlimi fjölskyldunnar og þar á meðal foreldra sína, konunginn og drottninguna. Eftir þennan hræðilega atburði reyndi hann að taka eigið líf en það misfórst aðeins hjá honum og hann lifði í tvo daga áður en hann kvatti þennan heim, nýkrýndur konungurinn.
Ekki er almennilega vitað hvað olli því að hann framdi þennan voðaverknað en almennt er talið að ást hanns á almúgastúlku sem foreldrar hans meinuðu honum að eiga hafi valdið þessu. Þeir hótuðu strippa hann af tign hans og auðæfum ef hann myndi giftast henni og hann var greinilega ekki fullkomnlega sáttur við það.
Ýmsar samsæriskenningar hafa verið í gangi og verður væntanlega aldrei vitað almennilega hvað nákvæmlega gerðist.

Það var falleg sjón að sjá fagurhvít Himalayafjöllin í fjarska þegar flugvélin fór að undirbúa sig til lendingar í Kathmandu. Vélin fór í loftið um hádegi frá Delí og þetta er aðeins um klukkustundar flug í glæsilegri flugvél Jet flugfélagsins.


Flugvélin tekur á loft frá alþjóðaflugvellinum í Delí.


Skrítin skýjamyndun fyrir ofan mistrið.


Himalayafjöllin í fjarska.

Eins og oft vill gerast gengu hlutirnir hægt fyrir sig á flugvellinum í Katmandu, sérstaklega vegna þess að flestir ferðamenn sækja um vegabréfsáritun við komu þ.á.m. við.
Við gleymdum reyndar að taka passamyndirnar úr stóru bakpokunum okkar og þær því gagnslausar þar sem við höfðum ekki fengið töskurnar í hendurnar fyrir vegabréfsáritunina. Sem betur fer var lítið ljósmyndastúdíó á flugvellinum. Passamyndirnar voru frekar slappar en náðu samt að sýna glögglega mismunandi persónuleika okkar Sonju á glöggan eins og sjá má.


Dæmi hver fyrir sig.

Þegar við höfðum sloppið framhjá búrakrötunum sem rukkuðu okkur um 30 dollara á mann fyrir áritunina og fengið bakpokana gengum við út og ætluðum að finna fyrirframgreiddan leigubíl. Þar strax á hægri hönd eru tvær leigubílsstöðvar með bás þar sem hægt er að greiða fyrir bíl í borgina og stukku á okkur nokkrir menn frá hvoru fyrirtæki fyrir sig til að ná viðskiptum okkar. Við vorum alveg óviðbúin þessu og vissum fyrst ekki hvaðan á okkur stóð stormurinn - þetta var eins og að ganga inn í fangelsi með eina klámmynd í hönd og allir stökkva á fætur til að tryggja sér hana.
Við völdum bara annað fyrirtækið af handahófi og starfsmenn hins fyrirtækisins öskruðu allskonar formælingar á okkur - við urðum mjög hissa.

Okkur leist strax sæmilega vel á borgina, hún er ekki mjög stór, um 700.000 manns búa í henni sem er frekar lítill hluti af tæplega 30 milljón manna þjóð finnst mér. Kofar og lélegur aðbúnaður í úthverfunum undirstrikar fátækt landsins og eru margar götur í borginni ómalbikaðar sem telst til tíðinda nú á tímum. Eins og oft á Indlandi þá hópast betlarar, oftast lítil börn og ungar konur, á gluggana á bílnum okkar þegar hans staðnæmist á ljósum eða vegna umferð og grátbiðja um peninga. Það er oft erfitt að láta sem maður sjái ekki þessa eymd en þetta er því miður bara staðreynd hérna sem og alltof oft annarsstaðar. En þegar yfirfvöld og ferðabækur ítreka að ekki skuli ýta undir betl líður manni aðeins betur en ekki mikið satt að segja.

Borginn býður upp á iðandi mannlíf í þröngum götum þar sem hlutir hafa ekki breyst mikið í hundruðir ára og mannlíf er mjög fjölbreytt og litríkt enda koma hérna saman mörg trúarbrögð. Aðal ferðamannahverfi borgarinnar kallast Thamel og er sá hluti borgarinnar ferðamannavænasti staður sem við höfum komið á í ferðinni. Hérna er hægt að finna frábær kaffi- og veitingahús, vestrænar búðir, bari og diskótek - ásamt að sjálfsögðu minjagripabúðum. Flest hótel borgarinnar eru í þessu hverfi og ákváðum við að gista hérna á hótelinu Nirvana Garden Hotel sem ber nafn sitt af litlum blómagarði á milli bygginganna tveggja sem tilheyra hótelinu.

Það er mjög fínt að komast í almennileg vestræn þægindi í formi búða, kaffihúsa og veitingastaðinna svona í miðri ferð og rétt fyrir Bútan. Fyrir ferðina hefði ég haldið að ferðast mikið á afskekktum og fátækum stöðum jarðar myndi valda því að maður yrði fráhverfur vestrænum lúxus og þægindum og myndi breytast í einhvern furðufugl. Málið er hinsvegar að þegar maður dettur aftur í "siðmenninguna", þó svo það sé ekki nema að hluta til, eins og t.d. á svona staði þá nýtur maður þess meira að hafa lúxus og kann betur að meta hann. Heima lifum við í miklum velliystingum sem er orðið daglegt brauð - þegar maður hinsvegar ferðast þar sem maður fær ekki heitt vatn, mjög stopult rafmagn, ekkert kaffi, kalt hótelherbergi, hart rúm, ekkert net, ekkert GSM samband o.s.frv. skilur maður betur hvað maður hefur það í raun gott - maður lærir að meta lúxus og þægindi og maður lærir að meta hann, a.m.k. til skamms tíma.

Í fyrri ferðalögum okkar um Austur-Evrópu og Asíu vorum við meira á farfuglaheimilum og líkaði það mjög vel þá. Í þessari ferð höfum við valið dýrari hótel sem kosta reyndar ekki mikinn pening miðað við hótel heima. Það má sennilegast segja að ein af ástæðum þess að við veljum frekar dýrari hótel er að við erum með dýran búnað og þurfum meira næði í skriftir ofl. á kvöldin og það gengur ekki á farfuglaheimilum. Auk þess eru farfuglaheimili sjaldnast vel í borg sett og það skiptir líka máli og svo höfum við bara efni á betri hótelum. Svo verður nú bara að viðukennast að það er mjög gott að koma í hreint og þægilegt herbergi þegar við komum þreytt í holuna okkar að kvöldi.

Ég pantaði hótelið í Katmandu í gegnum síma daginn áður frá Delí og þurfti að útskýra fyrir ringluðum hótelstarsmönnunum af hverju það stóð Johann á vegabréfinu mínu en Yohan á hótelskráningunni. Við hlógum síðan öll af þessum misskilningi eftir að þeir skildu að þetta er nánast eins borið fram.

Við kíktum aðeins á netkaffihús þar sem skilti upp á vegg sagði "Smoking is strictly restricted" og fundum síðan hið fínasta steikarhús. Það var á annarri hæð og inngangurinn ekkert gríðarlega áberandi en þetta var bara eins og að ganga inn á kaffihús í New York - varla svona flott kaffíhús heima auk þess sem þeir voru með þráðlaust net!
Um kvöldið fengum við okkur bæði nautasteik, fyrsta beljukjötið í um tvo mánuði - það smakkaðist eins og góð steik.
Ég skolaði matnum mínum niður með köldum Nepal bjór og horfði með öðru auganu á fótboltaleik sem var í gangi í sjónvarpinu fyrir ofan barinn. Þegar við höfðum klárað þáði ég ókeypis Irish Coffee sem fylgir með öllum máltíðum en Sonja sagði pass þar sem ekkert sem heitir kaffi fer inn um varir hennar án þess að fara aftur út um þær í formi hráka eða jafnvel ælu.
Dyggustu lesendur ferðasögunnar muna sjálfsagt eftir sögunni um djöflinum í Delí og okkur grunar að hann hafi lætt kæruleysislyfi í te-ið okkar svo við myndum kaupa allar mögulegar ferðir af honum. Það sama má segja að hafi gerst á þessum stað, því mig grunar að einhverju lyfi hafi verið blandað í bjórana og Irish Coffee-ið mitt því eftir að ég hafði innbyrgt drykkina var ég tilbúinn að kaupa nánast allan barinn.
Ég reyndar drakk ekki mikið - aðeins þrjá drykki en þeir stigu aðeins í. Mikið lifandi óskaplega gaman er að vera töluvert hífaður að mörgu leiti.
Johnny Cash var á fóninum og við yfirgáfum staðinn áður en ég gat skemmt viðstöddum með hillbillidansi í takt við Cash.


Kíktum í kjörbúð og keyptum súkkulaði sem við höfum ekki séð mikið af í Indlandi.

Góður dagur endaði á því að ég horfði á frábæran knattspyrnuleik á hótelinu. Það er magnað að þrjár góðar knattspyrnustöðvar sem sýna fótbolta frá englandi og víða eru allstaðar í boði. Þær heita Ten Sports, ESPN (í raun Sky Sports en með annað nafn hérna í Asíu) og Star Sports. Þessar stöðvar virðast vera mjög ódýrar hérna eða jafnvel greiddar með auglýsingum því knattspyrna er ekki jafn vinsæl í Asíu og heima þó að sumsstaðar sé hún mjög vinsæl. Indverska landsliðið er t.d. neðar á styrkleikalistum en það íslenska, hvernig sem það er hægt.
Ten Sports sýnir frá evrópukeppninni í knattspyrnu og er sniðugt kerfi að áhorfendur geta valið með SMS skilaboði hvaða leik þeir vilja horfa á en margir eru í gangi á sama tíma, og er síðan sá leikur sem fær flest sms-atkvæði sýndur og sá sem fær næstflest atkvæði sýndur óbeint þar á eftir. Ég get því ekki kvartað yfir að geta ekki horft á knattspyrnuleiki hérna.

Þegar við gengum heim frá vetingahúsinu um kvöldið kom að okkur maður og opnaði lófann og voru þær litríkar töflur og spurði hann hvort við vildum LSD. Ég afþakkaði strax og gekk áfram en áttaði mig strax að ég hafði ekki verið herramaður og spurði því Sonju: "Ó, afsakið - vildir þú kannski?"

mánudagur, október 29, 2007

53. Haldið norður

Ég skellti mér í síðasta skiptið á ströndina eldsnemma um morguninn. Vaknaði kl. 5.20 og dreif mig strax út og skildi Sonju eftir í herberginu sem þurfti að fara redda flugmiðum ofl. svo við næðum tímanleg til Nepal.

Þar sem hliðið úr garðinum á ströndina var lokað þurfti ég því að klifra upp og stökkva um 3 metra niður í sandinn í fullum herklæðum, þ.e. með tvær myndavélar. Sem betur fer var svo búið að opna hliðið þegar ég lauk myndatökum - það er öllu erfiðara að stökkva upp! Daginn áður hafði einn gestur hótelsins mætt að hliðinu kl. 5.40 og vörðurinn stóð við það og neitaði að opna það - sagði að það yrði opnað kl. 6 og ekki mínútu fyrr eða síðar. Ég var því sennilegast að stelast en væntanlega er þeim alveg sama ef maður getur klifrað yfir.

Við höfðum heyrt skellina í öldunum inn í herberginu okkar svo ég vissi ég að þær væru stórar og myndarlegar og varð ekki fyrir vonbrigðum. Menn fara út á sjóinn fyrir birtingu sem er um kl 06 og ég náði því að sjá nokkra báta fara út.

Það var nú meira mál en að segja það að fara út á sjó á þessum litlu bátum í þessum sjógangi. Ég veit ekki hvað öldurnar voru háar en þær stærstu sennilegast ekki minni en 5 metrar eða svo án þess að ég geti fullyrt um það.

Það eru yfirleitt tveir á hverjum bát en þriðji maðurinn hjálpar þeim yfir fyrstu ölduskellina. Þeir biðu með bátinn eftir réttu öldunni oft í 15-20 mínútur áður en lagt var í'ann - greinilegt að rétta augnablikið er mikilvægt, ætli það sé ekki hætta á slysum og ekki möguleiki að komast út á rúmsjó nema að sleppa vel í gegnum þetta. Ég sá t.d. einn bátinn gera fjórar tilraunir áður en hann komst loks yfir erfiðasta hjallann. Eldri og reyndari menn standa í fjörunni, öskra og blóta þeim yngri og gefa þeim góð ráð þegar þeim finnst að þeir eigi að fara út - spara heldur ekki að hlæja þegar illa fer.
Manni leist oft ekki á blikuna þegar bátarnir lentu í verstu öldunum og bátastrákarnir hentust í allar áttir en oftast náður þeir að stinga sér inn í ölduna þegar þeir sáu að stefndi í óefni. Það var því mjög skemmtilegt að fylgjast með mönnunum glíma við hrikalegar öldurnar.

Það var ansi magnað þegar sólin kom upp, lýsti fyrst upp sjóinn og færði sig svo upp ströndina hægt og rólega - mikið sjónarspil að vera á ströndinni þennan morguninn.

Ég ætla að setja inn nokkrar fleiri myndir og þær síðustu af ströndinni sem ég tók þennan morguninn:


Á fullri ferð upp ölduna.


Þarna eru þeir að fara í gegnum úfið brimið.


... en ekki tókst betur til en að þeir duttu - takið eftir hendinni sem kemur upp úr sjónum.


Sést varla í bátinn.


Þeir eldri fylgdust vandlega með þeim yngri berjast við öldurnar.


Stórhuga ungir menn.


... lagt til atlögu.


Þarna stefndi í óefni og menn stökkva út í sjóinn áður en aldan nær þeim.


... þarna er aldan að taka bátinn.


... og báturinn á hvolfi.


Vélknúnu bátarnir áttu mun auðveldara með að komast yfir erfiðasta hjallann.


Vígalegar öldur.


Flottur "six-pack" á þessum.


Sólin farin að kyssa ströndina.


Gullin birta.

Sonja eyddi kvöldinu áður á netinu að skoða flug til Nepal en við þurfum að vera komin þangað fyrir 3. nóvember því þá eigum við flug þaðan til Bútan. Þar sem við höfum hug á að skoða okkur um í Kathmandu var stefnan að dvelja þar nokkra daga. Við vorum svo gott sem fallin á tíma með Varanasi vegna allra tafanna auk þess sem við vildum helst ekki fara þangað án malaríulyfs og því skoðaði Sonja hvaða möguleika við hefðum á flugi til Katmandu bæði frá Varanasi og Delí. Flugið leit ekki nægilega vel út því hún fann bara eitt flug á mannsæmandi verði, eða um 10þ krónur á mann og auk þess með Jet Airways sem er víst mjög gott - öll önnur flug voru frá 1500 dollurum ... á mann.
Við ákváðum því að gefa DHL upp á bátinn í bili og halda áfram með ferðalagið. Hugsanlega getur pakkinn beðið okkar í Delí en við gátum ekki beðið lengur.

Nú voru góð ráð dýr því lestin til Delhi tekur um 2 nætur og við ekki bjartsýn á að til væri ódýrt flug. En við eftirgrennslan fann Sonja flug frá Trivandurum morguninn eftir en illa gekk að bóka á netinu og alltof seint að hringja nokkuð. Við pökkuðum því um kvöldið og eftir að ég hafði dundað mér á ströndinni um morguninn fórum við út á flugvöll án flugmiða - hef aldrei áður gert það.

Sonja gekk í flugið til Delí (Jet Lite) og ég rauk í næsta bás að athuga með eina ódýra Delí-Kathmandu-flugið (Jet Airways) á sunnudeginum. Það varð því hvorutveggja að ganga upp til að þetta plan okkar sem stóð á brauðfótum gengi eftir. Annars hefði plan C komið til og það var bæði tímafrekt og dýrt: taka þriggja daga lestarferð til Delí og nánast gefa annað nýrað fyrir sóðalega dýrt flug til Nepal.

Þegar Sonja var búin að vera í dágóða stund í sínum bási kallaði hún á mig, rétti um þumalputtan og sagði: "Við erum að fara til Delí". Þetta voru frábærar fréttir og stuttu síðar svaraði sölumaðurinn í mínum bási að það væri laust til Nepal en flugið væri reyndar var að fyllast. Þetta gekk því allt upp og líklegast er bara einhver verndarengill sem passar okkur eins og mamma vill meina.

Eftirá að hyggja var það mikil lukka að við riftum okkar viðskiptum við ferðaskrifstofu djöfulinn í Delí. Í fyrsta lagi hefðu þær ekki gengið upp því DHL klúðraði málum og við vildum ekki fara malaríutöflulaus til Varenasi.

Í annan stað græddum við um 20þ krónur á því að gera þetta sjálf og það allt með flugvélum en einn leggurinn hjá honum var með lest þannig að pakkinn okkar hefði átt að vera dýrari. Eftir að hafa keypt miðana sjálf þá sáum við að hann ætlaði að plata okkur í gegnum skattinn, þ.e. verðin sem hann gaf upp voru eðlileg þangað til hann bætti ofan á 22.5% skatti! Hérna er mjög algengt að verð séu án skatts og því var það í sjálfu sér ekki óeðlilegt heldur bara hlutfallið því hingað til höfum við ekki séð meira en 12.5% svo hann ætlaði greinilega að stinga 10% í eigin rassvasa. Ég spurði Girish, okkar mann á strandhótelinu, hvort hann vissi til þess að skatturinn gæti verið 22,5% en hann varð ansi hissa. Það eru ýmsar leiðir sem þeir beita hér.

Djöfulinn 0 - Undirmeðvitund okkar 1

Flugferðin var hin ágætasta og ekkert um hana að segja. Við hittum kanadíska stúlku þegar við vorum að ganga úr vélinni og spjölluðum aðeins við hana. Hún spurði hvaðan við værum og þegar við höfðum sagt henni það var svarið:

"NO, get out of here!!" með mikilli tilfinningu.

Reyndist þetta vera mikill Bjarkar áhangandi og hún hefur farið á ótal tónleika með henni en aldrei hitt Íslending. Það var í raun eins og við hefðum sagt:

"Við komum frá stjörnunni Zorg í miðju Lunar 58 sólkerfinu." svo hissa var hún að við værum frá Íslandi.

Hún stakk upp á að vera samferða í leigubíl og skipta kostnaðinum sem var hin ágætasta hugmynd. Við borguðum fyrirframgreiddan leigubíl sem gekk vel en röðin úti gekk ekki svo vel, ef röð skal kalla. Þetta var samanasfn fólks sem allt hafði greitt fyrirfram en hver og einn reyndi að ota sínum tota - mjög indversk röð. Við vissum ekki alveg hvort við vorum í röðinni eða ekki og hvenær kæmi eiginlega að okkur. Loksins tróðum við okkur að lausum bíl en hljóp þá maðurinn fyrir aftan okkur fyrir framan okkur og inn í bílinn. Sú kanadíska varð nokkuð reið og öskraði á manninn en við vorum nú ekki að stressa okkur á þessu, svona ganga hlutirnir fyrir sér hér og er alltaf að gerast. Auk þess var maðurinn kominn inn í bílinn og ekki sjéns fyrir okkur að gera neitt í málinu. Við gengum því bara að næsta bíl sem var rúgbrauð.
Skottið sat á sér og við báðum því bílstjórann að opna það sem kom grautfúll út úr bílnum og lögreglumenn allt í kring öskrandi á alla að flýta sér, bara í einhverja átt - bara burt svo þetta gengi eitthvað. Þó þetta líti út eins og algjört stjórnleysi fyrir fólk eins og okkur er þetta sennilegast allt mjög skipulagt í augum Indverja - þeir eru allavega hæfilega afslappaðir.
Við hentum pokunum í skottið og fórum inn, ég í framsætið. Bílstjórinn skellti skottinu en það lokaðist ekki og skellti hann svona 10-15 sinnum og ekkert gekk, bara hávaði. Sú kanadíska var aftur frekar pirruð og kallaði í sífellu "It's broken!". Við Sonja bara brostum að þessu, skildum ekki af hverju hún var að skipta sér af þessu, þeir finna yfirleitt sjálfir út úr svona hlutum. Það voru komnir um 6-7 manns þarna fyrir aftan að reyna að loka skottinu og allir gerðu þeir nokkrar tilraunir og var þetta orðið frekar spaugilegt. Við enduðum á að taka allan farangurinn í aftursætin og hurðin var hálf opin að aftan leiðina á hótelið.

Kanadíska stúlkan sagði okkur frá því að hún hefði hitt mjög marga vestræna ferðamenn sem láta allt fara í skapið á sér og eru ekki að taka Indlandi eins og það er. Okkur Sonju var hugsað um það að hún væri nú ekki mjög jákvæð sjálf miðað við þessa stuttu reynslu af henni - hvernig ætli þessir aðrir ferðamenn séu eiginlega?

Við gistum nánast á sama stað og síðast þegar við vorum í Deli - reyndar á ódýrara hóteli hinum megin við götuna. Hótelið sem við vorum síðast á, þó gott væri, var aðeins of dýrt til að taka það aftur nema maður nýti alveg 24 klst og við ákváðum að prófa annað. Þetta nýja hótel var reyndar líka dýrt en við viljum frekar hafa smá þægindi og borga örlítið meira. Sonja er reyndar orðin svo mikill "big-timer" í sambandi við hótelval að næst munum við taka Michelin hótelbókina með okkur og skilja Lonely Planet eftir.

Við kíktum á Costa kaffihús þegar við höfðum skráð okkur inn og hótelið og borðuðum á Pizza-Hut um kvöldið (ég skammast mín hálfvegis fyrir það en stundum er gott að fara á slíkan stað og vita nákvæmlega að hverju við göngum). Pizza Hut er nánast við hliðina á hótelinu þannig að það er smávegis afsökun.


Súkkulaði.


Um kvöldið horfði ég á leik á hótelinu og fékk mér bjór með - þarna er ég að fagna kærkomnu marki.

Inni á Pizza-Hut var skrítin lítil stúlka um 4ra ára sem sat þar með foreldrum sínum og gaf nasistakveðju í sífellu, þ.e. rétti hendina fram með lófann niður. Á milli þess sem hún gerði þetta öskraði hún frekjulega þannig að það var eins og Adolf sjálfur væri endurholgaður og mættur galvaskur á staðinn. Eins gott að þetta var ekki í Þýskalandi, þá hefði sennilegast staðið í mörgum maturinn.

laugardagur, október 27, 2007

52. Bólur og bið eftir bóluefni

Hugmyndin var að dvelja hérna við ströndina í Kerala í 3-4 daga en dvölin reyndist töluvert lengri en það. Það var ekki bara mögnuð ströndin og hótelið sem ollu því heldur malaríulyf frá Íslandi. Þar sem þessir dagar fóru að mestu leyti í viðburðasnauða afslöppun, flokkun mynda og lestur bóka þá ætla ekki að fara mjög ítarlega í þá sálma því annars yrði langlokan á við Passíusálma.

Þar sem okkur tókst ekki að verða okkur úti um Malarone hérna á Indlandi var eina lausnin í stöðunni að fá lyfið sent að heiman með DHL ásamt umsögn læknis þannig að tollurinn hérna myndi ekki senda þetta beint í ruslafötuna hjá sér.

Nettenging er af skornum skammti hérna á ströndinni svo við vorum við netlaus í byrjun dvalar. Okkur til mikillar gleði sáum við einn daginn tæknimann setja upp tölvu við afgreiðsluborðið og virkaði netið sæmilega í tvo daga en maður varð að vera mjúkhentur því á nokkurra mínútna fresti kom upp villuboð og ef maður ýtti á OK til að samþykkja hrundi nettengingin og ekkert í stöðunni annað en að endurræsa. Við þurftum því að safna öllum villuboðsgluggum neðst á skjáinn. Þetta olli svo aftur því að tölvan fór í viðgerð því aðrir gstir hótelsins gerðu alltaf OK og við aftur netlaus en það tók bara einn langan, mjög langan netlausan dag.

Þegar við tengdumst loks aftur umheiminum sáum við að malaríupakkinn var enn í "Clearence delay" og hafði verið í 4 daga. Mamma Sonju reyndi að grennslast fyrir um þetta heima en menn virðast ekki hafa miklar áhyggjur af sendingum eftir að þær fara frá Íslandi og gáfu upp númer sem við áttum að hringja og fá upplýsingar. Eftr töluvert basl því númerið virkaði ekki þá hringdum við aftur í DHL á Íslandi sem drullaðist til að gera e-ð fyrir þennan 12 þús kall (sendingarkostnaður) og reyndist pakkinn bíða þess að við myndum samþykkja að greiða toll fyrir pakkann hérna á Indlandi, urðum reyndar hissa á því að þeir hefðu ekki reynt að ná sambandi við okkur til að láta okkur vita að málavöxtum.
Þar sem við vorum nú búin að greiða 30þ fyrir töflurnar ásamt flutningskostnaði samþykktum við að greiða fyrir toll og kostnað hérna, það gat nú ekki verið það mikið. Ísland bar skilaboðin áfram að pakkinn átti að berast á nsæstu tveimur dögum sem var ásættanlegt.
Daginn eftir fengum við hringingu frá tollinum og þeir spurðu hvort við ætluðum að greiða kostnað og toll fyrir lyfin. Þeir þögðu í smá stund og spurðu svo hvort það væri rétt að lyfin hefðu kostað 30.000 dolllara!! Sonja sagði það ólíklegt. Þá vildu þeir fá nýtt farmbréf og staðfestingu á kostnaðinum sem gefinn yrði upp þar og okkur lá orðið á þessu svo við vildum vita hvað tollur af þessum blessuðu 30 þús USD væri og við urðum hissa svo ekki sé meira sagt á svarinu:

"Það kostar 400.000 Rúbís".

Semsagt það kostar okkur 650.000 íslenskar krónur að leysa út lyfin. Við urðum að sjálfsögðu hvumsa yfir þessu og sögðum að við myndum redda réttri upphæð - það gæti ekki frestað pakkanum um meira en dag. Hann ætlað að hafa samband síðar um daginn þegar nýtt farmbréf hefði borist. Við fórum að hugsa um varaáætlun fyrir ferðalagið okkar því það gæti reynst þrautinni þyngri að ná út lyfunum. Það hefði kannski verið betra ef annað okkar hefði flogið til London, keypt lyfin og flogið til baka.

"Hvers virði er lífið?" spurði Sonja þegar ég var að fussa yfir verðinu á Malarone lyfinu.
"Ja, þetta fer nú að slaga í það."

Eftir nokkra eftirgrennslan og rándýr símtöl af hótelinu í DHL á Íslandi og mömmu Sonju kom í ljós að DHL hafði sett ÍSL krónur í upphæð farmbréfsins þó þar væri greinilegt dollaramerki fyrir framann reitinn. Þar sem tímamunurinn er 5,5 klst þá er dagurinn hálfnaður hér þegar liðið heima fer á stjá svo það er erfitt að fullnýta daginn. DHL heima sendi nýtt farmbréf en við fengum ekkert símtal.

Þetta dollaraklúður flækti málið og tollurinn sat á lyfjunum eins og ormur á gulli, enda lyfin miklu dýrari en gull samkvæmt farmbréfinu. Daginn eftir hófum við strax að hringja í eitthvað útibú DHL hér á suðurströndinni til að ná sambandi við einhvern og það reyndist Mumbai. Á hádegi virtist nýja farmbréfið vera að ná til tollsins en DHL hér var efins að tollurinn myndi trúa þessum mun - frá 30.000 niður í 460 er ansi stórt stökk. Við sögðum þeim þá að opna bara pakkann því þar væru kvittanir og þá væri augljóst að 30.000 var íslenska upphæðin. Við vorum orðin ansi þreytt á þessum hægagangi, það fór heill dagur í að leiðrétta smáatriði og lítið haft samband við okkur. Áslaug móðir Sonju stóð sig eins og stríðshetja þar sem hún barðist við DHL bálknið heima, það endaði með því a föstudaginn að hún fór á skrifstofu þeirra, hlammaði sér þar niður og sagðist ekki ætla að hreyfa sig fyrr en málið væri leyst. Þeir reyndu að gefa henni símanúmer sem við gætum hringt í en hún tók ekki í mál að við þyrftum nokkuð að gera - þeir fengu greiddar 12 þúsund krónur fyrir að koma pakkanum til okkar og það skyldu þeir gera, sérstaklega eftir að hafa klúðrað upphæðinni á farmbréfinu. Þetta var því hörð barátta um það hvort við gætum farið til Varenasi áður en við færum til Nepal en það er borg sem okkur langar mikið að sjá. Við sáum fram á að þurfa sleppa henni og fara beint til Nepal - takk kærlega fyrir okkur DHL. En ekki bara þurftum við að sleppa Varanasi heldur vorum við "föst" innan hótelgarðsins því við áttum jú von á símtali eða sendingunni á hverjum degi!



Dagskráin var mjög svipuð alla dagana - Á morgnana morgunmatur og síðan fylgjast með fiskeríi fram að hádegismat. Dvalið við sundlaugina eftir hádegi og kannski kíkt aðeins á ströndina og í sjóinn fram að kvöldmat. Um kvöldið tölvuvinna, lestur og sjónvarp.



Yfirvofandi ógn af blóðþyrstum risakakkalökkum sem allstaðar geta birst setti sinn svip á dagana hérna. Það þurfti að framkvæma svokallað "pöddutékk" áður en prinsessan steig fæti inn á klósettið sem fólst í því að ég fór inn á klósettið og leitaði í hverju horni og skúmaskoti að pöddum.
"Ok, það eru engar pöddur, þú mátt koma inn."
"Ertu alveg viss?"
"Já."
"Leitaðir þú allstaðar?"
"Já."
"Tókstu sturtutjaldið frá?"
"Já."
"Og leitaðir þú allstaðar í sturtunni, líka bakvið fötuna?"
"Já."
"Leitaðir þú undir vaskinum?"
"Já."
"Og allstaðar á gólfinu og undir öllu?"
"Já."
"Og bakvið klósettið?"
"Já."
"Og undir setuna?"
"Já."
"Ok, er þá alveg öruggt að enginn kakkalakki er þarna?"
"Já."
"Ertu nokkuð að plata mig?!"
"Já ... ég meina nei."
"Ok, þá kem ég inn."
"Jájá."


Sonja fer síðan á klósettið og gerir sjálf leit á öllum þeim stöðum sem eru nálægt henni og ekki í sjónfærði þegar hún athafnar sig. Meiri vitleysan - er þetta komið frá þér Þór?

Kakkalakkabaráttan var þó að hluta til fyrir luktum dyrum því annars hefði Sonja setið andvaka upp í rúmi með skó í annarri og flugnaspaðann í hinni. Hún talaði um það daginn áður en við fórum að seinna herbergið hefði verið besta herbergið á hótelinu, það væri kakkalakkalaust ... það var nú ekki alveg rétt hjá henni.
Þegar við vorum búin að vera tvo daga á þessu nýja herbergi fór ég í sturtu en Sonja sat inni í rúmi og var að lesa. Ég var nýstiginn í sturtuna þegar kakkalakki kom upp úr niðurfallinu, eða hliðarfallinu öllu heldur því niðurfallið var gat sturtuveggnum, um 8x6 cm. Hann barðist ákaft á móti straumnum og komst á milli lappa minna og horfði ég vantrúaður á tröllvaxið skordýrið. Ég greip þvínæst fötu sem var í sturtunni og reyndi að kremja kvikindið en því miður voru um 2-3 cm bil fro botni á fötunni og niður á gólf, mjór hringur var neðst á fötunni sem var snertiflötur við gólfið. Þetta var því töluverður eltingaleikur sem krafðist mikillar lagni svo Sonja heyrði ekki sífellda skelli fötunnar í gólfið. Það hafðist loksins og bak hans brotnaði með háu klikki en þar sem þetta eru lífseig kvikindi og taldir m.a.s. geta lifað af kjarnorkustyrjöld þá hélt hann áfram að sprikla. Ég náði í klósettpappír, henti honum í klósettið og sturtaði niður. Hann sturtaðist því miður ekki niður og hélt hann áfram að sprikla í klósettinu. Ég þakti yfirborð vatnsins í klósettinu sæmilega með klósettpappír og sturtaði aftur niður þegar skálin var búin að fylla sig og þá sem betur fer hvarf hann að sjónum og ég andaði léttar.

Við pössuðum okkur að fylla í þetta gat þegar við vorum ekki í sturtu, fyrst tróðum við klósettpappír en svo bjúggum við til okkar eigin "rist", þ.e. spaðahlutanum af flugnaspaða var skellt fyrir gatið og þrjár fullar vatnsflöskur sáu um að halda honum á réttum stað. Ég taldi því víst að ekki myndu birtast fleiri kvikindi á klósettinu - rangt.

Tveimur dögum síðar fór ég á klósettið seint að kvöldi til að tannbursta mig og þar mætti mér á borðinu við hliðina á vaskinum annað skrímsli. Hann tók strax á fætur þegar ég kom inn og hrinti tannburstunum úr vegi sínum þegar hann ruddist áfram eins og nashyrningur niður á gólf. Þar tók hann á rás og ég á eftir með fötuna góðu en þar sem sturta var ekki í gangi í þetta skiptið og Sonja aðeins nokkrum metrum frá mér þurfti ég að fara að öllu hljóðlaust, svipað og góður leynimorðingi. Ég elti hann í dágóða stund þar sem hann hentist út um allt gólf á miklum hraða og erfitt var að hafa í við hann. Hinn mikli leynimorðingi hafði reyndar að lokum betur þegar bak hans var brotið með miklu braki og spruttu svitatár fram á enni morðingjast yfir hávaðanum sem þetta olli - hafði hún tekið eftir þessu? Ég kíkti í gegnum rifuna á klósettinu og sá Sonju í rúminu horfa í áttina að hurðinni.

"Er ekki allt í lagi?"
"Jújú, þurfti bara að skella mér á settið."
"Er þér illt í maganum?"
"Já, eða nei, eða jú aðeins."
"Slæmt?"
"Nei, það er ekkert að mér í maganum."
"Hvað ertu að vesenast?"
"Ég er að klára."
sagði ég þegar ég henti kakkalakkanum í klósettið og passaði mig vel í þetta skiptið að hylja hann vel og vandlega með klósettpappír því ekki vildi ég þurfa að sturta niður tvisvar og ljóstra þannig upp um það hverskonar hryllingsherbergi þetta væri. Ég horfði stressaður ofaní vatnið og sá kakkalakkan hverfa sjónum - mér hafði tekist að hylja morðslóðina.

Ég velti því aðeins fyrir mér hvernig hann hefði komist upp á borð þar sem allt er flísalagt rennisleipum flísum, taldi nánast ómögulegt að hann hefði klifrað þarna upp. Ég áttaði mig á því að viftan sem var beint fyrir ofan klósettið var sennilega leiðin sem hann hafði komið inn og erfitt eða ómögulegt að varna þessari leið. Ég gætti þess að vera alltaf fyrri til á klósettið til að kanna enn betur hinar ýmsu kakkalakkaleiðir. Sem betur fer sást enginn þarna framar - þeir hafa kannski skynjað hættuna að vera svona nálagt mér og fötunni góðu. Eftir fyrri kakkalakkann í sturtunni þá lét ég vita í móttökunni, bað þá að eitra en passa að Sonja frétti ekki af þessu. Eftir kakkalakkann í vaskinum sagði ég þó ekkert - það er víst ekki mikið hægt að gera við þessa pest.

Sannleikurinn er oft sagna verstur.



Gireesh, starfsmaðurinn magnaði í móttökunni, er orðinn eins og góður félagi hefur aðstoðað okkur mikið við hluti sem ekki eru í hans verkahring, t.d. hringt út og suður vegna lestarferða, flugferða og að ógleymdum ófáum DHL símtölum. Einn daginn kenndi hann mér leikinn Carrom sem er borðleikur og takmarkið er að skjóta plötum í horngöt - hann rótburstaði mig þó að ég hafi sýnt sæmilega takta að eigin mati á tímabili en óvanir fingur verða fljótt aumir af að gefa selbitana. Ég náði reyndar að hefna mín daginn eftir, en ekki á honum heldur Sonju þegar ég malaði hana og hló djöfullega starfsmönnunum til mikillar furðu - hafa þeir aldrei séð alæmennilegt keppnisskap?
Sonja náði reyndar að hefna sig daginn eftir þegar hún flengdi Eldklerkinn og rótburstaði hann. Ég hafði reyndar mér til málsbátar að ég var meiddur á fæti og náði því ekki að beyta mér að fullu.


Ég pungsveittur af áreynslu enda verið að taka mig í bakaríið.


Sonja orðin nokkuð ánægð með sig.

En að öðru mikilvægu, matnum sem var ekki sá besti en vel boðlegur og vorum við vel haldin alla vikuna. Við Sonja erum ekki mikið fyrir að borða fisk á ferðalögum þó við gerum töluvert af því heima og því pöntuðum við aldrei fisk hérn. Matseðillinn er frekar berrassaður að frátöldum fiskiréttunum því þetta er við sjóinn og fiskur aðaluppistaðan. Við sáum einstaka manneskju borða fisk hérna og eru það yfirleitt heilsteiktir fiskar, steiktir þangað til þeir eru orðnir svartir að lit og svo huldir ýmsu mauki svo erfitt er að plokka bein og annað úr - ekki mjög girnilegt að okkar mati.
Við þurftum að panta allan mat, nema morgunmat, með tveggja tíma fyrirvara og fannst okkur að við værum alltaf annaðhvort að panta eða éta mat - matur, matur, matur.
Ég fékk mér á hverju kvöldi einn Kingfisher bjór og var þjónninn næstum hættur að spyrja hvað ég vildi drekka - kom með ískaldan á hverju kvöldi. Eitt kvöldið fór hann að sækja bjór en á sama tíma hringdi síminn og við biðum og biðum og biðum eftir þjóninum með bjórinn eftirsótta.

"Hvað tefur bjórinn minn?" spurði ég Sonju.
"Síminn."
"Það hlýtur þá að vera símtal frá djöflinum."

Bjórinn barst mér að lokum og rann ljúflega niður líkt og fyrri daginn.



Annars er þessi dvöl hérna lengsta tímabil ævi minnar, eða síðan ég gekk (eða skreið réttara sagt) stoltur um með bleyju, sem ég hef verið án nærbuxna. Ég var í pilsinu allan tímann með smá viðkomu í sundskýlu, og verð ég að segja að þetta er hin besti klæðnaður.
Já, pilsið fer í þvott núna.



Eins og áður hefur komið fram vorum við ein fyrstu dagana á hótelinu og því voru viðbrigði að fá fleiri gesti og því ekki fulla athygli starfsmanna - við urðum smávegis eins og börn sem var að eignast lítið systkin. Fyrst var það amerísk kona sem við sátum með tvær kvöldmáltíðir og spjölluðum við, indælis manneskja þrátt fyrir þjóðerni. Hún er rúmlega fertug, lögfræðingur hjá hinu opinbera og hætti með kærastanum sem hún hafði verið með í 15 ár. Hann var alveg laus við að vilja sjá heiminn svo hún hefur ferðast talsvert á hverju ári síðan. Hún hafði svipaða skoðun á Delí og við þannig að þetta eru kannski ekki fordómar hjá okkur.
Tvö yngri pör hafa komið í skemmri tíma en við spjölluðum ekkert við þau að ráði. Og síðan var það þýska kellingabeyglan sem við höfum forðast eins og pláguna.
Hún var frekar lítil, ófríð um 55 ára gömul en greinilega ákveðin og sæmilega efnuð. Um leið og hún kom inn í afgreiðsluna og opnaði munninn var ljóst að hún væri ekkert sjarmatröll. Hú talaði við starfsmennina með leiðindar yfirlætistón blandað við ensku sem var með einum mesta þýska hreim sem við höfum heyrt, kraftakarlaþýska með ýktari hreim Arnold Schwarzenegger .
Hún spjallaði við okkur nánast um leið og hún kom inn um dyrnar og fór að segja okkur frá heilsuhælinu sem hún hafði dvalið í sl. 3 vikurnar og hvað það kostaði í samanburði við nánast öll önnur heilsuhæli í nágrenninu. Hún dró ekki andann á milli þess sem hún skipti um umræðuefni og fór að segja okkur frá því hvernig hús eyðilagðist fór í flóðum fyrir tveimur árum og ég hélt í alvöru að hún væri að fara að gráta fyrir framan okkur svo mikið fékk þetta á hana. Við ákváðum að afsaka okkur og láta okkur hverfa.
Daginn eftir þegar við fengum okkur göngutúr um ströndina mætti hún allt í einu og fylgdi okkur eftir þó við reyndum eftir fremsta megni að vera sjálfum okkur nóg án þess að vera dónaleg. Hún bað okkur loks að taka mynd af sér á sína vel sem við gerðum með glöðu geði. Myndavélin tók enga mynd, eitthvað rautt ljós pípti en þar sem sólin var sterk (eins og ég hef áður kynnst) þá sá ég ekki skilaboðin sem komu á skjáinn, auk þess sem þau voru á þýsku. Við stungum þá upp á því að minniskortið væri tómt.

"Nei, ekki möguleiki - það er stórt!" sagði hún með sínum óþolandi hreim.
"Hversu stórt?" svöruðum við og þar sem við vorum með stórar myndavélar í höndunum hefði hún kannski mátt álíta að við hefðum eitthvað vit á þessu.
"Ég veit það ekki, það er stórt."
"Hversu margar myndir hefur þú tekið á kortið?"
"Ég er ekki viss en ekki það margar að það fylli kortið, það er mjög stórt."
"Og ertu ekki viss um hvað það er stórt?"
"Nei - þetta skiptir ekki máli, ég læt einhvern taka mynd af mér síðar, það virkar að taka myndir inni með flassi."
Í því leit Sonja á skjáinn og sá þar skilaboð um "Kapacitet..." svo við vorum nokkuð viss um að minniskortið væri fullt.
"Ok, en við ættum kannski að prófa að eyða einni mynd og sjá hvað gerist?" svöruðum við og ég er ekki viss um hvort við vildum hjálpa henni að leysa þetta dularfulla sakamál eða ná að knésetja hana.
"Já, ég get svosem gert það." sagði hún og grúfði sig yfir vélina og eyddi út tveimur myndum.
"Ok, horfðu frekar á sólina svo myndin verði skemmtilegri." svöruðum við og tókum mynd, vélin virkaði.
"Skrítið - hún er sennilega biluð." sagði konan svo við kvöddum hana og forðuðum okkur.

Við heyrðum seinna samtal á milli hennar og eigandans. Eigandinn var eitthvað að vesenast niðri í afgreiðslu og sú þýska arkaði niður í afgreiðslu, greinilega búin að mæla sér mót við eigandann sem ætlaði að fara með henni í bílferð og sýna henni eitthvað hérna í nágreninu:

"Jæja, ég er tilbúin." sagði kvenkyns Schwarzenegger .
"Ég biðst afsökunar, ég tafðist aðeins og á eftir að skella í mig hádegismat en verð tilbúin eftir 10 mínútur." sagði eigandinn afsakandi.
"Ertu ekki búin að borða hádegismat?"
"Nei, strákarnir í eldhúsinu eru að elda hann fyrir mig og eru að klára."
"Getur þú ekki bara borðað banana?"

Við heyrðum hana sama dag biðja, eða öllu heldur krefjast, þess að fá morgunmat kl. 6 á morgnanna. Á þeim tímapunkti voru aðeins við Sonja og sú þýska á hótelinu og því alveg klárt að starfsmennirnir í eldhúsinu þyrftu að vakna upp til að útbúa mat þegar auglýstur morgunmatur er frá kl. 8 - það skipti hana greinilega engu máli, heimurinn snýst í kringum rassgatið á henni.

Við vorum reyndar að spá í að spyrja hana hvort hún gæti ekki fengið sér banana í morgunmat en þorðum því ekki - það borgar sig alls ekki að reita þýsku þjóðina til reiði.

Ég hugsaði mikið um það þegar ég sat við sundlaugina hvernig ég gæti komið henni fyrir kattarnef.



En að okkur sjálfum. Það má segja að ég hafi legið á sjúkrabeði á meðan við dvöldum á hótelinu, var frekar óheppinn hérna. Fyrst lenti ég í smá basli með að temja sjóinn eins og ég hef þegar sagt frá. Ég brann illa á öxlum og baki þegar ég stóð of lengi á ströndinni að draga fisk að landi þannig að ég varð fyrst bleikur, síðan fjólublár og að lokum rauður sem dofnaði yfir í skjannahvítann (mér til mikillar armmæðu). Kannski gott að brottför héðan tafðist því ég hefði ekki boðið í að vera með þungan bakpokann á öxlunum í þessu ástandi.
Að lokum fóru flugurnar að gefa mér gaum og fór ég vægast sagt illa úr viðskiptum mínum við þær ef viðskipti skyldi kalla því ekkert fékk ég í staðin fyrir allt blóðið sem þær sugu úr mér af miklum móð, nema þá kláða. Fékk ekki svo mikið sem eina kexköku eins og blóðbankinn býður þó. Þegar ég var sem verstur var ég sennilegast með yfir hundrað bit á líkamanum sem hvert einasta öskraði á athygli og gott klór - það var mjög erfitt að standast það. Ristarnar fóru sérstaklega illa út úr þessu og vissum við ekki alveg hvað hefði gerst með þær. Okkur grunaði að ég hefði kannski fengið einhverjar flær á þær þegar ég var að vaða í sjónum þegar sólin var sest og fleiri kvikindi fara á stjá, eða þá að sama flugan hafi staðið fyrir öllu þessu á meðan ég var sofandi og tók ekki eftir neinu. Sennilegast er síðari tilgátan sú rétta því stór hluti bitanna eru í línu eins og flugan hafi gengið og bitið með nokkurra millimetra millibili. Hægri ristin var sínu verri en sú vinstri og taldi Sonja ekki færri en 35 bit á þessum litla kafla og var húðin öll rauð af ertingu og bólgin. Kláðinn var himneskur.
Við fundum Aloa Vera plöntu í garðinum, stálum einu blaði í skjóli myrkurs og bárum á líkama minn. Húðlitur minn breyttist í græanan því það þurfti nánast að bera á allan líkaman.
Það er flugnanet fyrir öllum gluggum í herberginu okkar þannig að það sést mjög lítið af flugum hérna innandyra þó að þær séu ein og ein - ég held að eðlurnar sem eru á veggjunum í herberginu nái nú flestum sem slæðast inn.
Við höfðum því góðan tíma að stumra að veikum líkama mínum sem hefur átt sælari og frískari daga.

Hraust sál í veikum líkama.


Hérna sést hversu rauður ég er á öxlunum og efst á baki.


Útbitnir fætur - Gireesh dauðbrá þegar hann sá meðferð flugnanna á fótunum og vildi reyndar meina að þetta væri eitthvað annað en bit eftir moskítóflugur.

Það sem hefur helst fangað athygli okkar hér í sjónvarpinu eru indversk tónlistarmyndbönd sem mörg hver eru stórskemmtileg. Karlkyns stjörnurnar eru yfirleitt orðnir örlítið þéttvaxnar og ósjaldan komnar af léttasta skeiði en það stoppar þá ekki í að vera í þröngum fötum og dansa hraða poppdansa með hópi af dönsurum sem allir eru með mottu til að undirstrika Borat samlíkinguna. Stórksemmtilegt.
Ég virði Indverjana mikið fyrir að halda fast í það sem þeim finnst flott og töff en ekki eltast blint við bandarískar fyrirmyndir í tónlistarmönnum og myndbandagerð eins og við gerum gjarnan í Evrópu. Oft er falleg náttúra, sem þætti kannski væmin heima, í bakgrunni og þeir virðast einnig vera hrifnir af þorpum og þorpsbúum sem eru oft aukaleikarar í myndböndunum ásamt þjóðlegum hlutum. Allt er þetta blandað við sterka liti og misgóðar klippingar, myndi ekki ganga heima. Maður sér þó miklar breytingar í nýjustu myndböndum, ef stelpurnar eru í sarí þá eru þeir ansi stuttir og þorp/náttúra sjást sjaldan.

Skrítið að maður frá 300.000 manna þjóð sem er einöngruð í ballarhafi sé að kalla fólk og siði næstfjölmennustu þjóðar heims skrítin.

Mikið er auglýst af húðkremum til þess að lýsa upp húðina og er gjarnan sýndur myndarlegur karlmaður sem reynir við stúlku en hún sýnir honum engan áhuga fyrr en hann hefur borið undrakremið á sig og húðin áberandi mikið ljósari - þá kemur annað hljóð í kerlu og allt er gott sem endar vel. Svo má á móti lesa í blöðum ýmsar greinar um það að ekki er hægt að lýsa húðina meira en grunnliturinn býður upp á.
Skrítið að heima eltumst við við að vera brún en hérna við að vera ljós - mannkynið er svo sannarlega skrítin dýrategund.

Önnur auglýsing er símanúmer sem hægt er að hringja í og velja úr 10.000 lögum til að hlusta á í gegnum símann. Ég hef áður sagt frá því að hljómgæði virðast ekki skipta miklu máli hérna og styður þetta þá yfirlýsingu mína. Það greinilega mikill business miðað við íburðinn á þessum auglýsingum og tíðni sýninga þeirra undirstrikar það.



Elskuleg systir Sonju setti inn athugasemd á ferðasöguna þar sem hún fer þess á leit við mig að ég snyrti skegg mitt og raki það helst allt af. Ég vara sterklega við því þar sem ég hef tekið eftir beinni tengingu milli lengd bloggana og skeggsíddar minnar. Bloggin byrjuðu sem frekar stutt og þægileg en er nú orðin óyfirstíganleg langloka sem aðeins mestu lestrarhestar nenna að lesa. Ég þori því ekki að eiga við skeggið og snyrta það (þori varla að þvo það) fyrr en ég kem heim og sagan hefur verið til lyktar leidd. Einn möguleiki reyndar er að "go Indian" og raka allt af en skilja yfirvaraskeggið eftir en þá yrði bloggið kannski eintómar stríðsfyrirsagnir.
Það er kannski ekki mikið betra.



Við dvöldum í góðu yfirlæti í um viku á þessu strandhóteli og var þetta kærkomin slökun í miðri ferð okkar áður en seinni hlutinn hefst. Næst á dagskránni er Nepal í um viku og Bhutan í tæpar þrjár vikur. Við skoðum Rajhastan í nokkra daga áður en við förum heim og hellum okkur aftur í lífsgæðabaráttuna. Við vorum þó að frétt að vinur okkar John Isaac verður hér í Delí í byrjun des og er von okkar að hitta hann áður en við förum heim.


Sonja slakar á í hengirúmi.


Ekki margar tennur í þessum.


Sonjusandlistaverksbúx.


Fótspor í sandinum.


Hluti aflans flokkaður.


Sólin skín á hús í hótelgarðinum.

Við sáum í The Hindue, dagblaðinu sem Sonja fletti á hverjum morgni yfir morgunmatnum, að Singapore Airlines væri farið að bjóða upp á svítur með tvöföldum rúmum í flugi sínu frá Singapore til Sydney. Þýðir þetta ekki að það að komast í "The 5 mile high club" telst ekki lengur til tíðinda? Ég segi bara eins og Woody Allen að ég gæti ekki hugsað mér að vera meðlimur í klúbbi sem hefur fólk eins og mig sem meðlimi.