laugardagur, september 29, 2007

Ferð til Nubra Valley - Seinni dagur

Fyrirhugaður brottfarartími frá "Snjóljóna"-gistiheimilinu var kl. 8 um morguninn svo við ákváðum að vakna fyrr og taka stuttan göngutúr því við vorum yfir okkur hrifin af þessum litla bæ.

Ég dró því Sonju á fætur klukkan 6.30 og stuttu síðar skunduðum við út í morgunsólina. Við gengum í þveröfuga átt frá því sem við höfðum farið daginn áður og virtum fyrir okkur hinn helming bæjarins. Það var töluvert af fólki á gangi og við hittum t.d. tvo nepalska vinnumenn sem voru á leið til vinnu. Þeir voru mjög glaðbeittir og sögðu að þeir væru á Indlandi til að vinna erfiðisvinnuna eins og að leggja fjallvegi, byggja hús og annað slíkt. Þeir virtust ekki hafa mikið álit á Indlandi, sögðu trúna skipta of miklu máli, þ.e. ef maður er Búddatrúar getur maður bara gert ákveðna hluti, Hindúi enn aðra hluti og Múslimi síðan eitthvað allt annað en einn og sami maðurinn getur í raun ekki gert allt - það fer eftir trú hans. Ég er það grunnhygginn að eftir að þeir voru farnir þá dauðsá ég eftir því eftir að hafa ekki gefið þeim pening til að fara heim til fjölskyldu sinnar í Nepal því það eru bara aurar hjá okkur sem gerir mikið fyrir þá. Maður er eitthvað svo mikið innstilltur inn á peninga, heldur að þeir séu það sem allir hugsa um hérna eins og heima.

Eins og U2 sagði í skemmtilegu lagi: "When the greatest gift is gold".


Annar nepalski farandverkamaðurinn sem minnti Sonju á föður minn.

Við rákumst einnig á litla stúlku sem var að reka beljurnar til beitar. Hún varð mjög hrifin af Sonju og vildi endilega leiða hana á meðan við gengum með henni á eftir beljunum. Þegar leiðir skildu spurði hún mig með handabendingum hvort hún mætti eiga hálfkláraða gosflösku sem ég var með og ég gaf henni hana tvístígandi því mér þótti ekki geðslegt að hún væri að drekka það sem ég var hálfkláraðu með auk þess sem ekki er víst að hún eigi tannbursta.


Kúasmalinn knái.


Bærinn er eins og ævintýraland.


Göngustígur í Hunder.

Við mættum aftur á hótelið rétt rúmlega átta og fengum okkur þar morgunmat í garðinum. Á næstu tveimur borðum voru annars vegar tvær þýskar konur með mikinn áhuga á ljósmyndum og á hinu borðinu indversk hjón með dóttur sína en þau búa á Nýja-Sjálandi eftir að hafa flutt frá Indlandi fyrir tuttugu árum síðan. Það spruttu upp mjög líflegar umræður um Indland og annað á milli borða og varð það til þess að brottför frestaðist um tæplega tvær klukkustundir. Þau voru öll sammála um að það væri öruggt að ferðast til Kashmir en við höfðum skipt nokkrum sinnum um skoðun um það hvort við ættum að fara þangað. Eftir þessar umræður tókum við lokaákvörðun um að heimsækja Kashmir.


Við við morgunverðarborðið.

Fyrsta stopp eftir að við lögðum í'ann var eyðimörkin rétt fyrir utan bæinn þar sem upphófst leit að kameldýrum og var Sonja með besta augað. Við gengum upp að öðru dýrinu sem slappaði af í morgunsólinni en ef við komum of nálægt þá komu frá því ógurleg hljóð svo við hrökkluðumst tilbaka. Bílstrjórarnir spurðu hvort við vildum fara á bak en eftir fyrstu kynni leist okkur ekki vel á það, þetta er skrítnar og stórar skepnur. Virðast vera geðvond dýr en sennilega ágætis skeppnur því boðið er upp á ferðir með þeim á milli þorpa. Tveir geitahirðar ráku hóp sinn framhjá okkur þar sem við vorum að virða fyrir okkur skeppnurnar þannig að það vantaði ekki dýralífið þarna sem gladdi Sonju, enda hefur hún ákaflega gaman af málleysingjum (kannski þessvegna sem hún er með mér).


Sonja ætlaði að klappa kvikindinu en það gaf upp þvílíkt öskur til að gefa til kynna að koma ekki nálagt sér - þessi mynd er akkúrat tekin nokkrum andartökum eftir það.


Geitahirðir.


Sami geitahirðirinn.


Annar geitahirðir.

Eftir að hafa skoðað tvö önnur þorp héldum við aftur upp í fjall og skellti þá bílstjórinn tónlst í geislaspilarann, fyrstur á mælendaskrá var George Michael með skemmtilega smelli eins og "Last Christmas" og fleiri góð lög. Þegar ofar í fjallið var komið lentum við í samfloti með gríðarlegri trukkalest - fyrst voru það um 20 stórir herflutningabílar og á undan þeim um 40-50 vörubílar sem voru í samfloti, en það er venjan á þessum fjallvegum að stærri bílar safnist saman á ákveðnum stöðum og fari allir af stað á sama tíma. Þeir sem sitja við stýrið á herbílunum virðast allir vera svipaðir í útliti með dökkt mikið yfirvaraskegg og stór löggusólgleraugu. Þar sem bíllinn okkar fór hraðar yfir en þessir stóru bílar fórum við framúr nánast þeim öllum í snarbrattri hlíðinni þó að sumir hafi verið fáránlega þrjóskir við að hleypa okkur ekki framhjá og vissi maður oft ekki hvort þeir ætluðu að dangla í okkur og senda okkur kílómeter niður hlíðina. Við stoppuðum á toppnum svo við þurftum að taka framúr þeim flestum niður hinum megin aftur.

Nokkrar myndir frá dagsferðinni í kringum Nubra áður en haldið var aftur til Leh:


Barn bíður þolinmótt á meðan foreldrar vinna á akrinum og reynir að tileinka sér vinnubrögðim.


Fjöldi fólks við vinnu.


Eins og töframaður kallar konan fram mynd af annarri konu.


Þung byrði.


Kona í fjarska við stöðuvatn.


Þessi kona var við vinnu ofaní holur, var líklegast að grafa fyrir útihúsum


Sonja með fjóra karlmenn á biðilsbuxunum.




Keyrt yfir hrjóstugt svæði við Nubra Valley.


Uppi á toppnum tókum við nokkrar myndir af okkur fyrir framan bænaflöggin á hæðinni fyrir ofan veginn en þurftum að hafa hraðann á því blóðsykur Sonju var kominn undir sjávarmál þótt við værum í rúmlega 5600 m hæð enda var klukkan langt eftir hádegi og við ekki borðað neitt frá því við snæddum morgunverðinn.


Þetta gæti kannski verið á Íslandi.


Uppi í snjólínunni má greina veginn rétt áður en komið er á hæsta punktinn.


Stórir vörubílir klifra upp fjallið.


Á hæsta punkti.

Það er mikilfengleg sjón að sjá svona stóra bílalest klifra upp þessa hrikalegu fjallvegi og skríða niður hinum megin, manni liður eins og litlum korktappa á milli þeirra allra. Það var því gott þegar við höfðum komist fram úr röðinni og fórum að nálgast jafnsléttu og betri vegi.

Þegar við komum á hótelið bað Sonja um epli til að skjóta upp blóðsykrinum og ná jafnvægi í magann fyrir mat. Eldri húsvörðurinn sem við höfðum kynnst sæmilega spurði mig hvort ég vildi ekki bara klifra upp í eplatréð og ná í epli, sem mér tókst að gera án þess að detta.

Kvöldverður var snæddur á útiveitingahúsi tveimur götum neðar og þar lentum við á næsta borði við óþolandi bandarískt par um fertugt sem var að sleikja sig upp við eldri mann sem hafði greinilega ferðast um allan heiminn. Þau spurðu hann eftir smá spjall hvort þau mættu ekki færa sig yfir á borðið hans í stað þess að vera að gala svona á milli borða. Tal parsins var mjög yfirborðskennt og fengu frasar eins og "Democracy is messy" að fjúka. Eldri maðurinn, alinn upp í Póllandi, sagði frá föður sínum sem hafði verið hent í fangelsi í eitt ár á stalíntímabilinu fyrir orð nágrannans. Konan var yfir sig hneyksluð að hann skyldi hafi verið settur í steininn án dómst og laga - "Ha, fékk hann ekki einu sinni að hitta dómara???".
Ferðalangurinn var skemmtilegur og ég skil vel að parið hafi verið að sleikja sig upp við hann. Hann sagði að merkilegasta augnablikið sem hann hefði upplifað þá þrjá mánuði sem hann hafði verið á Indlandi var að vera á hæsta vegspotta í heimi. Þar sem við höfðum einmitt verið þar fyrr um daginn má kannski segja að allt sé niður á móti héðan í frá. Við vorum ekki að hlera samtal þeirra heldur töluðu þau öll mjög hátt og voru frekar stutt frá okkur, Sonja var kannski smá að hlera. Við klárðuðum að borða og drifum okkur í burtu frá þessu pakki.

Já, ég held að bandarískir ferðamenn séu stundum sjálfumglaðari en þeir íslensku.

3 ummæli:

Hjörleifur sagði...

Jæja þá hef ég loksins fengið frið til að setjast niður og lesa bloggið almennilega og fór ég í gegnum það allt í dag og er búinn að vera lesa síðan kl. 9 í morgunn (kl. er nú 17:25). Verður að segjast að ég er búinn að skemmta mér konunglega. Skrapp aðeins yfir götuna og keypti mér sérbakað vínarbrauð og eina "Söru Bernharðs" köku og tvöfaldan cappuccino til að taka með og dreif mig til baka og settist fyrir framan tölvuna og hélt áfram að lesa.

Mér finnst hreint ótrúlegt að þið skuluð hafa verið í netsambandi hverts em þið farið, það er ekki alveg eins og íbúarnir á þessum svæðum séu miklir tölvunördar. En greinilega þá má finna einn nörd í hverju þorpi.

En merkilegt hvað salernisaðstaðan er slæm þarna, miðað við að Rómverjar höfðu það betra fyrir 2000 árum. Spurning hvort þarna sé ekki alveg gullið tækifæri fyrir Gustavsberg til að hösla sér völl á nýjum slóðum.

kveðja
Hjölli

Burkni sagði...

Hét faðir eldra mannsins nokkuð Góði dátinn Svejk?

Nafnlaus sagði...

Ha ha ha... Var Sonja líka farin að ímynda sér fjölskylduaðstæður og bakgrunn allra? Það svona "runs in the family".... :)

Hlakka til að sjá fleiri myndir frá Indlandi?!?! Hótel myndir? :D

Gaman gaman!!! :D