The situation in Ladakh and the neighboring Himalayan kingdom of Bhutan vividly illustrates the shortcomings of defining human welfare only in terms of money.
Helena Norberg-Hodge
Helena Norberg-Hodge
Ég vaknaði upp með andfælum á laugardeginum því ég hafði verið að strjúka tánum við löpp sem var kafloðinn og voru fyrstu viðbrögðin að rekkjunautur minn væri karlmaður. Við nánari eftirgrennslan reyndist þetta bara vera Sonja með órakaðar lappir. Ætli maður verði ekki að lækka kröfur um snyrtimennsku í ferðalögum eins og þessu.
Planið síðastu dagana var að ganga frá ferðinni til Srinigar og kaupa nokkra minjagripi. Við flökkuðum aðeins á milli ferðaskrifstofa til að athuga hvort þeir vissu um ferðamenn sem væri að fara sömu leið og vildu fleiri í bílinn og þannig lægri kostnað. Enginn vissi um neinn í bili svo við ákváðum að láta daginn líða og sjá til aftur seinnipart sunnudagsins. Á sunnudagseftirmiðdegi höfðum við enga ferðafélaga fundið svo við splæstum bara í eigin bíl hjá "Little Tibet Expeditions". Í raun skiptir það ekki máli við hvaða ferðaskrifstofu verslað er því allir fletta upp í sama ríkisbæklingnum og hringja í sama ríkis-leigubílafélagið og panta bíl. En eigandi "Little Tibet Expeditions", strákur um 30-35, var mjög þægilegur og talaði góða ensku. Hann býr í Los Angeles með Bandarískri eiginkonu sinni og faðir hennar er sá sem hefur verið að kynna boðskap Dalai Lama þar í landi. Hann gaf okkur góðar leiðbeiningar hvernig best væri svo að komast áfram frá Srinigar til Amritsar.
Eins og vel upp aldir túristar skunduðum við í túristabúð og völdum minjagripi en keyptum ekkert frekar en fyrri daginn, ég hef mikla ánægju af að kvelja sölumenn. Við sátum inni hjá sölumanninum í um klukkustund og þar setti ég á svið að ég væri mjög þreyttur og vildi komast út sem fyrst og skilaði það sér nokkrum kúlum í veskið í formi afsláttar á sunnudeginum. Við versluðum helminginn af því sem við höfðum valið daginn áður og sátum þar eftir inni hjá sölumanninum í klukkustund og hálfri stundu betur á meðan hann pakkaði hlutunum inn mjög haganlega. Hann endaði m.a.s. á því að setja léréftsdúk utanum pakkann og sauma hann saman - varla að maður tími að opna pakkann ef hann á endanum mun skila sér til Íslands, og ef tollurinn heima mun ekki rífa hann upp áður.
Við versluðum loks af stressaða málverkasalanum (nr. 2) þar sem ég átti leiksigur í hlutverki fúls eiginmanns sem fannst myndin sem eiginkonunni langaði í bæði ljót og alltof dýr. Það borgaði sig bókstaflega því með þessum ofleik náðum við að lækka verðið á dýrari myndinni um næstum því helming og vildi hann meina að hún væri komin óþægilega nálagt kostnaðarverði.
Sölumaðurinn hlær sigri hrósandi eftir að hafa platað okkur upp úr skónum og látið okkur halda að við hefðum haft betur. Hluti af aleigu minni liggur á borðinu í formi indverskra rúbína.
Þar sem múslímar eru ráðandi í verslunarrekstri í Leh, flestir frá Kashmir, og Ramadan er í hámarki þá þurfti við að vekja nánast flesta sölumennina þegar við gengum inn í búðir þeirra. Þegar við vorum að skoða í búðunum ómaði undir bænasöngur sölumannanna þar sem þeir þuldu upp úr kóraninum. Góði/ódýri málverkasalinn eins og ég kýs að kalla hann var einn af þeim sem var sofandi og var ungur sonur hans líka sofandi á gólfinu. Hann fór hægt á fætur og við stóðum vandræðaleg í dyrunum á meðan hann tók saman dýnuna á gólfinu, kveikti ljósið og skellti málverkum á borðið er voru kandidatar í að seljast til okkar. Við keyptum af honum eitthvað smávægilegt þannig að ferðin á fætur reyndist honum engin fýluferð, hún stóð allavega undir kostnaði.
Síðustu eplin týnd fyrir veturinn.
Þessi var að losa um stíflu á niðurfalli rétt hjá hótelinu..
Laugardagskvöldinu eyddum við í setustofu hótelsins sem er í sérhúsi úti í garði með mjög þægilegum sófum, ljúfri tónlist og stórum flatskjá. Ég þóttist vera að blogga en þar sem hótelið er með stöð sem sýnir beint frá enska boltanum þá rötuðu færri orð í tölvuna heldur en boltar í mark. Sonja sat og las mjög áhugaverða bók um menninguna í Ladakh sem skrifuð er af norskri konu er kon hingað 1974 þegar svæðið opnaði fyrir ferðamönnum og heillaðist algjörlega af menningunni og hefur eytt 6 mánuðum á ári hér allar götur síðan. Við sáum auglýstan úrslitaleikinn í heimsmeistaramótinu í krikket sem hefur farið fram í Suður-Afríku. Okkur til hrellingar þá stóð einvígið á milli Pakistan og Indlands og það færi fram á mánudagskvöldinu en þá yrðum við einmitt hálfnuð til Srinigar í Kashmir sem er mikið átakasvæði milli Indlands og Pakistans!
Setustofan er plássmikil og þægileg.
Á sunnudagsmorguninn hellirigndi svo við komumst ekki út úr húsi þar sem ég hafði sett Sonju þá afarkosti að taka engar regnflíkur með. Við sáum þá fram á að nýta tímann í meira blogg og flokkun mynda en rigning hefur víst frekar slæm áhrif á rafmagnið hér svo þegar batteríið kláraðist í tölvunni þurftum við að dunda okkur í myrkrinu.
Um hádegið stytti upp og þá komumst við í bæinn að ganga frá lausum endum eins og lýst hefur verið að ofan. Við vorum svo komin aftur á hótelið um kl 17 því þá átti að hefjast þar danssýning með hefðbundnum Ladakh dönsum. Við misskildum og héldum að þetta væri túristasýning en þarna var mikið af innfæddum, þá var víst verið að fagna e-m áfanga sem hópur fatlaðs fólks héðan hafði náð. Sonja sá lítið af dansinum því hún eyddi tímanum "baksviðs" inni í kvennabúningsherberginu að slúðra við stelpudansarana. Þær töluðu ágætisensku, ef allt var lagt saman, og var þetta hin mesta skemmtun.
Nokkrar myndir frá skemmtuninni.
Hótelstjórinn var þægilegur maður og fylgdist hann með sýningunni.
Síðasta kvöldmáltíðin í Ladakh var svo á hótelinu þegar starfsmennirnir höfðu náð að ganga frá eftir veisluna. Það er enginn matseðill á hótelinu heldur bara ákveðinn matur í boði - bara eins og heimili. Þetta kvöldið var Ladakhi-matur sem samanstóð af grænmeti, mu-mu (svipað kínverskum dumplings) og kjötsúpu (hér er ekkert grænmeti í kjötsúpunni) og var þetta ljúffengt. Það kom inn bandarískt par, gistir á hótelinu, settist niður og bjóst við matseðli en þegar þjónninn kom og taldi upp þá leist þeim illa á og sögðust vera grænmetisætur. Þjónsgreyið hljóp inn í eldhús að redda því en þau skunduðu út með fýlusvip. Þjónninn hljóp þá á eftir þeim og sagði að lítið mál væri að aðlaga matinn svo ekkert kjöt færi upp í munn og ofan í maga. En þá var það ekki nóg því þau þoldu heldur engar mjólkurvörur - þjóninn er ekkert alltof sleipur í enskunni og skildi því ekki "dairy-products" svo USA-kallinn útskýrði með þjósti að það þýddi, mjólk, ost, ís ofl. Þjónninn áttaði sig ekki alveg á þessu - væntanlega ekkkert vanur að flokka mat, matur er matur! Þá heimtaði USA að tala við "manager" og enn notaði hann sama frekjutóninn. Við heyrðum ekki hvað gerðist en þau settust allavega til borðs að lokum og fengu framreidda sérmáltíð.
Sonja pakkaði og ég nýtti mér tæknina þar sem rafmagnið var komið á aftur - í bili - seinasti dagurinn í Ladakh var að kveldi kominn.