Ég er að komast betur og betur að því að ég á erfitt með að sofa á öðrum stöðum en í þægilegu rúmi og það helst heima hjá mér. Í sumar þegar við Sonja fórum í útilegu og sváfum í tjaldi með vindsængur þá svaf ég nánast ekkert, heldur lá pirraður og bylti mér stöðugt.
Þegar við tökum næturflug þá hef ég notast við svefntöflur og þá sef ég eins og steinn - þvílíkt sem þessar töflur gera kraftaverk.
Við tókum næturlest síðustu nótt frá Mumbai til Deli og deildum klefa með tveimur herramönnum. Það er virkilega sniðugt kerfið hérna því að þegar miðar eru keyptir á farrými sem hafa koju þurfa farÞegar að gefa upp aldur og rétt fyrir brottför eru birtur farþegalisti með kojunúmeri. Í neðri kojum eru eldri farþegar klefans og þeir yngri í þeim efri þannig að við Sonja þurftum að príla upp og sofa þar. Þrátt fyrir að við hefðum splæst í fyrsta farrými þá höfðum við ekki mikla stjórn á hitanum í klefanum því það er víst sama stillingin í öllum klefum vagnsins og einhver farþegi í fyrsta klefa sem gekk mjög hart á starfsmenn að kæla duglega, vildi helst hafa þetta eins og í frystikistu. Okkur var því öllum ansi kalt í okkar klefa og viftan var einnig hávær. Það virtist vera möguleiki að stilla hitann en það skipti engu máli hvort stillt var á 1 eða 5.
Klefavinir okkar kölluðu tvisvar til starfsmenn til að fá þá til að minnka kælinguna og komu þá alltaf þrír starfsmenn í virðulegum búningum inn í klefann með hitamæli og eyðublað og gerðu þetta allt mjög vísindalega. Í lok ferðarinnar kom síðan mælingamaðurinn inn með eyðublaðið sem hann hafði verið að fylla út alla ferðina og þurfi einn klefameðlimur að staðfesta að tölurnar væru réttar sem og að hitastigið hefði verið ásættanlegt. Herramennirnir tveir samþykktu þetta þrátt fyrir kuldann því þeir vorkenndu lestarstarfsmönnunum sem voru að reyna þóknast öllum en sá sem vildi hafa þetta sem kaldast var víst ekki ánægður með ferðina!!
Þessi kuldi ásamt því að geta helst ekki sofið við svona aðstæður olli því að ég svaf ekkert um nóttina heldur lá og hugsaði um daginn og veginn. Ég verð ekki bara hungraður í svefn heldur mat því maður er á stanslausri hreyfingu við að bylta sér og rembast við að sofna (maður íhugar að bryðja svefntöflur þangað til maður verður saddur og slá tvær flugur í einu höggi). Um miðja nóttina fór ég samt í smávegis mók þar sem ég var svona á milli svefns og vöku og við slíkar aðstæður fer manni oft að dreyma eða hugsa skrítna hluti og það gerðist einmitt þarna. Mig dreymdi að ég sæti við kaffihús með Halldóri Ásgrímssyni og Valgerði Sverrisdóttur og væri að ræða við þau utanríkismál. Samtalið var einhvernvegin svona:
Jói: Ég skil ekki af hverju það er verið að senda utanríkisráðherra út um allar trissur til að ræða við menn af öllum stigum í staðin fyrir að nota sendifulltrúa, sendinefndir eða aðra sem vit hafa á málunum til að sinna þessum málum.
Dóri: Þú skilur þetta bara ekki!
Jói: Finnst þér þá að það ætti ekki að gera breytingar á þessu kerfi?
Dóri: Það veit ég ekki! (þurrlega)
Jói: Þetta er dæmigert fyrir íslendinga, aldrei hægt að breyta neinu, menn eru í stjórnmálum til að snúast um eigið rassgat og koma sér og sínum á framfæri.
Dóri: Þetta er bara vitleysa í þér!
Ég vaknaði síðan hálfvegis þá var ég ekki nægilega sáttur við Halldór og þótti hann ekki hafa komið nægilega vel fram og ákvað að senda honum eftirfarandi tölvupóst um leið og ég kæmist næst í netsamband:
Sæll Halldór.
Mig dreymdi í nótt að við tveir hefðum verið að ræða utanríkismál og þú varst virkilega dónalegur og hrokafullur og erfitt var að ræða við þig að einhverju viti. Mér þótti og þykir þessi framkoma þín þér til lítilsvirðingar og ekki manni eins og þér sæmandi.
Kveðja,
Jóhann
Ég er ekki eins viss núna að ég ætti að senda þennan tölvupóst en hef þó alls ekki útilokað það :-)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
11 ummæli:
Gaman að fylgjast með ferðum ykkar!
kær kveðja
Chris
Hér með starta ég undirskriftalista sem skorar á Jóhann Guðbjargarson að senda þetta bréf.
Burkni Helgason
Kæru ferðafíklar,
fylgjumst spennt með ævintýrunum, haldið áfram að skrifa! Vona að Jóhann nái að sofa öðru hvoru, þetta er bara aldurinn ;-)
Kveðja,
Einar Karl
Þetta er greinilega frábær ferð,
jæja ég setta commentið hér fyrir ofan, hef átt í smá erfiðleikum með að commenta en nú held ég að ég geti þetta.
En þetta er greinilega frábær ferð og öfunda ég ykkur virkilega að vera þarna þegar ég horfi út um gluggan á bleytuna og rigninguna hér heima.
Ég vona samt að þú getir sofið eitthvað í þessari ferð.
Tek undir með Burkna að þú sendir Dóra þennan póst, en eitt er ég að velta fyrir mér, hvað var Valgerður að gera í draumnum
kv siggi óli
Gaman að heyra að allt gengur vel. Púka líður vel, og mér líka þó að stífkrampasprautan hafi verið svolíð óþægileg.
Elsku Sonja og Jóhann,
Mikið er gaman að fylgjast með ævintýralegri ferð ykkar um ókunnar slóðir, sit hér og skellihlæ að skemmtilegri frásögn og myndirnar eru alltaf frábærar, bíð spennt eftir næsta kafla, langaði bara að senda ykkur kveðju að heiman, gangi ykkur vel, knús frá Nínu
Jóhann mér þykir nú þetta "samtal" lýsa mikilli karlrembu í þér, af hverju leyfði undirmeðvitundin þín ekki Valgerði að segja neitt?!?! Ég skil þetta nú ekki alveg ;)
En annars frábært að fylgjast með ykkur, flottar myndir, Jóhanna rosalega sæt á brúðkaupsdaginn, gaman að sjá!!
Hafiði það gott, við margrét þrælum okkur út í skólanum meðan þið ferðist bara og hafið það eins og kóngar... Ég hlakka til að verða gömul, he he he...
Kiss kiss
Vid erum nu stodd a seinni deginum i Manali, forum i nott til Leh (Ladakh).
Takk kaerlega fyrir allar athugasemdirnar, gledur okkur ad tid hafid gamana af pistlunum. Gaman ad sja hverjir eru ad lesa.
Sonja
Elsku Sonja mín
Mamma og ég erum búnar að skoða myndirnar það er gaman.
Hafðu það gott bið að eilsa Jóhani.
:-)
:-)
kveðja Emý Sara
Virkilega hressandi lesning !!
Þið eruð frábær.
Bestu kveðjur,
Böðvar Sveinsson, skólabrói.
Skrifa ummæli