mánudagur, nóvember 26, 2007

70. Hátíð og óvænt gisting

Fyrsti dagur hátíðarinnar í virkingu í Mongar var í dag og ein af ástæðunum fyrir því að við gistum í bænum. Við fórum nokkuð snemma á fætur en Sonja fann að hún var ekki búin að jafna sig fullkomlega þó hún væri mun betri og nánast fær í flestan sjá, þ.e. ef klósett væri við hendina til að leiða úrgang út í sjóinn. Hún ákvað því að vera á hótelinu fram að hádegi en þá ætluðum við að halda ferð okkar áfram keyrandi og myndum gista á öðrum stað næstu nótt.

Við Anan gengum saman upp að virkinu sem er nýlegt og staðsett fyrir ofan hótelið í um 5 mínútna gangi. Fyrsti dagur hátíða hérna í Bútan er ekki eiginlegur hluti af hátíðinni heldur æfing sem er opin og kemur slatti fólks til að fylgjast með. Eini munurinn er að dansararnir dansa ekki með grímurnar miklu sem notast er við á hátíðunum, eru ekki með neitt á höfðinu.

Reytingur af fólki var á hátíðinni, nokkrir túristar og innfæddir og því auðvelt fyrir okkur Anan að athafna okkur í ljósmynun. Hvert atriði er í c.a.l 10-15 mínútur og samanstendur af dansandi munkum og syngjandi stúlkum. Trúðarnir sjá um að halda sýnendum og áhorfendum við efnið og virðist fólk hafa gaman af fíflaskap þeirra - sérstaklega þegar þeir sveifla gervilimum og hafa þá útsperta í skauti sínu. Þeir hafa eins og gefur að skilja sérstaklega gaman að ögra stúlknasöngvurunum sem virðast ekki láta þetta mikið á sig fá. Allar þessar hátíðir, þær eru haldnar um allt land á mismunandi tímum, eru nánast eins og fylgja trúarlegum kennisetningum.


Sviðið.


Með liminn á lofti.


Áhorfendur á pöllunum.


Dansspor.


Önnur limamynd - Síðhærðir munkar.


Eitthvað að stríða háttsettum mönnum sem eru í bakgrunni.


Munkar í danssveiflu.


Fólk á pöllunum.


Setið á virkisveggnum.

Bútan er eina landið í heiminum þar sem opinbera trúin er Tantra form Mayhayana Búddisma og breiddist hún út um ákveðna dali landsins á 8. öld en á 12. öld breiddist trúin hratt um allt landið. Ég er engin sérfræðingur í Búddatrú en veit að á helgimyndum táknar maðurinn þekkingu en konan visku - þetta sameinast í því að kona og karl eru oft í ástaraflottum á búddamyndum.


Búddamynd úr einu klaustrinu.

Eftir að hafa veirð um klukkustund og hálfri betur fengum við okkur stuttan göngutúr um miðbæ Mongar sem tók reyndar ekki mikinn tíma og spjölluðum við fólkið sem þar var að sinna störfum sínum. Sá síðasti sem við hittum áður en við fórum upp á hótel var merkilegur kall sem allir í bænum virtust kalla með nafni, greinilega vinsæll maður. Anan spurði hvort við mættum smella nokkrum myndum og hann hélt nú það og stóð eins og stytta á meðan Anan lauk sér af. Hann gekk síðan í burtu í kuflu sínum og stígvélum.


Nýstarleg fjölbýlishús með hefðbundnu ívafi í miðbæ Mongar.


Merkilegi maðurinn.


Lífið í bænum.

Hótelið var lengur að undirbúa morgunmatinn - höfðum fyrst beðið um að fá hann kl. 11 en þeir voru tilbúnir að hafa hann kl. 11.30. Við enduðum á að borða rúmlega tólf sem var í seinasta lagi því löng keyrsla var framundan - við hentum því í okkur mat og brunuðum af stað.


Sonja yfirgefur hótelherbergið okkar.

Við keyrðum um falleg héruðin fram eftir degi þangað til við komum að brú sem við þurftum að fara yfir til að fara á áfangastað okkar um nóttina. Við ætluðum að gera krók og fara hina leiðina og heimsækja eitt þorp áður en við færum upp á hótel og héldum við Sonja að þetta væri bara um klukkustunda krókur enda var farið að skyggja. Þetta reyndist vera tveggja tíma akstur og þegar vð komum þreytt í þorpið var svartamyrkur og ekkert að sjá.

"Anan, getum við ekki bara gist hérna í nótt, við erum þreytt og nennum eiginlega ekki að keyra í 2-3 tíma á hótelið í myrkri?" spurði ég hálf pirraður.
"Við erum búin að panta mat á hótelinu og því verðum við að fara til baka."
"Heldurðu að þau séu byrjuð að útbúa matinn því hann verður varla fyrr en eftir 3 tíma" svaraði ég.
"Ég skal hringja og athuga." svaraði hann og tók upp símann og talaði eitthvað óskiljanlegt hrognamál í símann.
"Þeir panta matinn frá öðrum þannig að það er ekki hægt að hætta við matinn."
"Við skulum greiða fyrir matinn ef við getum gist hér."
"Ég held að öll hótel hérna séu upppöntuð, við skulum sjá til þegar við komum niður í miðbæ."


Munkar spila pool fátæka mannsins í litlu klaustri sem varð á vegi okkar.


Þessi var að fylgjast með einhverju fyrir utan en ekki leiknum.


Ætli þessir séu ekki að bíða eftir áætlunabíl.


Landslag á leiðinni.


Akrar langt fyrir neðan.


Sveitir í fjarlægð.

Við keyrðum aðeins um og Anan stökk inn á stærsta gistiheimilið sem hann vissi til að væri með stóran hóp um nóttina og reyndist það fullt.

Ég var orðinn frekar pirraður á þessu, skildi ekki að leggja af stað í þennan krók sem væri 2 klukkustundir hvora leið þegar væri augsjáanlega farið að dimma. Anan skynjaði þennan pirring held ég.

Við ákváðum að fá okkur tebolla og teygja úr okkur á búllu þarna skammt frá og þau sátu öll en ég stóð, grautfúli fýlupúkinn. Ég reyndar sá eftir að hafa verið svona þögull því gæðablóðið Pemba horfði áhyggjufullur á mig og Anan hefur sennilegast ekkert liðið vel með þetta heldur en það er nú ekkert nýtt að ég verði þögull þannig að ég sagðist bara vera þreyttur.


Fólk iljar sér við eld fyrir utan


Menn að fá sér bjór og við te.

Anan hringdi aftur í félaga sinn sem býr í bænum en var fjarstaddur þennan daginn og lagði síðan á.

"Góðar fréttir, við getum fengið óuppábúið rúm á mjög einföldu gistiheimili hérna skammt frá en þurfum að borða t.d. hérna."

Við Sonja ræddum málin aðeins á milli okkar og sögðum síðan: "Neinei, förum bara til baka, það er búið að ganga frá gistingu og mat þar."

Stuttu síðar hringdi Anan annað símtal og sagðist vera búinn að redda gistingu með uppábúnu og ákváðum við að skella okkur á það og báðum vertinn á búllunni að elda eitthvað fyrir okkur.

Við fórum með dótið á herbergið okkar sem var mjög fábrotið en ágætt - versta við það að það var mjög kalt og hvorki kamína né rafmagnsofn en það verður kalt á næturna og herbergið með tvær útihurðir sem báðar voru með 2-3 bil að ofan og neðan sem kuldin gat auðveldlega smokrað sig inn. Baðherbergið var með opinni grind út - við fengjum a.m.k. gott loft.

Klukkan 7.15 fórum við aftur niður á búlluna í kvöldverð og var ég komin í betra skap bæði vegna samviskunnar að hafa sært þessi gæðablóð, eins er Sonja mjög friðelskandi og vill að allir séu vinir sem skerst oft á við gríðarlega réttlætisþörf mína. Það var allt gleymt, allir aftur góðir vinir og áttum við skemmtilega kvöldstund saman á búllunni sem er eins sú einfaldasta sem ég hef komið inn á. Borð og bekkir eru allir með ljótum gólfdúk og nánast ekkert á veggjunum.

Einmanna Indverji kom inn með bjórglas í hendinni og settist á bekkinn hjá okkur og spjallaði í dágóða stund. Anan og Pemba töluðu ekki mikið við hann en við sögðum honum mikið frá landi og þjóð og hann sagði okkur frá sínum högum. Hann var kennari frá suður Indlandi en hafði kennt í þessum bæ í Bútan í 10 ár og hitti fjölskyldu sína sem býr á Indlandi aðeins 1-2 á ári þegar hann fer í heimsókn til þeirra. Þar sem þessi bær var mjög sofandi þá vorkenndum við honum þetta hlutskipti enda talaði hann mikið og hafði greinilega gaman af því að tala við einhvern því enginn annar en við vorum inni á staðnum. Við sögðum honum frá Íslandi enda virtist hann hafa einhvern áhuga á landinu og skildi ekkert hvernig buffalóar gætu lifað þar eftir að við höfðum líst veðurfari og gróðrinum í landinu.
Hann sat þarna einn eftir þegar við héldum upp á hótel en Anan og Pemba finnst vont að tala við fólk sem er að drekka og töluðu því ekki mikið við hann, kannski einhvers innbyggð óbeit á Indverjum að stríða þeim en hún er í öllum Bútönum.


Við að snæða mat og einmanna Indverjin talar á meðan.


Indverjinn vinalegi og eigandinn fylgist með honum.


Matardiskurinn minn.

Pemba gerði leit að rafmagnshitara og fann hann stuttu síðar og var það himnasending því herbergið var orðið ískyggilega kalt svona síðkvölds og myndi ekki batna þegar liði á nóttina. Tækið sendi strax frá sér unaðslegan hitann og við fórum fljótt að sofa.

Pemba hafði áhyggjur af því að það yrði brotist inn í bílinn og krafðist þess því að sofa þar. Við mótmæltum aðeins en Anan svaraði:

"Pemba likes to sleep in the car!"

Ég svaf að sjálfsögðu fjær tækinu en gerði þá reginskissu að fara úr að ofan undir hlýju teppinu, hélt að kuldaboli myndi ekki stanga mig þannig. Um nóttina fékk ég mikið hóstakast svo Sonja henti mér í flíspeisu, nær hitaranum og þá hvarf hóstinn eins og dögg fyrir sólu.

69. Daður og strákadagur

Sonja vaknaði með mikinn magaverk og nýtti klósettið vel þennan morguninn. Við höfðum ætlað að leggja stað í ferðalag dagsins um 7.30 leytið og borða morgunmat um hálftíma fyrr. Þegar við vorum að fara fram í morgunmatinn sá Sonja fram á að það væri ekki sniðugt fyrir hana að fara í 8 klukkustunda ferðalag með bílsetu og langri gönguferð svo hún skellti sér aftur í öryggi rúmsins og nálægð salernis.

Ég fór einn í morgunmat og tilkynnti Anan og Pemba að við yrðum bara þrír þennan daginn, þei voru mjög leiðir yfir því - ég hefði líka verið það ef ég hefði þurft að eyða heilum degi með fúlskeggjuðum durti í staðin fyrir glæsilegri snót. Anan taldi að hádegisverður dagsins áður hefði líklegast ollið þessu en við fengum þá kalda kjötbita og eggjasamlokur sem við snæddum undir beru lofti. Sonja er ekki sammála þessari rannsóknarvinnu því þá hefði hún átt að fá í magann seinnt daginn áður því matareitrun gerir oftast vart við sig 3-5 klukkustundum eftir að maður hefur snætt saurgerlana eða annað sem veldur þessu. Það voru bara túristar sem snæddu pastað á hótelinu kvöldið áður en Sonja er líklegast með veikari maga en margir og hún kannski fengið magakveisuna af því þó aðrir hafi ekki fundið sér meins.

Eftir að við vorum nýlagðir af stað datt Anan í hug að bananar gætu verið góðir fyrir Sonju í veikindunum því þeir vinna víst ágætlega á magakveisu og hringdi út um allan bæ í vini og kunningja ásamt því að tala við hótelstjórann en enginn var bananinn falur þó að bærinn sé á kafi í bananatrjám.

Fljótlega fann ég að ég var eitthvað smávegis skrítinn í maganum ásamt því að vindverkirnir voru ekki heppilegir fyrir þröngan bílinn. Ég hafði þvi miður gleymt koníaksflöskunni á borðinu í herberginu en ég hafði ætlað að taka hana með til að vinna á hálsbólgunni sem var að plaga mig en hún hefði komið sér vel til að vinna á magakveisunni ef hún færi að kræla á sér.
Við gerðum því fyrsta stopp í búð sem seldi áfengi, var bæði vínbúð og bar virtist vera - áttaði mig ekki alveg á henni. Við Anan fórum inn og spurðum um Brandy sem stúlkan átti til og fékk ég að smakka það ásamt viskíi sem er framleitt þarna nálagt. Ég ákvað að skella mér á Brandí-ið og fann stúlkan þá tóma vínflösku og helti góðum slurk í sem Anan greiddi fyrir og ég fékk mér vænan sopa af töframeðalinu.


Áfengissölukonan.

Ég fann ekki meira til í maganum þennan daginn sem betur fer, fullyrði ég ekki hvort það sé lyfinu eða stálmaga mínum að þakka.

"Af hverju eruð þið að rífast?" spurði ég Anan þegar ég hafði nýstigið inn í bílinn eftir að hafa smellt af nokkrum glötuðum myndum, en Anan var að tala við Pemba á aðeins hærri nótum en vanalega.
"Ég er að segja Pemba að hann þurfi að leggja hart af sér og vinna mikið til að komast áfram í lífinu. Ég fékk oft ekki nema eina máltíð á dag ef það var það mikið á meðan ég var í námi og stofna fyrirtækið og það hefur komið mér í þessa stöðu sem ég er í dag!" sagði Anan hálf hlægjandi og hélt áfram: "Það er í lagi þó maður sleppi nokkrum máltíðum öðru hverju, hann er ungur og hraustur og getur alveg tekið því."
"Er Pemba svangur?" spurði ég.
"Já, hann var eitthvað að kvarta yfir hungri, hótelstarfsmennirnir voru svo lengi að undirbúa morgunmat að við náðum ekki að borða áður en við fórum." sagði Anan.
"Viltu epli Pemba?" spurði ég Pemba því Sonja er alltaf með nokkur epli í bílnum til vara.
"Yes sir."

Fjórum sinnum á leiðinni fyrri hluta dags komum við að syngjandi barnahópum sem stöðvuðu bifreið okkar og veifuðu fánum og bikarurum. Þetta gera skólakrakkar þegar þau hafa unnið íþróttamót, ganga langa vegalengd að þjóðveginum og safna þar í bikar pening til að halda sigurveislu. Fyrsti hópurinn sem hafði unnið blakmót hafði gengið marga klukkutíma úr fjarlægu þorpi til þess eins að safna peningum á fáförnum veginum. Anan gaf þeim peninga og ég fylgdi fordæmi hans - hann vorkenndi þessum börnum sem þurfa virkilega að hafa fyrir lífinu. Það eru dæmi um að börn þurfi að ganga daglega til skóla í um 4-5 klukkustundir og jafnvel lengri tíma til baka og enda heima hjá sér um kvöld í svarta myrkri. Foreldrarnir bíða með ljósluktir fyrir utan til að þau finni örugglega rétta leið heim til sín.
Ég fór út, tók nokkrar myndir og hlustaði á börnin syngja fjöldasöng fyrir mig - hafði reyndar ekki mikinn pening til að gefa þeim en gaf þeim síðustu aurana. Þegar ég var að undirbúa mig í að stíga aftur inn í bifreiðina stóðu um 30 börn þögul og störðu á mig - hafa líklegast sjaldan eða aldrei séð víðlíka skrímsli. Ég teygði mig því inn í bílinn eftir Ray Ban speglagleraugunum, setti þau á mig þar sem ég snéri baki í þau, setti upp "blue-steel" svip og snéri höfðinu hægt við með þennan svip á andlitinu eins og ég væri einhver kvikmyndastjarna. Ég stóð svona í nokkrar sekúndur og skellti síðan uppúr því ekkert einasta af börnunum skipti svip - störðu á mig með sama svip.


Fyrsti sigurhópurinn.

Næsti hópur voru stúlkur sem höfðu unnið hérðasmót í badminton en við vorum bara með það stóra seðla að sigurhátíð þeirra hefði staðið í margar vikur ef við hefðum gefið þeim þá - við sögðum þeim því að við ætluðum að skoða virkið og myndum koma með pening til þeirra eftir það.

Við byrjuðum á "Bank of Buthan", á planinu fyrir neðan virkið í þorpinu Lhuentse. Þetta var lítið steinhús með ómáluðum veggjum og fábrotnum tréborðum - líklegast einfaldasti banki sem ég hef séð. Þegar ég var að ganga út skall ég í hurðarkarminn því hurðinn var hönnuð fyrir Bútana og því mun lægri en ég. Höggið var þungt og lá við að ég hefði rotast held ég sveimerþá og var smá stund að ná áttum eftir höggið. Þetta er í þriðja sinn sem ég hef fengið þungt höfuðhögg í ferðinni af viðlíka klaufaskap og hugsa ég að ég hafi drepið fleiri heilasellur af þessu heldur en þeim bjór sem ég hef innbyrgt í ferðinni sem hefur því miður ekki verið nægilega mikill.

Það var ekki mikið að gera í virkinu en nokkrir hressir munkastrákar voru þarna sem gladdi augað. Þeir voru feykilega viljugir að leyfa okkur að ljósmynda þá, stilltu sér upp fyrir okkur og hreyfðu sig ekki fyrr en við höfðum lokið okkur af, sem var oft ágætur tími því Anan tekur oft góðan tíma í myndatökurnar. Hann bað þá líka oft að skipta um glugga og slíkt sem þeir gerðu undantekningalaust, höfðu greinilega gaman af þessu. Tveir munkarnir sem voru í stórum glugga fyrir ofan virkisgarðinn fóru m.a.s. í búninga af eldri og æðri munkunum án þess að við hefðum beðið um það og lenda sennilegast í vandræðum ef það fréttist.
Við hittum nokkra unga munka fyrir á trégangi með fallegum gluggum og tókum slatta af myndum af þeim sem við vorum ánægðir með. Ein af þeim er líklegast ein besta, ef ekki sú besta sem ég hef tekið í ferðinni.


Fyrir utan virkið.


Hressir munkar fylgjast með okkur frá svefnsal sínum.


Munkur athugar af hverju við séum eiginlega að taka myndir.


Þessi var þungt hugsi.


Munkur stendur við óhefðbundinn glugga - Stolist til að klæðast búningi eldri munks.


Þessi var einnig þungt hugsi í horni og horfði út.


Ég held að þetta sé ein af mínum skástu myndum.


Tveir munkar í viðbót.

Badmintonstúlkurnar voru því miður ekki við veginn þegar við keyrðum aftur úr þorpinu en skrítinn maður kom og talaði við mig á sæmilegri ensku. Hann stóð álengdar þegar Anan tók yfirlitismynd og rétti upp hendurnar eins og Anan héldi á byssu - veit ekki hvort hann var að grínast eða hélt það virkilega. Hann spurði mig þessarar hefðbundnu spurninga um hvaðan ég kæmi og hvert ég héldi og endaði síðan á að segja: "My name is Tshagay." og gekk síðan í burtu. Anan og Pemba skelltu upp úr við þessi orð hans - orðið Tshagay er nefnilega ekki nafn heldur þýðir "Foolish" eða bara kjáni - hann er því kallaður það dagsdaglega og skildi ég alveg hvers vegna.

Pemba bílstjóri var ekki alltof ánægður með að maður sem kallaður er kjáni tali betri ensku en hann sjálfur:

"Tshagay talks better English than me sir." sagði Pemba brosandi en skammaðist sín greinilega fyrir þessa staðreynd.
"You are to shy to train your English Pemba!" sagði ég.
"Yes sir." svaraði Pemba að bragði.
"You have to train more!"
"Yes sir."
"And don't be shy to talk!"
"Yes sir."
"It's ok to make mistakes, we all have to start somewhere."
"Yes sir."
"So just talk more to us when you want to talk."
"Yes sir."


Næst á dagskránni var gönguferð upp í þorpið Khoma, um hálftíma akstur tilbaka frá Lhuentse. Við höfðum fengið nesti með okkur frá hótelinu sem við þurftum reyndar að bíða eftir vegna skipulagsleysis hótelstarfsmanna en Anan er pirraður á því hversu mikil vitleysa er að reisa mikið og stórt hótel, spara engu til og tíma síðan ekki að ráða hæft starfsfólk.
Við gengum yfir langa hengibrú og ákváðum að snæða hádegisverð í lítilli búð/veitingahúsi hinum megin við ána áður en við myndum hefja gönguferðina. Nestið var ekkert til að hrópa húrra fyrir, en ég kláraði brauðsneiðarnar þar sem ég sat inni í fábrotnu húsinu á eina trébekknum sem þar var að finna. Anan og Pemba fóru inn í eldhús og fylgdust með því að réttur þeirra væri eldaður en Pemba vann sem kokkur á árum áður, hann fer því gjarnan inn í eldhús veitingastaða og annaðhvort eldar sjálfur eða hjálpar til og borðar nánast undantekningalaust þar inni. Ég sat því einn inni á meðan ég kláraði matinn minn og enginn ónáðaði mig nema lítil kisa sem kom til mín með mús í munninum.


Pemba gengur yfir hengibrúna.


Ég borðaði þarna inni.


Anan og Pemba að snæðingi.

Við gengum af stað í átt að þorpinu Khuma. Nánast alla leið er sem liggur utaná brattri hlíðinni sem væri bílfær ef hann væri ekki í sundur á nokkrum stöðum. Fyrri hlutinn liggur í hálfhring í kringum lágt fjall upp á móti, síðan tekur við ganga upp mjóan dal. Hópur daginn áður hafði tekið eina og hálfa klukkustund í gönguna en þar sem við vorum bara þrír hraustir ungir menn tók þetta bara um 50 mínútur. Anan er reyndar okkar stuttfættastur og var hann því um 300 metrum á eftir okkur þegar við komum upp að þorpinu. Við sáum þorpið hinum megin við á sem rann fyrir neðan okkur þegar við komumst ekki lengra. Skurðgrafa var að móta veginn í hlíðinni, hann hafði greinilega aldrei náð alla leið upp, og var í miðju kafi á erfiðasta stað. Hún stoppaði þegar gröfukarlarnir urðu okkur varir og hleyptu okkur framhjá en það var gjörsamlega ófært í allar áttir - fyrir framan var mikið af trjám sem gjörsamlega var ómögulegt að komast í gegn, fyrir ofan var þverhnípt ásamt illvígum trjám og fyrir neðan nokkra metra nánast þverhnípt fall. Við stóðum því þarna hálf vandræðalegir þangað til gröfukarlinn ákvað að hjálpa okkur og mokaði leið fyrir okkur skáhallt niður að ánni. Það var hálf óþægilegt að standa með stóra skófluna innan við meters fjarlægð að moka undirstöðunni í burtu - maður hálfvegis bjóst við að jörðin undir fótum okkar myndi renna af stað og enda í ánni fyrir neðan. Gröfukarlinn vissi greinilega hvað hann var að gera og nokkrum mínútum síðar gengum við niður stíginn sem hann hafði mótað með fæturnar á kafi í fíngerðum jarðveginum sem var líklegast sambland af mold og leir.


Anan töluvert fyrir aftan okkur ... gaman að sýna það.


Pemba gægist yfir gröfuna.


Pemba að hugsa hvernig í ósköpunum við eigum að komast á leiðarenda.


Grafan grefur stíg fyrir okkur.

Á leiðinni upp mættum við leiðsögumanni sem var á leið niður. Hann sagði að þorpsbúar væru of ágengir í að selja og væru kallandi á þá túrista sem kæmu upp til að fá þá til sín. Eins væri verðlagið of hátt og bar hann þvi þorpinu ekki vel söguna. Þetta og það að afgreiðslumaðurinn á veitingahúsinu sem við snæddum hádegisverðinn á sagði okkur að þorpsbúar væru nánast hættir að leyfa myndatökur því of margir túristar væru að taka myndir boðaði ekki gott í huga mér, var ég nánst farinn að gæla við að snúa við og fara eitthvað annað. Það eru samt ekki margir ferðamenn sem heimsækja þetta þorp því austur Bútan fær ekki marga ferðamenn til sín vegna þess að vestrænir ferðamenn mega bara koma inn í landið vestan megin og það tekur um viku bara að komast á þennan stað og þá á eftir að koma sér úr landinu. Meðalferðamaður er aðeins í um 6-7 daga í Bútan og undir 20% af 17þ ferðamönnum á ári koma svona austarlega.

Uppi í þorpinu sátu um 30 manns við stúpuna og horfðu á gröfuna - ég hélt fyrst að þetta væru sölumenn að bíða eftir bráðinni en þorpið er mikið vefnaðarþorp og selja þeir vöruna sína sjálfir að hluta til, þó að ferðamenn séu af afar skornum skammti. Við nánari eftirgrennslan voru þetta bæjarbúar að horfa spenntir á vegagerðina því ekkert annað var við að vera í þorpinu.


Fylgst með framkvæmdunum.

Mér leist ekkert á þorpið í fyrstu, fannst eins og allir væru að fylgjast með okkur tilbúnir að skella vörunni fyrir framan okkur en það gerðist aldrei - sennilegast hafa þau séð að við vorum ekki þesslegir að kaupa kjóla upp á þúsund dollara en það tekur um ár að gera hvern kjól. Ég gekk einn um þorpið til að byrja með á meðan þeir félagar ræddu málin við þorparana og tók nokkrar myndir.
Pemba hélt ræðu yfir vefkonum um verðlagið hjá þeim - fannst það út úr korti og til marks um lélegt viðskiptavit.


Konur að vefa.

Þeir komu til mín stuttu síðar og við röltum saman um þorpið. Á ytri enda þess stöldruðum við aðeins við og tókum myndir og fylgdumst með bæjarlífinu. Maður á miðjum aldri hallaði sér upp að steinvegg stuttu frá okkur og horfði á það sem var að gerast í kring. Við sáum fljótlega að hann var drukkinn því hann gaf frá sér skrítin hljóð og þegar hann reisti sig við gat hann varla staðið kyrr, semsagt haugafullur. Stuttu síðar tók hann á sig rögg og fór að bera steina í hleðsluna á veggnum sem hann hafði hallað sig upp að - hann hafði aðeins verið í pásu. Ég hef aldrei séð jafn dauðadrukkinn mann vinna og það var athyglisvert að fylgjast með honum hlaða og höggva til steinana því handbrögðin voru ekki til að hrósa húrra fyrir. Hann hitti steininn í þriðja hverju höggi og var lengi að finna stað á veggnum þar sem hann var kominn í hleðslunni fyrir hvern stein. Stundum gerði hann mjög skrítna hluti eins og drukknum mönnum ber skylda til og henti steinum í skrítnar áttir og var ekki mikil skynsemi í þessu öllu hjá honum.


Strákar að spila.


Grænmeti.


Haugafullur ræfillinn hallar sér upp að hlaðna veggnum. Hefur einhver vaknað upp eftir gott fyllerí og verið búinn að byggja hús? Ætli það sé ekki algengara að menn vakni upp í Færeyjum eða Oslo eða eitthvað slíkt rugl.

Það er mikil drykkja hérna austan megin í Bútan og má segja að drykkja sé töluvert vandamál. Anan vill meina að fólk hafi vanið sig á þetta því á mörgum stöðum er lítið annað við að hafa og því detti fólk í það upp á dægradvöl. Drykkjuómenning er svipuð og á Íslandi, fólk drekkur til að fara á fyllerí, ekki mikil drykkjumenning.

Út um allt þorp var fólk að undirbúa vínið Ara í stórum pottum yfir kraumandi eldi og þessi ágæti herramaður hefur líklegast bara dottið í einn pottin líkt og Steinríkur.


Verið að undirbúa veigarnar - stúlka með skólabókina sína.

Við tókum eftir eldri konu sem horfði á okkur út um glugga þarna skammt frá. Eftir að hafa tekið ófáar myndir af henni kallaði hún á okkur eitthvað sem ég skildi ekki og Anan sagði mér að hún væri að bjóða okkur í heimsókn.

Húsið hennar var afar fábrotið, samanstóð af sameiginlegu rými með eldstó sem er notuðuð til allra verka heimilisins og þ.m.t. að sofa, en fólk dregur fram teppi og sefur á gólfinu. Hún settist við eldstóina og við tókum af henni myndir á meðan Pemba spjallaði við hana um daginn og veginn. Ég bjóst við að hún væri að selja vefnaðarvörur en hún bauð okkur ekkert slíkt, vildi aðeins fá smá félagsskap. Anan gaf henni nokkra aura þegar við fórum út þó hún hafi verið dræm í að taka við honum - ég held að hún geti nýtt þennan pening ágætlega.


Þarna stendur hún við steinstóina og segir okkur sögur.


Hún var glöð að fá heimsókn, líklegast einmanna.

Við gengum strax inn í næsta hús sem var svipað að byggingu - ung kona sat á gólffjölunum við gluggann og spann en öldruð amma hennar sem hafði boðið okkur í heimsókn stóð hjá og fylgdist með henni þar sem hún ræddi málin við okkur. Gömlu konunni leist vel á Pemba enda er hann fjallmyndalegur og spurði hvort hann vildi ekki giftast barnabarni sínu sem reyndar sýndi honum engan áhuga. Hún var orðin um 25 ára og enn ekki gengin út og leist þeirri gömlu ekki á stöðuna.


Piparjúnkan sem amman hafði áhyggjur af - Faðir á gangi í þorpinu.

Við gengum áfram og sáum gullfallega unga stúlku á svölum á húsi vinna hrísgrjón og smelltum af henni nokkrar myndir þar sem kvöldsólin baðaði hana gylltri birtu. Hún tók fljótt eftir okkur og Anan og Pemba töluðu við hana sem þurfti reyndar að kalla þannig að hálft þorpið heyrði. Ég skildi nú ekki mikið í þessu tali en heyrðist þeir vera að daðra við hana og fá hana til að stilla sér meira upp fyrir myndatökurnar. Það reyndist rétt, þeir voru að daðra og voru hissa á því hversu vel hún tók í daðrið og virtist jafnvel til í tuskið eins og þeir sem þekkja bransan kalla. Þeir spurðu spurninga eins og hvern af okkur þemur hún myndi vilja og svaraði hún "Alla þrjá". Að lokum spurði hún okkur hvort við vildum koma inn í te en klukkan var orðin margt og við gátum ómögulega dvalið mikið lengur í þorpinu. Anan sendi Pemba samt til hennar til að athuga hvort ekki væri allt í lagi með hana því það er óvenjulegt að heyra stúlkur daðra svona mikið og það þannig að nágrannar heyri. Pemba fór inn til hennar, ræddi við hana og stillti sér upp með henni til myndatöku í glugganum - kom síðan út skömmu síðar. Stúlkan var 19 ára en hafði aldrei gengið í skóla og það var kannski ástæðan fyrir því að hún var svona opin að mati Anan.


Stúlkan sem daðraði hressilega við okkur.


Pemba kominn inn til hennar.


Vinkona hennar og hún í baksýn.

Birtan var að fara og því þurftum við að fara að hraða för, stoppuðum samt í búð skammt frá þar sem konur bæjarins höfðu plantað sér á gólfið og sátu að sumbli, byrjaðar að drekka vínið sem hafði verið hitað um daginn og voru komnar ágætlega í glas. Þar hélt Pemba áfram að daðra við þær og var komin hin ágætasta stemming - fólk farið að tala dónalega og mikið hlegið - ég stóð bara brosandi vel uppaldi og siðaði pilturinn enda skildi ég ekkert hvað fór fram.


Bæjarlíf.


Þessi unga stúlka var mjög forvitin en feimin.


Konur bæjarins komnar vel í glas og farnar að tala með eindæmum dónalega - ekkert annað að gera fyrir saklausa pilta en að forða sér.

Við gengum loksins áfram og gerðum stutt stopp þar sem daðurstúlkan var með vinkonu sinni að hita vín, og sat amma hennar þar með henni. Hún vildi endilega að við fengjum okkur drykk en við drifum okkur áfram eftir stutt spjall enda sólin sest og bara mínútur þangað til það kæmi myrkur og við áttum klukkustundar göngu fyrir höndum niður fjallið og heim til annarrar stúlku sem beið.


Daðrustúlkan ásamt fjölskyldu sinni, Anan og Pemba.

Vegurinn var kominn alveg niður að ánni í þetta skiptið og börn léku sér við það að renna sér niður hlíðarnar í moldinni á berum fótunum.


Börn að leik við jaðar þorpsins.

Eftir að við höfðum gengið í um 15-20 mínútur var komið svarta myrkur og þeir bakkabræður notuðust við farsímana sína til að lýsa okkur veginn því öðrum megin á veginum var hengiflug og ekki hollt heilsu að ganga þar framaf í eintómum bjánaskap.


Hestur leiddur inn á gangstíginn í myrkrinu.


Anan og Pemba lýsa upp veginn með farsíma.

Við komumst niður og yfir hengibrúna á um klukkutíma og héldum heim á leið en rúmlega tveggja tíma akstur var framundan í myrkri, eitt það leiðinlegasta sem maður gerir því það er ekkert að sjá. Anan sagði skömnmu síðar þessa setningu sem ég gat tekið heilsugar undir:

"Hungry, bored and tired."

Við hringdum upp á hótelið, létum koma skilaboðum til Sonju að við myndum koma mjög seint og skriðum loks inn á hótel upp úr kl. 20 frekar þreyttir. Sonja hafði átt erfiðari dag en við og gott að hún gerði ekki tilraun til að koma með okkur um morguninn. Hún hafði skipt deginum bróðurlega á milli rúmsins og klósettsins og nánast ekki getað borðað neitt en var farin að koma eplum ofaní sig seinnipartinn.

Ég henti í mig mat með Anan og fór inn í rúm skömmu síðar til að hjúkra sjúklingnum. Anan fór sjálfur að hitta stúlku sem býr skammt frá bænum sem hafði verið með honum í skóla á árum áður og hann ekki hitt hana í nokkur ár. Við spurðum hann daginn eftir hvort hún hefði breyst eitthvað og var hann fljótur að svara:

"Já, hún hefur fitnað!"

Þetta var hinn ágætasti strákadagur en hefði verið mun skemmtilegra að hafa Sonju með, held að við höfum allir saknað hennar. Skrítið að á meðan hún var veik á klósettinu vorum við að daðra við þorpsstúlkur og næstum því dottnir í það.