Við erum í klefa með tveimur heldri herramönnum. Þeir eru báðir mjög snyrtilegir og er annar um 55 ára, með vel snyrt yfirvaraskegg og vel klæddur. Hann talar fína ensku og svarar spurningum vel og spjallar lítið eitt. Hinn er aðeins eldri, líklegast nær 75 ára, hvítklæddur og spjallar mikið. Hann er greinilega vel lesinn því hann hefur frætt okkur töluvert um mannlíf og veðurfar hérna í Norður-Indlandi ásamt fróðleik um Móður Theresu sem hann hefur upp úr grein í blaði sem hann er að lesa. Báðir eru þeir á leið til Deli eins og við.
Í byrjun lestarferðar fór ég aftast í vagninnn okkar til að taka myndir af hinu fjölskrúðuga mannlífi sem lifir og hrærist nálagt lestarteinum Mumbai, eins og annarra stórborga. Það er merkilegt að sjá að fólk lifir nánast á milli teinanna og það er mikið af fólki á vappi. Tveir lestarverðir eru með hálfgerða skrifstofu þarna aftast og buðu mér stól eftir að ég var búinn að standa þarna. Stóllinn var í næsta herbergi þar sem 4 verðir sátu á 4 stólum þannig að einn af þeim bauðst til að standa upp þó að ég hafi reynt að afþakkað það. Síðan opnuðu þeir hurðina fyrir mig og ég sat þarna á stól við dyrnar á fullri ferð og fylgdist með mannlífinu þjóta hjá og tók slatta af myndum. Eftir að ég hafði setið þarna í c.a. 30 mínútur þakkaði ég þeim fyrir og þeir tóku í hönd mína og óskuðu mér velfarnarðar í lífinu og í ferðinni á eins innilegan hátt og maður lendir í - já, það verður að segjast að þeir eru mjög vinalegir Indverjarnir.
Núna sitjum við í vagninum okkar með herramönnunum tveimur, spjöllum um lífið og tilveruna, sötrum te og borðum með því sætindi.
Ég er núna enn sáttari en áður við þá ákvörðun að taka lestina á milli Bombai og Deli í stað þess að fljúga.
Maginn á mér er orðinn eitthvað skrítinn - við munum fá oft í muagann í ferðinni miðað við það takmarkaða hreinlæti sem við sjáum hérna en það er bara eitthvað sem maður verður að sætta sig við og vona að ástandið verði ekki mjög slæmt.
Við verðum bara að vera dugleg að drekka brennivín, kvölds og morgna og hafa það að leiðarljósi að bakkus er góður ferðafélagi en afleiddur fararstjóri.
Að lokum vil ég biðja lesendur afsökunar á þessum langlokum sem ég er að setja inn þessa dagana. Það er ágætt að skrifa á meðan maður er t.d. í lestum og almennt í tölvu- og rafmagnssambandi en það er ekki víst að það verði svo alla ferðina. Það er ekki oft sem ég nenni að skrifa texta, en ég hef verið í þannig gír undanfarið - veit ekki hvað veldur því. Ég er að mörgu leiti að skrifa inn þessa dagbók eða ferðaannál fyrir okkur sjálf því þetta gæti orðið okkur verðmætt seinna á lífsleiðinni.
Ég minni á góðan fídus í mac stýrikerfinu sem gerir stuttan updrátt úr svona texta, hann ætti að koma sér mjög vel núna :-)
Uppdráttur: "Erum í lest á leið frá Mumbai til Delí."
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Vid erum sem sagt nuna tann 8 sept i Delhi og komum hingad i gaer. Forum i kvold nordur til Manali.
Sonja
Skrifa ummæli