þriðjudagur, september 11, 2007

Kvöldið fyrir meint ferðalag

Eins og oft áður þá þróast hlutirnir ekki eins og við Sonja ákveðum og forlog, örlög og allur pakkinn tók sig saman og herjaði á maga Sonju. Mér til mikillar furðu þá treysti hún sér ekki veik í 19 tíma jeppaferð sem er talin vera ein sú erfiðasta sem völ er á um þessar slóðir.

Seinnipartinn í dag fór ég niður í afgreiðslu og gerði mig líklegan til að greiða reikninginn því við ætluðum að fara kl. 2 í nótt. Ég ákvað að prófa í annað skiptið að greiða með rifnum 500 RS seðli sem við höfðum fengið í hraðbanka. Við tókum ekki eftir því en afgreiðslumaður á veitingahúsi í bænum sagði að hann væri ónýtur og enginn gæti notað hann. Eldklerkur var nú ekki alveg viss um það og ákvað að prófa aftur. Afgreiðslumaðurinn hérna niðri sá strax að seðillinn var rifinn og ég kom að sjálfsögðu af fjöllum og setti upp þvílíkan undrunasvip að annað eins hefur varla sést. Ég spurði hann hvað ég gæti gert með seðilinn og var tjáð að eina sem ég gæti reynt væri að fara í banka og athuga hvort þeir vildi skipta honum fyrir nýjan. Hinir tveir í afgreiðslunni, góðlegir strákar komu líka og skoðuð seðilinn. Afgreiðslumaðurinn sagði allt í einu að við gætum prófað að líma hann og athugað hvort þeir í búðinni við hliðina á hótelinu myndu fatta það, og gramsaði í skúffu og fann þar glært límband. Eftir smá barning höfðu þeir þrír náð að líma hann saman og var það bara nokkuð vel gert hjá þeim verð ég að segja. Afgreiðslumaðurinn sendi þann yngsta af þeim sem er ungur, myndarlegur en mjög feimin yfir í næstu búð með peninginn og sagði honum að kaupa tóbak. Ég beið þolinmóður og horfði á bandaríska fjölbragðaglímu með þeim í sjónvarpinu þar til strákurinn kom til baka með peninginn og sagði að þeir hefðu fattað þetta. Ég fór því upp í herbergi, náði í nýjan seðil og lét þá fá hann í staðin fyrir þann gamla.

Ég byrjaði á því þegar Sonja var orðin hálf slöpp seinnipartinn að rölta niður í bæ og blogga. Það reyndist þrautinni þyngri því erfitt reyndist að totta stafræna bita í gegnum vírinn. Alnetið veriðist vera mjög hægt hérna á öllum stöðum og auðna fer með alræðisvald um það hvort það virki eður ei og er hún ansi dindótt eins og menn og konur vita.

Ég held að þetta hafi gengið svona fyrir sig:

Ég opna browser og slæ inn http://blogger.com og ýti á enter. Þá hefst mjög flókin atubrðarás sem lýsir sér þannig:

Maður býður hinum megin við vegginn og grípur bitarununa sem ég sendi í gegnum vírinn og skrifar hana niður á pappírsblað sem hann hefur fyrir framan sig. Hann klifrar síðan um borð á asnanum sínum, hveður konu og börn og heldur af stað yfir Himalayafjöll og ríður og bíður þangað til hann er komin í næstu stórborg sem er þarna einhverstaðar hinummegin. Þar fer hann í þjónustumiðstöð internetmála fyrir norður-Indland og slær inn bitarunina er ég lét honum í té með þartilgerðu lyklaborði og bitavél. Hann slær hana inn og ýtir á Enter. Skilaboðin þjóta með hraða ljósins til Blogger.com í US of A og vefsíðan í formi bitaruni streymir á ljóshraða til baka inn í upplýsingamiðstöðina ofaní poka sem hann hefur haganlega bundið við endan á ljósleiðarasnúrunni. Hann bindur fyrir pokann því ekki vill hann að pakki eða biti tapist og hveður samstarfsmenn sína sem hann er farinn að þekkja nokkuð vel og heldur af stað sömu leið til baka yfir Himalayafjöll og aftur í smáþorpið í Manali. Hann stígur af baki trausta og úrvinda asna síns og læðist inn á bakhlið alnetskaffisins þar sem þessi æsispennandi atubrðarrás átti upphaf sitt. Þar tekur hann upp bitapokann og býr sig undir að opna hann og skrifa inn bitaröðina í þar til gerða bitavél en samstarfsmaður hans segir honum þá að ég, eldklerkur, hafi gefist upp fyrir mörgum dögum síðan á biðinni og rokið út í fússi. Hann setur upp áhyggjusvip og heldur heim á leið þar sem hann þarf að tjá fjölskyldu sinni og börnum að engan fái þau matinn þennan daginn.


En að allri alvöru slepptri þá prófaði ég tvo internetstaði og hvorugur virkaði, ég beið í c.a. 20 mínútur á hvorum stað, náði í báðum stöðum að fá hálfa skjámyndina í textaformi en ekki meira en það. Rafmagn virðist líka vera stopult hérna því það hefur farið af í þrígang í bænum síðan við komum fyrir rúmlega sólarhring síðan. Það fór af í fyrsta skiptið seint í gærkvöldi og við prófuðum að líta út yfir dalinn og ána og sáum bara ljós mótorvagnanna og einstaka bíl á ýmsum hæðarpunktum í fjallinu, nokkuð falleg sjón.

Þar sem ég hafði skamman tíma og átti að fá mér að borða og kaupa ávexti fyrir Sonju og koma heim fyrir kl. 20:30 þá skellti ég mér í kjörbúðina við hliðina á netkaffihúsinu og keypti nesti og borgaði að sjálfsögðu með rifna peningnum og tóku þeir ekkert eftir því. Ég fékk reyndar smávegis samviskubit eftirá að hafa hafa komið þessu yfir á þá en þetta er kannski seðill sem mun ganga svona yfir allt Indland og ekki vill ég slíta keðjuna og hljóta þarmeð 50 ára bannfæringu.

Eftir það stökk ég á veitingahús og borðai Tikka Masala á mettíma - fór síðan og keypti ávexti og rölti af stað upp á hótel. Það að labba þá leið að kvöldlagi er ekkert grín því maður labbar eftir götu sem er með steptan vegg öðrum megin og hlíð sem endar í fljótinu hinummegin. Engin umferðarljós eru á götunni og því svarta myrkur en öðru hverju koma bílar sem lýsa mann upp og maður vonar að þeir sjái mann því gatan er ekki mjög breið. Stöku sinnum labbar maður framhjá skuggaverum og einstaka sinnum koma ljóslaus mótorhjól með miklum hraða framhjá manni.

Þegar upp á hótel var komið þá tjáði Sonja mér að hún treysti sér ekki í ferðina því maginn var að stríða henni og hún komin með ógleði í þokkabót. Ég ákvað þá að stökkva aftur niður á skrifstofuna sem við keyptum miðann og athuga hvort þeir gætu flutt ferðina fram á næsta dag eða í versta falli láta þá vita svo þeir þyrftu ekki að fara fýluferð hingað upp á hótel að ná í okkur.

Ég gekk inn á skrifstofuna og þekkti engan þar, greinilegt var að það voru aðrir að vinna þarna á kvöldin og settist á móti þeim er sat í miðjunni. Ég sagði honum sögu mína, þ.e. að unnusta mín væri veik og gæti ómögulega farið í ferðina og strákurinn varð mjög skrítinn og ringlaður í framan. Ég rétti honum þá miðann og hann horfði í smá stund á hann ennþá ringlaðri í andlitinu og kallaði síðan á annan starfsmann sem bauð mér sæti hjá sér. Ég sýndi honum miðann og hann sagði:

"Unfortunately you did not bougt trip here, you bougt it two companies above the road!"

Ég fattaði þá að ég var inni á vitlausu fyrirtæki en öll eru þau svipuð í útliti og röðuð eftir sömu götu. Ég baðst afsökunar furðu lítið skömmustulegur og fór á næsta stað og sagði sömu sögu starfsmanninum sem við keyptum hjá. Hann sagði mér að það væri því miður ekki hægt að endurgreiða núna því það væri svo skammt þar til ferðin væri farin. Ég skildi það alveg og stóð upp og sagði: "Ok, thank you.", og strunsaði út. Þeir litu ráðviltir á hvorn annan, hafa líklegast haldið að ég væri brjálaður en svo var alls ekki. Þetta var ekki það mikill peningur og ég skil þeirra afstöðu og ég nennti bara ekki að reyna að kría út einhverjar krónur af þessum ágætu drengjum.

Ég hélt því næst aftur upp á hótel eftir sömu dimmu götunni, pantaði aukanótt og upp í herbergi að hjúkra prinsessunni.

2 ummæli:

Burkni sagði...

Það liggur við að maður sé eins og Sonja í maganum af hlátri við að lesa lýsinguna á bloggferli Indverja ...

Nafnlaus sagði...

Já - sammála Burkna og bæti við, mikið ertu sætur í þér að hjúkra prinsessunni:)
MCM