
Fram eftir degi dunduðum við okkur aðeins á hótelinu við að flokka myndir og annað slíkt en kíktum í bæinn seinnipartinn. Við litum aðeins við í minjagripabúðir og Sonja keypti sér sjal, en héraðið er frægt fyrir mögnuð pasmina sjöl sem eru mjög þunn en gríðarlega hlý og handsaumuð frá A til Ö.
Einhver skóburstari sá lagfæringuna á töskunni minn (sjá eldra blogg) og bauð mér að laga þetta fyrir mig fyrir 40.000 dollara - ég brosti og afþakkaði pent.
Við fórum inn í sama fyrirtækið og við höfðum keypt ferðina sem við urðum að afboða og starfsmennirnir þar urðu hissa þegar þeir sáu okkur - gerðu greinilega ekki ráð fyrir að sjá okkur aftur. Ég spurði hvort við gætum ekki fengið góðan díl á ferðinni þar sem við höfðum greitt ferðina daginn áður sem við komumst ekki í og hann sagði jú, ég skal láta ykkur fá hanna á 900 RS. Hann vissi greinilega ekki að Eldklerkur hafði prúttað ferðina daginn áður niður í 900 RS og því var þetta í raun sama verð. Ég samþykkti þetta bara og bílstjórinn heitir Mr. Lal Chanel - flott nafn þannig að þetta hlýtur að vera góður gaur.
Enduðum á því að fá okkur að borða og skunda svo upp aftur upp í herbergi til að klára ganga frá og pakka. Eitt af því sem ég gerði var að tæma ólesin SMS frá símafyrirtækjum úr símanum mínum. Þegar við fórum með lestinni frá Mumbai til Deli fékk ég 16 SMS frá sama fyrirtækinu að bjóða mig velkominn á kerfið þeirra. Þetta minnti mig á það fyrir einhverju þegar tossinn ég flaug frá Íslandi til London og gleymdi að slökkva á GSM símanum við flugtak, eins og reglur flugfélaga segja til um, og þegar ég kom til London var SMS frá færeysku símafyrirtæki að bjóða mig velkominn til Færeyja.
Við fórum síðan að sofa um 21 leitið því náð yrði í okkur um kl. 2 um nóttina. Við tókum bæði svefnlyf, Sonja aðeins daufara en ég öllu sterkara og svaf ég því eins og steinn um nóttina eða kvöldið öllu heldur.
Ég læt eina mynd fylgja af ánni Beas sem rennur í gegnum bæinn og syngur fyrir okkur ómþýða söngva þegar við liggjum á koddum okkar og bíðum eftir því að sigla inn í draumalandið.
1 ummæli:
hahaha - 40þús. dollaraviðgerð afþökkuð! Skrítið...
En sjáiði hvað Færeyingar eru gestrisnir - bjóða fólk velkomið þó það sé alls ekkert á eyjunum;)
Mæli með að þið farið þangað einhverntímann;)
Kv. MCM
Skrifa ummæli